Saga af snúnum ökkla

Snúinn ökkli

Þessi vika sem er að líða hefur verið sérkennileg. Það markast af því óhappi sem ég varð fyrir síðdegis á mánudag þegar að ég sneri á mér ökklann skömmu eftir vinnu. Ég náði að komast á slysadeild og fór við svo búið heim og mætti þangað aftur morguninn eftir til að fara í röntgenmyndatöku. Læknar á spítalanum gátu ekki með vissu sagt mér á mánudeginum hvort um væri að ræða ökklabrot eða snúinn ökkla. Þegar að ég vaknaði á þriðjudeginum gat ég ekki stigið í vinstri fótinn og því þótti réttast að ég færi í myndatöku til að skera úr um það. Reyndar var það nokkuð vesen fyrir mig að komast á spítalann á þriðjudeginum en það hafðist allt með góðri hjálp en ég get auðvitað ekkert komist um þessa dagana nema að vera keyrður um allt. Niðurstaðan var annars sú að um væri að ræða mjög slæman snúning á ökkla og ég fór af spítalanum með hækjur. Þær notaði ég þar til í gær á föstudag.

Reyndar var einn hjalli umfram aðra sem voru ekki góðir við að vinna úr þessu. Það var auðvitað að komast í vinnuna en þar er nokkuð stór og mikill stigi um að fara. Það gekk mjög illa fyrsta daginn en svo stig af stigi betur hina dagana. En þrjóskan er svo mikil í mér að ég komst þetta allt frá upphafi, þótt það tæki tímann sinn fyrsta daginn. En ég er semsagt laus við hækjurnar og kominn á eðlilegt ról. Það tók mig reyndar tíma að æfa mig á hækjunum, enda hef ég ekki notað slíkar græjur nema einu sinni á minni ævi. Það var sumar eitt fyrir nokkrum árum - dökkt sumar á minni ævi svo vægt sé til orða tekið. En þetta gekk allt mjög vel og ég er svona stig af stigi að ná réttum hjalli. Reyndar má með sanni segja að með ólíkindum sé að ég hafi ekki ökklabrotnað. Reyndar var það svo á mánudaginn að ég heyrði smella við fallið og því vissi ég alltaf að um snúinn ökkla eða brot væri að ræða en hvorttveggja kom til greina og myndatakan sýndi stöðuna.

Einn vondur fylgifiskur þessa er auðvitað að geta með engu móti verið í skó á veika fætinum. Eiginlega fannst mér það verst af öllu enda var snjókoma hér þessa vikuna og ekki gott um að fara með þessum hætti. Bólgan á fætinum varð svo mikil að ég gat engu móti komið skó á vinstri fótinn. Niðurstaðan varð auðvitað sú að ég var bara í sokk á öðrum fætinum en skó á hinum. Þetta gekk bara alveg ágætlega miðað við aðstæður. Fóturinn á mér bólgnaði reyndar svo mikið að mér varð nóg um og hætti að lítast um tíma á blikuna, en þetta er allt nú á réttri leið. Annars hef ég fengið alla umsögn um svona frá pabba en hann hefur bæði snúið ökkla og brotið ökkla. Af tvennu mjög illu er skárra að snúa hann held ég. Annars eru tilfellin mörg en stundum getur einmitt verið snúningurinn verið verri, ótrúlegt en satt komi hann niður á vondum svæðum á fætinum. Eitt er þó víst að ég var heppinn að brjóta mig ekki og læknarnir skildu með engu móti hversu vel ég slapp.

Samhliða þessu hef ég auðvitað kynnst vel aðbúnaðinum á slysadeild og þessu blessaða heilbrigðiskerfi okkar. Það er ekkert nema gott um það hægt að segja. Við hér á Akureyri erum svo lánsöm að eiga góðan spítala og afburðahæft starfsfólk. Ég kynntist þessu fólki vel á mánudag og þriðjudag og öll þau samskipti voru af hinu góða fannst mér. Reyndar kynntist ég vel að það er ekki gott að bíða á slysadeildinni eftir þjónustu en ég kynntist líka hversu rosalega mikið er þar að gera og miklar annir. En ég kvarta ekki yfir þjónustunni. Ég fékk fínan aðbúnað og fannst þetta allt ganga vel hvað þetta varðar. Hvað varðar batann er hann fyrst að verða sýnilegur núna. Enn get ég þó ekki komist í skó á öðrum fætinum en það kemur vonandi allt til þegar að líður á næstu viku. Ég hef um helgina að mestu haft það bara rólegt og slappað af, en ég hef seinustu dagana unnið minn vinnudag og sinnt öðrum verkefnum.

Reyndar fannst ættingjum mínum ég fara ótrúlega bratt af stað eftir þetta allt. Það er eðlilegt að maður reyni að keyra sig sem mest áfram eftir öllum mætti. Það er enda ekki óeðlilegt að maður vilji reyna að halda sinni rútínu eftir fremsta megni. En það var gott að fá helgarleyfi og hvíla fótinn. Reyndar er blánaður fóturinn vinsælt sýningarefni fyrir ættingjana en þetta er eins og hið besta listaverk þessa dagana. Það styttist sem betur fer í að þetta verði allt eins og áður var. Eina sem pabbi fræddi mig um var að þetta myndi aðeins geta lagast eftir að fóturinn yrði blár svo að ég get farið að hlakka til einhvers núna. :)


Olmert og Kadima á sigurbraut í Ísrael

Ehud Olmert

Nú þegar að aðeins nokkrir dagar eru til þingkosninga í Ísrael bendir nær allt til þess að Kadima, nýstofnaður flokks Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, vinni afgerandi sigur og leiði ísraelsk stjórnmál næstu árin. Skugga fellur á væntanlegan sigur að maðurinn sem stofnaði flokkinn með miklum hvelli undir lok síðasta árs liggur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem, og hefur gert allt frá því að hann fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpum þrem mánuðum, þann 4. janúar sl. Litlar sem engar líkur eru á því að jarðýtan, eins og Ariel Sharon var alltaf nefndur í ísrelskum stjórnmálum, snúi aftur á hið pólitíska svið og eru meiri líkur á því en minni að hann liggi banaleguna þessar vikurnar. Kadima er nýr flokkur en nýtur alþýðuhylli. Umfram allt er það vegna þess að Sharon er mikils metinn af löndum sínum og er enn vinsælasti stjórnmálamaður landsins, þrátt fyrir veikindin.

Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra Ísraels, fer fyrir Kadima og hefur stýrt flokknum í gegnum veikindi Sharons og mun verða forsætisráðherra Ísraels að loknum kosningunum væntanlega. Ef marka má skoðanakannanir nýtur Olmert trausts þjóðarinnar til forystu. Mikið tómarúm hefur verið í ísraelskum stjórnmálum eftir veikindi Sharons og snögglegt brotthvarf frá stjórnmálaforystu. Þetta tómarúm hefur Ehud Olmert fyllt í huga Ísraela. Vandinn sem blasti við Olmert í ársbyrjun var auðvitað tvíþættur. Í fyrra lagi var ekki formlega búið að byggja Kadima upp sem stjórnmálaflokk áður en Sharon veiktist - hann var stofnaður utan um áherslur Sharons og vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Í seinna lagi blasti við honum það verkefni að stjórna Ísrael í þá 100 daga sem liðu frá veikindum Sharons til kosninga og halda með trúverðugum hætti þeim öfluga svip sem var á landsstjórninni á taflborði stjórnmálanna undir stjórn Sharons þrátt fyrir að hún væri í raun fallin.

Olmert tókst að koma standandi frá þessari miklu pólitísku áskorun og er í huga landsmanna sigurvegari kosningabaráttunnar. Við blasir að hann muni einnig eftir 28. mars verða hinn nýji sterki þjóðarleiðtogi sem tekur á málunum með krafti. Olmert var ekki öfundsverður af sínu hlutskipti í upphafi ársins. Það var þó margt sem varð til þess að hjálpa honum. Hann naut óskoraðs stuðnings innan Kadima til forystustarfa að Sharon burtkvöddum og naut trausts til að halda áfram á sömu braut og honum auðnaðist. Hann hefur enda ásýnd leiðtogans og þess forystumanns sem bæði Ísrael þarfnast nú þegar að Sharon hefur væntanlega sagt sitt síðasta í stjórnmálabaráttu. Mest af öllu munaði honum um það að lykilmenn Sharonstímans sem ráðlögðu honum og treystu fylktu sér að baki Olmert og engin lykilbreyting varð er Sharon hvarf svo óvænt burt. Olmert tók við sverði og skildi Sharons og hélt áfram alveg ótrauður.

Ehud Olmert, sem fæddur er árið 1945, og er því tæplega tveim áratugum yngri en Sharon, er einn nánasti samstarfmaður Sharons og fylgdi honum úr Likud um leið og Sharon fór úr honum. Olmert var borgarstjóri í Jerúsalem í tíu ár, árin 1993-2003, og hefur gegnt fjórum ráðherraembættum á ferlinum. Hann var fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra í stjórn Sharons. Segja má að Olmert sé mjög líkur Sharon á hinu pólitíska taflborði og hafi verið sá eini sem hefði getað tekið við við keflinu af Sharon og leitt hjörðina saman í kosningar við þessar aðstæður sem við blöstu. Olmert hefur bæði kraftinn og styrkleikann sem þurfti til þess að leysa Sharon af hólmi - mann sem hafði verið lykilmaður á pólitísku taflborði Ísraels í meira en 40 ár.

Það stefnir í áhugaverðar kosningar í Ísrael á þriðjudaginn. Forvera Sharons á leiðtogastóli í Likud, Benjamin Netanyahu, sem verið hafði forsætisráðherra Ísraels 1996-1999 og leiðtogi Likud 1993-1999, hefur mistekist að höfða til þjóðarinnar að þessu sinni og blasir við að verði fylgi Likud í takt við kannanir að pólitískum ferli hans ljúki með miklum hvelli. Sama má segja um Verkamannaflokkinn sem hefur ennfremur mistekist að vega að Olmert og Kadima. Það stefnir því í góðan kosningasigur Kadima og allar líkur eru á því að baráttumaðurinn Ehud Olmert myndi brátt eigin ríkisstjórn í Ísrael.

Það segir enda margt um stöðuna að alþjóðlegir fréttaskýrendur velta mest vöngum yfir því hversu mikið fylgi Kadima og Olmert verði. Nú er bara að fylgjast með því hvort að pólitískt hugarfóstur Ariel Sharon verði það forystuafl sem altént hann stefndi ótrauður að yrði að veruleika, en náði ekki sjálfur að leiða. Fari svo sem allt bendir til munu augu allrar heimsbyggðarinnar verða á baráttujaxlinum frá Jerúsalem eftir helgina.


Skemmtileg fjölskylduhefð á laugardegi

Mjólkurgrautur

Sú skemmtilega hefð er í minni fjölskyldu að hittast alltaf í hádeginu á laugardögum og borða saman léttan og góðan hádegisverð. Skiptumst við á að bjóða í mat. Oftar en ekki er hrísgrjónagrautur á borðum og gott meðlæti. Þennan laugardaginn hélt ég rétt um hádegið niðureftir í Norðurgötu 51 til Línu systur og Skarphéðins mágs en nú var komið að þeim að bjóða heim í hádegismat. Þetta er flott hefð og alltaf gaman að borða saman og að ég tali nú ekki um að spjalla, en það er mikið talað og spekúlerað í fjölskylduboðum í minni ætt. Það er gaman að hittast öll með þessum hætti og er reyndar alltaf leitt að geta ekki verið heima á laugardögum og missa þarmeð af þessu. Síðustu tvo laugardaga hef ég ekki verið heima í hádeginu og misst því af léttum hádegisverði með fjölskyldunni.

Lína og Skarpi voru með mjólkurgraut (eins og oftast) og með var auðvitað brauð og gott álegg. Á eftir var eins og venjulega kaffi og veitingar með. Það var gaman að fara til þeirra í dag enda hafa þau verið á fullu að mála íbúðina og gaman að fylgjast með breytingunum á þeim bænum. Það er skemmtilegt að halda þessum góða sið við og hittast í hádeginu á laugardegi. Reyndar verð ég væntanlega ekki heima um næstu helgi frekar en margar aðrar en eftir hálfan mánuð er komið að mér í röðinni að bjóða í mat. Var ég að hugsa um að brjóta upp hefðina þá og gera skyr og hafa létt og gott meðlæti með.

Hádegin á laugardögum eru því fjölskyldustund í minni fjölskyldu.

Saga dagsins
1954 Leikkonan Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Önnu prinsessu í kvikmyndinni Roman Holiday - Hepburn var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonum í gullaldarsögu Hollywood og varð vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini í janúar 1993.
1975 Samþykkt var á Alþingi að friðlýsa að fullu Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu. Friðlandið var alls um 100 ferkílómetrar. Hrafna-Flóki nam land þar og nefndi landið Ísland, eins og segir frá í Landnámu.
1975 Feisal konungur Saudi-Arabíu, myrtur, í höfuðborginni Riyadh. Hann var þá 68 ára að aldri.
1985 Leikkonan Sally Field hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ednu Spalding í kvikmyndinni Places in the Heart - var þetta annar óskar Field sem hlaut verðlaunin fimm árum áður fyrir leik sinn í Normu Rae. Er Field tók við verðlaununum flutti hún sögulega þakkarræðu og sagði svo: "I haven't had an orthodox career and I wanted more than anything to have your respect. The first time I didn't feel it but this time I feel and I can't deny the fact that you like me. You really like me!". Urðu fleyg orð.
2001 Schengen-samstarf 15 Evrópuríkja tók gildi. Markmið þess er að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og styrkja um leið baráttu gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Breytingar á mannvirkjum og búnaði á Keflavíkurflugvelli vegna þessa kostuðu 800 milljónir króna.

Snjallyrðið
I always cheer up immensely if an attack is particularly wounding because I think, well, if they attack one personally, it means they have not a single political argument left.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Bloggfærslur 25. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband