5.3.2006 | 19:46
Sunnudagspistill - 5. mars 2006

Tvö mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Árni Magnússon er á útleið úr stjórnmálum. Hann víkur úr pólitísku starfi eftir þriggja ára veru í félagsmálaráðuneytinu og jafnlangan tíma sem þingmaður Reykvíkinga og heldur til starfa í Íslandsbanka. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, tilkynnti um ákvörðunina og augljóst á honum að hann sér eftir Árna úr forystunni, rétt eins og Finni Ingólfssyni á sínum tíma. Tekur Jón Kristjánsson sæti Árna og Siv Friðleifsdóttir verður heilbrigðisráðherra í stað Jóns. Spái ég í það hvort að þessi tímamót boði það að yngra forystufólk sjái frekar hag í vellaunuðum toppstöðum en hita og þunga stjórnmálanna. Fyrst og fremst veikist þó staða Framsóknarflokksins við þessi tíðindi.
- Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er hafin. Framboðslisti flokksins var samþykktur á fjölmennum fundi í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Kaupangi á fimmtudag. Tel ég þetta sterkan og öflugan lista og fer ég yfir hlut ungliða í kjölfar prófkjörsins 11. febrúar sl. og viðbrögð mín og fleiri við þeim úrslitum. Fer ég yfir þá ákvörðun að taka ekki sæti á listanum og ennfremur að ég muni halda áfram í pólitísku starfi flokksins hér á Akureyri af krafti. Var ég ráðinn til starfa að kosningabaráttu flokksins í vikunni og hef þar störf bráðlega. Líst mér vel á kosningabaráttuna framundan!
Saga dagsins
1865 Möðruvallakirkja í Hörgárdal í Eyjafirði brann. Arngrímur lærði Gíslason listmálari, gerði mynd af brunanum og er sú sögulega mynd talin vera fyrsta teiknaða atburðamyndin er gerð er af Íslendingi.
1936 Bette Davis hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Dangerous - Davis var ein af svipmestu leikkonum síns tíma og lék í mörgum ógleymanlegum myndum - Bette hlaut svo verðlaunin aftur tveim árum síðar. Hún lést árið 1989.
1953 Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, deyr af völdum heilablóðfalls. Hann var þá 73 ára að aldri og hafði ríkt í Sovétríkjunum sem leiðtogi flokksins frá 1922 og landsins allt frá dauða Lenin árið 1924.
1974 Yom Kippur-stríðinu lýkur með brottflutningi ísraelshers frá Vesturbakkanum við Súez-skurð.
1997 Þýska flutningaskipið Vikartindur strandaði í vonskuveðri í Háfsfjöru, austan við Þjórsárós. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði 19 manna áhöfn skipsins. Varðskipsmaður fórst við björgunaraðgerðir.
Snjallyrðið
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2006 | 17:55
Árni Magnússon hættir í stjórnmálum

Á blaðamannafundi í Alþingishúsinu kl. 17:15 í dag tilkynnti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þá ákvörðun Árna Magnússonar félagsmálaráðherra, um að hætta afskiptum af stjórnmálum og víkja af hinu pólitíska sviði. Hefur hann verið ráðinn til starfa í Íslandsbanka og mun hefja þar störf innan skamms og víkja samhliða því af þingi. Í kjölfar þess var tilkynnt að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, tæki við félagsmálaráðuneytinu og að Siv Friðleifsdóttir tæki við heilbrigðisráðuneytinu af Jóni. Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður, er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, en vegna náms hans í Skotlandi mun Sæunn Stefánsdóttir taka sæti Árna á þingi fyrst um sinn eða þar til að Guðjón Ólafur kemur aftur til landsins.
Það er vægt til orða tekið að brotthvarf Árna Magnússonar boði mikil tímamót. Til fjölda ára hefur verið litið á hann sem nánasta trúnaðarmann Halldórs Ásgrímssonar í stjórnmálum og einn af helstu forystumönnum flokksins og krónprins Halldórs á formannsstóli í Framsóknarflokknum. Árni Magnússon sagðist á blaðamannafundinum að ákvörðunin hefði tekið sig sjálf að mörgu leyti. Hann hefði verið búinn að missa áhugann á stjórnmálum og tekið ákvörðun með sjálfum sér um það að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum á næsta ári og fara til annarra verkefna. Honum hefði boðist freistandi staða hjá Íslandsbanka og ákveðið að taka henni og víkja fyrr en ella hefði orðið úr stjórnmálum. Það lá í loftinu lengi vel í dag að uppstokkun væri framundan í ríkisstjórninni og að hún væri innan Framsóknarflokksins.
Flestir spámenn töldu þó líklegast að þar væri verið að boða brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Hann hefur enda setið í ríkisstjórn í fimm ár og verið þingmaður frá árinu 1984. Mörgum fannst líklegast að hann væri að hætta. Það að Árni boði brotthvarf sitt úr stjórnmálum kom flestum verulega á óvart og greinilegt var á svipbrigðum Halldórs Ásgrímssonar að honum þykja breytingarnar miður, enda Árni lengi unnið mjög náið með honum. Það er hinsvegar merkilegt að forystumaður sem lengi hefur verið talinn krónprins síns flokks hætti í pólitík og fari til verka í viðskiptageiranum. Kannski er það eitt merki þess að yngra forystufólk vill frekar vinna að öðru en stjórnmálum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)