MA sigrar í Gettu betur

Tryggvi, Ásgeir og Magni fagna sigrinum

Menntaskólinn á Akureyri sigraði í kvöld í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Ásgeir, Tryggvi og Magni unnu góðan, sannfærandi og umfram allt glæsilegan sigur. MA hlaut 34 stig en Verzlunarskóli Íslands hlaut 22 stig. MA tók þetta með miklu trompi og hlaut 24 stig í hraðaspurningunum. Sigur MA var því aldrei í raunverulegri hættu. Það er gleðiefni að sjá þennan góða árangur strákanna og þeir eiga sigurinn svo sannarlega skilið eftir að hafa tekið Verzló í gegn með svo afgerandi hætti. Útsendingin var vel heppnuð og sérstaklega gaman að sjá félaga minn, Júlla, sem er með mér í stjórn Varðar taka lagið með félaga sínum.

Þeir sem muna eftir gullaldartímanum er MA vann ógleymanlega sigra í keppninni fagna í kvöld. MA vann keppnina árin 1991 og 1992. Liðið var þá skipað af Pálma Óskarssyni (bróður Magna), Finni Friðrikssyni og Magnúsi Teitssyni. Þessi gullaldartími í byrjun tíunda áratugarins sem var kenndur við Akureyri var alveg ógleymanlegur og gengi skólanna okkar hér er mörgum ferskur í minni en árið 1992 kepptu MA og VMA til úrslita. Það var alveg frábær keppni og Íþróttahúsið alveg troðið. Var ég staddur þar er sú keppni fór fram - þá var sko stemmning! Síðan hefur gengi MA verið brokkgengt en í fyrra keppti MA til úrslita gegn Borgarholtsskóla en tapaði slagnum.

Innilega til hamingju Ásgeir, Tryggvi og Magni. Þið hafið mikið haft fyrir sigrinum og verðskuldið hann svo sannarlega. Það er leitt að hafa ekki getað verið staddur í Reykjavík og fylgst með keppninni þar en maður varð að gera sér áhorf í sjónvarpi sér að góðu og gleðst með MA-ingum hér norðan heiða í snjóbylnum sem hér geisar. Góða ferð með hljóðnemann verðmæta norður strákar! :)

Félagi minn, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, var í Gettu betur-liði MS (sem hefði átt að komast mun lengra en raunin varð). Hann fór yfir Gettu betur veturinn í flottri færslu á bloggvefnum sínum í kvöld.


Snjóbylur á Akureyri

Vetrarveður á Akureyri

Mikið vetrarríki er heldur betur nú hér norður á Akureyri. Það snjóar og er mikið rok með og því mjög slæmur snjóbylur. Það er vonandi að þetta sé páskahretið sem nú er í gangi. Hanna systir lenti í slæmu umferðaróhappi í dag og var stálheppin miðað við allar aðstæður. Hún fékk nokkuð högg á sig við slysið, bíllinn er auðvitað ónýtur en hún slapp ótrúlega vel en þurfti að vera upp á spítala dágóða stund í dag. Það er Guðs mildi að hún slapp svo vel og að ekki hafi farið verr en þetta.


Bautinn 35 ára

Bautinn

Að mínu mati er Bautinn besti veitingastaðurinn á Akureyri og sá veitingastaður hér sem minnir mig mest á höfuðeinkenni miðbæjarins. Bautinn er enda fyrir margt löngu búinn að setja sterk einkenni á miðbæinn okkar. Í dag eru 35 ár liðin frá því að Bautinn opnaði. Allt frá upphafi hefur hann verið einn vinsælasti veitingastaður bæjarins og margir lagt leið sína þangað. Í raun verður enginn maður með mönnum hér fyrr en hann venur komur sínar á Bautann og fær sér þar úrvalsmat. Í dag var frábært tilboð á réttum á staðnum í tilefni afmælisins. Dreginn var fram matseðill frá fyrstu árunum og valdir af honum vinsælustu réttirnir og þeir boðnir á sama verði og fyrir 25 árum.

Meðal þess sem var í boði var turnbauti á 300 kr, körfukjúklingur á 245 kr. og hamborgari á 85 kr - hvorki meira né minna. Ég fór eftir vinnu síðdegis á Bautann og fékk mér ásamt fleirum borgarann á þessu lygilega 35 ára gamla verði. Borgarinn er fyrir löngu orðinn goðsagnakenndur og rann ljúflega niður. Það var gaman að líta á Bautann og þar var svo sannarlega fjölmenni að borða, sem ekki undrun er miðað við prísinn á þessum afmælisdegi. Ég vil nota tækifærið og óska þeim á Bautanum innilega til hamingju með afmælið og þakka fyrir mig. Það er alltaf gaman að fara á Bautann, borða góðan mat og njóta góðrar þjónustu sem þar er veitt.


Bloggfærslur 6. apríl 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband