17.4.2006 | 23:13
Hvað varð um Framsókn?

Það eru 40 dagar til sveitarstjórnarkosninga og kosningabaráttan er að fara á fullt nú þegar að helgi páskahátíðarinnar er að líða undir lok. Framboðin eru víðast hvar komin á fullt og auglýsingarnar eru byrjaðar að þekja dálksentimetrana í dagblöðunum. Einkum eru það framboðin í Reykjavík sem hafa hafið auglýsingahluta kosningabaráttunnar. Hér norður á Akureyri eru auglýsingar komnar á fullt í Dagskránni, sem er aðalauglýsingamiðillinn hér um slóðir. Allsstaðar vekur athygli hvernig að Framsóknarflokkurinn kynnir sig fyrir þessar kosningar. Þar vekur athygli lógóið exbé sem virðist allsráðandi í kynningu. Vörumerkið Framsóknarflokkurinn virðist horfið út í veður og vind og er sennilega dæmt með öllu ósölulegt þessar vikurnar er styttist óðum í kosningar. Það er svosem varla undarlegt er farið er yfir stöðu flokksins í skoðanakönnunum og í umræðunni almennt.
Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór Ásgrímssyni og Framsóknarflokknum. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Halldór, sem setið hefur á þingi, nær samfellt frá árinu 1974, varð forsætisráðherra í september 2004 og töldu flestir að flokkurinn og hann myndu hagnast á því að taka við embættinu. Það fór svo sannarlega ekki svo. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart hefur verið sótt að Halldóri og mörgum finnst honum hafa gengið brösuglega að höfða til landsmanna í forsæti ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hafa á að skipa löngum stjórnmálaferli. Það hefur lítið gert fyrir hann að hljóta embættið.
Nú er styttist í kosningar breiðir Framsóknarflokkurinn með eftirtektarverðum hætti yfir nafn sitt og merki og auglýsir sig sem exbé. Þetta er skiljanlega allnokkuð skondið. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að yrði hápunktur ferils hans. Það eru því sennilega ekki stórtíðindi að auglýsingasérfræðingar ráðleggi honum og flokknum að "poppa sig upp" og reyna að höfða til fólks með nýju lógói og heiti á maskínunni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Framsóknarflokkurinn á í verulegum erfiðleikum og m.a. hafa ýmsir trúnaðarmenn flokksins lýst skelfingu sinni með gengi flokksins og nýlega hefur krónprins flokksins sagt sig frá vistinni á flokksfleytunni og ráðið sig til vellaunaðra starfa í flottri gluggaskrifstofu hjá Glitni í gamla Sambandshúsinu.
Það er svo sannarlega ekki öfundsvert að vera framsóknarmaður í dag. Annars er fyndið að sjá framsóknarmennina "poppa sig upp" með ýmsum hætti. Nýjasta trixið er að frambjóðendur exbé-flokksins í Reykjavík leggjast öll saman á gólfið og láta taka af sér mynd. Nei, það er þó sárasaklaus mynd og ekkert lóðarí sem menn eru í. Þau leggjast öll með hausana í hring og brosa og eru mjög kammó. Er ég sá þessa auglýsingu hélt ég að slagorðið hlyti að vera: "Við erum sko með hausinn í lagi sama hvað allir aðrir segja". En svo var víst ekki. En þetta er skondin auglýsing og merkilegt að sjá Björn Inga og félaga reyna að flýja verk Alfreðs Þorsteinssonar í borginni í komandi átökum með exbé-lógóið í stað hins gamalkunna lógós Framsóknarflokksins.
Sama gera þau hér fyrir norðan. Nú birtast þau Jói Bjarna, Gerður, Erla Þrándar, Erlingur Kristjáns, Ingimar og Petrea sem skipa sex efstu sæti exbé-listans á Akureyri í auglýsingu skælbrosandi og í hugmyndablaði sent inn í hvert hús hér með exbé-lógóið í bak og fyrir. Þau liggja þó ekki saman á gólfi en eru uppistandandi og í bakgrunni eru snjóug fjöllin norðan heiða. Ég hélt reyndar fyrst að myndin væri tekin í Ölpunum en svo er reyndar ekki. Var nokkuð fljótur að þekkja fjallið, enda með það fyrir augunum alla daga. En það er greinilega keyrt á sama lógói um allt land og þau hér láta snillingana fyrir sunnan kokka slagorð og lúkk á allt dæmið. Og enn og aftur er það exbé sem gnæfir yfir allt.
Spurt er: hvað varð um Framsókn? Er búið að stinga gamla lógóinu og heitinu í glatkistuna framyfir kosningar? Það er svosem varla furða er litið er á stöðu flokksins að reynt sé að búa til framboð á nýjum grunni en ekki þeim grunni sem Framsóknarflokkurinn hvílir á þessar vikurnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2006 | 15:50
Óborganleg kímni Lemmon og Wilder

Bandaríski gamanleikarinn Jack Lemmon var að mínu mati einn besti leikari 20. aldarinnar í bandarískum hágæðakvikmyndum. Lemmon var rómaður fyrir túlkun sína í mörgum af bestu kvikmyndum 20. aldarinnar - þekktur fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Öllum er kunn góð samvinna Lemmons og Walter Matthau í um tíu gamanmyndum - þar sem þeir léku oft á tíðum ógleymanlega karaktera sem þoldu ekki hvorn annan en gátu þó án hvors annars verið í raun. Bestir voru þeir að mínu mati í Odd Couple og Grumpy Old Men myndunum - þær eru algjörlega ómótstæðilegar og passa alltaf við. Matthau og Lemmon áttu vel saman því þeir voru báðir frábærir gamanleikarar í túlkun og þurftu vart annað en að tala við hvorn annan til að vera fyndnir. Þeir voru náttúrutalentar í gamanleik.
Samstarf Billy Wilder og Jack Lemmon var rómað. Út úr því kom ein besta gamanmynd 20. aldarinnar, Some Like it Hot, gerð árið 1959. Í þeirri mynd fara Lemmon og Tony Curtis algjörlega á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Kostuleg atburðarás - ógleymanleg kímni. Þetta er einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun - í senn eitt það besta sem Billy Wilder gerði og túlkun Lemmons er svo fyndin að jafnvel mestu þunglyndisjálkarnir fara að skellihlæja. Lemmon og Wilder voru miklir vinir og unnu mjög vel saman. Lítil perla sem þeir gerðu saman er Avanti frá árinu 1972. Þó að myndin sé í raun alltof löng og sumpart neistann vanti er þetta frábær mynd og þar njóta hæfileikar Lemmons sín vel.
Önnur ógleymanleg mynd sem þeir Lemmon og Wilder unnu saman að er kvikmyndin The Apartment. Þar er að finna marga flottustu brandara kvikmyndasögunnar og óborganlega takta Lemmons. The Apartment er óborganleg og háklassísk sjöföld óskarsverðlaunamynd sem stendur enn í dag fyrir sínu og gott betur en það. Í henni segir af ungum starfsmanni stórfyrirtækis sem lánar yfirmönnum sínum íbúðina sína til að þeir geti skemmt sér með hjákonum sínum. En þegar okkar maður áttar sig á því stelpan hans er ein þeirra líst honum ekki feiknavel á blikuna, og reynir að hætta við allt saman, en það er hægar sagt en gert. Íbúðin hlaut mikla hylli á sínum tíma og var valin besta kvikmynd ársins 1960 en orðið samt sem áður sögulega séð minna fræg en Some Like it Hot. Myndin er þó sannkallaður gullmoli í kvikmyndasögunni og enn í dag stórfyndin og hefur ekkert látið á sjá. Wilder kallaði hana eitt sinn gullmolann sinn, enda hlaut hann leikstjóraóskarinn fyrir hana og mat hana mikils.
Lemmon er alveg frábær í túlkun sinni á minnimáttarmanninum (sem hann túlkaði ansi oft) C.C. Baxter, dyggum starfsmanni sem gerir yfirmönnum sínum lífið skemmtilegra, en á sinn kostnað. Shirley MacLaine er ennfremur upp á sitt allra besta í hlutverki Fran Kubelik, draumadísinnar hans Baxters, án þess að vita nokkuð af því að hann elskar hana út af lífinu. Ennfremur fara á kostum leikararnir Fred MacMurray, Ray Walston, Jack Kruschen og Eddie Adams, en þeir fengu allir afnot af lyklinum að íbúð Baxters. Handritið er sannarlega hreinasta perla, sérstaklega í kaldhæðnislegri lýsingu sinni á fyrirtækjamóralnum og einkar afvegaleiddu siðferði. Upphafsatriði myndarinnar er stórfenglegt, en þá þusar Baxter upp ýmsum tölfræðilegum upplýsingum sem hann hefur takið saman, enda er hann starfsmaður tölfræðilegs fyrirtækis í New York. Lokaatriðið er einnig einkar eftirminnilegt.
The Apartment er stórfengleg gamanmynd sem alltaf á vel við. Þessa mynd er alltaf gaman að sjá, þegar að maður vill hárfína blöndu af háði og alvöru. Keypti ég mér myndina á DVD nýlega og naut þess að sjá hana í betri gæðum og með ómótstæðilegu aukaefni. Þessa mynd hef ég átt alveg síðan að ég var unglingur - tók hana upp á Stöð 2 fyrir eitthvað um 16 árum og hef margoft notið hennar. Það var engu líkt að sjá hana aftur í fullum gæðum. Vilji menn blöndu af gamni og alvöru - flottum bröndurum og dramatík í og með er þetta myndin. Billy Wilder var einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum sögunnar og Lemmon var engum líkur sem leikari. The Apartment er eðall fyrir áhugamenn um kvikmyndir.
Billy Wilder er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Snilli hans sem leikstjóra og handritshöfundar var rómuð og frá honum komu margar af bestu kvikmyndum í sögu kvikmyndalistarinnar. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um hann á kvikmyndir.com. Þar fer ég yfir ævi hans og flottan leikstjórapistil í ítarlegu máli.
Umfjöllun um The Apartment - snjallyrði úr myndinni
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2006 | 00:23
All the President´s Men

Á laugardag keypti ég 30 ára afmælisútgáfu kvikmyndarinnar All the President´s Men, en þar er myndin í enn betri myndgæðum en áður og með ýmsu fylgiefni. Horfði ég á safnið í kvöld. Er það mjög vandað (tveir diskar) og áhugavert að kynna sér viðbótina, t.d. ítarlega frásögn Robert Redford um myndina og söguna meðan að hún rúllar. Eins og flestir vita er í þessari mynd rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974.
Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.
Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins.
Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: Bernstein og Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post. Í myndinni er Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði verið deilt um hver heimildarmaðurinn var og reynt að upplýsa hver hann væri.
Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.
Að mínu mati er þetta besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína.
Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Hvet fólk til að kaupa nýju útgáfuna, en þar er að finna nýjan heimildarþátt um Deep Throat (Mark Felt). Þessi mynd er pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá láti mig bara vita.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)