20.3.2006 | 23:58
ISG leitar í smiðju Jóns Baldvins

Það er greinilegt að Jón Baldvin Hannibalsson er orðinn einskonar nýr Gylfi Þ. Gíslason kratanna. Maður sem þau hefja upp til skýjanna og líta upp til og leita ráðlegginga hjá. Það vita það enda allir sem vilja vita að áhrif Gylfa Þ. í stjórnmálum hérlendis voru mun lengur sýnileg en bara á lykiltímabili stjórnmálaferils hans. Hann var virðulegur gamall stjórnmálamaður sem leitað var til lengi vel til að ræða málefni samtímans og hann sló oftar en ekki í gegn með boðskap sínum. Greinilegt er að kratar nútímans hafa búið til samskonar íkon úr Jóni Baldvin - nýkomnum heim að loknum verkum sínum í utanríkisþjónustunni í Washington og Helsinki. Þegar að minnst var 90 ára afmælis Alþýðuflokksins sáluga var Jón Baldvin einn formanna Alþýðuflokksins ræðumaður við athöfn í Ráðhúsinu þar sem þessa gamla flokks (sem reyndar enn er til óformlega séð) var minnst með nokkum tregablöndnum hætti.
Það er greinilegt að Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún eru samherjar í pólitík innan Samfylkingarinnar. Hann studdi hana enda til formennsku í flokknum í fyrra með opinberum hætti meðan að annar fyrrum formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, studdi Össur með áberandi hætti. Það var enda mjög greinilegt að á meðan að Jón Baldvin baðaði sig í sviðsljósinu í erfidrykkju Alþýðuflokksins sat Sighvatur stúrinn úti í horni gleymdur og utan kastljóssins. Afmælishátíðin í Ráðhúsinu var enda greinilega fjölmiðlamoment ISG og JBH. Saman komu þau fram í Silfri Egils og töluðu fjálglega um kratastefnu í pólitík og fleira sem þeim þótti við eiga á þessum merkisdegi í sögu Alþýðuflokksins sáluga. Fjarvera núverandi formanns Alþýðuflokksins, Guðmundar Árna Stefánssonar sendiherra, var reyndar mjög áberandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eins og flestir muna eflaust flúði hann á náðir utanríkisþjónustunnar til að þurfa ekki að vinna með Ingibjörgu Sólrúnu.
Jón Baldvin er mælskur stjórnmálamaður og hefur sagnakraft eins og Vestfirðinga er von og vísa. Sama frásagnarkraft hefur Össur fyrrum kratahöfðingi greinilega, eins og sást í nýlegum skrifum hans um Afríkuferðina. Þau skrif leiftruðu af frásagnargleði og tilfinningum fyrir staðnum - lesandanum fannst enda eins og hann væri staddur í ferðinni. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann tala t.d. um alþjóðastjórnmál eða utanríkispólitík. Þó að maður sé oft á tíðum mjög ósammála honum er frásögn hans þess eðlis að maður hlustar af áhuga. Reyndar verð ég að viðurkenna að mér fannst Jón Baldvin breyttur við heimkomuna er sendiherratímabilinu lauk. Gott ef hann hljómaði ekki eins og gamli byltingarmaðurinn sem hann varð áður en hann flúði á náðir Alþýðuflokksins. Kannski er það þess vegna sem hann nýtur sín svo vel þessa dagana með Ingibjörgu Sólrúnu, sem er gamaldags rauðsokka í forystu jafnaðarmannaflokks.
Jón Baldvin er miklu vinstrilitaðri nú að mínu mati en hann var t.d. sem fjármála- og utanríkisráðherra er stjórnmálaferill hans var í sem mestum blóma. Nú er talað um að hann komi kannski aftur. Það er reyndar kostulegt ef að ISG telur sig ekki eiga viðreisnarvon í pólitískum slag við Geir H. Haarde nema að fá liðsinni krata eins og Jónanna tveggja. Reyndar er ljóst að þeir eru í miklum metum hjá henni, enda sátu þeir báðir hjá henni í krataminningarsamkundunni á meðan að Sighvatur sat eins og gleymdi maðurinn nokkuð til hliðar. Reyndar finnst mér oft merkilegt að sjá hvernig að Jón Baldvin getur talað og talað án þess að rifja upp eigin afrek og reyna að upphefja sig á fjölda mála sem margir komu að. Hann minnir mig oft á Steingrím Hermannsson sem oft segir sögur af afrekum sem hann stóð fyrir en síður frá vondu málunum nema að reyna að geta þess að hann hafi hvergi verið nærri. Gott dæmi um þetta má lesa í ævisögum Steingríms sem komu út í þrem bindum og voru skrifaðar af borgarstjóraefni Samfylkingarinnar.
Nú er greinilegt að Jón Baldvin er aðalutanríkispostuli Samfylkingarinnar. Nú er sagt frá því í fréttum að honum sé ætlað að leiða þverpólitískan hóp til að ræða um varnarmálin og móta einhvern vísi að nýrri utanríkisstefnu. Þetta er mjög merkilegt að sjá reyndar, enda er greinilegt að ISG skrifar ræður um varnarmálið og talar um það með ráðgjöf Jóns Baldvins að leiðarljósi. Hann er greinilega að ráðleggja henni í þessum málum, sem er reyndar vart undrunarefni enda veitir ISG og Samfylkingunni ekki af að eignast utanríkisstefnu fyrir það fyrsta. Hún hefur um nokkurt skeið verið á verulegu reiki og ekki seinna vænna fyrir krataflokkinn að reyna að grafa hana upp eða að fá fyrrum utanríkisráðherra síðasta kratatímabils í sögu ríkisstjórnar Íslands til að lesa þeim upp grunninn að einhverri stefnuáætlun eða mótun að stefnu. Reyndar er samt skondið að heyra talað um þennan hóp undir forystu Jóns Baldvins sem þverpólitískan vettvang. Það er fyndinn leikur að orðum þykir mér satt best að segja.
Ingibjörg Sólrún hefur verið formaður Samfylkingarinnar í tæpt ár. Það er ekki hægt að segja að það tímabil hafi verið sælutímabil fyrir Samfylkinguna. Það er vissulega merkilegt þegar að hún er farin að leita til Jóns Baldvins um að semja utanríkisstefnu fyrir Samfylkinguna og telur rétt að treysta ráðleggingum hans með þessum hætti. Ingibjörg Sólrún telur sig ekki geta talað trúverðugt í varnarmálum nema leita eftir ráðleggingum sér reyndari manna og fá þá til að vinna einhverja stefnu í málaflokknum. Hún hefur reyndar á nokkrum dögum farið nokkra hringi í varnarmálunum en nú er Jón Baldvin greinilega farinn að ráðleggja henni og beina henni á þær leiðir sem hann telur vænlegastar og nú tekur hann til verka við að vinna einhverja trúverðuga stefnu fyrir Samfylkinguna. Er það mjög merkilegt.
Reyndar má spyrja sig að því hvort að sú utanríkisstefna verði ekki mátulega vinstrilituð og í takt við úrelt sjónarmið. Grunar mig að svo muni verða.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2006 | 23:45
Snúinn ökkli

Jæja, ég varð fyrir því óláni seinnipartinn í dag að hrasa svo illa að ég varð að fara á slysadeildina. Niðurstaðan er sú að ég sneri upp á ökklann og er því draghaltur. Hitti reyndar góðan vin minn í biðinni á slysadeildinni og ræddum við um margt og mikið á meðan. Fannst merkilegt að eftir allt saman myndum við enda saman í bið á slysadeild. Alveg kostulegt. Ég fékk hina fínustu umönnun og fór við svo búið heim og sleppti fundi í kvöld sem var um bæjarmál. Hringdi í Björn Magnússon og bað hann að bera fundinum kveðju mína. Fannst honum og Guðmundi reyndar skondið að fá símtal um að ég væri með snúinn ökkla enda höfðum við hist aðeins nokkrum klukkutímum áður og átt saman langan og góðan fund.
Þetta var alveg skelfilega sárt fyrstu stundirnar eftir óhappið en ég drattast svona um eins og haltur gamall maður. :) Reyndar hefur mér ekki liðið djöfullegar í fætinum í mörg ár, allt síðan í slysinu forðum er ég fór illa á öðrum fætinum. En þetta er enginn heimsendir og ég ætla að halda áfram á fullu eftir fremsta megni. Mæti í vinnuna á morgun auðvitað, enda ég ekki þeirrar gerðar að láta mig vanta lengi. Ég er þannig týpa að ég held alltaf áfram - sama hvað gerist. Ég er semsagt alveg þrælsnúinn, eins og venjulega reyndar. :)
Saga dagsins
1939 Þýsk sendinefnd kom til Reykjavíkur, tæpu hálfu ári fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Fóru þeir fram á að fá að koma upp flugbækistöð hérlendis. Beiðninni var hafnað af stjórnvöldum.
1948 Breski leikarinn Ronald Colman hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Anthony John í kvikmyninni - var einn af virtustu leikurum Bretlands á 20. öld. Colman lést árið 1958 úr lungnasýkingu.
1952 Bandaríski leikarinn Humphrey Bogart hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Charlie Allnut í kvikmyndinni The African Queen. Bogart var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og hlaut vinsældir fyrir kraftmikla og litríka túlkun á sterkum og hnarreistum karakterum. Hann lést í janúar 1957 úr krabbameini. Bogart var valinn besti leikari 20. aldarinnar við aldamótin 2000.
1991 Ásgeir Hannes Eiríksson flutti stystu þingræðuna í sögu Alþingis Íslendinga. Við umræðu um álversbyggingu á Keilisnesi tók Ásgeir Hannes til máls og sagði aðeins 4 orð: "Virðulegi forseti. Álverið rísi!".
2003 Sprengjum Bandamanna rignir yfir stjórnsýslubyggingar Íraka og helstu höfuðstöðvar Saddam Hussein í höfuðborginni Bagdad - fljótt dró úr mætti Baath-stjórnarinnar og ljóst varð allt frá upphafi að auðvelt yrði að fella hana. Árásirnar lömuðu forystu landsins og landhernaður hófst í kjölfar þess. Stjórnin féll 20 dögum síðar.
Snjallyrðið
Disciplining yourself to do what you know is right and importance, although difficult, is the highroad to pride, self-esteem, and personal satisfaction.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)