26.3.2006 | 20:51
Sunnudagspistill - 26. mars 2006

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Viðræður munu hefjast við Bandaríkjamenn um varnir landsins í vikunni. Tel ég að þær viðræður verði að snúast um hvað þeir ætli í staðinn að gera til að tryggja sýnilegar varnir hér á landi. Það er enda mat mitt að án sýnilegra varna sé varnarsamningurinn við Bandaríkin ekki pappírsins virði og þá verði að líta í aðrar áttir og við að taka frumkvæðið til okkar í því sem koma skal. Ég tel t.d. hjalið um nútímavæðingu varna vera fyrir neðan virðingu okkar. Annaðhvort eru hér sýnilegar varnir eða engar varnir. Orðið nútímavæðing er bara valið til að milda reiði okkar að talsverðu leyti. Það er alveg ljóst að án marktækra varna er hlutverki varnarsamningsins í raun lokið. Það blasir að efla verður Landhelgisgæsluna og fá fleiri þyrlur. Vil ég að ein þeirra verði staðsett hér norður á Akureyri.
- Tel ég að netskrif og virk þátttaka í þjóðmálaumræðunni sé mjög vænleg fyrir fólk. Það hefur lengi verið mitt mat að fólk geti orðið virkara með því að skrifa um stjórnmál en að standa í atinu sjálft. Hef ég reynslu af bæði virku starfi í stjórnmálum og því að skrifa um það. Það er margsannað að rödd eins manns sem berst eftir slóðum Internetsins á bloggvefi og heimasíðu geti orðið áhrifameiri en þess sem stendur í þingsal. Fjölmiðlun er orðin svo fersk og áleitin að Netið er orðinn ráðandi aðili á markaðnum. Fer ég yfir virkni í pólitík og tjái mig um mína reynslu af báðu.
- Þingkosningar verða í Ísrael á þriðjudaginn. Flest bendir til að hinn nýstofnaði flokkur Kadima vinni afgerandi sigur í kosningunum í Ísrael á þriðjudag undir forystu Ehud Olmert en í skugga alvarlegra veikinda leiðtogans Ariel Sharon forsætisráðherra, sem verið hefur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem síðan í ársbyrjun.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2006 | 11:09
1000. bloggfærslan á vefnum

Þetta er 1000. dagsfærslan sem rituð er á þennan bloggvef minn. Ég hef skrifað hér allt frá októbermánuði 2002 og styttist því í fjögurra ára afmæli vefsins. Þann 19. ágúst 2004 náði ég því marki að rita 500. dagsfærsluna. Frá haustinu 2003 hafa skrif hér verið efnismeiri og ítarlegri en fyrsta árið. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og efni sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Þetta er mín dagbók, ef svo má segja, og ég hef mjög gaman af þessu og met það mikils ef aðrir hafa áhuga á að lesa.
Þakka ég góðar viðtökur sem bloggið hefur hlotið og góðar kveðjur frá þeim sem lesa reglulega efnið. Það hafa greinilega margir fleiri gaman að lesa pælingar mínar og það veitir mér kraft til að halda áfram. Fyrst og fremst er þetta gert fyrir mig - þessi skrif eru áhugamál mitt og ástríða og þau halda áfram af miklum krafti svo lengi sem húsbóndinn á vefnum hefur áhuga á þessu. Það hefur oft verið sagt að netið sé áhrifaríkasti miðillinn. Það er mitt mat að svo sé. Ég næ allavega athygli þeirra sem hingað koma. Ég get því ekki annað en metið það sem svo að netið sé nútímasamskiptaleiðin og held áfram af krafti að nota mér hana.
Vonandi eigum við öll samleið hér áfram!
bestu kveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2006 | 10:42
Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburði í borginni

Á morgun eru tveir mánuðir til sveitarstjórnarkosninga. Framboðslistar eru á flestum stöðum komnir fram og styttist í að kraftmesti hluti kosningabaráttunnar hefjist af fullu afli. Frambjóðendur eru víðsvegar á fullu að kynna sig. Sumir þeirra skrifa greinar og minna á sig og framboðið sem það tilheyrir. Framundan er svo sannarlega lífleg og beitt barátta fólks til að ná til almennings í von um atkvæði þeirra. Enginn vafi leikur á að víðsvegar verður spennandi barátta og getur víða orðið mjög tvísýnt á milli framboða. Sennilega munu flestir áhugamenn um stjórnmál horfa til Reykjavíkur í þessum kosningum. Fyrirséð er að breytingar verði þar, enda býður meirihlutinnn, R-listinn, ekki fram aftur í sömu mynd og flokkarnir eru komnir með eigin framboð. Það er því öllum ljóst að 12 ára valdatíð R-listans lýkur í vor en menn deila um hvað taki við að kosningum loknum.
Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag eru yfirburðir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík miklir í þeirri baráttu. Hann mælist nú með níu borgarfulltrúa inni og fylgi upp á tæp 54%. Samfylking er næststærst með 33% og fimm menn inni en fylgi flokksins hefur aukist óverulega frá prófkjörinu í byrjun febrúarmánaðar.VG eru aðeins með rúm 6% og einn mann inni, sem hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir VG og leiðtogann Svandísi Svavarsdóttur sem nú er á fundaferð um alla borg. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 3,5% og Framsóknarflokkurinn 2,4%. Skiljanlega nægir það hvorugu framboði til að hljóta mann inn. Það blasir við öllum sem sjá þessa könnun að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikilla yfirburða og ef marka má þetta er aðeins spurning um hvort að þeir nái inn níunda manninum. Sá áttundi virðist tryggur haldi fólk þar rétt á málum og vinni baráttuna af krafti næstu átta vikurnar sem framundan eru til kosninga.
Það er enginn vafi af þessari könnun að það háir vinstriframboðunum að hafa skugga R-listans á eftir sér. R-listinn hefur runnið sitt skeið og það hafa líka margir úreltir stjórnmálamenn sem þar enn sitja í nafni listans og eru að verja erfið mál. Enginn vafi er á því að lóðaklúðrið við Úlfarsvatn hefur skaðað vinstriflokkana mikið. Það er enda svo að almenningur virðist hafa fengið nóg af vinstristjórn í borginni. Er það vel. Það er vonandi að borgarbúar tjái þá andstöðu af krafti þann 27. maí nk. Ef marka má þessa könnun verður sigur Sjálfstæðisflokksins afgerandi í vor og þá fær borgin loksins sterka og samhenta stjórn - stjórn sem tekur á málum eftir ráðleysi vinstrimanna seinustu árin.
Í grunninn séð verður enda kosið um það í Reykjavík hvort að borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum - fá betri borg - eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum. Ef marka má kannanir vilja borgarbúar þá breytingu. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni.
Saga dagsins
1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - KSÍ er langfjölmennasta sérsambandið innan raða Íþrótta- og Ólympíunefndar Íslands, enda munu rúmlega 14.000 landsmenn iðka fótbolta hérlendis
1958 Leikarinn Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir frábæra túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai - Guinness var einn af bestu leikurum Breta á 20. öld og var þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Guinness hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til leiklistar árið 1980. Hann var mjög sérlundaður og horfði t.d. aldrei á myndir sínar og hataði frægt hlutverk sitt í Star Wars. Alec lést árið 2000.
1973 Flugvélin Vor fórst í Búrfjöllum, norður af Langjökli, og með henni fimm manns - meðal þeirra sem fórust í flugslysinu var einn af reyndustu flugmönnunum í flugsögu Íslendinga, Björn Pálsson.
1990 Leikkonan Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á suðurríkjahefðarfrúnni Daisy Werthan í kvikmyndinni Driving Miss Daisy - með þessu varð Tandy elsti kvikmyndaleikarinn til að hljóta óskarsverðlaun, en hún var þá 81 árs að aldri. Tandy vann við leik allt til æviloka, þrátt fyrir að greinast með krabbamein árið 1991 vann hún við hverja myndina uns yfir lauk. Hún lést í septembermánuði 1994.
2000 Leikarinn Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir óaðfinnanlega túlkun sína á neðanmálsmanninum Lester Burnham í hinni ógleymanlegu American Beauty - Spacey, sem er einn besti leikari nútímans, hlaut áður verðlaunin 1995 fyrir túlkun sína á Verbal Kint í The Usual Suspects.
Snjallyrðið
Friendship... is not something you learn in school. But if you haven't learned the meaning of friendship, you really haven't learned anything.
Muhammad Ali hnefaleikameistari (1942)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)