9.3.2006 | 22:48
Umsögn um steingeitina

Fékk ég í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Ég hef löngum verið mikill áhugamaður um stjörnuspár og að kynnast merkilegum hlutum. Um daginn sagði ég frá merkilegri stjörnuspá sem ég fékk senda. Það er því svo sannarlega viðeigandi að birta textann í þessari stjörnuspá þar sem steingeitinni er lýst.
Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan og jafnframt telja lýsa mér allvel): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni.
Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni."
Svo mörg voru þau orð. Þegar að ég las þetta fyrst fannst mér eins og ég liti í spegil. Spurning hvað öðrum finnst, en mér grunar að flestir séu mér sammála. En já það er gaman af svona pælingum og að stúdera í svona efnum. Allavega get ég ekki sagt að þessi stjörnuspá lýsi ólíkum karakter og þeim sem undirritaður býr yfir.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2006 | 11:28
Húsfreyjan á Lómatjörn alveg úti á túni

Valgerður Sverrisdóttir varð viðskiptaráðherra á gamlársdag 1999. Hún var þá enginn nýgræðingur á sviði stjórnmála, hafði enda setið á þingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra í tólf ár, allt frá árinu 1987. Hún varð leiðtogi Framsóknarflokksins í NE í kosningunum 1999 og leiddi hann svo í hinu nýja Norðausturkjördæmi árið 2003. Valgerður hefur því setið á þingi í 19 ár og verið ráðherra í rúm sex ár og stefnir í að verða þaulsetnasti viðskiptaráðherra landsins sitji hún kjörtímabilið á enda. Hún hefur verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis á þessu fyrsta kjörtímabili í hinu stóra kjördæmi og verið umdeild hér á tímabilinu, þó að Framsókn hafi unnið sigur í seinustu kosningum og náð fjórum af tíu þingmönnum kjördæmisins þá. Ástæða þess að Valgerður varð viðskiptaráðherra hafði þó ekkert með það að gera að hún væri sérfræðingur í málefnum viðskipta eða iðnaðar - heldur betur fjarri því.
Valgerður varð viðskiptaráðherra vegna þess að hún var á ráðherrabiðlista Framsóknar eftir kosningarnar 1999. Eins og eflaust flestir muna átti upphaflega að setja Pál Pétursson út úr ráðherraliði flokksins eftir þær kosningar en hann vildi ekki fara og samið um að hann færi á miðju tímabilinu. Samkomulag tókst um að Siv yrði umhverfisráðherra en að Valgerður, sem þá var formaður þingflokksins, biði eftir að Páll hætti, væntanlega á árinu 2000 og yrði þá félagsmálaráðherra. Svo fór, mörgum að óvörum, að viðskiptaráðherrann Finnur, sem talinn hafði verið krónprins Halldórs úr flokknum hætti í pólitík og fór í Seðlabankan. Niðurstaðan: Valgerður tók við ráðuneytum hans. Margir hafa oft furðað sig á því að Valgerður sé ráðherra í þessum ráðuneytum. Sé litið yfir feril Valgerðar er enda fátt sem fær fólk til að verða fullvíst um að hún hafi sérfræðiþekkingu á málaflokknum. Enda eitthvað allt annað sem réði því að hún fór þangað.
Valgerður hefur frá árinu 1974 verið bóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi, er faðir hennar hætti þar búskap. Sé litið yfir feril hennar má greinilega sjá að hún er sannkölluð kjarnakona og afrekað mjög miklu. Það má líka segja með sanni að Valla hefur verið ákveðin og sótt fram af krafti á sínum ferli og unnið sig upp í flokksstarfinu. Hún er ekki þæg slæðukona sem hefur verið hafin upp til skýjanna á þann stall sem hún er á. Hún hefur verið lengi í pólitík og unnið sig markvisst upp, eins og allir sjá sem kynna sér verk hennar. En hinsvegar gerist það oft að hinn almenni áhugamaður um stjórnmál verður hugsi yfir því sem Valgerður gerir og segir sem ráðherra málaflokkanna sem hún sinnir. Gott dæmi þótti mér vera tíðindi gærdagsins. Valgerður ritaði í gær pistil á vef sinn þar sem að hún veltir því fyrir sér hvort að Ísland gæti tekið upp evruna og gengið í myntbandalag Evrópu, án þess að ganga í Evrópusambandið. Segir hún það mögulegt.
Ég las þennan pistil í gær og eftir þann lestur varð mér að orði hvort að viðskiptaráðherra Íslands væri alveg komin á tún í verkum sínum. Það er eiginlega fyrir neðan allt að viðskiptaráðherra í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn láti svona óábyrgt hjal frá sér fara að mínu mati. Ég veit að Valgerður hefur verið mikill ESB-sinni seinustu árin, þótt bóndi í Höfðahverfi sé, og hún hefur tekið upp allt tal Halldórs með mjög afgerandi hætti. Enginn vafi leikur á því að hún ómar skoðanir Halldórs í þessu máli sem öðru, enda vita allir að þau eru mjög náin í pólitísku samstarfi og tali Valgerður með afgerandi hætti má vera viss um að hún sé að tala máli hans og ómi skoðanir þær sem hann hefur sjálfur dálæti á. Eins og við má búast var þessum pistli tekið sem óraunhæfu hjali og í raun óábyrgu hjá viðskiptaráðherranum. Það sást best í viðtali við Tryggva Þór Herbertsson forstöðumann Hagfræðistofnunar HÍ á NFS í gærkvöldi.
Í sama fréttatíma reyndi Svavar Halldórsson fréttamaður, að ná tali af Valgerði um þetta mál fyrir utan þinghúsið. Mikill flóttasvipur var á Valgerði við það tækifæri og hún svaraði með alveg kostulegum hætti því að það væri ekkert óeðlilegt að fabúlera svona um stöðu mála og láta svona skoðanir og skrif frá sér fara. Greinilegt var að hún væri kominn á harðasprett frá skrifunum og reyna að eyða hjalinu sem mest hún mátti. Skiljanlegt er það, enda er þessi pistill og þessi skoðun alveg óraunhæft hjal og í raun fyrir neðan allar hellur að viðskiptaráðherra þjóðarinnar láti slíka vitleysu frá sér fara. Auðvitað sjá allir menn sem vilja líta raunhæft á málin að Evrópusambandsaðild er forsenda þess að taka upp evruna.
Hvorugt er að mínu mati gjöfult við þessar aðstæður og þetta því tómt mál um að tala hvað mig varðar. Enda er skiljanlegt að flóttasvipur sé kominn á ráðherrann. Enda er tal hennar algjörlega úti á túni sýnist mér. Það er greinilegt að hún er komin á flótta frá skrifunum á vefnum og raunar veitti ekki af því að góðir menn og skynsamir taki að sér að fræða ráðherra viðskiptamála um grunnstöðu málanna svo hún geti skrifað með raunhæfum hætti um lykilmál í verkahring hennar á vef sínum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2006 | 11:01
Flokksráðsfundur á Akureyri

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað undir lok seinasta árs að efna til fundar hér á Akureyri helgina 7. - 8. apríl nk. í flokksráði Sjálfstæðisflokksins, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðenda til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Það er okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 80 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að fólk hittist þessa helgi til að bera saman sínar bækur um stöðu mála.
Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, munum vinna að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það verður mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn um allt land beri saman bækur sínar svo skömmu fyrir kosningar og eigi notalega helgi og skemmti sér vel.
Það er svo sannarlega nauðsynlegt að fundurinn verði vel sóttur og við tökum öll þátt í að gera hann að ánægjulegri samverustund og marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan eftir tæpan mánuð!
Saga dagsins
1700 Góuþrælsveðrið - í þessu mikla aftakaveðri fórust alls 15 skip og með þeim alls 132 sjómenn.
1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík - þeim var stjórnað af Róbert Abraham Ottóssyni. 9. mars 1950 telst formlegur stofndagur hljómsveitarinnar.
1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK, lést, 92 ára að aldri - hann var einn öflugasti kristniboðsleiðtogi landsins á 20. öld og stofnaði t.d. íþróttafélagið Val í Reykjavík.
1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu - 57% kjósenda samþykktu tillöguna. Miklar deilur hafa alla tíð verið vegna stöðu mála og óeirðir allmiklar.
1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði - skipverjar höfðust við í flotgöllum í tvær klukkustundir. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, bjargaði 10 skipverjum en 2 létust.
Snjallyrðið
Always vote for principle, though you may vote alone, and you may cherish the sweetest reflection that your vote is never lost.
John Quincy Adams forseti Bandaríkjanna (1767-1848)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)