Samfylkingin guggnar á framboði á Dalvík

Svanfríður Inga Jónasdóttir

Lengi hef ég fylgst af áhuga með bæjarmálunum á Dalvík. Þar hóf ég enda beina þátttöku í pólitík fyrir rúmum áratug og fetaði mín fyrstu skref í pólitísku starfi Sjálfstæðisflokksins. Þekki ég enda vel bæði aðalleikarana í pólitíkinni þar og ekki síður þá sem vinna bakvið tjöldin í flokkunum þar. Þar virðist stefna í mikla uppstokkun í bæjarmálum fyrir komandi kosningar og er nú þegar t.d. ljóst að vinstriflokkarnir bjóða þar ekki fram með neinum hætti. Það vakti athygli mína fyrir nokkrum vikum að tilkynnt var að Svanfríður Jónasdóttir fyrrum kennari og alþingismaður, myndi leiða framboðslista í nafni Samfylkingarinnar og óháðra og að Marinó Þorsteinsson bæjarfulltrúi minnihlutans, myndi verða í öðru sætinu. Þetta var ákvörðun félagsfundar í Samfylkingunni í Dalvíkurbyggð að því er fram kom í umfjöllun á þeim tíma og því hafði ákvörðun um framboð undir S-listabókstaf flokksins verið ákveðið.

Í dag heyrði ég af því að ákvörðun hefði verið tekin að Samfylkingin myndi ekki bjóða fram í sínu nafni í kosningunum í vor í Dalvíkurbyggð. Þess í stað hefur verið gengið frá skipan framboðslista sem ber listabókstafinn J. Tíðindin við hann eru nokkur í augum þeirra sem þekkja stjórnmálin í Dalvíkurbyggð og hafa tekið þátt í flokkspólitísku starfi þar. Það er að vístu að gerast enn eina ferðina (sennilega fjórðu kosningarnar í röð) að ekki eru framboð vinstriflokkanna beint í boði. En nú er ekki heldur um að ræða hreint vinstraframboð. J-listinn er enda skv. yfirlýsingu sem birt hefur verið algjörlega óháður þeim stjórnmálaflokkum sem bjóða fram á landsvísu. Það er ennfremur tekið skýrt fram að engin stjórnmálasamtök eða flokkar standi að J-listanum. Þetta eru mikil tíðindi, enda hafði fyrr verið boðað að Samfylkingin byði fram undir forystu Svanfríðar. Ofan á allt annað er allt önnur manneskja en Marinó sem fyrr er nefndur og hann kominn í það þriðja. Þetta eru kostulegar breytingar óneitanlega.

Svanfríður Jónasdóttir hefur verið áberandi í stjórnmálunum á Dalvík mjög lengi, löngu áður en ég man eftir mér þar. Fyrst þegar að ég kynntist henni um miðjan níunda áratuginn var hún kennari - enginn venjulegur kennari heldur kennari með mjög afgerandi pólitískar skoðanir. Hún var virk í bæjarpólitíkinni samhliða störfum sínum og var skömmu síðar farin burt frá Dalvík - orðin varaformaður Alþýðubandalagsins og varð pólitískur aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu 1988-1991. Þá kom hún aftur norður og tók til við að kenna aftur í Dalvíkurskóla. Svanfríður var orðin breytt við heimkomuna, hún hafði misst varaformannsstólinn í hörðum varaformannsslag við Steingrím J. og hafði vikið af braut samstarfs við hann í Norðurlandskjördæmi eystra. Er hún kom aftur fór hún að kenna ensku og sögu í skólanum. Heimavöllur Svanfríðar var að mínu mati alla tíð kennslan. Hún var mjög góður kennari og er flestöllum sem hún kenndi eftirminnilegust sem slík.

Eftir að ég hafði yfirgefið Dalvíkurskóla og haldið á brott kom Svanfríður aftur í stjórnmál. Hún leiddi I-lista vinstrimanna vorið 1994 í kosningum á Dalvík. Hún varð forseti bæjarstjórnar að kosningunum loknum og ári síðar varð hún alþingismaður kjördæmisins fyrir Þjóðvaka, sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur. Fjórum árum síðar leiddi hún framboðslista Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi eystra. Það voru mikil læti þá innan Samfylkingarinnar í kjördæminu en Svanfríður náði kjöri en Samfylkingin hlaut mun minna fylgi í NE en VG. Svanfríður tilkynnti svo mörgum að óvörum sumarið 2002 að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í þingkosningum árið eftir í nýju kjördæmi. Síðan hefur lítið farið fyrir henni í pólitík en undir lok ársins 2004 þegar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar sprakk vegna skólamála að Húsabakka kom til tals að hún yrði bæjarstjóri í nýjum meirihluta. Svo fór að meirihlutinn var endurreistur og ekki varð Svanfríður bæjarstjóri þá.

Ef marka má yfirlýsingu J-listans er Svanfríður bæjarstjóraefni listans að þessu sinni. Er það svosem engin stórtíðindi að svo sé, enda hefur Svanfríður lengi verið virk í bæjarmálum á Dalvík og fyrr verið nefnd sem bæjarstjórakandidat vissra afla. Tíðindin eru þau að Samfylkingin leggur ekki í framboð. Hér er með afgerandi hætti því lýst yfir að fyrrum leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu sé að leiða lista sem sé þverpólitískur og með engar tengingar til stjórnmálaflokkanna. Þetta eru merkileg þáttaskil sem eru verða í pólitíkinni útfrá og satt best að segja varð ég að spyrja Kristján Þór að því á málefnafundinum í kvöld hvað væri að gerast útfrá. Það er alveg ljóst að ég verð að líta í kaffi til Svönsu vinkonu minnar um helgina og fá að heyra meira af stöðu mála útfrá. Það er hinsvegar ljóst að stutt er í að framboðslisti okkar sjálfstæðismanna útfrá liggi fyrir.

Það verður væntanlega spennandi kosningabarátta útfrá í vor og ætla ég mér að fylgjast vel með henni, enda þekki ég alla þá sem í forystusveit flokksins þar mjög vel og hef unnið með flestu af því fólki í pólitík. En það er fróðlegt að Svanfríður leggi ekki í framboð fyrir flokk og leiði framboð sem afneitar með öllu einum flokki og einni stefnu, heldur er í framboði algjörlega á eigin vegum. Þetta hefðu mér einhverntíma þótt tíðindi allavega, en kannski er eitthvað annað og meira að gerast í pólitíkinni útfrá en það að Samfylkingin komi ekki saman neinum lista á eigin vegum. Merkilegt, segi ekki meira en það.


Spennandi verkefni framundan

Sjálfstæðisflokkurinn

Vika er nú liðin síðan að ég hóf störf í Kaupangi. Það hefur verið góður tími. Næg verkefni blasa við næstu vikurnar og það er mjög áhugavert verkefni að vinna í því sem framundan er. Seinustu dagana hef ég verið á fullu að vinna að því að öll grunngögn kosningabaráttunnar séu í lagi og málefnavinnan hefur einnig verið fyrirferðarmikil seinustu vikuna. Við erum því komin á fullt í baráttunni og fullt af verkefnum sem ég hef verið að huga að þessa fyrstu viku sem ég hef verið þarna. Fullt af fólki hefur litið við og það er alltaf kaffi á könnunni og ávallt gaman að ræða við þá sem líta við. Bæjarmálin eru heit í umræðunni skiljanlega núna. Rætt er um skipulagsmálin af miklum hita út um allan bæ og svo eru auðvitað framboðslistarnir að taka á sig endanlega mynd. Nú hafa fjögur af fimm núverandi framboðum gengið frá skipan á lista sína í kosningunum í vor. Hin eiginlega kosningabarátta hefst af miklu krafti bráðlega.

Þessa fyrstu viku hef ég verið í góðu sambandi við það úrvalsfólk sem vinnur fyrir sunnan í Valhöll. Flestöll hafa þau haft samband og fært mér góðar kveðjur og við kortlagt verkefnin framundan. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra í Óskari Friðrikssyni, sem hefur með miklum krafti stýrt utankjörfundarkosningunni af hálfu flokksins í marga áratugi og leitt þau mál sem því fylgja. Óskari kynntist ég fyrst fyrir tíu árum. Þá var ég ungur framhaldsskólanemi hér á Akureyri sem vildi styðja Pétur Kr. Hafstein í forsetakosningum. Ég hringdi suður í aðalkosningaskrifstofuna hans Péturs í Borgartúni og bar upp erindi mitt um að ég vildi styðja hann og gerast meðmælandi. Óskar varð fyrir svörum. Honum leist það vel á mig að ekki aðeins varð ég meðmælandi heldur var ég settur í það verkefni að safna meðmælendum hér fyrir norðan og fyrr en varir var ég kominn í innsta kjarnann í starfinu hér á Akureyri og vann við mörg verkefni á kosningaskrifstofunni.

Þarna kynntist ég kjarna kosningabaráttu vel og síðast en ekki síst kynntist góðu fólki. Óskar er mikill kostamaður og alltaf gaman að ræða við hann. Hann var greinilega ánægður með að ég hefði verið settur til verka hérna á skrifstofunni og við ræddum heillengi um hvað væri framundan og ekki síður fyrri daga í kosningabaráttu. Fórum við m.a. að ræða kosningabaráttu almennt hér í Norðausturkjördæmi og Óskar var með mörg góð ráð og skemmtilegar sögur að segja sem fyrri daginn. Óskar er flokknum mikilvægur og oft hefur hann verið kletturinn í að tryggja að allt okkar fólk kjósi og haldið svo vel utan um það að við í flokknum getum aldrei með fullnægjandi hætti heiðrað hann og verk hans í þágu flokksins. Svo ræddi ég við þær Petreu og Bryndísi og sem fyrr gaman að tala við þær og greinilega voru þær ánægðar með að ég væri kominn þarna til starfa. Það er gott og heilsteypt fólk sem heldur utan um málin fyrir sunnan og heiður að vinna með svona góðu fólki.

Í kvöld var langur og góður málefnafundur hjá okkur. Það er góð stemmning í hópnum og vinnan er skemmtileg og ekki síður gagnleg. Gott fólk leiðir hópana og við erum samhent í vinnunni. Fundurinn okkar í kvöld sannfærði mig um það að þessi kosningabarátta verður lífleg og skemmtileg. Fullt af góðum hugmyndum komu fram um seinustu helgi og vinnan heldur áfram af krafti. Um næstu helgi er ferðinni heitið út í Hrísey og þar ætlum við okkur að eiga góðan og skemmtilegan dag með mætum flokksfélögum út í eyju. Ég var reyndar fyrst núna að koma heim eftir langan dag upp í Kaupangi, hef verið þar frá klukkan hálf níu í morgun. Næg verkefni og skemmtileg vinna framundan. Það er alltaf gaman að vera þátttakandi í kosningabaráttu. Ég finn það að þessi hlið kosningabaráttunnar er ekki síður mikilvæg en hin og ég tel að mínir kraftar fái góðan vettvang til verka í þessari kosningabaráttu.

Saga dagsins
1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups - hann var biskup frá 1203.
1940 Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf lést, 81 árs að aldri - Selma varð bæði ein af virtustu og þekktustu rithöfundum Norðurlanda og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst kvenna, árið 1909.
1976 Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti og tilkynnir ennfremur að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Kom tilkynning hans öllum að óvörum, aðeins fimm dögum eftir sextugsafmæli hans. Wilson hafði þá verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins í 13 ár og var forsætisráðherra 1964-1970 og aftur frá 1974. Hann var sigursælasti leiðtogi breskra vinstrimanna á 20. öld, ásamt Tony Blair. Eftirmaður hans í embætti varð James Callaghan og var við völd í 3 ár.
1978 Aldo Moro leiðtoga kristilega demókrataflokksins og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rænt af Red Brigade, hópi öfgasinnaðra vinstrimanna. Moro var forsætisráðherra Ítalíu 1963-1968 og 1974-1976. Moro var haldið föngnum af samtökunum í 55 daga, þar til þau drápu hann. Lík hans fannst í maí 1978.
1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af íslenska ríkinu - endurbótum lauk þar formlega á árinu 1988.

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)


Bloggfærslur 16. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband