Mikilvægi netskrifa - höfðað til ungs fólks

Unnið á lappa
Það er margsannað að rödd eins manns sem berst eftir slóðum Internetsins á bloggvefi og heimasíðu geti orðið áhrifameiri en þess sem stendur í þingsal. Fjölmiðlun er orðin svo fersk og áleitin að Netið er orðinn ráðandi aðili á markaðnum. Prentmiðlarnir eru hægt og rólega að hverfa sjónum, enda er Netið svo margfalt öflugra og skilvirkara en það sem stendur á prenti í blöðum. Það hefur enda sannast vel að lestur á dagblöðum minnkar sífellt. Yngri kynslóðir fara í gegnum daginn með því að sækja sér fréttir á netinu og skrifar um fréttirnar sjálft á netinu, heima eða í vinnu.

Þessi tilvera er orðin svo ljúf og létt að hver og einn getur nefnilega skipt máli í umræðunni með því að láta rödd sína heyrast á þessum vettvangi. Fólk les dagblöð í æ minna mæli. Það er enda svo að prentmiðill getur aldrei keppt við netmiðil um ferskleika og áhrifamátt. Að mörgu leyti getur fólk orðið áhrifameira í pólitík með því að tala af krafti um pólitík á eigin forsendum á eigin vef heldur en að standa í pólitísku þjarki sjálft. Það er enda svo að vel við haldin heimasíða getur verið lífleg og kraftmikil og markað sér mikil áhrif. Ég tel að yngra fólk geti skipt máli með slíkum skrifum.

Þetta þekki ég vel sjálfur. Ég hef notað mér netið sjálfur í þónokkur ár og skrifað þar af áhuga og með metnað að leiðarljósi, metnað um að sýna að ég hafi áhuga á málefnum samtímans og áhuga á því að tala um þau af miklum krafti. Ég hef bæði verið á fullu í pólitísku starfi innan stjórnmálaflokks og verið á fullu á netinu og skrifað þar af áhuga og ástríðu. Pólitík er eitthvað sem ég hef notið að fjalla um lengi. Ég gaman af að kryfja málin með mínum hætti og skrifa á eigin forsendum um það sem ég vil tala um. Það jafnast ekkert á við það að eiga einn vettvang algjörlega einn og ráða honum sjálfum.

Þegar að ég er spurður almennt um það hvernig framboð geti höfðað til ungs fólks verður svar mitt að því verði að treysta til verka - því verði að treysta til áhrifa. Finni ungt fólk fyrir höfnun og því að verk þeirra og skoðanir séu ekki virtar sortnar fljótt yfir að mínu mati. Ungt fólk er ekki heimskt fólk sem bítur á hvaða öngul sem er. Það verður bæði að finna sig á vettvangnum og meta það andrúmsloft sem blasir við. Það þýðir ekkert að eyða fullt af peningum fyrir kosningar til að höfða til ungs fólks ef valtað er yfir skoðanir þeirra.

Það er og hefur alla tíð verið mitt mat. Ein leiðin til að ná árangri og vera virkt í að taka af skarið er að skrifa á eigin vefi - tala óhikað um skoðanir sínar. Þar getur ungt fólk skipt máli og verið það sjálft. Það er mín reynsla að slík skrif séu lykilatriði í að skipta máli. Starf innan flokka er líka mjög gott en andrúmsloftið sem mætir því ræður úrslitum um hvernig fólki gengur að höfða til ungs fólks.

Hjördís Björk skipuð dómari við Hæstarétt

Hjördís Björk Hákonardóttir

Hjördís Björk Hákonardóttir héraðsdómari og dómsstjóri við héraðsdóm Suðurlands, var skipuð dómari við Hæstarétt Íslands af Geir H. Haarde settum dómsmálaráðherra, á þriðjudag. Hún tekur við embætti þann 1. maí nk. og tekur þá við af Guðrúnu Erlendsdóttur. Guðrún varð fyrst kvenna skipuð hæstaréttardómari og forseti Hæstaréttar á Íslandi og hefur setið í réttinum í tvo áratugi. Með þessu haldast sömu kynjahlutföll í réttinum en Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur setið í réttinum frá árinu 2001. Aðeins þessar þrjár konur hafa setið í Hæstarétti Íslands. Enginn vafi leikur á því að Hjördís Björk sé hæf til setu í Hæstarétti, en hún hefur verið dómari til fjölda ára og var þar á undan sýslumaður í Strandasýslu. Hjördís varð fyrst íslenskra kvenna sýslumaður.

Þetta var í fjórða skiptið sem Hjördís sótti um embættið. Fræg voru málaferli hennar vegna skipunar í embættið árið 2003 er Ólafur Börkur Þorvaldsson var skipaður í réttinn. Á síðasta ári náðist samkomulag milli hennar og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í apríl 2004 um að ráðherra hefði brotið jafnréttislög í það skiptið. Fól samkomulagið í sér að Hjördís fær ársleyfi á launum frá og með 15. desember sl. til að sinna fræðistörfum. Ég hef ýmislegt ritað um það mál og fjallaði um það ítarlega í sunnudagspistli mínum á páskadag, 11. apríl 2004. Tók ég þar undir skrif Björns Bjarnasonar á vef hans nokkrum dögum áður. Er ég enda enn þeirrar skoðunar að ekki eigi að skipa einvörðungu í réttinn eftir kynjastöðlum.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta námsleyfi - sumir líta þar á þetta sem meiri umbun fyrir HBH en aðra. Staðreyndin er sú að margir "spekúlantar" hafa talið um eitthvað einstakt tilvik að ræða. Eins og allir vita sem vit hafa á þessu er reglulega verið að veita ríkisstarfsmönnum námsleyfi. Eins og vel hefur komið fram eru ákvæði um slíkt hluti af kjarasamningi margra ríkisstarfsmanna. Sjaldan er gert veður út af slíku. Gott dæmi er að nýlega fékk bókasafnsfræðingur einn í samgönguráðuneytinu árs námsleyfi á launum með sama hætti og Hjördís Björk. En um þetta er ekki talað. Um daginn lenti ég í rifrildi við einn "spekinginn" á spjallvefunum um leyfi HBH og átti hann erfitt með að skilja að leyfinu væri lokið, enda Hjördís að fara í réttinn og þarf að segja sig frá hinu embættinu auðvitað. Kostulegt alveg!

Engum blandast hugur um að dómsmálaráðherra hefur lokaorðið um hver hlýtur dómarastöðu - það er mat þess sem situr á ráðherrastóli hver eigi að hljóta sæti í réttinum. Það er ekki núverandi dómara við réttinn að ráða för í því. Skv. fjórðu grein dómstólalaga skal leitað álits réttarins á hæfi umsækjenda. Annað kemur þar ekki fram - leitað er eftir því hvort þeir sem sæki um séu hæfir til að taka þar sæti. Sá undarlegi verknaður hefur gerst oftar en eðlilegt er að dómarar raði umsækjendum í einhverja uppáhaldsröð sína og felli frekara mat en hvort þeir séu hæfir umsækjendur. Það er algjörlega fyrir neðan allt og raunar er löngu kominn tími til að afnema það að dómarar hafi skoðun á því hverjum þeir eigi að vinna með. Sérstaklega blasir nauðsyn þess við þegar að þeir eru farnir að mynda röð á umsækjendum.

Það er algjörlega óumdeilt að samkvæmt lögum á ráðherra lokaorð um skipan í þessa stöðu. Hann tekur ákvörðun eftir að hafa fengið mat réttarins. Það mat er einungis faglegs eðlis en bindur ráðherra ekki á nokkurn hátt. Enda birtist hvergi áðurgagnrýni á að ráðherra tæki ákvörðun, heldur virðist málið allt snúast um einhverja óskiljanlega kynjastaðla sem frekar ber að standa vörð um en eðlilega skynsemi og hlutlægt mat á hver sé heppilegastur í það starf sem til umræðu er.

En ég vil taka það fram að ég tel Hjördísi hæfa til setu í réttinum og tel að ferill hennar og störf sem dómara hafi vegið mestu er kom að valinu. Það er enda öllum ljóst að eftir því skal meta umsækjendur en ekki kyni þeirra. Hjördís er hæf er litið er til ferils og verka á þessu sviði og á þessum forsendum fékk hún dómaraembættið tel ég. Þeir staðlar eiga ávallt að ráða valinu á því hver tekur sæti við réttinn eður ei.


Bloggfærslur 15. apríl 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband