27.3.2006 | 19:47
Lífróður Framsóknarflokksins í Reykjavík

Það er alveg ljóst að skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær á fylgi flokkanna í borginni var reiðarslag fyrir meirihlutaflokkana innan R-listans. Ef marka má þá könnun er Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburðastöðu og með afgerandi meirihluta. Allar kannanir seinustu mánuðina hafa verið að sýna sterka stöðu flokksins og í raun blasir við að meirihlutaflokkarnir eiga verulega undir högg að sækja. Sýnu verst er staða Framsóknarflokksins, sem mælist nú með innan við þriggja prósenta fylgi. Þetta lélega gengi kemur á óvart miðað við hversu mikla athygli Framsóknarflokkurinn hefur verið að fá seinustu vikur, bæði vegna prófkjörs og kynningar á framboðslista. Ef marka má þetta mun Framsóknarflokkurinn vera utangarðs í borgarstjórn næstu fjögur árin sem væri áfall fyrir flokkinn. Hann hefur enda haft veruleg áhrif í borgarkerfinu innan R-listans og t.d. er hann nú með forsæti borgarstjórnar og forystu í ýmsum helstu nefndum borgarinnar.
Það er mjög merkilegt að innkoma Björns Inga Hrafnssonar hefur ekki bætt stöðu flokksins með neinum hætti. Það vekur athygli enda er Björn Ingi ungur maður og ekki með fortíð í borgarmálum og er því sem ferskur vindblær fyrir flokkinn. Það er þó ekki að skila sér í fylgi eða sterkri stöðu í aðdraganda kosninganna. Það hefur gengið allt á afturfótunum hjá Framsókn seinustu vikurnar eftir prófkjörið og vond staða virðist aðeins ætla að verða sífellt verri. Þar spilar mikla rullu brotthvarf Önnu Kristinsdóttur úr forystusveit flokksins. Hún varð undir í leiðtogaslag prófkjörsins og boðaði brotthvarf sitt úr borgarmálum í kjölfar þess að hún varð í öðru sæti í prófkjörinu og hafnaði formlega sætinu. Í staðinn mun Óskar Bergsson verða í öðru sæti listans, en hann varð þriðji í prófkjörinu. Greinilegt er á tali Önnu Kristinsdóttur og skrifum hennar að hún ætlar ekki að lyfta litla putta fyrir Björn Inga og reynir að gera honum sem mesta skráveifu. Það sést vel á því sem gerst hefur seinustu vikur.
Ég skil Önnu Kristinsdóttur og sárindi hennar mjög vel. Hún sóttist eftir fyrsta sætinu og lagði mikið undir. Það náðist ekki og því metur hún það best að halda sig til hlés. Ég þekki þetta vel sjálfur enda hef ég farið í prófkjör og óskað eftir stuðningi flokksfélaga til verka og orðið undir í þeim slag. Það er mjög erfitt að ætla sér að halda áfram á sama krafti eftir og áður var. En það sést reyndar vel á því hverjir eru í pólitík af ástríðu. Hafi fólk áhuga getur það ekki hætt að spá í pólitík. Það enda sést mjög vel að Anna er hvergi nærri hætt og stefnir að framboði síðar. Held ég að hún ætli í þingkosningarnar að ári. Allavega talar hún ekki eins og kona sem hefur lagt árarnar í bát í pólitík. Tel ég að hún meti það sem svo að hennar séns verði meiri en ella ef Björn Ingi siglir flokknum í strand í borgarstjórnarkosningum. En Anna er ákveðin í hörku sinni og hvergi feimin. Reyndar er það mesti skaði Framsóknar að báðir borgarfulltrúarnir hætta og því ljóst að Björn Inga skortir sárlega reynslu í baráttuna.
Framsóknarflokkurinn í Reykjavík rær þessar vikurnar klárlega lífróður sinn. Ef þeir þurrkast út í borgarstjórn í vor mun það klárlega teljast afhroð fyrir flokkinn og pólitískur ferill Björns Inga mun bíða verulegan hnekki. Ef Björn Ingi nær ekki kjöri þá er það auðvitað gríðarlegt kjaftshögg fyrir flokksforystuna í Framsóknarflokknum að ekki aðeins mun nánasti armur Halldórs Ásgrímssonar verða fyrir hnekki heldur hann sjálfur auðvitað. Það er því greinilegt að allt mun verða lagt í sölurnar og fróðlegt að sjá hvernig Björn Ingi og hans liðsveit spilar úr sínum spilum og möguleikum sínum næstu vikurnar. Það verður mjög athyglisvert að mínu mati að fylgjast með lífróðri Framsóknar í borgarmálunum. Einn þáttur þessa er að Alfreð Þorsteinsson er horfinn og væntanlega munu allir flinkustu auglýsingaspekúlantar landsins verða dregnir til að reyna að hífa Framsókn upp.
Það verður óneitanlega ein af stærstu spurningum þessarar kosningabaráttu hvort að Framsókn í Reykjavík þurrkast út eða tekst að halda sér á floti undir pólitískri forystu Björns Inga Hrafnssonar. Ef marka má stöðuna er tveir mánuðir sléttir eru til stefnuna blæs ekki byrlega fyrir meirihlutaflokkana og allra síst Framsókn undir forystu Björns Inga.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2006 | 18:14
Nýr utanríkisráðherra í Svíþjóð

Mörgum að óvörum tilkynnti Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, í morgun að Jan Eliasson forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og sendiherra Svíþjóðar hjá SÞ, hefði verið skipaður sem utanríkisráðherra Svíþjóðar í stað Lailu Freivalds sem sagði af sér embættinu í síðustu viku. Til bráðabirgða hafði Bosse Ringholm aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, gegnt embættinu en Freivalds hrökklaðist frá embættinu eftir langvinna erfiðleika og að hafa í raun aldrei tekist að festa sig í sessi. Freivalds hafði tekið við utanríkisráðuneytinu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh, forvera sínum í embætti. Skipan Eliasson í stöðu utanríkisráðherra kom mjög óvænt en velt hafði verið vöngum í Svíþjóð yfir því hver hlyti stöðuna. Flestir höfðu talið að Persson myndi velja konu til starfsins til að reyna að flikka upp á stöðu mála eftir mikla erfiðleika í ráðherratíð Freivalds en greinilegt er að hann hefur viljað fara aðrar leiðir í þeirri stöðu sem uppi var.
Það er alveg ljóst að með skipan Jan Eliasson í embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar reynir Persson að snúa vörn í sókn, bæði fyrir sig og sænska Jafnaðarmannaflokkinn. Eliasson er enda vissulega maður reynslu og þekkingar. Það deilir enginn um það að hann sé reyndur sérfræðingur í alþjóðamálum. Starfssvið hans hefur verið í utanríkisþjónustunni til fjöldamargra ára. Eliasson er fæddur og uppalinn í Gautaborg og fór ungur í skiptinám til Indiana í Bandaríkjunum og lauk prófi í hagfræði frá hagfræðiháskólanum í Gautaborg árið 1962. Allt frá 1965 hefur hann helgað krafta sína störfum fyrir sænsku utanríkisþjónustuna. Hann var til fjölda ára sérlegur ráðgjafi Jafnaðarmannaflokksins í utanríkismálum og vann í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi til fjölda ára. Hann var náinn persónulegur vinur Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, og margoft ráðlagði hann honum í utanríkismálum. Saman voru þeir til fjölda ára lykilmenn í utanríkisstefnu Jafnaðarmannaflokksins.
Jafnaðarmannaflokkurinn missti völdin tímabundið á áttunda áratugnum sem leiddi til þess að Eliasson skipti um starfsvettvang og hann hélt til starfa í Afríku og Asíu í utanríkismálum af hálfu Svíþjóðar. Eftir valdatöku Palmes á nýjan leik árið 1982 kom hann aftur til starfa í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi í sérverkefnum og undir lok starfstímans um miðjan níunda áratugarins var hann ráðuneytisstjóri þar. Eftir morðið á Olof Palme, félaga hans og læriföður í flokksstarfinu, hélt Eliasson til New York og varð sendiherra Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1988. Fjórum árum síðar var komin hægristjórn í Svíþjóð og hann ákvað að halda til starfa innan SÞ og varð formaður neyðarnefndar SÞ í mannréttindamálum og varaforseti ECOSOC. Hann varð talsmaður mannréttindamála hjá SÞ á árunum 1992-1994. Þá hélt hann aftur til Svíþjóðar til starfa í utanríkisráðuneytinu. Anna Lindh utanríkisráðherra, skipaði Eliasson sem sendiherra Svíþjóðar í Washington árið 1999. Þar starfaði hann til haustsins 2005.
13. júní 2005 var Jan Eliasson kjörinn forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og tók við embættinu þann 15. september. Hann mun gegna embættinu til 24. apríl nk. er starfstímabili þingsins lýkur að sinni og tekur þann sama dag við utanríkisráðuneytinu. Fram að þeim tíma mun Kärin Jemtin þróunarráðherra, gegna embættinu, en eins og flestir vita hefur Laila Freivalds látið af embætti og vikið úr sænskum stjórnmálum. Valið á Eliasson þarf vart að koma á óvart, enda er hann einn helsti sérfræðingur sænskra jafnaðamanna í utanríkismálum. Hann hefur verið orðaður við embættið tvisvar, bæði 1994 er kratar komust til valda eftir þriggja ára stjórnarandstöðu og ennfremur haustið 1998 er Anna Lindh var valin til verka í ráðuneytinu. Fáir töldu að Eliasson yrði valinn nú og kom valið mörgum í opna skjöldu. En það er greinilegt að með valinu stólar Persson á þekkingu hans og reynslu og vonast til að með innkomu hans gleymist vandræðakaflinn sem var í ráðherratíð Freivalds.
Hvað svo sem mönnum finnst um stjórnmálaskoðanir Jan Eliasson deila mjög fáir um það að hann er sérfræðingur í utanríkismálum og hefur yfir mikilli reynslu að ráða sem nýtist vel í ráðuneytinu. Það er því alveg ljóst að val forsætisráðherrans á honum er snjallt og gæti hjálpað sænskum krötum í kosningabaráttunni sem framundan er. Staða þeirra er veik í könnunum og með því að láta Lailu Freivalds fara og velja diplómatann Jan Eliasson er Persson að reyna að snúa vörn í sókn. Jafnframt er hann að veita utanríkispólitík sænska Jafnaðarmannaflokksins meiri vigt en hefur verið nú um nokkuð skeið, allt frá því að hin vinsæla Anna Lindh hvarf af pólitísku sjónarsviði fyrir þrem árum.
Saga dagsins
1957 Leikkonan Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á hinni dularfullu en heillandi Anastasiu - hún hlaut óskarinn alls þrisvar á löngum leikferli sínum: 1944 fyrir leik sinn í Gaslight og 1974 fyrir Murder on the Orient Express - Bergman var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonunum í kvikmyndasögunni. Hún lést úr krabbameini á 67. afmælisdegi sínum í ágúst 1982.
1963 Skagafjarðaskjálftinn - mikill skjálfti, sem var um 7 stig á Richtersskala, fannst víða um land. Upptökin voru norður af Skagafirði. Hús léku á reiðiskjálfi um allt Norðurland og olli mikilli skelfingu.
1973 Leikarinn Marlon Brando hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather. Brando hafði áður hlotið verðlaunin árið 1954 fyrir leik sinn í On the Waterfront. Brando varð einn af svipmestu leikurunum í gullaldarsögu Hollywood. Marlon Brando lést 1. júlí 2004. Hann átti þá að baki einn litríkasta leikferil kvikmyndasögunnar og var ímynd töffarans í kvikmyndum - goðsögn í lifanda lífi.
1979 Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, og Anwar Sadat forseti Egyptalands, semja um frið og undirrita friðarsamkomulag um að Ísrael og Egyptaland bindi enda á þriggja áratuga stríð á milli landanna. Samkomulagið var kennt við Camp David, sumardvalarstað Bandaríkjaforseta í Maryland, en viðræður leiðtoganna fóru fram þar undir forystu Jimmy Carter forseta Bandaríkjanna. Begin og Sadat hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1979 fyrir framlag sitt til friðar. Samkomulagið kostaði Sadat lífið, en öfgamenn réðu hann af dögum í nóvember 1981, en þeir töldu hann svíkja málstað þeirra.
1995 Leikarinn Tom Hanks hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Forrest Gump - Hanks, sem er einn af svipmestu leikurum nútímans, hlaut áður verðlaunin árið áður fyrir magnaða túlkun sína á lögfræðingnum alnæmismitaða Andrew Beckett og mannlegri baráttu hans í Philadelphia.
Snjallyrðið
I don't want to achieve immortality through my work. I want to work, and work hard while I am living. Those who appreciate will appreciate, others don´t. That´s fine by me. I am not working for others, this is my work and my choice of living.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)