Sunnudagspistill - 12. mars 2006

Stefán Friðrik

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:

- Ráðherrabreytingar urðu á þriðjudaginn. Árni Magnússon vék þá af hinu pólitíska sviði og Jón Kristjánsson varð félagsmálaráðherra en Siv Friðleifsdóttir varð heilbrigðisráðherra. Árni tekur eftir helgina til starfa hjá Glitni. Spái ég í spilin hvað gerist nú hjá Framsóknarflokknum í kjölfar þessa og því að Siv Friðleifsdóttir verður meira áberandi í forystusveit stjórnmála sem heilbrigðisráðherra og leiði líkum að því hvort að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að dala eftir að hafa veikst við brotthvarf Árna. Ennfremur fjalla ég um hverja megi telja krónprinsa Framsóknarflokksins nú eftir að sá sem áður hafði þann titil hefur hætt í stjórnmálum og haldið til starfa í gömlu SÍS-höllinni.

- Valgerður Sverrisdóttir hefur verið mikið í fréttum í vikunni. Hún vakti athygli með pistlum sínum þar sem hún leiddi líkum að því að taka mætti upp Evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Fyrir vikið fékk hún ákúrur ýmissa sérfræðinga og ekki síður samstarfsflokksins og ESB-stuðningsmanna hérlendis. Skoðanir Valgerðar um Evruna urðu strax umdeildar og létu sumir þau orð falla að þau væru óábyrg og væri undarlegt að viðskiptaráðherra Íslands fjallaði með þessum hætti um málin. Meðal þeirra var Styrmir Gunnarsson. Leiddu skrif hans til kuldalegs pistils Valgerðar í hans garð í gær.

- Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, lést um helgina í varðhaldi alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag í Hollandi, án þess að dómur yrði kveðinn yfir honum. Fer ég yfir blóðugan og kuldalegan valdaferil hans og helstu punkta úr æviferli hans. Harma ég, eins og flestir sem hafa tjáð sig um dauða Milosevic, að hann hafi látist áður en dómur var kveðinn upp yfir honum.


Valgerður fer í fýlu við Styrmi

Valgerður Sverrisdóttir

Það var merkilegt að lesa vef Valgerðar Sverrisdóttur í gær. Þar lét hún Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins, fá það óþvegið í kjölfar þess að hann skrifaði í staksteinum á þá leið að gera verði þá kröfu til ráðherra að þeir hafi lágmarksþekkingu á þeim málaflokki sem þeim sé trúað fyrir. Greinilegt er að Valgerður finnst að vegið sé að sér eftir kostulegt tal hennar um að taka upp Evru en ganga ekki í ESB. Eins og flestallir hafa sagt seinustu daga einkenndist það tal ráðherrans af þekkingarleysi og var með öllu óraunhæft. Það er því varla undrunarefni að ritstjóri Morgunblaðsins tali með þeim hætti og í raun taki undir það sem fyrr hafði verið sagt, t.d. af fræðimönnum og fólki með þekkingu í þessum efnum. Afstaða þeirra kom skýrt fram og leiddi auðvitað til skrifanna í Morgunblaðinu.

Í fyrrnefndum pistli segist Valgerður hafa átt stormasöm samskipti við ritstjórann og lýsir einkafundi þeirra fyrir nokkrum árum. Segist hún telja skýringuna á þeirri óvild sem hún telur ritstjóra Morgunblaðsins bera í sinn garð helst vera þá að hann telji sig ekki sýna honum sæmandi virðingu með því að mæta ekki á einkafundi með honum með reglubundnum hætti. Hún sé hins vegar ekki sú manngerð sem láti þennan karl (eins og hún orðar það) vaða yfir sig ítrekað með niðurlægjandi ummælum og muni hún áfram svara fyrir sig. Harkaleg skrif og að svo mörgu leyti í takt við Valgerði, sem er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Annars hefur þetta ekki verið góð vika fyrir Valgerði og margir sennilega hugsi eftir vikuna hvort hún sé alltaf svona örg þegar á móti blæs.

Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla kjördæminu og tók Valgerður við af Guðmundi Bjarnasyni sem þá fór í Íbúðalánasjóð. Valgerður var mjög skapvond þessa kosninganótt og sagði í viðtali við Gísla Sigurgeirsson eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki gott af því að fá svona góða útkomu sem þá væri og ætti enga innistæðu fyrir því. Var hún mjög þung á brá og skaut í allar áttir svo frægt varð.

Í þingkosningunum 2003 var hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Henni tókst að klúðra málum austur í Mývatnssveit svo eftir var tekið og Mývetningar hefðu á orði að Valgerður myndi sennilega ekki sjást þar fyrr en færi að styttast í næstu kosningar. Margt fleira mætti telja t.d. útboð við viðgerðir á varðskipunum sem sliguðu mjög Slippinn. En það er ekki pláss til að telja allt upp sem fólk talar um hér. En nú er spurning hvernig Framsóknarflokknum gengur í Norðausturkjördæmi að ári. Ef marka má kannanir hefur flokkurinn tapað miklu fylgi og sér sennilega ekki fyrir endann á því.

Það er því skiljanlegt að Valgerður sé pirruð. Hatur hennar og ergelsi í garð ritstjóra Morgunblaðsins vakti athygli mína og pistlaskrifin voru harkaleg og greinileg fýla sem þar kom fram í garð ritstjórans. Það er eins og það er. Sennilega er ekki furða að forystumenn Framsóknarflokksins séu í fýlu eins og staðan er. Enn undarlegra er að þeir fari í fýlu við þá sem reyna að benda þeim á villur síns vegar. En svona er Valgerður bara og stíll hennar kemur engum á óvart sem hana þekkja hér um slóðir. En það er greinilegt að þetta var ekki vikan hennar Valgerðar. Það blasir alveg við. Enda ekki gott fyrir hana að hafa fengið bæði samstarfsflokkinn og helstu Evrópuspekingana á móti sér með svo undraverðum og skjótum hætti.


Slobodan Milosevic látinn

Slobodan Milosevic

Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, lést í gærmorgun í fangaklefa sínum í Haag í Hollandi. Hann hafði verið látinn í nokkrar klukkustundir er fangaverðir vitjuðu forsetans fyrrverandi í klefanum klukkan 9:14 að staðartíma. Tilkynnt var formlega um látið í hádeginu að íslenskum tíma. Milosevic hafði verið staddur þar í tæp fimm ár og komið margoft fyrir rétt seinustu árin, sakaður af stríðsglæpadómstólnum um stríðsglæpi og þjóðarmorð í valdatíð sinni. Flest bendir til þess að Milosevic hafi orðið bráðkvaddur, en hann hafði seinustu árin verið hjartveikur og með of háan blóðþrýsting. Rannsókn er hafin á dauða hans og krufning fer fram í dag til að skera endanlega úr um hvert banamein hans hafi verið.

Slobodan Milosevic fæddist þann 20. ágúst 1941 í bænum Pozarevac í Júgóslavíu, og var því 64 ára er hann lést. Hann gekk í Kommúnistaflokk Júgóslavíu árið 1959 og starfaði þar alla tíð af krafti og komst ungur í fremstu víglínu flokksins. Í kjölfar dauða einræðisherrans Títós árið 1980 komst Milosevic til æðstu valda í landinu. Hann varð pólitískur lærisveinn Ivan Stambolic, sem var formaður kommúnistaflokksins 1984-1986 og forseti Serbíu 1986-1989. Síðar sinnaðist þeim og hann var myrtur árið 2000. Grunur hefur alla tíð leikið á því að Milosevic hafi átt þátt í dauða hans og jafnvel fyrirskipað hann. Milosevic varð eftirmaður Stambolic sem leiðtogi flokksins og sat á þeim stóli á árunum 1986-1989 og byggði upp völd sín með klækjum og brögðum.

Slobodan Milosevic varð forseti Serbíu eftir að Stambolic var hrakinn frá völdum og sat á forsetastóli Serbíu á árunum 1989-1997. Á þeim tíma varð hann aðalmaðurinn að baki ófriðnum sem ríkti á Balkanskaga mestan hluta tíunda áratugarins. Júgóslavía klofnaði upp í smærri fylkingar og ófriður og vargöld urðu einkunnarorð svæðanna. Mannskætt stríð ríkti og Milosevic réðst að nágrönnum sínum og fyrrum bandamönnum með vægðarlausum hætti. Hann var aldrei feiminn við það að ganga frá eða svíkja samherja sína. Jafnvel nánustu bandamenn hans gátu átt von á því að hann myndi snúa við þeim baki ef það hentaði honum svo. Að því kom að hann varð að láta af forsetaembætti Serbíu við lok seinna tímabils síns árið 1997.

Svo fór að hann tók helstu völd fyrrum embættis og byggði þau upp í kringum nýtt forsetaembætti Júgóslavíu, ríkjasambands sem samtvinnaðist af Serbíu og Svartfjallalandi. Lög voru samþykkt sem tók helstu völd forseta Serbíu og færði þau í hendur forsetaembættis Júgóslavíu. Völd hans voru því óskert er hann var kjörinn forseti Júgóslavíu árið 1997. Að því kom að almenningur fékk nóg af einræði og kúgun valdatíðar Milosevic. Almenningur reis upp gegn honum árið 2000 og stjórnarandstaðan sameinaðist um Vojislav Kostunica í kosningunum. Svo fór að Milosevic tapaði kosningunum og Kostunica komst til valda. Fyrst í kjölfarið fór lítið fyrir honum en yfirvöld handtóku hann í aprílmánuði 2001. Hann var framseldur til Haag í júlí 2001.

Milosevic var ákærður fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Var ákæran yfir honum í um 70 liðum alls. Réttarhöld gegn Slobodan Milosevic hófust snemma árs 2002 og sá ekki fyrir endann á þeim þegar hann féll frá. Er það mjög dapurlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ekki hafi réttarhöldunum verið lokið eða endanlegur dómur verið kveðinn upp yfir hinum grimmilega einræðisherra Slobodan Milosevic er hann lést í Haag. Er hann enginn harmdauði þó.


Davíð talar af list um efnahagsmálin

Davíð Oddsson

Um þessar mundir er hálft ár liðið frá því að Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll um þá ákvörðun sína að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu síðar sagði hann af sér ráðherraembætti og þingmennsku og eftirmaður hans á formannsstóli var kjörinn á landsfundi í október. Nokkrum dögum síðar varð Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.

Nú er það hlutverk Davíðs Oddssonar að koma öðru hverju í fjölmiðla og kynna okkur horfur í efnahagslífinu, kynna okkur stöðu mála og spá um hvert stefna beri. Flestir, bæði stjórnarsinnar sem og stjórnarandstæðingar, hafa fylgst með því betur en áður hvað sagt sé við Kalkofnsveg og þegar að Davíð fer í viðtal fangar hann athygli stjórnmálaáhugamanna. Reyndar er það nú svo að það er mun skemmtilegra að fylgjast með efnahagsumræðunni en var áður. Enda er það svo að Davíð Oddsson er snillingur í að koma fyrir sig orði og tjá sig um helstu málin og getur með hnyttnum og öflugum hætti talað um málin og fangað með því bæði athygli almennings og talað máli sem almenningur skilur. Þetta tekst honum meira að segja í Seðlabankanum þegar að hann talar um gengishalla, verðbólgu, stofnfjárvexti og hvað þau öll heita annars þessi hugtök sem hinum almenna borgara gengur illa almennt að skilja.

Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo skemmtilega á síðasta ári. Gleymi ég því aldrei er hann hélt ræðu í Valhöll í janúar í fyrra skömmu áður en hann hélt í heilsubótarleyfi til Flórída. Var tekið við hann viðtal og var það fréttaefni í marga daga eftir að hann fór út.

Sérstaklega fannst mér hann komast vel að orði um gengismálin í vikunni og orða stöðu mála með skemmtilegum hætti. Hann sagði að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Svona tala ekki nema menn sem hafa mikla yfirsýn og hafa þá listigáfu að geta talað og náð athygli allra með því. Það er enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson mun vekja athygli þjóðarinnar í störfum sínum og jafnvel glæða enn meira áhuga landsmanna á efnahagsmálum. Það er allavega ljóst að hann orðar stöðu efnahagslífsins með mjög litríkum hætti og landsmenn fylgjast með af enn meiri áhuga en áður.

Saga dagsins
1916 Alþýðusamband Íslands, ASÍ, var stofnað og þar með einnig Alþýðuflokkurinn. Fyrsti formaður Alþýðuflokksins og jafnframt fyrsti forseti ASÍ var Jón Baldvinsson - sögu Alþýðuflokksins lauk árið 2000 með formlegum hætti. Tengsl ASÍ og Alþýðuflokksins liðu að mestu undir lok á sjötta áratugnum.
1945 Dagbókarhöfundurinn Anne Frank lést í Bergen-Belzen fangabúðunum, 15 ára að aldri. Henni og fjölskyldu hennar tókst í nokkur ár að leynast fyrir hersveitum nasista á heimili sínu í Amsterdam. Á meðan því stóð skrifaði Anne dagbók um það sem gerðist og lýsti lífi hennar og fjölskyldunnar til loka. Sagan var síðar gefin út og varð margverðlaunuð fyrir ritsnilli. Hún var færð í leikbúning og eftir henni gerð ógleymanleg kvikmynd af George Stevens árið 1959. Ein eftirminnilegasta saga 20. aldarinnar.
1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á plötunni voru tvö lög með Hljómum: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn. Lögin urðu bæði mjög vinsæl og voru eftir Gunnar Þórðarson og við texta Ólafs Gauks.
2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar, fyrstar náttúruminja hérlendis í hafi við landið.
2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad, fimmtugur að aldri. Zoran Djindjic var einn af allra vinsælustu stjórnmálamönnum í sögu Serbíu. Hann var lengi borgarstjóri í Belgrad og leiddi síðar forystu stjórnarandstöðunnar gegn Slobodan Milosevic, sem var felldur af valdastóli árið 2000. Hann studdi Vojislav Kostunica í forsetakjöri 2000 og varð þá forsætisráðherra Serbíu og sat til loka.

Snjallyrðið
Be faithful in small things because it is in them that your strength lies.
Móðir Teresa (1910-1997)


Bloggfærslur 12. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband