23.3.2006 | 19:07
Vangaveltur um umferðarslys

Ansi oft er umræða um banaslys í umferðinni upptalning á þeim sem látist hafa í umferðinni og hversu mörg slys hafa átt sér stað. Í gær hlustaði ég einmitt á frétt þar sem fjallað var um stöðu mála með því að telja upp hversu margir hefðu látist í bílslysum á árinu. Eins og allir vita hafa alltof margir látist í umferðarslysum hérlendis þetta árið, sem og mörg hin fyrri. Það er dapurlegt að heyra þessar tölur og heyra sögu sumra slysanna. Það er oft sagt að meirihluti banaslysa í umferðinni sé á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka en nú ber svo við að fleiri slys eru í þéttbýli það sem af er árinu. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum.
Á árinu 2004 létu t.d. 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Í fyrra voru sem betur fer færri sem létust. Það sem af er þessu ári hafa alltof mörg slys orðið og margir látist, þar á meðal nokkur fjöldi af ungu og efnilegu fólki - öflugu fólki sem mikil eftirsjá er að. Á bakvið þessar nöpru tölur um látna í umferðarslysum eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Það hefur sérstaklega verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum þar sem látist hafa ungir strákar hér í Eyjafirði. Það er vægt til orða tekið að hér ríki mikil sorg og fólk í sárum. Það er nokkuð um liðið síðan að önnur eins sorg hefur ríkt hér vegna umferðarslysa. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys.
Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Þetta voru í senn táknrænar auglýsingar og vöktu fólk til umhugsunar.
Í grunninn séð vekur það okkur öll vonandi til lífsins í þessum efnum að sjá þær skelfilegu tölur um fjölda látinna í umferðarslysum og fjölda slysa almennt. Ég vona það allavega. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er mikilvægt að við séum vel á verði og munum að við verðum að taka slysin úr umferð!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2006 | 15:28
Málefnafundur Varðar í kvöld

Í kvöld ætlum við hjá Verði að hefja formlega kosningastarf okkar fyrir komandi kosningar með fundi í Kaupangi undir yfirskriftinni "Hvað vill ungt fólk á Akureyri?" Ætlum við þar að bjóða öllu ungu fólki sem er áhugasamt um bæjarmálin til að ræða við okkur um áherslur sínar í stórum málaflokkum í komandi kosningum: atvinnu-, skóla- og forvarnamál. Fundurinn verður mjög léttur og fyrst og fremst ætlað að vera pólitískt skemmtilegur og líflegur. Þegar að þátttakendur hafa skipt sér upp í vinnuhópa tekur við vinna í málaflokkunum og er ætlað að hóparnir róterist á kortérs fresti þar til að allir hafa setið í öllum málaflokkum og innlegg allra í hvern málaflokk hafa komist að. Þetta skapar líflegt og gott fundaform og allir fá að segja sitt um öll mál.
Í miðjunni ætlum við að fá okkur léttar veitingar og spjalla og að því loknu munu hópstjórar kynna hugmyndir hópanna og tillögur þeirra. Fundarstjóri er María Marinósdóttir, frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í vor en hópstjórar verða ég, Hanna Dögg Maronsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Væntum við skemmtilegra umræðna og líflegs kvölds. Ég hvet alla áhugasama um bæjarmálin og vilja leggja sitt af mörkum í málefnavinnu okkar að mæta og taka þátt. Hittumst hress í kvöld!
Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins.
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - tilkoma Sundhallarinnar markaði talsverð þáttaskil í íþróttamálum hérlendis.
1950 Leikkonan Olivia de Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum í mars 2003.
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta kvikmynd 20. aldarinnar í bíó.
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir litríka túlkun sína á skassinu Velmu Kelly í Chicago.
Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)