18.3.2006 | 23:18
Ógleymanleg kvikmyndaperla
Flestir sem þekkja mig vita að ég er algjör kvikmyndafíkill og eflaust fer það ekki framhjá þeim sem líta á heimasíður mínar. Ég á enda gríðarlega mikinn fjölda mynda. Þær sem ég hef mest gaman af eru gamlar eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Þegar að ég vil virkilega njóta lífsins set ég gamla eðalmynd í DVD-spilarann og horfi á með miklum áhuga. Uppáhalds leikstjóri minn er (að öllum öðrum annars ólöstuðum) Sir Alfred Hitchcock. Það er enginn vafi á því að ferill Hitchcocks var algjörlega einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar - meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann tæplega 70 kvikmyndum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á kvikmyndagerð og sögu kvikmynda. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.
Ég á flestallar kvikmyndir meistara Hitchcocks og hef lagt mikla rækt við að safna þeim. Nokkrar á ég enn eftir að safna en sumum náði ég í ferð minni til Washington í október 2004. Meðan að flestir ferðafélaganna í þeirri ferð voru að versla föt og annan óþarfa lá ég í myndaverslunum að kaupa mér DVD-diska. Sennilega trúa því fáir þegar að ég segi það en ég segi það samt hér: ástríða mín á kvikmyndum er í hjartanu meiri en fyrir stjórnmálum. Það að horfa á góða kvikmynd, spá í öllum meginþáttum hennar og pæla svo í heildarrammanum á eftir er sannkallað listform og satt best að segja er það sönn og heilsteypt ástríða. Þegar að ég vil komast í gírinn aftur horfi ég á góða mynd eða les bók. Ég er reyndar þannig karakter að ég verð alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Það er kannski þess vegna sem þessir vefir eru meira en bara lúkkið. Hér hafa sjaldan liðið dagar vegna skrifa. Þetta er vegna þess að þetta er ástríða og áhugamál frá hjartans rótum.
Í kvöld gleymdi ég mér algjörlega og setti í spilarann eina af eðalmyndum meistara Hitchcocks. Rear Window, gerð á árinu 1954, er ógleymanlegt meistaraverk úr safni hans. Hún segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í kjölfar vinnuslyss, neyðist til að hanga heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast mannlífinu hjá nágrönnum hans og uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en það er ekki nóg, hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að hann hefur verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.
Hér gengur bókstaflega upp til að skapa ómótstæðilegt meistaraverk. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina uppi, er á skjánum allan tímann og er hrein snilld að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki sem margir höfðu hafnað áður en hann tók því, m.a. hafði Humphrey Bogart, Spencer Tracy og Cary Grant verið boðið hlutverkið. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann vonda kallinn (helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason).
Rear Window er ein af þessum úrvalsmyndum kvikmyndasögunnar sem allir verða hreinlega að sjá. Hafði ég ekki séð hana nokkuð lengi og naut hennar sem ég væri að sjá hana í fyrsta skiptið. Þannig eru eðalmyndir - þær eru alltaf ferskar og heilsteyptar sama hvort verið sé að horfa á í fyrsta skiptið eða það tuttugasta ef út í það er farið. Ég er allavega kvikmyndaáhugamaður af hjartans náð og tel það mjög áhugaverðan og góðan kost að vera áhugamaður um kvikmyndir. Þeir sem einu sinni hafa helgað hjartað sitt kvikmyndum og pælingum um það vita vel hverju ég er að lýsa. Þetta er alveg eðall.
Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Það segi ég allavega fyrir mig - verandi kvikmyndáhugamaður af ástríðu. Hvet ég enda alla til að njóta kvikmynda sem sannrar ástríðu. Það bætir alla.
Umfjöllun SFS um Sir Alfred Hitchcock
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 18:36
Skemmtilegur dagur út í Hrísey

Ég var að koma heim að loknum skemmtilegum degi úti í Hrísey - í morgun fórum við sjálfstæðismenn á Akureyri út í eyju. Áttum við góðan dag í hópi góðra flokksfélaga úti í eyju og skemmtum okkur vel. Við hittumst upp við Kaupang rúmlega hálf níu í morgun og héldum með rútu út á Árskógssand. Á leiðinni áttum við gott spjall og fórum yfir málefni kosningabaráttunnar og það sem er að gerast í bæjarmálunum. Mundi keyrði rútuna og Sigrún Björk hafði skipulagt ferðina vel ásamt fleirum. Í ferjunni hitti ég góðan félaga frá Dalvík og ræddum við um pólitíkina þar, en eins og ég hef áður bent á guggnaði Samfylkingin á því að bjóða fram lista í eigin nafni. Var gaman að fara yfir málin þar og ekki síður hafði ég gaman af því að heyra hvernig talað er enn um Húsabakka. Annars er rétt að benda á að D-listinn eitt framboða árið 2002 ljáði máls á því í kosningabaráttunni að loka skólanum og beitti sér fyrir því. Var það rétt ákvörðun án nokkurs vafa.
Er út í eyju kom funduðum við á veitingastaðnum Brekku og héldum áfram í kosningaundirbúningnum. Fórum við yfir mikilvæg meginatriði og áttum mjög gott spjall um málin. Er ánægjulegt hversu samhentur hópurinn er og fer af krafti inn í næstu verkefni í kosningaundirbúningnum. Að fundi loknum löbbuðum við yfir í Sæborg og áttum þar góða stund í skemmtilegum leikjum. Sú skemmtilega hugmynd kom upp að para okkur tvö og tvö saman. Áttum við að reyna að komast að einhverju nýju um hinn aðilann sem við vissum ekki áður. Var mjög gaman að heyra af þessu. Við Guðmundur Jóhannsson lentum saman og við áttum hið fínasta spjall í að fara yfir hvað við vissum ekki um hvorn annan. Undir lok ferðarinnar fórum við öll yfir það hvað við komumst að. Var þetta mjög gaman og mikið hlegið saman yfir þessu. Eftir hádegið fórum við í Hákarlasafnið - flott safn sem verið er að byggja upp. Það er áhugavert að líta þangað og kynna sér það sem þar er.
Undir lokin fórum við í ferð um eyjuna á dráttarvél og fengum góða yfirferð um það sem þar er að gerast. Þeir Narfi Björgvinsson og Kristinn Árnason kynntu okkur stöðu mála og komu með góða fróðleiksmola um eyjuna. Síðdegis héldum við svo heimleiðis eftir góðan dag. Það var gaman að fara út í eyju og vil ég þakka þeim Narfa og Kristni fyrir höfðinglegar móttökur. Það er alltaf gaman að fara út í Hrísey og njóta kyrrðar og notalegs umhverfis þar.
Saga dagsins
1760 Landlæknisembættinu var komið á fót - Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir, fyrstur manna.
1772 Björn Jónsson skipaður fyrsti lyfsalinn hérlendis - áður var lyfsala hluti af skyldum landlæknis.
1926 Útvarpsstöð, sú fyrsta hérlendis, tók formlega til starfa í Reykjavík - fyrstur í útvarpið þá talaði Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Sagði hann í ræðu sinni að miklar vonir væru bundnar við þessa miklu og nýju uppgötvun mannsandans. Stöðin hætti fljótlega starfsemi en hún markaði söguleg skref, engu að síður í íslenskt fjölmiðlalíf. Ríkisútvarpið hóf útsendingar fjórum árum síðar.
1938 Spencer Tracy hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Manuel í kvikmyndinni Captains Courageous. Tracy hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Boys Town. Tracy var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum. Hann lést í júní 1967, örfáum dögum eftir að hann lauk vinnu við sína síðustu mynd, Guess Who's Coming to Dinner?, þar sem hann fór á kostum með Katharine Hepburn, sem hann bjó með lengi og lék með í fjölda mynda.
1971 Hæstiréttur Danmerkur kvað upp úrskurð sem ruddi úr vegi síðustu hindrun fyrir afhendingu handritanna til Íslendinga. Fyrstu handritin voru afhend formlega mánuði síðar við hátíðlega athöfn.
Snjallyrðið
In the sweetness of friendship let there be laughter, and sharing of pleasures. For in the dew of little things the heart finds its morning and is refreshed.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)