5.4.2006 | 23:53
To Be or Not to Be

Það var létt og notalegt sjónvarpskvöld hjá mér á þessu miðvikudagskvöldi. Eftir að hafa horft á dægurmálaþættina ákvað ég að horfa á tvær eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Um er að ræða kvikmyndir sem hafa lengi verið meðal uppáhaldsmyndanna minna en það var orðið nokkuð um liðið er ég setti þær í tækið í kvöld frá því að ég sá þær síðast. Þessar tvær myndir eru frá gjörólíkum tímabilum í kvikmyndasögunni en segja hinsvegar nákvæmlega sömu söguna. Kvikmyndin To Be or Not to Be er ein besta svarthvíta gullaldargamanmynd fimmta áratugar síðustu aldar. Hún var gerð í miðjum klíðum stríðsátakanna í seinni heimsstyrjöldinni og lýsir lífinu í skugga átakanna og fléttast þar vel saman hárfín kómík og alvara stríðsins. Myndin var kvikmynduð á árinu 1941 en frumsýnd í ársbyrjun 1942. Hún hlaut miklar vinsældir og sló umsvifalaust í gegn. Í aðalhlutverkum voru Carole Lombard, eitt mesta kyntákn kvikmyndasögunnar, og gamanleikarinn Jack Benny, sem má án nokkurs vafa telja einn fremsta gamanleikara Bandaríkjanna á 20. öld.
Myndin gerist skömmu eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Stríðsátökin hófust þann 1. september 1939 með hernámi Þjóðverja í Póllandi. Með því markaðist upphaf stríðsins, sem stóð í hálft sjöunda ár og skók heimsbyggðina með áþreifanlegum hætti í marga áratugi eftir að því lauk. Í hersetnu Póllandi í seinna stríðinu er sögð saga af leikhóp í höfuðborginni. Í forystu hans eru hjónin Joseph og Maria Tura. Þau eins og allir eiga sér sitt líf og sína sögu og stríðið hefur áhrif á líf þeirra eins og allra annarra sem horfast í augu við að landið sitt sé hersetið. Það hefur marktæk áhrif á leikhúsið þeirra og daglegt líf. Andspyrnuhreyfingar spretta upp sem reyna að verjast áhrifum nasista í landinu og úr myndast hópar sem reyna að standa vörð um lífsgildi sín og landið sitt. Tura-hjónin komast að því að nasistarnir séu með öllum ráðum að reyna að grafa undan andspyrnuhreyfingunni og komast að því hverjir leiða hana.
Þau ákveða að grípa til sinna ráða þegar að þau komast að því fyrir tilviljun að Alexander Siletsky prófessor, ætli að afhenda yfirmönnum nasista í Póllandi lista með nöfnum forystumanna andspyrnuhreyfingarinnar. Með útsjónarsemi og snilld sinni á leiklistarsviðinu láta þau til skarar skríða og reyna að slá tvær flugur í einu höggi: ná listanum og bjarga með því lífi andspyrnuleiðtoganna. Úr verður kostuleg skemmtun og unaðsleg gamanmynd sem lifað hefur með kvikmyndaáhugamönnum og er enn jafnfersk og skemmtileg í dag og hún var er hún var frumsýnd fyrir rúmum sex áratugum. Lombard og Benny fara á kostum í hlutverkum hjónanna og sérstaklega toppar Benny sig í hlutverki Tura sem vinnur sinn stærsta leiksigur í raun í því að ná listanum úr höndum prófessorsins og að koma atburðarásinni heim og saman í því verkefni. Lombard býr svo yfir þeim þokka og æskufegurð sem fylgja þarf hlutverkinu sínu og er sem ferskur blær inn í heildarmyndina alla.
Rétt áður en myndin var frumsýnd í ársbyrjun 1942 fórst Carole Lombard í hörmulegu slysi er flugvél hennar fórst í Table Rock-fjallagarðinum í Nevada-fylki. Fráfall hennar í blóma lífsins var sorglegt. Eiginmaður hennar var Clark Gable, einn af frægustu kvikmyndaleikurum 20. aldarinnar (best þekktur sem Rhett Butler í Gone with the Wind). Hann syrgði Carole mjög og mun aldrei hafa verið samur maður á eftir. Eins og vel hefur komið fram í umfjöllun um ævi hans tók það hann fjöldamörg ár að halda áfram lífi sínu eftir flugslysið sem hann kenndi sér alltaf um, enda hafði hann krafist að Carole færi í flugferðina örlagaríku. Hlutverk Mariu Tura varð seinasta kvikmyndahlutverk hinnar glæsilegu Carole Lombard. Meðal annarra leikara í myndinni sem eru eftirminnilegir eru sérstaklega Robert Stack í hlutverki Stanislavs, Sig Ruman sem Ehrhardt og Stanley Ridges í hinu smáa en þýðingarmikla hlutverki Siletsky.
Fjórum áratugum eftir gerð myndarinnar ákvað leikstjórinn Alan Johnson að endurgera To Be or Not to Be. Til liðs við sig fékk hann góðan leikhóp. Í forystu hans voru hjónin Mel Brooks og Anne Bancroft. Úr verður stórfengleg gamanmynd sem uppfærir margt úr eldri myndinni og býður ennfremur upp á smábreytingu í söguþræði, en ekki það mikla að áhorfandinn taki eftir. Það sem helst blasir við þeim sem fyrst sér gömlu myndina er að aðalsöguhetjurnar heita öðrum nöfnum. Í stað Tura-hjónanna eru þau kennd við Bronski, Frederick og Anna Bronski. Handritið er að langstærstum hluta grunnurinn úr eldri myndinni en á stöku stað er kryddað við. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Mel Brooks, allt í senn sem leikara, handritshöfundar og leikstjóra. Hann túlkar Bronski með gamansömum brag og er auðvelt að hlæja dátt yfir túlkun hans. Anne Bancroft gæðir persónu Önnu mýkt og glæsileika sem er í fararbroddi myndarinnar.
Fyrir alla þá sem þekkja eldri myndina er sú nýlegri sem flott viðbót og skemmtileg ný sýn á myndina. Leikhópurinn gerir myndina mjög eftirminnilega. José Ferrer birtist í hlutverki Siletsky prófessors og stelur senunni þá skömmu stund sem hann er á skjánum. Senuþjófur myndarinnar er þó hiklaust Charles Durning sem með skemmtilega góðum ofleik gerir Ehrhardt ofursta að ógleymanlegum karakter. Það er allavega auðvelt að hlæja dátt yfir myndinni og njóta hennar til fulls. Fyrst og fremst er galdurinn við báðar þessar myndir sígildur húmor. Þær eru léttar og ferskar gamanmyndir sem hitta beint í mark. Það er einmitt þess vegna sem þær hafa lifað svo lengi í hugum kvikmyndaunnenda. Þær eru sem ferskur vindblær á köldu vetrarkvöldi. Allavega skemmti ég mér vel yfir þeim báðum í kvöld.
Ég hvet alla til að sjá myndirnar. Það er þó frekar erfitt að nálgast þá eldri, enda ekki víða til. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hana skulu endilega láta mig bara vita.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 16:15
Undarleg hæfnisröð í hæstarétti

Geir H. Haarde utanríkisráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, í stað Guðrúnar Erlendsdóttur, sem lætur af embætti um miðjan mánuðinn eftir tveggja áratuga setu í réttinum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ákvað að víkja sæti við skipan dómara og Geir því settur dómsmálaráðherra í málinu. Það eru viss tímamót í því fólgin að Guðrún Erlendsdóttir láti af embætti dómsmálaráðherra. Hún var fyrsta konan sem skipuð var í hæstarétt Íslands og er eina konan sem gegnt hefur embætti forseta hæstaréttar. Aðeins hafa tvær konur verið skipaðar til setu í hæstarétti, Guðrún og Ingibjörg Benediktsdóttir. Guðrún er sjötug á árinu og því komu starfslokin engum á óvart.
Fjórar umsóknir bárust um stöðu dómara við hæstarétt að þessu sinni: frá Hjördísi Hákonardóttur, dómsstjóra Héraðsdóms Suðurlands, Páli Hreinssyni, lagaprófessor og deildarforseta lagadeildar Háskóla Íslands, Sigríði Ingvarsdóttur, héraðsdómara við héraðsdóm Reykjavíkur og Þorgeiri Inga Njálssyni, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness. Í gær skiluðu dómarar í réttinum áliti sínu um mat á umsækjendur, en skv. fjórðu grein dómstólalaga ber dómurum að skila áliti um hvort umsækjendur séu hæfir til setu í réttinum. Telur rétturinn Pál vera hæfastan í embættið. Hjördís og Sigríður eru metnar næst og Þorgeiri Inga er raðað neðst í hópinn og greinilega tekið fram að hann sé skör neðar settur í matinu.
Hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson skiluðu sératkvæði og Jón Steinar tók sérstaklega fram þá skoðun þeirra að ekki eigi að raða umsækjendum í hæfnisröð. Tek ég undir mat þeirra. Það er verulega undarlegt, svo ekki sé nú meira sagt, að dómarar við Hæstarétt Íslands taki sér það bessaleyfi að raða umsækjendum í hæfnisröð og stilli þeim upp að eigin hætti. Finnst mér vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda, eins og vel sást í tilfelli seinustu skipunar í réttinn haustið 2004.
Að mínu mati er það alveg ljóst að dómarar eigi aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í fjórðu grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum. Þessi hæfnisröð dómara við skipan í stöðuna vekur upp margar spurningar óneitanlega.
Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Það verður erfitt verkefni fyrir ráðherra að velja einn af umsækjendum til starfa. Um er að ræða mjög hæfa einstaklinga sem sækja um og reynda á sínu sviði. Það bætir hinsvegar ekki úr skák, hvorki fyrir umsækjendur né ráðherra sem hefur skipunarvaldið varðandi stöðu dómara, að dómarar við Hæstarétt taki upp á því að raða mönnum í röð eftir geðþótta sínum eða velji einhverja sérstaka úr með þessum hætti.
Það eru margar spurningar sem vakna varðandi þessa hæfnisröð og það mat sem sitjandi dómarar leggja áherslu á að þessu sinni, rétt eins og haustið 2004 er síðast var skipað í réttinn. Mikilvægt er því eins og fyrr segir að breyta lögum um réttinn og að aðrir en sitjandi dómarar felli úrskurð um hæfni umsækjenda um stöðu dómara við réttinn.
Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Það var þann 26. maí 1968 sem formlega var fært úr vinstri umferð yfir í þá hægri.
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965.
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari 20. aldarinnar.
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína.
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004.
Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)