13.4.2006 | 19:32
Samanburður á skoðanakönnunum

Það eru 44 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Um fátt hefur meira verið rætt hér á Akureyri undanfarna daga en niðurstöður skoðanakönnunar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri á fylgi framboðanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Í þeirri könnun kom fram mjög merkilegt landslag í fylgi og mikið verið rætt um stöðu hvers framboðs fyrir sig hér í bænum seinustu daga. Umfram allt vakti könnunin athygli því að margir tóku ekki afstöðu í henni. Fólk er skiljanlega þessa dagana að velta mikið fyrir sér framboðslistunum: aldurs- og kynjaskiptingu og þeim málefnum sem þessir frambjóðendur standa fyrir. Fólk er að spá í hver sé sérstaða hvers framboðs og hverjum greiða skuli atkvæði. Kosningabaráttan er vart hafin af krafti en menn eru í miklum undirbúningi út um allt og bíða eftir formlegu upphafi baráttunnar. Eftir páskahátíðina hefst fjörið og allir setja á fullt. Má búast við spennandi baráttu.
Er þessi könnun var birt hafði ekki birst skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér á Akureyri síðan í fyrrasumar. Reyndar var um fátt meira rætt í bæjarpólitíkinni en þá könnun. Um var að ræða könnun IMG Gallup á lífskjörum íbúa á Akureyri. Samhliða þeirri könnun var spurt um afstöðu fólks til þeirra fimm framboða sem fengu kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn í kosningunum 2002. Niðurstaða könnunarinnar var að meirihluti bæjarstjórnar héldi naumlega með 6 menn inni: sjálfstæðismenn héldu sínum fjórum og Framsókn hlaut tvo. Samfylking hafði þrjá, VG tvo og Oddur náði ekki kjöri fyrir L-listann. Tölurnar voru: Sjálfstæðisflokkurinn: 29,8%, Samfylkingin: 26,8%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð: 18,5%, Framsóknarflokkurinn: 17,1% og Listi fólksins: 6,3%. Þessi könnun varð umdeild því að mun síðar var kynnt um þessa niðurstöðu en þá sem sneri beint að lífskjarakönnuninni. Mikið var tekist á um málið í sumarhitanum hér á Akureyri í fyrra.
Það er í sjálfu sér mjög merkilegt að bera könnun RHA saman við þá sem birtist í fyrrasumar. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur mun meira fylgi í könnun RHA - tæpum fimm prósentustigum meira. Framsókn tapar fimm prósentum miðað við þetta, VG bætir við sig fjórum prósentustigum og L-listinn bætir við sig þrem prósentustigum. Er þá eftir að minnast á hlut Samfylkingarinnar. Í þessari könnun mældist flokkurinn með tæplega 27% fylgi en hafði tapað heilum tíu prósentustigum er kom að könnun RHA. Þetta mikla tap milli kannana vekur athygli og tapar Samfylkingin meiru en Framsóknarflokkurinn. Reyndar fannst mér útkoma Samfylkingarinnar mjög athyglisverð í fyrra. Þetta var á þeim tímapunkti sem Oktavía leiddi enn flokkinn. Hún hafði verið mjög umdeild innan sinna raða og eigin flokksmenn sneru að lokum við henni bakinu. Lauk samskiptum þeirra með því að hún gekk úr flokknum og kom til liðs við okkur sjálfstæðismenn.
Lengi heyrði maður sagt að Oktavía héldi kjörfylgi Samfylkingarinnar á Akureyri niðri. Mörgum varð það að orði í kosningabaráttunni 2002 að Oktavía hefði haldið fylginu niðri en stöku aðilar segja að Oktavía hafi bjargað því sem bjargað varð þá. Reyndar munaði litlu að Samfylkingin hlyti annan bæjarfulltrúann árið 2002 og hlaut meira fylgi en henni var lengi vel spáð. En samt var flokkurinn ekki að ná neinni stemmningu þá og margar sögur bárust úr þeirri baráttu út um bæinn. Oktavía gerði Samfylkingunni klárlega mikla skráveifu í desember með því að fara úr flokknum og taka með sér eina bæjarfulltrúasæti flokksins. Eftir stóð Samfylkingin án fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar út kjörtímabilið. Oktavía sló greinilega margar flugur í einu höggi þar. Fann maður greinilega sársauka Samfylkingarfólks um jólin og vonbrigði þeirra duldust engum. En það er alveg ljóst að Oktavía fór með miklum hvelli sem átti sér aðdraganda.
Engum hafði dulist í fyrrasumar að átök voru framundan innan flokksins er könnunin var gerð. Varabæjarfulltrúinn Hermann Tómasson hafði boðað leiðtogaframboð gegn Oktavíu og öllum ljóst að engir kærleikar voru þeirra í millum. Það fór að lokum svo að Oktavía ákvað að fara ekki í framboð og eftirmálann þekkja allir. Skömmu eftir prófkjörið yfirgaf hún þá og síðan hafa Samfylkingarfulltrúar mætt á alla bæjarstjórnarfundi með mótmælasetu til að láta hug sinn í ljósi. Þeir eru enda eyland í bæjarstjórn Akureyrar þessa stundina. Þessi könnun RHA boðar merkileg tíðindi. Þrátt fyrir brotthvarf Oktavíu Jóhannesdóttur bætir flokkurinn ekki við sig miklu fylgi og þeir missa verulegt fylgi sé miðað við Gallup-könnunina frægu í fyrrasumar. Það hefur nú reynt mjög á Hermann Tómasson sem leiðtoga og þau höfðu sviðsljósið mjög lengi í kosningaslagnum.
Þrátt fyrir það mælist Samfylkingin með mun minna fylgi en í fyrra. Þetta er það sem flestir taka eftir er rýnt er í þessar tvær kannanir hlið við hlið. Samfylkingin hefur verið mjög áberandi seinustu vikur, boðuðu fyrst til prófkjörs og birtu lista sinn langfyrst, tæpum tveim mánuðum á undan okkur sjálfstæðismönnum. Þeirra vonbrigði hljóta að vera mikil séu þessar kannanir settar á borðið hlið við hlið og munurinn skoðaður - sérstaklega að vera undir VG. Það sem meira er að nú kennir ekki flokkurinn Oktavíu um stöðu mála. Það eru því fleiri en framsóknarmenn undir forystu Jóa Bjarna sem eru ósáttir við sinn hlut þessa stundina. Næsta könnun kemur á þriðjudag. Það verður mjög fróðlegt að sjá tölur þar og nýja mælingu á fylgi framboðanna hér á Akureyri.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2006 | 15:21
Vangaveltur vegna gagnrýni á sus.is

Það er margt skrifað og spáð um á netinu. Þar lifa fjöldi áhugaverðra vefsíðna. Það er sem betur fer svo í samfélaginu okkar að fólk hefur tíma til að skrifa um hitamál samtímans og hafa skoðanir á málunum. Það er ekkert nema gott um það að segja að líf sé á vefsíðum. Þar hefur fjöldi fólks valið sér heimili til að tala af krafti og miðla skoðunum sínum til annarra. Netið er mest lifandi vettvangur skoðanasamskipta í nútímanum og þeim vettvangi ber að hampa. Mjög ánægjulegt er að taka netrúnt - sá netrúntur lengist sífellt og það er ágætt að hefja daginn með kaffibolla sér við hlið og kanna það sem er í gangi - kynna sér skoðanir annars fólks. Ég hef fyrir löngu séð að það er gott að kynna sér fyrst þá sem maður er oftast ósammála. Með því sér maður oft gott sjónarhorn á umræðuna og svo er alltaf viðeigandi að lesa þá sem maður er alla jafnan mjög sammála og kynna sér ólík sjónarhorn á sömu skoðanir.
Í morgun fór ég í góðan netrúnt og vann í að skrifa greinar og ýmislegt annað sem gera þarf í skugga helgidaganna. Eftir það leit ég á pistlavefsíðurnar. Ég staldraði nokkra stund inni á vefnum hugsjónir.is - nýjum vef ungra hægrimanna. Þar var að finna grein eftir ungan mann í stjórn ungliðafélagsins í Garðabæ þar sem hann finnur að greinum á vefum Heimdallar og SUS. Kemur fram í skrifum hans að þar séu "farnar að rata inn greinar í síauknu mæli með sósíalísku yfirbragði" svo orðrétt sé haft eftir. Ekki ætla ég að svara fyrir vef Heimdallar en heimasíða SUS er stýrð af mér og held ég utan um pistlahlið þessa góða vefs. Ritstjórnarstefna heimasíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur verið mjög skýr í minni stjórnartíð og verður það svo lengi sem ég fæ einhverju um ráðið. Þeir sem senda inn greinar fá birtar greinar á eigin ábyrgð og þeir ungir sjálfstæðismenn sem vilja taka þátt fá að vera með.
Eina skilyrðið sem ég hef sett er að menn séu hægrisinnaðir og vilji vinna Sjálfstæðisflokknum lið. Á vefinn rata greinar sem ég sjálfur er stundum mjög ósammála en ég birti auðvitað. Á vefnum er ekki ritskoðun, þar eru einfaldar reglur sem hljóða svo: "Á sus.is birtast pistlar eftir unga sjálfstæðismenn um stjórnmál. Pistlar, ritstjórnargreinar sem og aðrir pistlar, endurspegla ekki endilega stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Höfundar bera sjálfir meginábyrgð á skrifum sínum á vefnum." Við höfum hafnað greinum vegna prófkjörsbaráttu en settar voru skýrar reglur um að prófkjörsframbjóðendur fengju ekki birtar greinar með vissum fyrirvara fyrir prófkjör til að gæta þess að ekki væri sumum gert meira undir höfði en öðrum. Það er enda svo að í nútímanum eru nær allir í dag með vefsíður, annaðhvort blogg eða formlegri vefi. Með því sitja allir við sama borð. Að öðru leyti hefur þetta verið mjög vítt.
Stundum kemur fyrir að ég og pistlahöfundar séum ósammála. Það er eðlilegt. Í stórum flokki er ólíkt fólk með ólíkar skoðanir - fólk sem vill vinna að sama markmiðinu þó og telur sig geta skipt sköpum sameinuð. Mjög ólíkt fólk í starfinu skrifar greinar fyrir vef SUS og hefur áhuga á að skrifa. Það er þeirra ákvörðun hvort það vilji skrifa. Ég fagna öllum þeim sem hafa skoðanir og vilja skipta máli með því að tjá sig með sínum hætti. Það er ekki mitt verkefni að steypa alla í sama mót eða stjórna skoðunum annarra. Mér var falið það verkefni að stýra þessum vef og ég geri það með þeim hætti sem ég tel mest viðeigandi. Það felur í sér að ég verð að virða skoðanir annarra og miðla þess í stað bara mínum skoðunum til fólks með mínum hætti. Hafi þessi pistlahöfundur, sem er í stjórn aðildarfélags SUS, brennandi áhuga á að koma sínum skoðunum að og rétta einhverja slagsíðu sem hann finnur fyrir er honum velkomið að skrifa á vefinn.
Ég skil ekki þessar pælingar og finnst þær lykta af einhverju allt öðru en því að virða skoðanafrelsi fólks - jafnvel innan sömu hreyfingar. Það kemur ekki til greina að ég miðstýri vefnum vissa braut og hendi út skoðunum virkra ungliða, sem vilja láta rödd sína heyrast á vefnum, sem mér mögulega líkar ekki. Fólk er að birta skrif sín á eigin ábyrgð og skrifar um sínar skoðanir. Ég hef verið mjög lengi talsmaður þess að netið sé notað til samskipta og fagna öllum þeim sem vilja skrifa á þennan vef okkar ungra sjálfstæðismanna. Það sem ég undrast er að stjórnarmaður í nokkuð virku ungliðafélagi bjóðist ekki frekar til að skrifa greinar á eigin forsendum á þennan vef okkar allra heldur en að nöldra yfir því að sum þeirra sem skrifi hafi ekki sömu skoðanir og akkúrat hann sjálfur. Það kemur fyrir að ég verði ósammála fólki en ég virði rétt þess til að hafa ólíkar skoðanir og akkúrat ég sjálfur hef.
Ég hef skrifað fleiri hundruð greinar og geri þetta af ástríðu. Ég er í þessu vegna þess að ég hef áhuga og vil miðla skoðunum mínum og pælingum til þeirra sem vilja lesa. Enda er enginn neyddur til að lesa mig frekar en aðra. Reyndar tók ég eftir því að viðkomandi penni sem skrifar með þessum hætti um heimasíðu SUS, verandi stjórnarmaður í öflugu ungliðafélagi SUS, skrifar á vef sinn um mig með þeim orðum að ég skrifi óþarfa langlokur um stjórnmál og noti marga vefi undir það. Hann kallar mig of-bloggara vikunnar. Læt ég svona barnaskap í léttu rúmi liggja en ég held áfram að skrifa um skoðanir mínar á mönnum og málefnum.
Það vill svo til að ég er að skrifa því ég hef áhuga á pólitík og hef helgað mig mínum hugsjónum og tjái skoðanir mínar með mínum hætti. Það er skondið að ég sé gagnrýndur fyrir að vera virkur í pólitík á eigin forsendum. Það vill svo til að ég nenni ekki að spá í óþarfa barnalegar krytur manna sem rífast í sandkössum í ungliðamálunum fyrir sunnan og blanda mér í þá þvælu sína.
Þessi átök í ungliðamálum sunnanmanna er að jaðra við þráhyggju og ég hlæ jafnan þegar að ég sé þessa dómadagsvitleysu skrifað á okkur landsbyggðarmenn sem eyðum frístundum okkar og aukatíma nær öllum í áhugamál okkar, stjórnmál og félagsstarf fyrir hugsjónir okkar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2006 | 12:30
Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn í Árborg

NFS hefur blásið til leiks í kosningakynningu sinni og stendur sig vel að mínu mati. Þar er farið yfir málefni sveitarfélaganna af krafti og þeir sem ekki þekkja til stöðu mála þar fá með umfjölluninni gott sjónarhorn á stöðu sveitarfélagsins. Ennfremur heyrum við auðvitað í leiðtogum framboðslistanna í sveitarfélögunum og fáum könnun á stöðu mála. Nú þegar að aðeins rétt rúmir 40 dagar er til kosninga er mikilvægt fyrir kjósendur að fá slíka umfjöllun og satt best að segja finnst mér sem miklum stjórnmálaáhugamanni áhugavert að sjá þetta. Þessi umfjöllun er stýrð af Sigmundi Erni Rúnarssyni fréttastjóra NFS, og með honum er einvalalið í að fara yfir málin. Frændi minn, Helgi Seljan, er á fullu í þessari vinnu og stendur sig vel þar, rétt eins og í Íslandi í dag og í þeim verkefnum sem hann sinnti á gömlu Talstöðinni en hann var um tíma þar með þeim Helgu Völu og Hallgrími Thorsteinssyni í síðdegisþætti stöðvarinnar, áður en NFS kom til.
Á þriðjudag var kynnt skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Árborg og ennfremur farið yfir málefni þess sveitarfélags. Niðurstaðan í henni er mjög einföld - Sjálfstæðisflokkurinn tvöfaldar fylgi sitt í sveitarfélaginu og nær hreinum meirihluta með 5 bæjarfulltrúa af 9. Fylgi flokksins fer þar úr rétt rúmum 25% í tæpt 51%. Ef marka má þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn og virðist vera að taka þetta með trompi þar. Kemur þetta mér ekki á óvart en Eyþór Arnalds hefur glætt nýju lífi í flokkinn í Árborg eftir að hann var kjörinn leiðtogi flokksins þar í febrúar. Það fór ekki framhjá neinum að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í Árborg gekk ekki sem skyldi í kosningunum 2002. Gott dæmi um kraftinn í flokknum með innkomu Eyþórs sást vel í prófkjörinu en fleiri kusu í því en sjálfan flokkinn árið 2002. Innkoma Eyþórs í bæjarmálin í Árborg markar nýtt upphaf fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar. Þessi könnun staðfestir það með afgerandi hætti.
Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn ríkja núna í Árborg og tapa skiljanlega gríðarlegu fylgi. Samfylkingin fer úr rúmum 40% í rúm 20% og Framsóknarflokkurinn fer úr 28% í 18. Samfylkingin missir því helming kjörfylgis síns og verður fyrir gríðarlegri blóðtöku ef marka má þessa stöðu nú. Ég tel að Eyþór muni leiða Sjálfstæðisflokkinn í Árborg til góðs kosningasigurs í lok næsta mánaðar og vonandi munu sjálfstæðismenn taka við valdataumunum í þessu forna höfuðvígi sínu á Suðurlandi. Ég þekki Eyþór og veit að með honum kemur þarna líf og kraftur og það staðfestist í þessari mælingu. Hún gefur góð fyrirheit um valdaskipti í Árborg í næsta mánuði. Sérstaklega er athyglisvert að sjá útreið Samfylkingarinnar.
En ef marka má þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í stórsókn undir forystu Eyþórs Arnalds og það er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni. Næsta þriðjudag verður NFS með borgarafund hér á Akureyri og birtir þá skoðanakönnun á fylgi framboðanna hér. Það verður fínt að fá Helga norður í heimsókn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)