22.4.2006 | 22:30
Saving Private Ryan

Ég hef lengi verið mikill aðdáandi kvikmynda sem sýna tilveruna í stríði og átökum. Einkum er það vegna þess að þær sýna tilfinningaskalann allan og sýna mannlega reisn og tilveru í skugga hörmunga. Þó að oft á tíðum sé sjónarsviðið dökkt býður kvikmyndaramminn upp á svo margt stórfenglegt. Að mínu mati er ein besta stríðsmynd seinustu ára stórmyndin Saving Private Ryan eftir Steven Spielberg. Þegar að hún var frumsýnd árið 1998 hlaut hún fádæma lof allra gagnrýnenda og áhorfenda og hafði afgerandi áhrif á kvikmyndaunnendur. Myndin var tilnefnd til 11 Óskarsverðlauna og hlaut fimm, fyrir leikstjórn, kvikmyndatöku, klippingu, hljóð og hljóðklippingu.
Sagan, sem sögð er frá sjónarhóli lítillar bandarískrar hersveitar, hefst á landgöngunni á "Omaha"-ströndinni í Normandí þar sem um 2.400 bandarískir hermenn og 1.200 Þjóðverjar féllu, en gerist eftir það inni í landinu þar sem nokkrum mönnum hefur verið falið hættulegt sérverkefni. Kafteinn John Miller verður að fara með menn sína inn fyrir víglínuna til að hafa uppi á óbreyttum James Ryan, en komið hefur í ljós að þrír bræður hans hafa fallið í átökunum. Andspænis þessu vonlausa verkefni spyrja þessir menn sig að því hvers vegna verið sé að tefla lífi 8 manna í tvísýnu til að bjarga lífi eins. Umkringdir af hinum grimma raunveruleika stríðsins verða þeir hver fyrir sig að finna svar við þessari spurningu - og styrk til að takast á við framtíð sína með heiðri, æðruleysi og hugrekki.
Tom Hanks sýnir sannkallaðan stórleik í hlutverki hetjunnar John Miller, og hefur ekki leikið betur á sínum ferli, að mínu mati. Saving Private Ryan hafði mikil áhrif á mig fyrst þegar að ég sá hana. Hún heillaði alla helstu kvikmyndaunnendur og er margverðlaunuð. Steven Spielberg hlaut fyrir hana æðstu viðurkenningu sem bandaríski herinn veitir almennum borgurum. Saving Private Ryan fór inn á 160 bandaríska Topp-10 lista yfir bestu myndir ársins 1998, hlaut Golden Globe-verðlaunin sem besta dramamynd ársins og fyrir bestu leikstjórn, verðlaun framleiðenda í Bandaríkjunum og tíu tilnefningar til bresku kvikmyndaverðlaunanna BAFTA. Saving Private Ryan var mest sótta bandaríska myndin í heiminum 1998.
Ég horfði á þessa gæðamynd enn og aftur á þessum laugardegi og hvet alla sanna kvikmyndaunnendur til að rifja upp kynnin af henni. Upphafsatriðið eitt er það vel gert og ógleymanlegt að hver einasti áhugamaður um kvikmyndaformið verður orðlaus. Og tónlist meistara John Williams er rúsínan í pylsuendanum. Enn og aftur skapar hann tónlist sem passar svo undurljúft við atburðarásina. Stórfengleg kvikmynd sem vekur marga til umhugsunar um hrylling stríðsátaka og ekki síður mannlega virðingu í skugga erfiðleika og innri átaka.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 18:49
Hu Jintao og stjórn hans mótmælt í Washington

Hu Jintao forseti Kína, leiðtogi einræðisstjórnarinnar í Peking, er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Bandaríkjunum. Á fimmtudaginn tók George W. Bush forseti Bandaríkjanna, á móti Jintao við athöfn á suðurflöt Hvíta hússins. Til tíðinda dró þar vegna mótmælaaðgerða fólks sem þar var komið til að mótmæla mannréttindabrotum yfirvalda í Kína. Hæst náðu þau er kona að nafni Wang Wenyi sem var í hópi fréttaljósmyndara, og að auki félagi í samtökum Falun Gong, gerði hróp að Hu. Kallaði Wang upphátt svo vel heyrðist að Falun Dafa væri góð. Wenyi var með fréttapassa fyrir Epoch Times, blað sem Falun Gong stofnaði í Bandaríkjunum. Hún er meinafræðingur að mennt og hefur t.d. rannsakað fullyrðingar Falun Gong um að þúsundir félaga í samtökunum hafi látið lífið í fangabúðum í Kína og líffæri úr þeim hafi verið seld - kínversk stjórnvöld vísa því á bug.
Er mikið gleðiefni að þessi rödd hafi komið fram í þessari heimsókn leiðtoga einræðisaflanna í Kína til Bandaríkjanna. Það er enda mikilvægt að talað sé máli mannréttinda og sérstaklega á það við hvað varðar Kína þar sem mannréttindi eru virt að vettugi æ ofan í æ. Það var einmitt það sem við ungliðar í öllum flokkum gerðum fyrir nokkrum árum þegar að leiðtogar þessarar stjórnar mætti hingað til landsins. Það var nauðsynlegt að láta rödd mannréttinda heyrast er bæði Li Peng og Jiang Zemin komu hingað. Það voru kraftmikil mótmæli sem eftir var tekið. Það er enda ekki óeðlilegt þó að mannréttindasinnar láti hug sinn á verkum kommúnistastjórnarinnar í Peking í ljós. Fyrst og fremst vorum við að tjá andstöðu okkar á þessum mönnum vegna þess hvernig komið var fram þann 4. júní 1989 þegar að kommúnistastjórnin í Peking murkaði lífið úr stúdentum.
Við metum öll að ég tel mikils að njóta mannréttinda og vildum mótmæla þeim sem slátruðu stúdentunum þennan júnídag - fólk á okkar aldri sem var að berjast fyrir mannréttindum og frelsi. Það vildi eflaust eins og við öll hafa kosningarétt - rétt á því að segja skoðanir sínar. Það ákall þeirra var barið niður. Við vorum fyrst og fremst að tala gegn meðferð þessara einræðisherra á ungu fólki í Peking árið 1989. Ég hef alltaf fundið til með því fólki sem var drepið þennan júnídag fyrir sautján árum. Það er ekki annað hægt. Þetta var ungt fólk sem vildi hafa kosningarétt - rétt til að segja sínar skoðanir og vera frjálst. Það frelsistal þeirra og ákall á breytingar var barið niður - traðkað á þeim með skriðdrekum. Persónulega met ég kosningaréttinn allra hluta mest í tilverunni. Með honum getum við haft svo gríðarleg áhrif. Ég skil vel afstöðu stúdentanna í Kína og ég held að við öllum skiljum fyrir hverju þau voru að berjast.
Hvernig það ákall þeirra var barið niður er okkur öllum umhugsunarefni. Það er enda engin tilviljun að ungt áhugafólk um stjórnmál og frjáls skoðanaskipti tjáði andstöðu gegn bæði Peng og Zemin. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína og fórum samhent í mótmæli í Reykjavík gegn þeim. Ég er fyrst og fremst að mótmæla því auðvitað að það er ekki kosningaréttur í Kína - þar er ekki skoðanafrelsi. Fólk er barið niður sýni það vilja til að tjá sínar skoðanir. Staðan í Kína er auðvitað skelfileg og hefur því miður ekki mikið batnað frá árinu 1989. Það er skylda okkar að tala gegn þeim sem traðka á sjálfsögðum kosningarétti fólks. Þar sem ekki er kosningaréttur er einræði. Gegn því var ég auðvitað að tala og við öll sem mótmæltum fyrir sex og fjórum árum svo eftir var tekið.
Ég er talsmaður skoðanafrelsis. Við sem tilheyrum ólíkum flokkum sýndum samstöðu í að tala gegn þessum einræðisherrum frá Kína - það var styrkleikamerki fyrir okkur öll. Með þessu sýndum við enda vel þessum leiðtogum hver hugur ungra Íslendinga var á þeim og stjórninni sem þeir tilheyrðu - stjórn sem drap stúdenta fyrir það eitt að kalla á sjálfsagðan kosningarétt og frelsi til að tjá eigin skoðanir. Því er auðvitað ekki annað hægt en að fagna því að sama rödd sé Jintao sýnileg í Bandaríkjaför hans.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 17:13
Alfreð gerir upp endalok R-listans sáluga

Það leikur enginn vafi á því að Alfreð Þorsteinsson er einn af umdeildustu stjórnmálamönnum seinustu áratuga hérlendis. Deilt hefur verið um verk hans í pólitík og hann hefur algjörlega án þess að hika varið verk sín af krafti og beitt til þess öllum brögðum. Alfreð hefur verið áberandi til fjölda ára í forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þó lengi hafi verið deilt um verk hans í stjórnmálum leikur enginn vafi á því að mest hefur verið deilt um verk hans innan flokksins í R-listanum, sameiginlegu framboði félagshyggjuflokkanna í Reykjavík seinustu 12 árin. Alfreð var einn af lykilmönnunum innan R-listans allan valdatíma hans og var valdamikill í nefndum og ráðum á þeim tíma. Hæst náðu völd hans og áhrif seinustu fjögur árin af valdatímanum en þá var hann leiðtogi flokksins í borginni og fór óhikað sínar leiðir, andstæðingum sem stuðningsmönnum R-listans oft til armæðu.
En nú er komið að leiðarlokum á pólitískum ferli Alfreðs. Eftir 35 daga lýkur ferli hans sem forystumanns flokksins í borgarstjórn og hann lætur af öllum pólitískum störfum fyrir Reykjavíkurborg. Hann er enda ekki í framboði í vor og víkur af hinu pólitíska sviði. Í dag fer hann yfir þennan feril í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson í Fréttablaðinu. Það er að mörgu leyti mjög athyglisvert að lesa það viðtal og fara yfir það sem þar kemur fram. Nú er ferlinum lýkur er hann forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og leiðir flokk sinn. Hann hefur auk þess gegnt stjórnarformennsku veitufyrirtækis borgarinnar, Orkuveitu Reykjavíkur, allan valdatíma R-listans. Mjög hefur verið deilt um verk hans innan Orkuveitunnar þessi tólf ár og meginþungi átakanna um Alfreð og verk hans í borgarmálum hafa enda snúist hvort hann hafi unnið til góðs eða ills innan Orkuveitunnar.
Að mínu mati hefur verið með ólíkindum að fylgjast með óráðsíunni innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð, af hálfu allra flokkanna sem myndað hafa R-listann. Nægir þar að nefna ákvörðun OR um að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn, undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Ekki er hægt að sjá að verk af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum hafi verið gert að taka þátt í honum. Alfreð hefur vegna þessa verið af mörgum talinn einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug.
Síðastliðið sumar leið R-listinn formlega undir lok en hann stjórnar eins og vofa í Reykjavík til loka kjörtímabilsins. Sem betur er styttist í að valdatíma R-listans ljúki og eru 35 dagar þar til að breytingar verða á stjórn borgarinnar. Í þessu viðtali kemur mjög vel fram sú skoðun Alfreðs að upphaf endaloka R-listans hafi verið sú ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sameiginlegs borgarstjóraefnis flokkanna, að gefa kost á sér í þingframboð fyrir einn flokkinn. Þá hafi hún misst stuðning Framsóknarflokksins til verka. Flestir vita hvernig þeim hráskinnaleik lauk öllum en Ingibjörg Sólrún sagði af sér embætti borgarstjóra í kastljósi fjölmiðlanna og fór í þingframboð. Hún situr enn sem fulltrúi flokkanna allra í borgarstjórn en er orðin formaður eins þeirra. Alfreð fer vel völdum orðum um viðskilnað ISG við R-listann og telur að glappaskot hennar hafi leitt til þess að R-listinn veðraðist upp mjög hratt.
Allt frá því að Ingibjörg Sólrún var sett af sem borgarstjóri um jólin 2002 hefur Alfreð Þorsteinsson verið valdamesti maðurinn í borgarkerfinu og eflaust hefur hann verið lykilmaður þar mun lengur en svo. Frá þeim tíma hafa verið skýr átök þar um leiðir í verkum og forystuna en þó bundist böndum um að klára kjörtímabilið, þó oft hafi það orðið þeim brösugt með ISG áfram sem borgarfulltrúa og hornkellingu innan meirihlutans. Alfreð kemur með það athyglisverða innlegg að í raun hafi meirihlutaviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verið við það að hefjast er Ingibjörg Sólrún sagði loksins af sér. Eina ástæða þess að hún sagði af sér var enda til að vernda R-listann. Síðan hefur hann hvorki verið fugl né fiskur og sprakk svo endanlega í fyrra þegar að tekist var á um stólaskiptingar milli flokka en ekki áhersluatriði um borgarmálin sem slík. Athyglisverð endalok á pólitísku hagsmunabandalagi.
Alfreð Þorsteinsson staðfestir í þessu viðtali allt tal andstæðinga R-listans sáluga um að í raun hafi samstarfinu verið lokið í árslok 2002 þegar að ISG hrökklaðist frá völdum í borginni. Síðan var þetta sem stjórnlaust rekald sem stjórnaðist af hagsmunum flokkanna og bitlingum umfram pólitískar hugsjónir og ástríðu á Reykjavíkurborg sem slíkri. Alfreð fer yfir þessi mál í viðtalinu og greinileg undirliggjandi biturð liggur í orðunum um viðskilnað R-listans sem hefur nú sagt sitt síðasta og heldur með Alfreð Þorsteinssyni inn í pólitískar sögubókur Reykjavíkurborgar með kosningunum eftir 35 daga. Það verða ánægjuleg þáttaskil sem þá verða.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)