Vængbrotinn kosningasigur Kadima í Ísrael

Ehud Olmert

Það fór eins og flesta grunaði. Kadima, hinn nýstofnaði flokkur Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, vann sigur í þingkosningunum í Ísrael í gær. Kadima er nú stærsti flokkurinn á Knesset, ísraelska þinginu, og hefur 28 þingsæti. Kadima var stofnaður í nóvember 2005 utan um áherslur og vinsældir Sharons eftir að hann gekk úr Likud-bandalaginu, sem hann hafði verið í allt frá stofnun árið 1973 og hafði leitt allt frá 1999. Það var síðasta verk Sharons í ísraelskum stjórnmálum að kljúfa Likud. Nokkrum vikum síðar var hann úr leik - hafði fengið alvarlegt heilablóðfall og fallið í dá. Þrem mánuðum síðar er Sharon enn í dái á sjöundu hæð Hadassah-sjúkrahússins en er væntanlega að liggja banaleguna. Enginn trúir því að Sharon nái heilsu að nýju, altént er stjórnmálaferli hans lokið. Í skugga fagnaðarláta stuðningsmanna Kadima hlýtur þeim að verða hugsað til Ariels Sharons - mannsins sem tók áhættuna og stofnaði flokkinn alls óafvitandi hvort áhættan um að sópa upp miðjunni og hógværari armi Likud og steypa í eitt stórt afl myndi heppnast.

Sigur Kadima er staðreynd en engu að síður er þessi sigur súrsætur fyrir forystumenn þessa nýstofnaða flokks. Kadima vann engan veginn eins sannfærandi og sterkan sigur og honum var spáð fyrir í upphafi, áður en Sharon veiktist. Lengst af kosningabaráttunnar hafði Kadima afgerandi stöðu og flestir töldu að hann hlyti rúmlega 40 þingsæti. Seinustu vikuna tók fylgið að dala og undir lokin þótti ljóst að Kadima gæti fallið undir 30 þingmanna múrinn. Niðurstaðan er 28 þingsæti - góður sigur en vissulega ekki sá stórsigur sem menn vonuðust eftir og þurftu eiginlega til að drottna yfir ísraelskum stjórnmálum. Stuðningsmenn Kadima óttuðust á kjördag í raun orðið hið versta. Doði og lífleysi hafði einkennt kosningabaráttu Kadima seinustu dagana. Eins og allir vita er það ekki besta veganestið í kosningabaráttu. Doðinn var vegna þess að fólkið innan Kadima taldi sigurinn svo öruggan að ekki þyrfti fyrir honum að hafa. Undir lokin var brugðið á það ráð að senda út fleiri hundruð þúsunda SMS-skeyta til að fá fólk á kjörstað.

Kjörsókn í ísraelsku þingkosningunum að þessu sinni var sú dræmasta sem sögur fara af. Aðeins rétt rúmlega 60% kjósenda komu á kjörstað og greiddu atkvæði. Það er til marks um áhugaleysi og eiginlega umfram allt vegna þess að fólk taldi sigur Kadima öruggan. En sigur flokksins varð ekki eins sterkur og við blasti lengi. Verkamannaflokkurinn hlaut miklu meira fylgi en búist hafði verið við og var eiginlega hinn óvænti sigurvegari og hlaut 20 þingsæti og er kominn vel á veg við að endurheimta virðingu sína í ísraelskum stjórnmálum en flokkurinn galt afhroð bæði í kosningunum 2001 og enn frekar 2003 þegar að sögulegu lágmarki var náð undir forystu Amram Mitzhna. Shas-flokkurinn, flokkur strangtrúaðra gyðinga af austrænum uppruna, náði 13 mönnum, Israel Beiteinu, flokkur öfga-hægrisinnaðra rússneskra innflytjenda, hlaut 12 og Likud bandalagið 11. Sögulegt áfall Likud vekur athygli en hann (sem verið hefur í fararbroddi í ísraelskum stjórnmálum) varð fyrir þungu áfalli og missti 27 þingsæti.

Enginn vafi er á því að niðurstaða þingkosninganna er þungt högg og verulegt pólitískt áfall fyrir Benjamin Netanyahu leiðtoga Likud og fyrrum forsætisráðherra Ísraels. Það er alveg óhætt að fullyrða það að Likud og Netanyahu eru í rusli eftir þessar kosningar og við Likud blasir ekkert annað en allsherjar uppstokkun og uppbygging. Hvort sú uppbygging verður undir forystu Netanyahus skal ósagt látið en flestir ísraelskir spekúlantar telja feril hans á enda, við blasir enda að hann skiptir nú í raun engu máli í stjórnmálum landsins. Hætt er við að lykilmenn sem tókust á við hann um leiðtogastöðuna eftir brotthvarf Sharons, t.d. Silvan Shalom og David Levy muni sækja að honum. Ef einhver tíðindi eru öðrum fremri en sigur Kadima og Verkamannaflokksins er það án nokkurs vafa að framboð ísraelskra eftirlaunaþega náði 7 mönnum inn á Knesset - aðeins fjórum færri en sjálft Likud-bandalagið. Það er víst óhætt að fullyrða það að fáir nema gamlingjarnir bjuggust við þessum stórsigri.

En nú er Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, með öll tromp á hendi og fær væntanlega stjórnarmyndunarumboð fyrstur allra frá Moshe Katsav forseta Ísraels, enda leiðtogi stærsta flokksins. Olmert fagnaði sigri með glæsilegri ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Tel Aviv í gærkvöldi. Hann talaði til fólksins af sama eldmóði og einkenndi Ariel Sharon og í bakgrunninum var mynd af hinum fjarverandi leiðtoga sem háir nú væntanlega síðustu baráttu lífsins. Greinilegt er að Olmert setur á oddinn mikilvægi þess að ganga frá endanlegum landamærum Ísraels og Palestínu á kjörtímabilinu og opnar á mögulegar friðarviðræður við Palestínumenn. En það blasir við öllum að Hamas er þar þrándur í götu og eru litlar líkur á því að viðræður við þá muni bera árangur nú er þeir hafa í raun tekið við völdum í Palestínu. Athygli vakti í ræðu Olmerts að hann vill innlima nokkrar stórar landtökubyggðir á Vesturbakkanum í Ísrael.

Stjórnarmyndunarviðræður taka nú við í Ísrael. Ljóst er að umboð Kadima er veikbyggt og enginn afgerandi meirihluti við tillögur Ehud Olmert. Hann þarf því að leita samninga við flokka með aðrar lykilskoðanir en hann sjálfur og Kadima. Fréttaskýrendur í Ísrael spá stjórn Kadima og Verkamannaflokksins með minni flokkum en að hún verði væntanlega skammlíf rétt eins og stjórnir Ariels Sharons á síðasta kjörtímabili. Staða mála var mjög stormasöm á því tímabili og gekk oft erfiðlega að ná saman starfhæfri stjórn. Verður fróðlegt að sjá hvernig gengur næstu vikurnar við að koma saman stjórn og hvernig samstarf t.d. Olmerts og Amir Peretz muni ganga ef semst þeirra á milli.

En nú verður það hlutskipti Ehud Olmerts að halda á lofti pólitískri minningu Ariels Sharons og stefnumálum hans eftir þennan súrsæta kosningasigur. Sigurinn er nógu öruggur til að Olmert leiðir ísraelsk stjórnmál næstu árin en umboðið getur veikst komi vandamál upp milli ráðandi flokka. Það verður fróðlegt að fylgjast með ísraelskum stjórnmálum næstu mánuðina.


Andrew Card hættir í Hvíta húsinu

Andrew Card

Andrew Card starfsmannastjóri Hvíta hússins, baðst í gær lausnar frá störfum í Hvíta húsinu eftir að hafa gegnt embættinu í fimm og hálft ár. Hann lætur af embætti á föstudaginn langa, þann 14. apríl nk. Hann ákveður að víkja úr innsta kjarnanum í kjölfar sífellt minnkandi vinsælda forsetans í skoðanakönnunum og umræðu um upplausn í hópi repúblikana í þinginu. Ljóst er að vandræðagangur einkennir repúblikana nú er styttist í þingkosningar og ljóst að æðstu menn í Washington hafa metið það sem svo að stokka hefði þurft upp forystusveitina í starfsmannahaldinu í Hvíta húsinu. Það hefur enda lengi verið í umræðunni að Card og Karl Rove þyrftu að víkja til að reyna að bæta stöðu forsetans. Það hefur blasað við öllum seinustu mánuði að staða forsetans hefur veikst verulega og eiginlega má segja að árið 2005 hafi verið það versta á forsetaferli hans og seinna kjörtímabilið stefni í að verða stormasamt.

Andrew Card hefur allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og hefur verið náinn vinur hans í tvo áratugi. Hann var ennfremur áberandi í forsetatíð bæði Ronald Reagan, 1981-1989, og George H. W. Bush, föður forsetans, sem sat á valdastóli 1989-1993. Card var aðstoðarmaður Reagans og aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins lengst af forsetatíðar Bush eldri. Seinasta ár forsetaferils hans var Card samgönguráðherra Bandaríkjanna. Hann var virkur í viðskiptalífi árin eftir það og þangað til að George W. Bush fór í forsetaframboðið árið 1999 og ráðlagði hann Bush mjög í þeim slag og var honum innan handar í fjölda verkefna. Card var allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og var skipaður til starfans strax í miðjum klíðum átakanna um úrslitin í forsetakosningunum árið 2000 í Flórída-fylki.

Er Andrew Card hlaut þann sess voru deilur fyrir dómstólum í Flórída og hæstarétti í fullum gangi. Svo fór að sigur Bush var staðfestur í desemberbyrjun 2000 eftir langt japl, jaml og fuður og Card tók til við að skipuleggja valdaskiptin af krafti. Hann tók við embætti starfsmannastjórans samhliða valdatöku forsetans og hefur því allan forsetaferilinn verið lykilmaður hans í innri skipulagningu. Hann var allt í öllu á fyrra kjörtímabili forsetans sem var mjög sögulegt. Andrew Card var maðurinn sem gekk til George W. Bush í kennslustofunni í Sarasota í Florída að morgni 11. september og lét hann vita af því að flugvél hefði flogið á annan turn World Trade Center, sem var fyrsta skrefið í einu sorglegasta hryðjuverki seinni tíma. Hann var lykilmaður í liði Bush forseta í því sem tók við eftir þann sögulega dag. Hvort sem það var stríðið í Afganistan og Írak eða kosningabaráttan árið 2004 var hann sannkallaður lykilmaður Bush.

Það er enginn vafi á því að brotthvarf Andrew Card er erfitt fyrir George W. Bush og í raun má segja að þetta sé eitt sterkasta táknið um það að tekið sé að halla undan fæti hjá forsetanum. Það styttist í þingkosningar í Bandaríkjunum og margir repúblikanar á þingi líta á hann sem akkilesarhæl mun frekar en styrkleikatákn. Segja má með vissu að gullaldardagar forsetans séu að baki og erfiðleikatímabil sé framundan. Reyndar eru þingkosningar seinasta kosningabaráttan sem Bush verður eitthvað virkur í. Eins og flestir vita getur hann ekki boðið sig fram að nýju í næstu forsetakosningum sem fram munu fara í nóvember 2008 og því má segja að forsetinn sé sæll með að þurfa ekki að fara sjálfur í aðrar kosningar. Þó er alveg ljóst að Repúblikanaflokkurinn eigi undir högg að sækja og skiptir nú máli fyrir flokkinn að halda völdum í þinginu. Tapist þær kosningar stefnir í enn verra tímabil fyrir forsetann seinustu tvö ár valdaferilsins.

Eftirmaður Andrew Card sem starfsmannastjóri Hvíta hússins verður Joshua Bolten, sem er einn af lykilstarfsmönnum Hvíta hússins. Það verða því litlar sýnilegar breytingar með brotthvarfi Card en þó stokkað verulega upp í starfsmannahaldinu. Og nú er stóra spurningin: mun Karl Rove líka hverfa úr lykilsveit forsetans á næstu mánuðum eða mun hann verða hægri hönd forsetans innan Hvíta hússins til loka kjörtímabilsins í janúar 2009? Þetta er stór spurning og eflaust er hún sú sem flestir áhugamenn um stjórnmál spyrja sig að í Washington DC nú eftir afsögn Andrew Card.


Bubbi vinnur sögulegan sigur í héraðsdómi

Bubbi Morthens

Það er óhætt að segja að sögulegur dómur hafi fallið í gær í héraðsrétti Reykjavíkur. Þá var dæmt í frægu máli Bubba Morthens gegn tímaritinu Hér og nú. Eins og flestir vita birti tímaritið forsíðumynd í blaði sínu í júní sl. með flennifyrirsögninni Bubbi fallinn! Á myndinni sást Bubbi með sígarettu í munnvikinu sitjandi í bíl sínum talandi í farsíma. Bubbi krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar 20 miljónir króna í miskabætur. Svo fór að ummælin voru dæmd dauð og ómerk og var ritstjóri blaðsins á þeim tíma dæmdur til að greiða Bubba 700.000 krónur í miskabætur. Ennfremur er tekið sérstaklega fram í dómnum að myndataka af manni í bifreið sinni sé með öllu óheimil á sama hátt og um væri að ræða myndatöku að heimili hans.

Um er að ræða mikinn tímamótadóm og mjög merkilegt hversu dómurinn er afgerandi í málinu og talar sérstaklega um myndbirtingu gegn vilja viðkomandi. Þetta er enda í senn bæði rothögg og vandræðalegt fyrir bæði Hér og nú og DV og þá stefnu sem þessi rit fara eftir í fjölmiðlun sinni. Í niðurstöðu dómsins segir með afgerandi hætti að Bubbi sé landsþekktur maður og hafi verið í fjölda ára og fólki sé kunnugt um fíkniefnavandamál hans. Fyrirsögnin sé mjög óvarleg í því samhengi og beri varla að skilja hana öðruvísi en að hann sé farinn að neyta fíkniefna að nýju. Tek ég undir þetta mat. Man ég vel þegar að ég sá þetta tiltekna blað í fyrrasumar. Fyrsta hugsun mín og fleiri væri að nú væri Bubbi aftur kominn í dópið. Allavega er ljóst að fyrirsögnin býður heim misskilningi og dómurinn skiljanlegur.

Það er gott að það liggi fyrir dómur sem tekur í vonandi eitt skipti fyrir öll á sorpblaðamennsku blaða á borð við DV og Hér og nú. Bubba Morthens vil ég óska til hamingju með sigur sinn í málinu. Sá sigur er í senn bæði afgerandi og sögulegur.


Fjölgun í fjölskyldunni

Strákur

Þetta er svo sannarlega gleðilegur dagur í fjölskyldunni. Í morgun fæddi systurdóttir mín, Valgerður Sif Hauksdóttir, myndarlegan og stóran strák. Hann var ansi brattur og hress og með mikið dökkt hár. Þetta er í fyrsta skipti í 15 ár sem fæðing á sér stað í nánustu fjölskyldu minni, eða síðan að Lína systir eignaðist Samma í desember 1991. Það er því kominn tími til að fjölskyldan okkar stækki.

En já, þetta eru aldeilis gleðileg tímamót. Hanna mín orðin amma, rétt um fertugt, og svo eru auðvitað með þessu pabbi og mamma orðin langafi og langamma. Hanna Stefánsdóttir amma mín, er með þessu orðin langalangamma 85 ára gömul og eru því ættliðirnir hjá okkur orðnir heilir fimm. Tíminn líður svo sannarlega hratt - gleðin hjá okkur er mjög mikil svo sannarlega. Þetta er mjög góður og gleðilegur dagur fyrir Hönnu mína og þau Völu og Þóri.

Saga dagsins
1947 Heklugos hófst - þá voru 102 ár liðin frá því að gosið hafði í Heklu. Gosið var mjög kraftmikið og náði gosmökkurinn upp í 30 þúsund metra hæð og aska barst allt til Bretlands. Gosið stóð í rúmlega ár.
1961 Lög um launajöfnuð kvenna og karla samþykkt á þingi - lögin mörkuðu mikil tímamót í jafnréttisbaráttu hérlendis.
1982 Leikararnir Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hjónunum Norman og Ethel Thayer í myndinni On Golden Pond. Þetta var síðasta hlutverk Fonda í kvikmynd á löngum og glæsilegum leikferli og hans einu óskarsverðlaun. Hann lést í ágúst 1982. Hepburn var svipmesta og glæsilegasta kvikmyndaleikkona 20. aldarinnar og lék í miklum fjölda úrvalsmynda á ferli sem spannaði sex áratugi. Hún hlaut fjórum sinnum óskarsverðlaun, oftar en nokkur annar til þessa og var tilnefnd alls 12 sinnum til verðlaunanna. Hepburn vann áður óskarinn 1933 fyrir Morning Glory, 1967 fyrir Guess Who's Coming to Dinner og 1968 fyrir The Lion in Winter. Hún hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1987. Kate Hepburn lést í júní 2003.
1988 Leikarinn Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Raymond Babbitt, einhverfum manni, í kvikmyndinni Rain Man - Hoffman hlaut óskarinn níu árum áður fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer. Hoffman er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið lof kvikmyndaunnenda.
1993 Heimir Steinsson útvarpsstjóri, segir Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu upp störfum - nokkrum dögum síðar var Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Sjónvarps af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra. Leiddi til átaka innan Ríkisútvarpsins í garð stjórnvalda. Hrafn leysti af Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóra, í ársleyfi hans og lét svo af störfum hjá RÚV.

Snjallyrðið
A dream we dream alone is only a dream. But a dream we dream together is reality.
Yoko Ono tónlistarmaður (1933)


Bloggfærslur 29. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband