Tony Blair veikist sífellt í valdasessi

Tony Blair

Það sígur sífellt meir á ógæfuhliðina hjá Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins. Það er alveg ljóst að tal hans fyrir þingkosningarnar í fyrra um að hætta á kjörtímabilinu hefur leitt til þess að ekki er talað um neitt annað nú en það hvenær hann einmitt muni hætta. Þó að Blair fari út fyrir landsteinana í opinbera heimsókn til Ástralíu losnar hann ekki við vangavelturnar. Enda viðurkenndi hann nýlega í viðtali að það hefðu verið mistök hjá sér að segjast ætla að hætta á kjörtímabilinu og fara ekki í næstu þingkosningar. Það tal hefur leitt af sér að menn velta vöngum yfir tímasetningu. Eins og ég sagði um daginn hafa vinsældir forsætisráðherrans dvínað verulega frá þingkosningum og hefur náð sögulegu lágmarki. Það verður æ greinilegra að það styttist í endalok valdaferil Blairs sem leitt hefur Verkamannaflokkinn í tólf ár og verið forsætisráðherra í níu ár.

Vinsældir Blairs halda áfram að minnka í kjölfar lánahneykslisins margfræga sem gekk yfir í mánuðinum. Innan flokksins heyrast nú æ háværari raddir um að Blair eigi að fara sem fyrst og hleypa fjármálaráðherranum Gordon Brown að völdum. Ekkert nema það geti bjargað flokknum úr öldudalnum. Í tjáði dyggur flokksmaður sig með þeim hætti að mæti Blair flokk sinn og arfleifð einhvers ætti hann að fara að huga að brottför eða allavega slá á umtalið með því að nefna tímasetningu brottfarar úr embættinu. Þangað til að hann gerði það myndi ekki verða um annað talað en hvenær hann færi og flokkurinn gæti ekki þolað meiri fjölmiðlapressu vegna forsætisráðherrans. Það er greinilegt að Blair á verulega í vök að verjast og þó að hann haldi út fyrir landsteinana eltir þetta mál hann á röndum og vont virðist aðeins verða verra fyrir hann. Enginn telur að Blair fari fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi í maíbyrjun en menn telja við flestu að búast eftir þær.

Mitt í kosningaslagnum er ekki talað um neitt nema forsætisráðherrann og hvenær valdaskiptin verði í Verkamannaflokknum. Það er ljóst að kosningarnar verða prófsteinn á Blair og forystu hans eftir mikið umbrotatímabil á ferli hans seinustu vikur og mánuði. Í dag tjáði einn af hinum frægu baksveitarþingmönnum sem þrengt hafa að forsætisráðherranum eftir þingkosningarnar þá skoðun sína að biðin sé orðin óþolandi og skemmandi fyrir flokkskjarnann. Greinilegt er að mikill öldugangur er innan flokksins sem virðist aðeins versna. Tony Blair hefur ríkt lengi sem sterkur og afgerandi leiðtogi í breskum stjórnmálum. Það er alveg ljóst að þeir dagar eru liðnir og meira að segja flokksfélagar hans ýta á eftir tímasetningu brotthvarfs hans úr stjórnmálum - hvenær hann fari og Brown fái að taka við.

Já, það er svo sannarlega af sem áður var hjá Tony Blair og spunameisturum hans. Þeir geta með engu móti stjórnað umræðunni núna, ólíkt því sem lengst af var. Líkurnar á að Blair fari úr Downingstræti 10 fyrir árslok verða sífellt meira afgerandi.


Litli frændi

Litli frændi

Jæja, ég varð ömmubróðir í vikunni, eins fyndið og það hljómar. Ég er eiginlega enn að venjast titlinum. Enn fyndnara finnst mér að Hanna systir sé orðin amma. Þetta er mjög merkilegt. En ég set hér mynd af litla sólargeislanum þeirra Völu frænku og Þóris. Þetta er stór og flottur strákur, glæsileg viðbót í fjölskylduna okkar. Þessi litli strákur verður mikill sólargeisli í hópinn okkar.

Saga dagsins
1863 Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri og varð með því fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi - konur hlutu almennan kjörrétt með formlegum hætti loks árið 1915.
1909 Björn Jónsson tók við embætti ráðherra af Hannesi Hafstein - Björn sat á ráðherrastóli í tvö ár.
1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist um 205 sentimetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli hérlendis.
1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins - hann tók við formennsku af Ólafi Jóhannessyni. Steingrímur var dómsmála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, var forsætisráðherra 1983-1987 og svo aftur 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Steingrímur lét af formennsku flokksins árið 1994 og varð seðlabankastjóri og gegndi þeim störfum allt til 1998. Ævisaga hans kom út í þrem bindum 1998-2000.
1981 Leikarinn Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull - De Niro hlaut óskarinn sex árum áður fyrir glæsilega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather, Part II. De Niro er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað allmikinn fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið hrós kvikmyndaunnenda.

Snjallyrðið
Humor is mankind's greatest blessing.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)


Bloggfærslur 31. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband