Siv tekur sæti í ríkisstjórn að nýju

Siv Friðleifsdóttir

Stærstu pólitísku tíðindi ársins það sem af er hljóta auðvitað að teljast frétt helgarinnar: brotthvarf Árna Magnússonar úr stjórnmálum. Það leikur enginn vafi á því að fólk varð undrandi á því að hrókeringarnar í ríkisstjórninni skyldu vera vegna þess að Árni hefði ákveðið að hætta en ekki Jón Kristjánsson eins og talað var um meðan mesta óvissan var í gær. Þessar hrókeringar leiða auðvitað til athyglisverðra breytinga eins og fyrr hefur verið sagt frá hér. Mestu tíðindin eru auðvitað þau að með brotthvarfi Árna losnar ráðherrastóll fyrir Siv Friðleifsdóttur. Siv er þó auðvitað enginn nýliði í ríkisstjórn, enda var hún umhverfisráðherra á árunum 1999-2004 og hefur setið á þingi frá 1995.

Það þótti mörgum mikil tíðindi þegar að Siv missti ráðherrastól sinn haustið 2004 til að rýma til fyrir forsætisráðherrastóli Halldórs Ásgrímssonar. Þá fór umhverfisráðuneytið yfir til Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Anna Þórðardóttir leysti Siv af. Siv stóð eftir sem óbreyttur þingmaður, þó hún væri leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins. Hún naut þess ekki að vera úr kraganum og með flest atkvæði þingmanna flokksins á höfuðborgarsvæðinu á bakvið sig, merkilegt nokk fleiri en forsætisráðherrann og formaður flokksins. Það var auðvitað með ólíkindum að Siv sem verið hafði ráðherra samfellt í fimm ár væri sett út en ekki Árni sem hafði þá aðeins verið ráðherra í rúmt ár.

Siv kemur nú aftur af krafti og tekur sæti Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu en hann fer í staðinn í stól Árna í félagsmálaráðuneytinu. Siv getur allavega ekki kvartað yfir að vera verkefnalaus næstu 14 mánuðina - fram til þingkosninga í maí 2007. Hún tekur við stærsta ráðuneytinu - því erfiðasta að margra mati. Þar bíða mörg verkefni og endalausar áskoranir fyrir ferskan stjórnmálamann. Siv hefur alltaf verið öflugur stjórnmálamaður að mínu mati. Hún hefur öflugan og ferskan vef - hún hefur að mínu mati alltaf verið í takt við nútímann í pólitík og uppfært sig eftir þörfum nútímastjórnmála. Þó að Siv sé andstæðingur minn í stjórnmálum hef ég lengi virt hana og verk hennar - hún er í pólitík af ástríðu.

Jón Kristjánsson skiptir um ráðuneyti greinilega mjög þreytulegur og mæddur á svip. Það er ekki óeðlilegt að hann sé alsæll að skipta um ráðuneyti og verkefni. Það hefur sést vel á honum seinustu vikur að hann hefur fengið nóg af heilbrigðismálunum. Reyndar verður fróðlegt að sjá hvort að Jón fer aftur fram í kosningum að ári. Sögusagnir hér í Norðausturkjördæmi herma að Jón ætli sér að hætta að ári og setjast í helgan stein austur á Egilsstöðum, enda orðinn þá 65 ára og getur tekið því rólega á góðum eftirlaunum, eftir að hafa verið ráðherra í sex ár. Jón hefur verið lengi í stjórnmálum, setið á þingi frá 1984 og verið ráðherra frá 2001. Það kæmi fáum á óvart þó að hann myndi hætta.

Mörgum að óvörum hefur það nú gerst að Árni Magnússon hefur rýmt til fyrir Siv Friðleifsdóttur. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ári þegar að deilur risu sem hæst í Kópavogi milli nánustu stuðningsmanna þeirra innan flokksins og voru greinileg átök milli þeirra um virðingarsess. Siv fór særð úr ríkisstjórn og ekki sátt við sinn hlut og hefur frá haustinu 2004 ekki hikað við að fara eigin leiðir og verið spör á allt lofshjal um forystu flokksins og setið til hliðar og sinnt skyldum sem ritari flokksins og umsjónarmaður innra starfsins í flokksapparatinu. Halldór tekur hana nú aftur inn í stjórn og er greinilega að reyna að lægja öldur í flokknum eftir langar væringar sem hafa skaðað hann verulega.

Það væri synd að segja að Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar sé flokkur sem sé í sæluvímu í íslenskum stjórnmálum. Það eina og hálfa ár sem Halldór hefur verið í forsæti ríkisstjórnar hefur flest aflaga farið sem mögulega hefur getað farið svo. Eftir stendur Halldór með flokk í pilsnermælingu og veit vart sitt rjúkandi ráð. Ofan á allt annað er krónprinsinn farinn af fleyinu og hann berst á hæl og hnakka við óánægða liðsmenn innan þingflokksins. Það dylst engum að forsætisráðherraferillinn hefur ekki verið nein sæla fyrir Halldór - altént ekki sú sæla sem að var stefnt væntanlega vorið 2003, er samið var um skiptingu ráðuneyta með þeim hætti sem nú er.

Siv Friðleifsdóttir tekur að nýju sæti í ríkisstjórn forsætisráðherra og formanns flokks sem virðist á hverfanda hveli í íslenskum stjórnmálum. Að óbreyttu mun Framsóknarflokkurinn vart verða annað en sem hver annar hornkarl í íslenskri pólitík eftir þingkosningarnar 2007. Halldór er að reyna með því að upphefja Siv að snúa vörn í sókn og sækja á ný mið í kjölfar þess. Þetta blasir við. Það er alveg ljóst að Halldór Ásgrímsson ætlar fram að ári og hefur þegar reynt að koma sér í rétta gírinn fyrir kosningarnar. En kannski ráðast örlög Framsóknar að miklu leyti af því hvernig aðstoðarmanni hans gengur með flokkinn í borgarmálunum í vor. Nái flokkurinn ekki sæti í borgarstjórn mun flokkurinn ganga í gegnum mikla kreppu.

Og þá er ekki víst að upphefð Sivjar gagnist Halldóri. Altént er ljóst að brotthvarf Árna veikir Framsóknarflokkinn, því þar sér flokkurinn að baki krónprinsinum hans Halldórs, manni sem hefur bæði misst áhugann á stjórnmálum og framavonum á þeim vettvangi. En hver verða örlög Framsóknarflokksins? Þessi níræði flokkur virðist vera í miklum erfiðleikum og það sjá allir sem pólitískt nef hafa að ekki er Halldór að græða mikið á forsæti sínu og forystu í stjórnmálaumræðunni. Þvert á móti - hann dalar sífellt. Það er ekki nema von að flótti sé kominn á lykilmennina hans Halldórs nú þegar styttist í tvennar kosningar og flokkurinn á hverfanda hveli.

Er annars ekki miklu betra að vera flottur maður í risastórum banka á alþjóðavísu og með himinhá laun heldur en að vera ráðherra í sífellt vaxandi erfiðleikum innan minnkandi stjórnmálaflokks þegar að svo er komið sögu. Jú, sennilega er það miklu meira freistandi þegar litið er á þessa valkosti sem blöstu við félagsmálaráðherranum fráfarandi.

Saga dagsins
1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða, skammt út af Reykjanesi, og stóð það í rúma 2 mánuði.
1873 Ofsaveður gerði við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi þá farist.
1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar - togarinn var keyptur frá Skotlandi
1983 CDU (kristilegir demókratar) vinna sigur í þýsku þingkosningunum - Helmut Kohl sat áfram á kanslarastólnum, en hann hafði tekið við embættinu ári áður - Kohl var kanslari samfellt í 16 ár, eða allt til ársins 1998, er flokkurinn beið þá ósigur í þingkosningum. Kohl sat lengst í embættinu á 20. öld.
1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það var mesta frost sem hafði mælst hérlendis í 80 ár.

Snjallyrðið
To wear your heart on your sleeve isn't a very good plan; you should wear it inside, where it functions best.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Óskarsverðlaunin 2006

Óskarinn 2006

Eins og venjulega var skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum þegar Óskarsverðlaunin voru afhent í Los Angeles nú í nótt í 78. skiptið. Crash hlaut mörgum að óvörum óskarsverðlaunin sem besta kvikmynd ársins 2005 og hlaut tvenn önnur verðlaun á meðan að hinn taíwanski Ang Lee vann leikstjóraóskarinn fyrstur asískra leikstjóra fyrir Brokeback Mountain sem hlaut þrenna óskara en tapaði óvænt kapphlaupinu um bestu myndina. Ég ætla nú að fara yfir helstu flokkana og tjá mig örlítið um úrslitin.

Crash

Kvikmynd ársins
Fyrirfram þótti mér ljóst að slagurinn í þessum flokki yrði á milli úrvalsmyndanna Brokeback Mountain og Crash. Í spá minni hér á vefnum á laugardag spáði ég Brokeback Mountain sigri. Það gerðu reyndar flestir kvikmyndaáhugamenn beggja megin við Atlantshafið. Það urðu því margir sem göptu af undrun þegar að Jack Nicholson tilkynnti að Crash hefði orðið fyrir valinu og hlotið aðalverðlaun kvöldsins. Ég verð að viðurkenna að ég taldi að akademían myndi láta fordómana lönd og leið og verðlauna Brokeback Mountain sem var án nokkurs vafa besta myndin í flokknum. En svona er þetta. Crash er mjög öflug og góð mynd. Hún er með mjög kraftmikilli fyllingu í söguþræði og lítur mjög vel út. Margir misstu af Crash þegar að hún gekk hér fyrir tæpu ári, enda fáum órað fyrir að hún hlyti óskarinn. Þetta er mynd sem skilur mikið eftir sig - allir að sjá hana núna!

Ang Lee

Leikstjóri
Taíwaninn Ang Lee hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Brokeback Mountain. Þótti mörgum sigur hans benda til þess að akademían ætlaði að fara alla leið og verðlaunina myndina sem hina bestu. Það fór ekki svo. Þetta er ekki ósvipuð stemmning og 1998 þegar að Spielberg tók verðlaunin en svo tapaði Saving Private Ryan kapphlaupinu um bestu mynd. Sennilega hefur akademían ekki viljað fara alla leið að þessu sinni og verðlauna mynd sem tekur á ást samkynhneigðra manna. En með þessu kemst Lee í sögubækurnar, enda fyrsti asíski leikstjórinn sem vinnur verðlaunin. Ekki einu sinni Akira Kurosawa náði að vinna þann gyllta á sínum ferli. Lee hlaut nærri því verðlaunin árið 2001 fyrir hina glæsilegu Crouching Tiger, Hidden Dragon - tilþrifamikla bardagamynd með fallegum landslagsmyndum og heillandi leik. En nú fór Lee loksins heim með styttuna og átti hana svo sannarlega skilið.

Philip Seymour Hoffman

Leikari í aðalhlutverki
Philip Seymour Hoffman hlaut mjög verðskuldað óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á Truman Capote, einum eftirminnilegasta rithöfundi Bandaríkjanna á 20. öld. Hoffman náði slíkum tökum á karakternum að annað eins hefur varla sést. Hann náði meira að segja kostulegum talanda og framkomu Capotes svo vel að þeir sem þekktu rithöfundinn héldu vart vatni yfir hrifningu á meistaraleik hans. Hann varð Capote í túlkun sinni, náði svipbrigðum hans og töktum með glæsibrag og vann mikinn leiksigur og hlaut loksins uppreisn æru sem leikari. Ég hef lengi virt Hoffman mikils sem leikara og fagna því mjög að hann hafi hlotið gyllta karlinn.

Reese Witherspoon

Leikkona í aðalhlutverki
Reese Witherspoon hlaut óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á June Carter Cash, eiginkonu country-goðsins Johnny Cash, í kvikmyndinni Walk the Line, sem segir sögu þeirra í rúm tíu ár, frá þeirra fyrstu kynnum þar til að þau giftast undir lok sjöunda áratugarins. Reese vann sannkallaðan leiksigur í hlutverki kjarnakonunnar June og vann í leiðinni hug og hjörtu kvikmyndaunnenda fyrir ógleymanlega túlkun sína. Reese hefur löngum verið þekkt fyrir túlkun á fáfróðum ljóskum með attitude en sannaði með klassaleik að hún á erindi meðal þeirra bestu í Hollywood í dag og kom, sá og sigraði á óskarsverðlaunahátíðinni þetta árið. Glæsileg leikkona sem hefur sannað sig svo um munar og verðskuldaði sigur í þessum flokki.

George Clooney

Leikari í aukahlutverki
George Clooney hlaut ekki leikstjóraóskarinn en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Syriana eins og ég hafði spáð. Mér fannst þessi pólitíska fléttumynd gjörsamlega frábær og Clooney sýndi og sannaði fyrir mér í eitt skipti fyrir öll með túlkun sinni að hann er ekki bara sætt andlit, heldur leikari með fjölhæfa túlkun og öflugur í karakterleik. Eftir stendur ógleymanlegur karakter í öflugri mynd sem ég mæli hiklaust með. Clooney hefur fyrir margt löngu sannað að hann er bæði tilþrifamikill leikari og hæfileikaríkur - ekki síðri sem leikstjóri þó. Hann átti sigurinn svo sannarlega skilið, þó að mér þætti í hjartanu að Gyllenhaal hefði átt að vinna.

Rachel Weisz

Leikkona í aukahlutverki
Rachel Weisz hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á aktívistanum Tessu Quayle í kvikmyndinni The Constant Gardener. Ég fór lofsamlegum orðum um leik hennar eftir að sá myndina og endurtók þau orð í spá minni um verðlaunin um helgina. Hún átti svo sannarlega skilið að vinna þessi verðlaun, enda mjög svipmikil í hlutverkinu og í raun hjarta og sál myndarinnar. Við sjáum strax í byrjun hver örlög Tessu verða en sagan um karakterinn kemur svo smá saman fram þegar að líða tekur á myndina. Rachel heillaði mig með litríkum leik og ég var sæll með það að hún skyldi hljóta hnossið fyrir sitt góða verk. Hvet eiginlega alla til að sjá þessa mynd og njóta hennar - algjört konfekt fyrir kvikmyndaáhugamenn. Mynd með mikilli fyllingu sem skilur mikið eftir sig.


Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá klippur með ógleymanlegum kvikmyndum í sögu kvikmyndalistarinnar og heyra fallega og notalega kvikmyndatónlist. Tónlist í kvikmyndum er jú stór hluti þeirrar upplifunar sem fylgir því að sjá kvikmynd. Kvikmynd með góðu handriti en lélegum gæðum eða jafnvel tónlist rýrist fljótt í huganum. Til að kvikmynd verði ógleymanleg og áhugaverð í huganum þarf hún að hafa breiða skírskotun og hafa margt fram að færa. Það er svo sannarlega fátt sem jafnast á við það að horfa á góðar klippur ógleymanlegra mynda og heyra öll flottu stefin sem sett hafa svip á þessar myndir. Svo var óneitanlega hjartnæmt, eins og ávallt að sjá þegar að látinna listamanna var minnst. Meðal þeirra sem kvöddu á árinu voru snillingar á borð við Anne Bancroft, John Mills, Teresa Wright og Shelley Winters.

Jon Stewart kynnti óskarinn að þessu sinni. Fannst mér honum takast bara mjög vel upp og vera með góða og hressilega brandara. Hló mjög af upphafsatriðinu hans, en margir alveg óborganlegir brandarar hittu þrælbeint í mark. Jon stóð sig semsagt vel fyrsta sinnið en náði engan veginn að toppa snillinga á borð við Billy Crystal og Steve Martin, sem hafa stjórnað með bravúr seinustu árin. Mörg smærri verðlaun vöktu athygli, enda er verið að verðlauna allan geirann í kvikmyndagerð. S-Afríska kvikmyndin Tsotsi eftir Gavin Hood var valin besta erlenda kvikmynd ársins. Rapplagið It's Hard Out Here For a Pimp úr Hustle & Flow var valið besta lagið - er þetta í annað skiptið sem rapplag vinnur óskarinn en Eminem vann fyrir Lose Yourself úr 8 Mile fyrir þrem árum. Tónlistin úr Brokeback Mountain eftir Gustavo Santaolalla var valin sú besta - átti það skilið enda mjög hrífandi og vel flutt.

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Robert Altman hlaut heiðursverðlaun á hátíðinni fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar. Altman hefur leikstýrt mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndum sögunnar, en aldrei hlotið leikstjóraóskar eða viðurkenningu fyrir bandarísku akademíunni fyrir verk sín. Var því kominn tími til að heiðra þennan fræga leikstjóra. Hann hefur fimm sinnum hlotið tilnefningu: fyrir MASH, Nashville, The Player, Short Cuts og Gosford Park. Var hann hylltur er hann tók við verðlaunum sínum og stóðu allir úr sætum og heiðruðu þennan fræga kvikmyndagerðarmann. Ræða hans var hjartnæm og hæfði þessu góða tilefni að mínu mati - Altman sló þarna algjörlega í gegn. Best af öllu fannst mér þegar að hann minntist á það að hann hefði farið í hjartaígræðslu fyrir ári og væri með hjarta þrítugrar konu og hann ætti því mörg herrans árin eftir enn - væri ekki hættur þó að sá gyllti væri loks kominn!

Paul Haggis og Robert Moresco hlutu óskarinn fyrir frumsamið kvikmyndahandrit fyrir kvikmyndina Crash, sem var sigurvegari kvöldsins eins og fyrr segir. Svipmikil og stórfengleg kvikmynd sem hitti beint í mark og allir verða að sjá sem misst hafa af. Flott handrit ásamt góðum leik er aðall þessarar flottu myndar. Larry McMurtry og Diana Ossana hlutu óskarinn fyrir besta handrit byggt á áður birtu efni, fyrir Brokeback Mountain sem er byggð á sögu Annie Proulx. Breska teiknimyndin Wallace & Gromit hlaut eins og flestir höfðu búist við óskarinn sem besta teiknimyndin. King Kong og Memoirs of a Geisha urðu sigursæl og hlutu þrenn verðlaun. Dion Beebe fékk óskarinn fyrir kvikmyndatökuna í Memoirs of a Geisha. Því miður hlaut íslenska stuttmyndin Síðasti bærinn ekki verðlaunin og missti þau til írsku stuttmyndarinnar Six Shooter.

En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst. Það fengu Ang Lee og aðstandendur Brokeback Mountain að reyna þetta árið rétt eins og meistari Martin Scorsese í fyrra, þegar að verðlaun sem flestir töldu örugg í höfn fóru svo á allt annað stað. En þótt verðlaunaafhendingin hafi verið bragðdaufari þetta árið náðu þau þó að koma á óvart og voru alls ekki fyrirsjáanleg - enda voru flestir gapandi hissa og vissu varla hvað átti að gera þegar að Crash hlaut aðalverðlaun kvöldsins. En þessi hátíð er að mínu mati alltaf jafn skemmileg - þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!


Bloggfærslur 6. mars 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband