23.4.2006 | 16:49
Umræða um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á málefnum flugvallar á höfuðborgarsvæðinu og alla tíð verið talsmaður þess að hann verði áfram þar. Fyrir ári stefndi allt í að Reykjavíkurflugvöllur yrði einmitt aðalmál þessarar kosningabaráttu en það hefur orðið rólegra yfir því tali seinustu mánuðina. Athygli vakti þó í prófkjörsslag sjálfstæðismanna að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson skipti skyndilega um skoðun á vellinum og vildi hann burt helst sem fyrst og yfirbauð þar keppinaut sinn Gísla Martein Baldursson. Ekki fannst mér margt gott við þær pælingar og fannst mörgum þær vera stuðandi miðað við fyrri rólegheit og yfirvegun Vilhjálms. Í aðdraganda landsfundar hafði Vilhjálmur aftur skipt um skoðun og orðinn meira inni á þeirri línu að halda í völlinn en leita nýrra leiða. Ef marka má tal flokksfélaga minna í borginni hafa þeir enga afgerandi skoðun um hvað eigi um völlinn að verða. Finnst mér það með ólíkindum og ætla að vona að þeir þori að láta vaða í þá átt að tala fyrir velli beint á höfuðborgarsvæðinu.
Eins og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík nú skotist fram með afgerandi stefnu í þessum málum sem vekur athygli og ekki síður auglýsingarnar sem kortleggja stefnuna með verulega afgerandi hætti. Verð ég að viðurkenna að ég verð sífellt meira skotinn í hugmynd framsóknarmanna eftir því sem ég sé hana betur útfærða á teikniborði þeirra. Það góða við þessar auglýsingar er einkum það að þar kemur fram skýr og afgerandi stefna á því hvert skuli stefna en ekki tal næstu árin. Það er því miður svo að margir hafa flaskað á sér í borgarmálunum hvað varðar þessi mál varðar með því að hafa ekki neina afgerandi og skýra stefnu. Að mínu mati eru valkostirnir ekki nema þrír: flugvöllur þar sem hann er nú, flugvöllur á Lönguskerjum og að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Sjái borgaryfirvöld sér ekki fært að hafa hann áfram í Vatnsmýrinni tel ég vænlegast að horfa á Löngusker sem staðsetningu. Ég er algjörlega mótfallinn því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.
Eitthvað segir mér svo hugur að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík eigi eftir að græða á því að hafa skýra stefnu í þessum málum. Þessi auglýsing innrammar þá stefnu mjög vel. Þessi auglýsing er enda mjög afgerandi um hvað þeir vilja og hún sýnir framtíðarsýn þeirra ljóslifandi. Skoðun mín fellur því saman við þá sem framsóknarmenn tala fyrir. Það verð ég fúslega að viðurkenna. Það hefur enda þegar vakið athygli hversu ferskar auglýsingar framsóknarmanna eru. Þar er sótt í smiðju Trausta Valssonar, sem kom fyrstur með hana á áttunda áratugnum, og Hrafns Gunnlaugssonar sem færði hana í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Er það jákvætt að tekin sé upp umræða um þann kost í málinu finnst mér og þessi auglýsing framsóknarmanna bætir miklu púðri í þennan kost. Þessi umræða er því aftur hafin sýnist mér og þessi auglýsing verða mikið rædd á næstunni spái ég, enda ferskt innlegg í umræðuna.
Það er mjög stutt síðan að öll umræða hljóðaði á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara úr Vatnsmýrinni en svo væri það annarra að finna út úr hvað taka ætti við. Það sáu allir að við svo búið gat umræðan ekki einvörðungu verið stödd. Það þurfti að útfæra aðra möguleika og annan status í málið. Þessi hlið málsins, einhliða blaður sunnanmanna gat ekki gengið. Umræðan var ekki málefnaleg áður, það var ráðist að okkur úti á landi fyrir að verja þennan mikilvæga samgöngupunkt okkar og fundið að því að við værum að tjá okkur um mál sem að mati sunnanmanna væri aðeins þeirra mál. Mér persónulega fannst sérstaklega leitt að heyra tal sumra sem töluðu um aðkomu okkar að flugvellinum, sem er samgöngulegur miðpunktur allra landsmanna, og því að okkur var liggur við brigslað um að vera að skipta okkur af annarra manna málum. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er og verður óásættanlegur kostur í mínum huga og okkar allra úti á landi. Finna þarf ásættanlega staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu fyrir flugvöll. Þessi fyrrnefnda tillaga opnar á góða lausn.
Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En á meðan Reykjavík er höfuðborg landsins og sinnir ýmsum þeim þáttum sem þeim sess fylgir geta þeir ekki lokað umræðuna á afmörkuðum bletti sinna skoðana. Það er bara þannig. Ég lít svo á að höfuðborgin sé mín rétt eins og borgarbúa að þessu leyti. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni. Samgöngulegar tengingar skipta máli hvað mig snertir, einkum í ljósi þess að ég bý á landsbyggðinni. Ég vil því fagna að þetta mál komist aftur á dagskrá.
Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp - átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns og auglýsingar framsóknarmannanna. Grunnpunktur af minni hálfu er að flugvöllur sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En megi umræðan um þetta mál blómstra og jákvætt er að hver tjái sig og sínar skoðanir með ákveðnum hætti. Það er eðlilegt að menn tali hreint út og segi sínar skoðanir óhikað.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2006 | 14:52
Líf færist í kosningabaráttuna í borginni

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Í morgun birtist ný skoðanakönnun á stöðu mála í Reykjavík. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn með 8 borgarfulltrúa inni en mælist með innan við helming atkvæða eða rúm 47%. Forskot Sjálfstæðisflokksins á R-listaflokkana minnkar því örlítið. Í heildina eru tíðindin í þessari könnun þau að fylgi stóru flokkanna tveggja minnkar en þeir hinir minni eru að styrkjast. Það blasir við að þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi forskot er engan veginn öruggt að flokkurinn vinni þann góða sigur sem stefnt hefur í um langt skeið. Nú þegar að styttist í kjördag mun þeim óákveðnu sífellt fækka og er auðvitað mikilvægt að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík geti höfðað til hinna óákveðnu. Gott útspil í þá átt var kynnt á blaðamannafundi í dag er flokkurinn kynnti fjölskyldustefnu sína, sem m.a. innheldur að lækka gjaldskrá í leikskólum borgarinnar um 25% í haust.
Staða Sjálfstæðisflokksins hefur lengi verið mjög sterk í könnunum, eða allt frá því að R-listinn geispaði golunni vegna átaka með stólaskiptingu flokkanna. Þá reyndu sumir snillingar að skipta átta borgarfulltrúasætum jafnt milli þriggja aðila með litlum sýnilegum árangri og áður en málefnin urðu að umræðuefni þar sprakk allt á stólabitlingum. Annars þekkja allir þessi endalok R-listans og óþarfi að þreyta fólk með því að tala um of um framboð sem er gufað upp, þó að það stjórni vissulega enn borginni fram til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað búið við það að margir hafa talið sigur hans öruggan. Slíkt andrúmsloft getur bæði skapað tækifæri en líka doða. Mér sýnist á kraftinum í félögum mínum í borginni að þau séu kraftmikil og geri sér grein fyrir því hvað þau þurfi að gera til að keyra þessu beint heim í höfn og tryggja sterkan hægrimeirihluta næstu fjögur árin. Þau eru enda mjög öflug í allri kynningu.
Það er mjög athyglisvert að Samfylkingin hefur ekki markað sér neitt nýtt síðan að Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóraefni og leiðtogi flokksins eftir rándýrt prófkjör í febrúar. Ef marka má kannanir er Samfylkingin ekki að skora neitt hærra en var fyrir þetta prófkjör þeirra. Er reyndar merkilegt að sjá um allt að flokkurinn virðist ekki standa fyrir neinu sérstöku. Ekkert nýtt er í áherslum þeirra og tali. Dagur B. kemur með minni ferskleika inn í borgarpólitíkina með forystu sinni en ég hafði áður talið að myndi verða. Sennilega hefði það verið þeim farsælla að Steinunn Valdís hefði leitt þá, enda er hún sitjandi borgarstjóri og hefur notið trausts allra afla innan R-listans sáluga sem slík, merkilegt nokk. Eflaust er það vegna þess að hún hefur verið órjúfanlegur hluti R-listans alla tíð og verið borgarfulltrúi hans alla tíð. Svo er greinilegt að Stefán Jón leggur ekkert á sig og virðist farinn úr borgarmálum óháð úrslitum.
Hvíslað hefur verið um það að bæði Steinunn Valdís og Stefán Jón horfi löngunaraugum í þingframboð fari allt á versta veg og þau láti Dag að mestu um að taka á sig borgarmálin. Verði þar skellur geti þau farið frá því með þeim orðum að þeim hafi verið hafnað fyrir nýliðann í flokknum og árangurinn orðið með þeim hætti sem við væri að búast. Lukkist eitthvað hjá Degi geti þau notað það sem stökkpall inn í landsmálin og sagt að þau hafi lagt af mörkum inn í málefnagrunn flokksins í borginni. Það heyrist reyndar víða að Samfylkingin sé eins og míníútgáfa af R-listanum sáluga. Þar er enda hin fyrrum vinstri græna Björk Vilhelmsdóttir og hinn óháði lærisveinn Ingibjargar Sólrúnar, Dagur B, sem lyft var til skýjanna með samþykki ISG og liðssveitar hennar, Stefáni Jóni og Steinunni Valdísi báðum til mikillar gremju. Þetta framboð gæti skilað þeim árangri en líka skelli. Verður fróðlegt að sjá hvort það muni verða.
Vinstri grænir sækja fram með auglýsingum á leiðtoganum Svandísi Svavarsdóttur og greinilegt að henni er teflt fram sem borgarstjóraefni og framtíðarhöfðingja á þessum væng borgarmálanna. Hún er enginn bráðabirgðaleiðtogi eða hver annar efsti maður, henni eru ætlaðir stórir hlutir á þessu sviði. Eflaust er spútnikkynning VG á Svandísi sönnun þess að VG sleit R-listanum sáluga með því að byggja leiðtoga úr Svandísi. Þess ber einmitt að geta að það var hin sama Svandís sem leiddi borgarmálafélag VG og lagði fram tillöguna um slit R-listans. Enginn vafi leikur á því að Svavar Gestsson fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, er einn af lykilmönnum VG, þó að hann sé staddur í Kaupmannahöfn sem sendiherra okkar allra. Hans áhrif innan VG eru ráðandi og engum dylst lykilstaða afkomenda hans innan VG. Svandís hefur sem leiðtogi sótt í þennan grunn og eru ætluð áhrif vegna ætternis síns.
Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn sækir á ný mið núna undir forystu Björns Inga Hrafnssonar og byggir annan grunn undir flokkinn í borgarmálunum en var undir leiðsögn Alfreðs Þorsteinssonar. Framboðið er það ferskt að það byggir ekki á flokksgrunninum og spilar allt með lógóinu exbé. Þetta lógó hannað í Reykjavík er notað um allt land, enda er Framsóknarflokkurinn jafnóvinsæll sem flokkur úti á landsbyggðinni sem og í borginni - það eru óneitanlega stór tíðindi. Björn Ingi er ungur maður og byggir á því að hann sé nýr maður nýrra tíma í borgarmálum. Það er því ekki auðvelt fyrir hann að hafa grunn byggðan á umdeildum verkum Alfreðs innan Orkuveitu Reykjavíkur. Ein leið Framsóknar til að sækja fram er að boða flugvöll á Lönguskerjum. Hefur flokkurinn gert mjög góðar auglýsingar að mínu mati sem sækja fram og sýna hvað flokkurinn vill gera í þessum málum.
Ef marka má könnunina í dag á Frjálslyndi flokkurinn meira fylgis að fagna. Þar tel ég margt spila inn í. Tilkoma Guðrúnar Ásmundsdóttur, vinsællar og virtrar leikkonu í forystusveit flokksins, hefur vakið athygli og hefur flokkurinn grætt á því - á því leikur enginn vafi. En hvort að það að fá Guðrúnu dugar skal ósagt látið. En það er enginn vafi að með hana í framboði getur flokkurinn betur höfðað til eldri borgara en áður var. En það er þó alveg ljóst að Ólafur F. er verulega litlaus en gæti húrrast inn á kjörþokka Guðrúnar og Margrétar Sverrisdóttur. Annars er það skondið að sjá leiðtoga flokksins barma sér í dag yfir auglýsingum í þessari kosningabaráttu, en eins og allir vita hafa Frjálslyndir verið iðnir við þann kola að undanförnu. Hvað varðar möguleika þessara örflokka að komast inn ræðst allt á auglýsingum. Við eigum því eftir að sjá alla þessa spekinga sem andmæla auglýsingum eyða á kafi. Sjáið bara VG sem dæmi.
Línur í þessum kosningum virðast skýrar. Falli meirihluti vinstriaflanna mun Sjálfstæðisflokkurinn komast til valda væntanlega einn. Ég sé það reyndar ekki fyrir mér að Vilhjálmur Þ. og Sjálfstæðisflokkurinn fari í meirihluta með ráðandi stöðu nema að hafa borgarstjórann komi til meirihlutaviðræðna ef flokkurinn nær ekki einn meirihluta. Eðlilegur fyrsti kostur haldi R-listaflokkarnir velli er að þeir reyni fyrir sér. Þar eru flokkar og forystumenn sem allir kynna sig sem borgarstjóraefni. Það sjáum við best á kynningum á Svandísi og Birni Inga. Þetta eru allt materíal í borgarstjórastól eða presentera sig sem slíka. R-listaflokkarnir hafa oftar en einu sinni á líðandi kjörtímabili barist um hver eigi að verða borgarstjóri og hvernig skipta skal bitlingum. Það yrði fyrst spennandi að sjá kattaslaginn þeirra ef svo ólíklega vildi til að þetta ósamstíga lið héldi fulltrúafjölda sínum sem heild.
Fyrst og fremst stendur valið um það hvort að fólk vill sterkan Sjálfstæðisflokk til valda eða ósamstíga félagshyggjuöfl í framboði. Þessi könnun í dag er eins og aðrar vísbending - að mínu mati er hún skýr skilaboð til flokksfélaga minna í borginni um það að passa upp á að landa góðum og afgerandi sigri eftir fimm vikur.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2006 | 12:01
Leyniskyttumorðin í Washington árið 2002

Tæp fjögur ár eru liðin frá því að íbúar Washington-borgar í Bandaríkjunum óttuðust svo um líf sitt að þeir lokuðu sig inni að mestu og héldu kyrru fyrir. Í október 2002 var skelfing og ótti yfir borginni og íbúarnir vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Leyniskytta hélt öllum í borginni í raun í gíslingu. Morðin fóru þannig fram að skotið var úr skotti bifreiðar, þar sem borað hafði verið gat á farangursgeymsluna og var því fólk algjörlega grunlaust og átti sér einskis ills von. Áður en yfir lauk féllu tíu manneskjur í valinn. Fyrsta morðið var framið að kvöldi 2. október 2002 er 55 ára karlmaður var skotinn til bana fyrir utan stórmarkað í Maryland. Daginn eftir voru fimm manneskjur drepnar, þar af fjórar þeirra á tveggja klukkustunda bili. Skelfingin var undir lok orðin slík að Washington minnti að mestu á draugaborg þar sem fáir voru á ferli.
Ég gleymi aldrei fréttaflutningi af þessu máli. Það var skelfilegt að sjá hversu útpæld þessi fjöldamorð voru og þeim var ekki beint að minnihlutahópum frekar en öðrum. Fólk af öllum kynþáttum og uppruna féllu í valinn. Strax í upphafi var því hægt að gleyma því að kortleggja þessi fjöldamorð sem árás á minnihlutahópa, enda var hvítt fólk alveg eins fellt og blökkufólk. Um fátt var meira fjallað í bandarískum fjölmiðlum um miðjan október en þetta mál og skelfing íbúanna í Washington vakti athygli fólks um allan heim. Charles A. Moose lögregluforingi í Montgomery-umdæmi í Maryland, varð heimsfrægur á einni nóttu en hann varð talsmaður rannsóknar málsins og tákngervingur leitarinnar að morðingjanum. Undir lokin hélt hann orðið marga blaðamannafundi á dag og fólk fylgdist skelfingu lostið, jafnt í Washington sem hér á Íslandi, með rannsókninni - og sífellt færðist Moose og hans fólk nær lausninni.
Það var svo loksins þann 24. október 2002 sem skelfingunni lauk. Þann dag voru John Allen Muhammad, 42 ára, og Lee Boyd Malvo, 17 ára, handteknir þar sem þeir voru sofandi í bíl sínum á borgarsvæðinu. Við leit í bílnum fannst skotvopn, veiðiriffill, og borað gat á skott bílsins þar sem þeir gátu skriðið inn í að innanverðu til að skjóta um lítið gat sem þeir höfðu útbúið. Hafði bíllinn því verið útbúinn með þeim hætti að hægt var að skjóta á fólk án þess að á nokkru myndi bera. Muhammad var talinn hafa myrt alla tíu einstaklingana en ekki lék vafi á því að Malvo hafði tekið fullan þátt í þeim og orðið heilaþveginn af Muhammad sem hann leit upp til sem föðurímyndar. Hann hafði um skeið búið með móður Malvos og náð til hans með slíkum hætti að þeir urðu sem einn maður. Fóru þeir fyrir dóm og lauk málaferlum með þeim hætti að Muhammad var dæmdur til dauða en Malvo í lífstíðarfangelsi.
Muhammad hefur enn ekki verið líflátinn fyrir morðin tíu, enda bíður hann dóms fyrir morðtilræði og morð í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Muhammad var dæmdur beint til dauða upphaflega fyrir morðið á blökkumanninum Dean Harold Meyers við bensínstöð í Virginíu. Malvo, byggði vörn sína upp á því að hann hefði orðið saklaust peð í leik Muhammad og hann hafi dýrkað hann og orðið blindaður af bæði persónulegri ást á honum og ekki síður markmiðum hans. Það hefur enda blasað við að Muhammad hafi fyllt Malvo af lyfjum og haft tangarhald á honum. Malvo bíður enn dóms í öðru fylki fyrir morðtilræði en hann var sakfelldur upphaflega fyrir að hafa þann 14. október 2002 myrt að yfirlögðu ráði alríkislögreglukonuna Lindu Franklin fyrir utan verslun í Virginíu. Þeir bíða enn báðir þess að dómsniðurstöður verði skýrar í málum þeirra en talið er líklegt að Muhammad verði líflátinn fyrir lok ársins.
Í gærkvöldi var sýnd mjög fróðleg og vönduð leikin kvikmynd, D.C. Sniper: 23 Days of Fear, á Stöð 2 um þessa atburði. Var að mörgu mjög athyglisvert að sjá uppsetningu þessara voðaverknaða setta upp í kvikmyndaform. Myndin var vel leikin og sérstaklega fannst mér Charles S. Dutton fara vel með hlutverk Moose lögregluforingja, en kænska hans og útsjónarsemi leiddu til þess að morðingjarnir fundust mun fyrr en ella hefði væntanlega orðið. Vissulega er sagan af þessum voðaverkum á höfuðborgarsvæðinu í Maryland-fylki skelfileg en hún er þó gott dæmi um það hvernig að vitfirring getur leitt til voðaverka og ógnvænlegra viðburða. Þeir sem upplifðu fréttir af þessu máli fyrir fjórum árum hafa væntanlega orðið sammála mér í því að þessi mynd sé mjög sagnfræðilega rétt uppbyggð og vel gerð að öllu leyti.
Eftir lausn málsins skrifðu Moose og Charles Marshall vandaða bók og samantekt um þetta mál allt. Ber bókin nafnið Three Weeks in October. Ég keypti mér hana nýlega og las og hvet alla aðra til að gera það. Það er enda engu líkt að lesa sjónarhorn Moose á málinu og kemur grunnur þeirrar sögu fram í þessari kvikmynd sem fyrr er nefnd.
Samantekt um málið
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)