Að loknum flokksráðsfundi

Fálkinn

Flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var um helgina hér á Akureyri lauk á fimmta tímanum í dag. Fundurinn var vel sóttur og mjög kraftmikill. 49 dagar, sjö vikur, eru nú til sveitarstjórnarkosninga. Flokksmenn, í forystu félaga og á framboðslistum flokksins um allt land, komu saman til fundar ásamt flokksráðsfulltrúum og ræddu kosningamál þeirrar kosningabaráttu sem framundan er. Í stjórnmálaályktun fundarins kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn vill færa verkefni á sviði öldrunarmála til sveitarfélaga og leggur áherslu á að áfram verði haldið varnarsamstarfi við Bandaríkin í ljósi breyttra aðstæðna. Á fundinum var farið yfir kosningamálin og flokksmenn lögðu línurnar í kosningabaráttunni með stjórnmálaályktuninni og vinnunni sem þar fór fram. Fundurinn var líflegur og hressandi og gaman að hitta góða félaga.

Yfirskrift fundarins var: "Aukinn árangur - vaxandi velferð". Við leggjum enda mikla áherslu á að kynna öfluga forystu okkar og verk í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu. Á þeim góða árangri byggjum við í starfi okkar og áherslum á næstu árum í aðdraganda tveggja kosninga. Fram kemur í stjórnmálaályktun okkar að við viljum breytta hugsun í málefnum aldraðra þar sem sjálfstæði, sjálfræði og aukið valfrelsi í eigin málum er lagt til grundvallar. Nú sem ávallt fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn ásýnd ferskleika og framsýni í stjórnmálum hérlendis. Í ályktuninni var orðum sérstaklega beint að R-listanum sáluga í Reykjavík. "Fjármálastjórn" vinstri manna þar er enda víti til varnaðar - R-listanum sáluga tókst jú á mesta hagsældarskeiði þjóðarinnar að stórhækka álögur á íbúana og margfalda skuldir stærsta sveitarfélags landsins. Á þessu verður breyting við valdaskipti í vor.

Geir H. Haarde

Fundurinn hófst síðdegis í gær með kraftmikilli ræðu formanns okkar, Geirs H. Haarde utanríkisráðherra. Þar fjallaði hann um stjórnmál dagsins í dag með sínum hætti. Fannst mér honum mælast vel og var góður rómur gerður að ræðu hans. Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi flutti öfluga og góða ræðu að lokinni ræðu formannsins. á Að því loknu kynnti Kristján Þór drög að stjórnmálaályktun fundarins. Eftir setningarathöfnina héldum við í móttöku í Háskólanum á Akureyri og þar kynnti Þorsteinn Gunnarsson rektor, sögu skólans og það mikilvæga starf sem þar fer fram. Hátíðarkvöldverður hófst á Hótel KEA um áttaleytið. Þar flutti Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs, hátíðarræðu og Gunnar Ragnars var veislustjóri og gerði það með glans eins og hans er von og vísa.

Mikil og góð stemmning var á Hótel KEA. Er líða tók á nóttu héldum við þau allra hörðustu skemmtanafíklarnir á skemmtistað úti í bæ og sungum og dönsuðum langt fram á nóttina. Þetta var svo sannarlega frábært kvöld. Fundur hélt áfram kl. 9:30. Áherslur fundarins voru á málefni aldraðra og fjölskyldunnar. Góð erindi voru þar flutt og við sem vinnum að kosningabaráttu flokksins um allt land fengum gott námskeið í þeirri vinnu sem framundan er. Í alla staði heppnaðist fundurinn vel og við förum öll glöð og hress heim til okkar að honum loknum - staðráðin í því að vinna öll af krafti. Lykilmarkmiðið er að tryggja Sjálfstæðisflokknum góðan og glæsilegan sigur í kosningunum eftir 49 daga.

Fram til sigurs!


Snorri poppstjarna Íslands 2006

Snorri Snorrason - poppstjarna Íslands

Snorri Snorrason var í gærkvöldi kjörinn poppstjarna Íslands árið 2006 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hann um sigurinn í keppninni við Ínu Valgerði Pétursdóttur. Alls bárust rúm 115.000 atkvæði og hlaut Snorri 63.800 atkvæði eða 55%. Ína hlaut 52.200 atkvæði eða 45% atkvæða. Var rafmagnað andrúmsloft er úrslitin voru tilkynnt. Bæði stóðu Snorri og Ína sig alveg frábærlega í þessum úrslitaþætti. Fóru þau bæði algjörlega á kostum og fluttu hvor um sig þrjú stórfengleg lög.

Snorri söng He ain't heavy, he's my brother (með Hollies) og Feel (með Robbie Williams) á meðan að Ína söng Piece of my heart (með Janis Joplin) og Because you loved me (Celine Dion). Bæði sungu þau svo lagið Allt sem ég á, eftir John Reid, heimskunnan lagahöfund sem samið hefur lög fyrir Rod Stewart, Westlife, Tinu Turner og Kelly Clarkson, bandarísku poppstjörnuna 2002. Textinn við lagið var saminn af Stefáni Hilmarssyni. Snorri gerði þetta lag algjörlega að sínu og brilleraði við að syngja það. Hiklaust var það hans besta frammistaða í keppninni.

Snorri Snorrason - poppstjarna Íslands 2006

Snorri er vel að sigrinum kominn í keppninni. Hann hefur notið mikillar hylli í keppninni allt frá upphafi og vakið athygli fyrir flott lagaval og að hafa sýnt bæði mjúku og hörðu hliðina. Snorri, sem kallaður er Hvíti kóngurinn, hefur verið hlédræga týpan og nokkuð til baka en hefur vaxið mikið í gegnum þátttöku sína í keppninni og vann hana enda með glans. Sama má segja um Ínu Valgerði, sem aðeins 18 ára gömul hefur komist lengst allra í keppninni undir tvítugu og hefur náð glæsilegum árangri.

Bæði voru þau þess verðug að komast svo langt og þau hafa rækilega stimplað sig á tónlistarkortið. Snorri er hin sanna stjarna og vonandi gengur honum vel á framabrautinni, sem og öllum öðrum þátttakendum keppninnar þetta árið.


Bloggfærslur 8. apríl 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband