28.3.2006 | 23:48
50 ára leikafmæli Þráins Karlssonar
Þann 28. mars 1956 sté Þráinn Karlsson í fyrsta skipti á leiksviðið í Samkomuhúsinu á Akureyri og lék smátt hlutverk í rómantíska alþýðuleikritinu Úlfhildi. Síðan er liðin hálf öld og í kvöld var leikafmæli Þráins fagnað með hátíðarsýningu í Samkomuhúsinu okkar gamla og góða. Þar var sýnd nýjasta afurðin á leiksviðinu í okkar sögufræga leikhúsi, Litla hryllingsbúðin í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa.
Í frétt á akureyska fréttavefritinu segir Helgi Már Barðason svo um feril Þráins Karlssonar: "Þráinn Karlsson hefur starfað hjá LA í fimm áratugi og var meðal þeirra leikara sem fyrst fengu fastráðningu þegar LA varð atvinnuleikhús árið 1973. Síðan þá hefur hann farið með mörg hlutverk fyrir félagið, stór og smá. Þar má meðal annarra nefna Sganarelle í Don Juan, Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför, Þórð í Stalín er ekki hér, Bjart í Sjálfstæðu fólki, Matta í Púntilla og Matta, Anton Antonovitsj í Eftirlitsmanninum, Roulin bréfbera í Bréfberanum frá Arles, hlutverk í My Fair Lady og í Edith Piaf, Ezra Pound í Skjaldbakan kemst þangað líka, Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni, Eddie Carbone í Horft af brúnni, karlhlutverkin í BarPari, Fangavörðinn í Leðurblökunni, Charlie Baker í Útlendingnum, Angel í Undir berum himni, Jeeter Lester í Tobacco Road, Póloníus í Hamlet og Ananías í Gullbrúðkaupi, og er þá fátt eitt talið.
Hann hefur einnig leikstýrt nokkrum vinsælustu sýningum félagsins, svo sem Ættarmótinu, Fátæku fólki og nú síðast Blessuðu barnaláni. Þá hefur Þráinn hannað og smíðað leikmyndir. Árið 1974 stofnaði hann Alþýðuleikhúsið ásamt með öðrum og vann með því að nokkrum sýningum svo sem Krummagulli og Skollaleik. Hann starfaði um tíma í Þjóðleikhúsinu og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Þráinn vinnur einnig að myndlist og helgaði sig slíkum störfum veturinn 1995-1996 en þá var hann bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. Í vetur hefur hann leikið í öllum uppsetningum LA, Fullkomnu brúðkaupi, Maríubjöllunni og Litlu hryllingsbúðinni. Fyrir hlutverk sín í vetur hefur Þráinn hlotið frábærar viðtökur." Helgi Már orðar þetta svo vel að engu er hægt við það að bæta og mun betra að vitna í ítarleg og vönduð skrif hans um feril Þráins en skrifa eitthvað sjálfur.
Þráinn Karlsson er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar. Það hefur allt frá því að ég var kornungur verið sannkölluð upplifun að fara í Samkomuhúsið og fylgjast með þessum snilldarleikara okkar, meistaranum í leikhúsinu, vinna hvern leiksigurinn og toppað sig með hverju árinu. Við hér fyrir norðan getum verið stolt af verkum hans og við hyllum hann öll sem eitt á þessum merku tímamótum. Þráinn Karlsson er einn af bestu leikurum í sögu Leikfélags Akureyrar og fyrir löngu öðlast þann sess í huga okkar allra sem förum þangað á hverju ári til að njóta góðra sýninga og vandaðra menningarviðburða sem eru á heimsmælikvarða. Innilega til hamingju Þráinn með þinn merka áfanga og hafðu mikla þökk fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt með þér í Samkomuhúsinu.
Viðtal Margrétar Blöndal við Þráinn Karlsson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2006 | 18:47
Caspar Weinberger látinn

Caspar Weinberger fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lést í dag, 88 ára að aldri. Weinberger var einn af lykilmönnum utanríkisstefnu Bandaríkjanna í forsetatíð Ronald Reagan á níunda áratugnum og öflugur í starfi Repúblikanaflokksins til fjölda ára. Hann fæddist í San Francisco í Kaliforníu þann 18. ágúst 1917. Hann nam lög við Harvard og gegndi herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni við Kyrrahafið. Að því loknu hóf hann störf sem lögfræðingur í Kaliforníu og tók þátt í stjórnmálum fyrir flokk sinn til fjölda ára í sínu heimafylki og var t.d. fylkisþingmaður 1952-1958. Hann var einn af nánustu pólitísku ráðgjöfum Ronald Reagan í ríkisstjóratíð hans í Kaliforníu 1967-1975 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir flokkinn í ríkisstjóratíð Reagans. Hann fluttist til Washington árið 1970 og gegndi fjölda starfa í viðskiptaheiminum til fjölda ára og þótti mjög farsæll og áberandi á því sviði.
Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1980. Weinberger hafði stutt sinn gamla félaga með öflugum hætti og lagt honum mikið lið. Í desember 1980 skipaði Reagan, Casper Weinberger sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Skipunarferli hans tók skamman tíma og öldungadeildin staðfesti skipan hans með afgerandi hætti. Weinberger hafði fram að því ekki verið þekktur sem mikill spekúlant í alþjóðastjórnmálum en þótti farsæll og öflugur stjórnandi. Hann var náinn bandamaður forsetans í lykilmálum og þeir deildu þeirri skoðun að Sovétríkin væri ógn í alþjóðamálum og í raun afl hins illa, eins og Reagan orðaði það í frægri ræðu. Weinberger var mikill talsmaður hersins og þótti afgerandi í afstöðu sinni í því að leita eftir því að hann héldi styrk sínum sem víðast. Hann varð síðar lykilmaður í samningaviðræðum stórveldanna og kom sem slíkur auðvitað með Reagan forseta til Reykjavíkur á leiðtogafund hans og Gorbatsjovs.
Caspar Weinberger varð einn litríkasti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Ferli hans lauk þó snögglega en Íran-Kontra málið veikti mjög stöðu hans og ekki síður forsetans. Weinberger ákvað að segja af sér ráðherraembættinu og boðaði afsögn sína þann 23. nóvember 1987. Weinberger nefndi veikindi eiginkonu sinnar sem ástæðu afsagnarinnar og hann vildi setjast í helgan stein. Það sem eftir lifði seinna kjörtímabils Reagans gegndi Frank C. Carlucci embætti varnarmálaráðherra. Í kjölfar þess að Íran-Kontra málið komst í hámæli blasti við að Weinberger myndi þurfa að svara til saka fyrir að hafa borið ljúgvitni vegna málsins. Til þess kom ekki en George H. W. Bush eftirmaður Reagans á forsetastóli og varaforseti hans, náðaði Weinberger í desember 1992.
Aðeins Robert McNamara hafði gegnt lengur embætti varnarmálaráðherra en Weinberger er hann lét af embætti. Reyndar styttist óðum í að Donald H. Rumsfeld jafni tímalengd hans í embættinu. Seinustu ár ævi sinnar var Caspar Weinberger lítið sýnilegur í umræðunni og hann eyddi efri árunum á heimili sínu í Mount Desert í Maine-fylki.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2006 | 17:26
Illa ígrunduð ályktun

Á stjórnarfundi hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna í síðustu viku var samþykkt ályktun þar sem talað er fyrir aðhaldi í rekstri ríkisins. Þar er t.d. lagt til að hætt verði við stórt verkefni á borð við borun Héðinsfjarðarganga á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Þykir mér þessi ályktun mjög illa ígrunduð og létum ég og Sigurgeir Valsson, sem með mér situr í stjórn SUS af hálfu Varðar, bóka andstöðu okkar við að göngin um Héðinsfjörð skyldu nefnd í þessu samhengi. Þykir mér satt best að segja algjörlega nóg komið af öllu hjali innan Sjálfstæðisflokksins um að skera þá framkvæmd niður. Hef ég stutt þessa framkvæmd af krafti. Sjálfur er ég bæði ættaður frá Siglufirði að hluta, en afi minn var þaðan, og ekki síður tel ég mikilvægt að standa vörð um þessa staði út með firði og tel göngin forsendu sameiningar milli sveitarfélaganna sem samþykkt var nýlega og þess að Siglufjörður sé fyrir það fyrsta hluti af Norðausturkjördæmi.
Héðinsfjarðargöng voru eitt af kosningamálunum í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum árið 2003. Allir flokkar nema Nýtt afl studdu göngin í orði í kosningabaráttunni. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu norður í kosningabaráttunni og lofuðu því að göngin yrðu staðreynd á kjörtímabilinu en þegar að kosningar fóru fram hafði framkvæmdin verið boðin út. Kortéri eftir kosningar guggnaði ríkisstjórnin á þessu og verkefnið var blásið af og hætt við þrátt fyrir útboðið. Það var reiðarslag, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn hér. Sú ákvörðun var enda með öllu óverjandi og með hreinum ólíkindum að menn kæmu fram með þessum hætti. Frægt varð að Guðmundur Skarphéðinsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Siglufirði og nú formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, gekk ásamt fleiri flokksmönnum á Siglufirði á fund Davíðs Oddssonar í Stjórnarráðinu. Fyrir lá að kæmi ekki nýr tímarammi framkvæmda fram myndu allir Siglfirðingar í flokknum ganga úr honum á einu bretti.
Það dugði til þess að menn hlustuðu og menn náðu áfangasigri í málinu þrátt fyrir að menn sviku kosningaloforðin með svo gróflegum hætti. Tímarammi var lagður fram af forsætis-, utanríkis- og samgönguráðherra. Á fundi í Bátahúsinu á Siglufirði þann 19. mars 2005 staðfesti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, planið sem kynnt var tveim árum áður. Nýlega voru göngin boðin út öðru sinni. Þetta er því komið allt rétta leið. Það er því með hreinum ólíkindum að sjá svona ályktun lagða fram. Ég lít svo á að þessi ályktun sé sem blaut vatnstuska framan í okkur hér fyrir norðan sem höfum þurft að horfa upp á grófleg svik lykilkosningaloforðs.
Við hér fyrir norðan stólum nú algjörlega á það að menn í forystusveit stjórnmála, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, séu svo stöndugir að standa við sín stóru orð sem komu fram sumarið 2003 og staðfest voru vorið 2005. Ef svo verður ekki mun verulega hrikta í innstu stoðum stjórnarflokkanna hér á svæðinu. Altént mun ég ekki tala máli þessa flokks hér að ári svíki menn loforðin enn eina ferðina. Nú er komið að því að efndir fylgi för hinum fögru orðum. Því get ég ekki annað en látið undrun mína og reiði í ljós þegar að önnur eins ályktun sést á þeim vettvangi sem ég hef valið mér til stjórnmálastarfa. Ég get ekki annað en lýst furðu yfir innihaldinu.
Pistill minn um málið á Íslendingi
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2006 | 08:36
Norðanátt og aftur norðanátt á Akureyri

Það er mikið vetrarríki núna hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - sennilega er mesta kalsaveður þessa vetrar hér núna, altént er mesti snjórinn í allan vetur hér núna. Fyrir um hálfum mánuði var hér mikill hiti og flestir töldu að vorið væri komið. Það er þó ekki margt sem minnir á vorið á Akureyri þessa dagana. Nú er það bara snjór og vetrarríki sem blasir við okkur. Þvi er ekki að neita að flestir bæjarbúar voru komnir í vorgírinn og því hrökkva menn svolítið til baka við þetta veður. Ég fór í lummukaffi til ömmu í gær og komst þrátt fyrir kalsaveðrið. Reyndar er ekki langt fyrir mig að fara, enda er Kaupangur í göngufjarlægð frá Víðilundi. Þó er það nú svo að ég er ekki beint til í hlaup þessa dagana og því hjálpar veðrið ekki til. Þó er alltaf eitthvað heillandi við snjóinn en þó væri ég vel til í að það vori snemma.
En þetta er mjög gott veður fyrir skíðamenn og þá sem unna vetraríþróttum. Það er enginn vafi á því fyrir okkur hér á Akureyri að snjór kemur sér vel fyrir okkur. Miðstöð vetraríþrótta hér veitir ekki af snjó og fátt er annars skemmtilegra en að skella sér á skíði og renna niður Hlíðarfjallið. Víst er að margir hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla að halda hingað norður yfir páskana, skella sér á skíði og fara í leikhús og njóta hér allra lífsins gæða. Er það svo sannarlega mikið ánægjuefni og við hér fyrir norðan getum verið í senn stolt og glöð með hversu vinsæll ferðamannastaður Akureyri er yfir veturinn. Hér enda margt spennandi fyrir fólk og þetta er góður valkostur fyrir fólk. Framundan eru páskarnir og alkunn er þjóðsagan um páskahretið og því má allt eins búast við meiri snjó.
Nú þegar að ég lít út um gluggann minn á Þórunnarstrætinu á þessum þriðjudagsmorgni sé ég mikinn snjó og það kyngir enn niður snjó. Það er svo sannarlega vetrarríki hér fyrir norðan hjá okkur. Sennilega eru þau sælustu með þetta börnin sem leika sér í snjókarlagerð og fleiru skemmtilegu. Kannski maður skelli sér á skíði bara um páskana. Altént ætla ég mér að eiga notalega og góða páskahátíð og ef marka má stöðuna verður skíðafærið upp í fjalli eðalgott og notaleg stemmning þar.
Saga dagsins
1875 Öskjugos hófst - þetta er talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan að sögur hófust - aska náði allt til Svíþjóðar og áttu afleiðingar öskufallsins mikinn þátt í Ameríkuferðunum.
1909 Safnahúsið við Hverfisgötu formlega vígt - það var þá og er enn eitt glæsilegasta hús landsins.
1977 Leikarinn Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Howard Beale í Network. Það var sögulegt við að Finch hlaut óskarinn að hann lést snögglega nokkrum vikum áður, í janúar 1977. Það kom því í hlut ekkju hans, Elethu, að taka við verðlaununum. Sir Peter er eini leikarinn í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hefur hlotið óskarinn eftir andlát sitt. Finch var einn af svipmestu leikurum Breta og átti stjörnuleik í fjölda mynda og túlkaði marga glæsilega karaktera.
1997 Leikkonan Frances MacDormand hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinni kasóléttu og úrræðagóðu lögreglukonu Marge Gunderson í hinni stórfenglegu úrvalskvikmynd Coen-bræðra Fargo.
2004 Leikarinn Sir Peter Ustinov lést í Sviss, 82 ára að aldri - Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Ustinov er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir túlkun sína á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik sinn í myndunum Spartacus og Topkaki. Seinustu árin vann Ustinov ötullega að mannúðarmálum og var til fjölda ára velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)