14.4.2006 | 21:06
Spartacus

Í kvöld verður sannkallað eðalbíó í Sjónvarpinu. Þá sýnir RÚV stórmynd leikstjórans Stanley Kubrick, Spartacus, frá árinu 1960. Hún fjallar um þrælinn uppreisnargjarna Thracian Spartacus, sem er seldur til skylmingaþjálfarans Lentulus Batiatus. Eftir nokkurra vikna þjálfun leiðir Spartacus uppreisn þrælanna gegn Batiatus og hefur sigur. Er undan ægivaldi hans er vikið halda þrælarnir áfram í uppreisnaranda gegn skylmingaþrælunum almennt. Myndin er stútfull af öllu því besta sem til staðar var í kvikmyndagerð síns tíma. Kvikmyndataka, leikur, klipping og leikstjórn: allt hvoru öðru betra.
Myndin skartaði mörgum af helstu stórleikurum aldarinnar, Kirk Douglas er ógleymanlegur í hlutverki Spartacus og er hans helst minnst fyrir leik sinn í myndinni og túlkun sína. Að mínu mati er þetta besta kvikmyndahlutverk Douglas. Hann var aldrei öflugri en í þessu hlutverki. Sir Peter Ustinov hlaut óskarinn fyrir hlutverk sitt sem Batiatus, enda um að ræða hreint magnaða túlkun. Sir Laurence Olivier, Tony Curtis, Jean Simmons og Charles Laughton eru öll stórfengleg í myndinni. Venju samkvæmt er Olivier skemmtilega kvikindislegur, að þessu sinni sem Marcus Crassus. Olivier var einn af bestu leikurum kvikmyndasögunnar að mínu mati (sem minnir mig á að ég verð að fara að sjá Marathon Man aftur fljótlega)
Spartacus hlaut fern óskarsverðlaun: fyrir leikara í aukahlutverki, listræna leikstjórn, búningahönnun og kvikmyndatöku. Kvikmyndatökumaðurinn Russell Metty gerði aldrei betur á sínum ferli, en athygli vekur að hann vann þar eftir skipunum Kubricks, en kaldhæðnislegt er að hann fékk ekki sínu framgengt við mótun kvikmyndatökunnar og voru miklar deilur þeirra á milli alla vinnsluferli myndarinnar. Kvikmyndatakan er einhver sú besta á gullaldarárum Hollywood - fallegur liturinn naut sín og hver rammi í myndinni verður sem besta listaverk. Sérstaklega finnst mér flott myndataka Metty takast vel í hinu eftirminnilega lokaatriði.
Að mínu mati var Stanley Kubrick einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum 20. aldarinnar. Hann var óhræddur við að fara nýjar leiðir og var djarfur í sinni listgrein. Hann fór ótroðnar slóðir og þorði að búa til nýja stíla og feta nýjar leiðir. Fyrir það er hans helst minnst að mínu mati. Kubrick markaði spor í kvikmyndasöguna sem aldrei munu fyrnast og skapaði meistaraverk sem munu lifa með heimsbyggðinni um eilífð. Hann var einn þeirra sem fengu heila kynslóð til að dýrka kvikmyndir og kvikmyndagerð. Ég fjallaði um feril hans í ítarlegum leikstjórapistli á kvikmyndir.com vorið 2004.
Ég hvet alla til að horfa á RÚV klukkan hálftólf í kvöld og sjá stórmyndina Spartacus. Sannir kvikmyndaunnendur verða vart sviknir af þeirri kvikmyndaveislu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 20:39
Tónlistarveisla á föstudeginum langa

Þann 27. janúar sl. voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu helgina 26. og 27. janúar með veglegri dagskrá. Því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með þá, enda önnum kafinn í fjölda verkefna þá. Leitt var að missa af dagskránni og skrifaði ég á þennan vef á þeim tíma með þeim hætti að vonandi yrði þessari tónlistarveislu gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV síðar meir.
Eftir hádegið í dag settist ég niður fyrir framan sjónvarpið og naut þess að horfa í Ríkissjónvarpinu á upptöku frá hátíðartónleikum sem haldnir voru í Berlín afmælisdag Mozarts. Þar var sannkölluð tónlistarveisla og leikin nokkur af fegurstu tónverkum meistara Mozarts. Þar mátti heyra hinn fræga Fiðlukonsert hans nr. 5, aríu Súsönnu úr Brúðkaupi Fígarós, píanókonsert Elvíru (nr. 23), Flautu- og hörpukonsertinn, forleik úr Clemenza di Tito, Serenöðu nr. 13, Píanósónötu nr. 11, forleikinn í Brúðkaupi Fígarós og síðast en ekki síst sinfóníu nr. 40 (sem er auðvitað algjör perla og unaðsljúf).
Meðal þeirra sem komu fram voru Staatskapelle Berlin undir stjórn Daniels Barenboim, Thomas Quasthoff, Nikolaj Znaider og Sylvia Schwartz. Sannkallaðir snillingar á sínu sviði. Ég hef alla tíð notið klassískrar tónlistar. Ekkert hentar betur að hlusta á er maður þarf að slaka vel á og þegar að skrifa þarf fína pistla og koma góðum hlutum til skila hentar vel að setja unaðsljúfa tóna klassískrar tónlistar á fóninn. Það jafnast á við hið allra besta rauðvín.
Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi. Það var sannkölluð unun að hlusta á þessa tónleika í dag og ég vil þakka RÚV fyrir að færa okkur aðdáendum klassískrar tónlistar þessa tónlistarveislu heim í stofu til okkar á föstudeginum langa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 11:22
Á föstudaginn langa

Í dag er föstudagurinn langi - einn helgasti dagur kristinna manna um allan heim. Það er við hæfi að nota daginn til að íhuga vel og njóta kyrrðar. Að mörgu leyti er föstudagurinn langi sá dagur ársins þar sem kyrrðin nýtur sín best - hægt er að hugsa vel málin og sjá hlutina í öðru ljósi en alla aðra daga. Það er notalegt að geta með þessum hætti séð hlutina í allt öðru samhengi en í erli annarra daga.
Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Amma mín var mjög hrifin af ljóðum hans og átti ljóðabækur hans. Erfði ég þær bækur og nýt þeirra nú. Hann var fremsta skáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn.
Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.
Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.
Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.
Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
(Færsla áður birt á föstudaginn langa, 25. mars 2005)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)