9.4.2006 | 23:21
Sunnudagspistill - 9. apríl 2006

Tvö mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Það eru sjö vikur til sveitarstjórnarkosninga - þá ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa sína á sveitarstjórnarstiginu. Í aðdraganda kosninganna komum við sjálfstæðismenn saman hér á Akureyri um helgina og stilltum saman strengi okkar. Þessi fundur var sögulegur að mörgu leyti. Umfram allt vegna þess að þetta er í fyrsta skipti í 77 ára sögu Sjálfstæðisflokksins sem fundur af þessu tagi er haldinn utan Reykjavíkur og er svo sannarlega kominn tími til myndi einhver segja. Það var okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri sannur heiður og gleðiefni að fundinum skyldi valinn staður hér norðan heiða. Fundurinn gekk alveg ljómandi hreint fyrir sig og hingað mættu rúmlega 200 manns til fundahalda og skemmti sér konunglega.
- Á fimmtudag birtist fyrsta skoðanakönnunin á fylgi framboðanna á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Voru niðurstöðurnar athyglisverðar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 4 fulltrúa, vinstri grænir 3, Samfylking 2 og Framsóknarflokkur og Listi fólksins hafa 1. Samkvæmt þessu er því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn. Ástæðan er auðvitað fylgishrun Framsóknarflokksins. Greinilegt er að frægðarsól Framsóknarflokksins í þessu gamla höfuðvígi þeirra er eitthvað farin að síga. Þessi könnun er vísbending á stöðu mála en kosningabaráttan er rétt að hefjast og verður spennandi.
Viðbót
Að lokum vil ég benda á að ég hef ákveðið að hætta að birta ágrip sögu dagsins og snjallyrði eins og ég hef gert mjög lengi. Tel ég rétt að stokka upp umfjöllun á vefnum og munu færslurnar nú verða um eitt tiltekið efni og fleiri en ein færsla á hverjum degi. Það er eftirsjá af þessum gömlu fastaliðum en ég tel mig hafa staðið mig ágætlega við að benda á sögulega punkta og snjallyrði og tel ágætt að stokka þetta upp nú. Eftir sem áður mun ég reyna að blanda sögulegum punktum í skrifin á vefnum.
kv. SFS
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2006 | 23:14
Risastór gullaldarklassík kvikmyndabransans

Í dag er pálmasunnudagur. Ég eyddi þeim degi í mikla afslöppun eftir miklar annir seinustu daga og ákvað að horfa á gamla og góða stórmynd. Það hefur lengi verið svo með mig að ég tel svona helgidaga ágæta til að horfa á langar og veglegar myndir. Ég horfði á eðalmyndina Giant - stórfenglegt og ógleymanlegt meistaraverk frá miðjum sjötta áratugnum þar sem sagt er frá hinum geysilegu þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað í Texas, er það breyttist úr mikilvægu nautgriparæktarhéraði í stærsta olíuiðnarfylki Bandaríkjanna á fjórða og fimmta áratug 20. aldarinnar. Hér segir frá nautgripabóndanum Jordan Benedict sem á stærsta búgarð Texasríkis, Reata, og rekur hann búið ásamt hinni kjarnmiklu systur sinni Luz Benedict í upphafi myndarinnar. Allt hans lífsmynstur tekur miklum breytingum er hann kynnist hinni auðugu Leslie Lynnton og giftist henni.
Er hann snýr aftur heim með eiginkonu sína breytist líf hans til muna er hún tekur til við að stjórna fjölskyldubúinu að sínum hætti og mislíkar systur hans ráðríki eiginkonunnar. Er hún fellur snögglega frá eftir að hafa dottið af baki á hesti eiginkonu bróður síns breytist lífsmynstrið á búgarðinum og tekur Leslie þá að fullu við húsmóðurhlutverkinu á staðnum. Er Luz Benedict fellur frá kemur í ljós að hún hefur ánafnað vinnumanninum á bænum, Jett Rink, stóran landskika af búgarði óðalseigandans. Reynir Jordan að borga honum jafnvirði skikans til að halda því innan fjölskyldunnar. Jett hafnar því og reynist skikinn luma á ofurgnótt olíulinda. Vinnumaðurinn rís úr öskustónni og reynir að ásælast völd og áhrif óðalsbóndans - upp hefst öflug valdabarátta þar sem öllum brögðum er beitt. Óviðjafnanleg kvikmynd sem lýsir hinum miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu í Texas um miðja 20. öldina á einstaklega góðan hátt.
Hér er allt til að skapa ógleymanlegt meistaraverk; handritið, myndatakan og tónlistin eru frábær, en aðall myndarinnar er leikstjórn meistarans George Stevens, sem hlaut óskarinn fyrir. Leikurinn er í klassaformi. Rock Hudson var aldrei betri og glæsilegri en í hlutverki óðalsbóndans Jordan Benedict. Mercedes McCambridge er stórfengleg í hinu litla en bitastæða hlutverki kjarnakonunnar Luz Benedict og hlaut hún óskarinn fyrir. Elizabeth Taylor er eftirminnileg í hlutverki ættmóðurinnar Leslie Lynnton Benedict og skapar eftirminnilega og heilsteypta persónu sem heldur reisn sinni og glæsileika til enda. Síðast en ekki síst er James Dean frábær í síðasta kvikmyndahlutverki sínu sem hinn áhrifagjarni og valdagráðugi Jett Rink sem fellur að lokum á eigin bragði. Hann lést í bílslysi hinn 30. september 1955, örfáum dögum eftir að tökum á myndinni lauk. Dean var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, eftir andlát sitt (fyrstur allra).
Hafði ég ekki séð þessa mynd alllengi er ég setti hana í tækið - en ég hafði keypt myndina á DVD fyrir rúmu ári. Var ég satt best að segja búinn að gleyma hvað þessi mynd er ótrúlega góð og sterkbyggð lýsing á Texas, fyrir og eftir breytingarnar miklu í olíubissnessnum. Þetta þriggja tíma svipmikla meistaraverk hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Að mínu mati kunnu þeir sem gerðu myndir á fyrrihluta 20. aldarinnar betur þá miklu snilld að segja frá dramatískum stórátökum og skapa hina gullnu stórmynd en arftakar þeirra (með nokkrum undantekningum þó). Það er valinn maður á hverjum pósti í þessu epíska meistaraverki og hefur myndin jafnvel batnað með aldrinum, eins og hið allra besta rauðvín.
Semsagt: gullaldarklassík sem er nauðsynlegt öllum þeim sem hafa gaman af eðalmyndum kvikmyndasögunnar. Og ekki síst öllum þeim sem vilja verða vitni að seinustu töfrum hinnar gömlu kynslóðar sem gerði Hollywood að því stórveldi sem það er í dag. Ómótstæðilegt tímamótaverk - þessa verða allir að sjá (og upplifa með sínum hætti).
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2006 | 22:33
Reiðilestur Ingibjargar Sólrúnar

Sömu helgi og við sjálfstæðismenn héldum flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafund okkar hér á Akureyri hittust Samfylkingarmenn á flokksstjórnarfundi í Reykjavík. Þar hélt ræðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins og borgarfulltrúi. Þar flutti hún mikinn reiðilestur yfir flokksmönnum og skammaði allt og alla sem með einhverjum hætti tengjast Sjálfstæðisflokknum. Aðalfréttin eftir þennan fund var að hún veittist að flokknum og valdi honum vond orð. Ekki örlaði mikið á fréttum af stefnu Samfylkingarinnar eða tali formannsins um málefni væntanlegar kosningabaráttu í fréttum. Ég tel að allir hafi vitað um hug Ingibjargar Sólrúnar til Sjálfstæðisflokksins og þætti væntanlega ekki fréttnæmt þó að hún léti gremju sína í garð hans í ljós. Ingibjörg Sólrún virðist hafa mjög fátt fram að færa nema gremju í garð andstæðinga sinna. Það er ekki furða þó að pólitískir spekúlantar líti á Samfylkinguna sem furðulegt rekald í pólitík.
Ingibjörg Sólrún hefur þótt mistæk á formannsstóli Samfylkingarinnar. Flokkurinn átti í verulegri krísu fyrstu mánuði formannsferils hennar en hann hefur þó rétt örlítið úr kútnum seinustu vikur eftir dapurt gengi í könnunum. Hún átti í verulegum erfiðleikum með að fóta sig á sviðinu. Henni virðist sérstaklega reynast erfitt að fóta sig pólitískt eftir að Davíð Oddsson fór úr stjórnmálum. Öll hennar stjórnmálabarátta seinustu árin, eftir að hún kom aftur inn í landsmálin, eftir misheppnaða útgöngu úr hlutverki sameiningartákns R-listans (sem lauk með harkalegum hætti) hefur enda miðast við andstöðuna við Davíð Oddsson. Hún hefur allan þann tíma reynt að skáka Davíð. Henni tókst það aldrei í pólitískum slag við Davíð Oddsson og virkað vandræðaleg eftir brotthvarf hans. Ingibjörg Sólrún er nú að marka sér endanlega sess í landsmálum. Hún skipar heiðurssæti Samfylkingarinnar í borginni og það styttist því í að setu hennar í borgarstjórn ljúki.
Ingibjörg Sólrún birtist okkur sem fylgjumst með stjórnmálum sem mjög reið kona og reið út í andstæðinga sína. Það að einhverjum hafi þótt reiðilestur hennar yfir Sjálfstæðisflokknum efni í fyrstu frétt á forsíðum eða fréttatímum er stórundarlegt. Andstaða hennar við allt sem tengist Sjálfstæðisflokknum er fyrir löngu orðin landskunn og ergelsi hennar í garð Davíðs Oddssonar gleymist engum. Gamla platan virðist komin á nú þegar að styttist í kosningar. Það er kannski varla undarlegt með Sjálfstæðisflokkinn yfir í borginni og sterkan í könnunum í landsmálunum. Það stefnir allt í að Samfylkingin missi völdin í borginni og flokkurinn virðist ganga sneyptur í landsmálapælingum. Það er ekki undarlegt að Ingibjörg Sólrún sé reið. En það að reiði hennar sé aðalfréttin vekur athygli og um leið spurningar um hvort að þessi flokkur hafi engin málefni að keyra á í kosningabaráttunni nema stefnuleysi í varnarmálum og daður við einhverja óra um að Evrópuríkin taki að sér varnir landsins.
Það er því skiljanlegt að Ingibjörg Sólrún flytji reiðilestur yfir flokksmönnum sínum - þó telst það undarlegt að sá reiðilestur í garð Sjálfstæðisflokksins sé fréttnæmur. Það að formaður Samfylkingarinnar hafi ekkert fram að færa á slíkum fundi og var um helgina vekur mikla athygli, einkum á málefnastöðu flokksins.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)