Vandræðalegur forseti leggur hornstein

Ólafur Ragnar leggur hornstein

Í gær lagði Ólafur Ragnar Grímsson hornstein að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Einhverntímann hefði það sennilega þótt tíðindi að fyrrum formaður Alþýðubandalagsins ætti eftir að leggja hornstein að stöðvarhúsi virkjunar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það er ánægjulegt að forseti Íslands hafi séð sér fært að fara austur og gefa með því til kynna að hann láti andúð vissra afla gegn framkvæmdinni sem vind um eyru þjóta. Hann beitti ekki 26. greininni gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma sem sagði auðvitað margt. En mörgum finnst það eflaust kaldhæðið að fyrrum leiðtogi sósíalistaflokks leggi slíkan hornstein. Kannski er þetta merki þess umfram allt að forsetinn lætur andúð vissra afla í landinu gegn þessum framkvæmdum fyrir austan ekkert á sig fá. Það er gleðiefni.

Forsetinn er að sinna embættisverkum sínum og fer sem forseti Íslands austur. Hann skrifaði undir lögin frá Alþingi á sínum tíma. Nú veit ég ekki hvort forsetinn sé samþykkur virkjun á Austurlandi en það er kannski svo að hann lætur embættisverk ekki fara eftir því hvort hann sé hlynntur því eða ekki. Forsetinn staðfesti lögin. Í forsetakosningunum 2004 var mikið rætt um það af hverju hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin vegna þess að hann fann fyrir gjá milli þings og þjóðar en ekki í þessu tiltekna máli. Hann gat aldrei svarað því sómasamlega - talaði út í eitt en fór undan í flæmingi þegar að umræðuefnið var borið upp. Það eru því margir enn að velta fyrir sér skoðunum hans. En forsetinn fer austur vegna þess að hann er þjóðhöfðingi landsins og sinnir sínum verkum.

Það verður svo að ráðast hvort fólk telur að hann sé að tala máli framkvæmdarinnar með því, sem greinilega sumum finnst í samfélaginu - þeim sem voru á móti virkjun á Austurlandi. Þeir sem kusu hann fyrir tveim árum eftir að hann staðfesti lögin á sínum tíma verða að hugsa sitt mál. Við sem kusum engan forsetaframbjóðanda síðast og sátum hjá þurfum ekki að velta þessum forseta mikið fyrir sér og hvort hann segi eitt eða geri annað. Hann var þó ekki stóriðjusinni þegar að hann var á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Veit ekkert hvar hann stendur nú. En mér fannst þó sem hann væri steinrunninn við verkið og vissi ekkert hvernig hann ætti að haga sér. Það er kannski ekkert undarlegt þegar í huga forsetans blunda eflaust enn hugsanir og gjörðir hans sem leiðtoga síns gamla flokks.

En hvað með það. Aðalatriðið á þessum degi er ekki sálarhugsanir gamals kommúnistaleiðtoga á vinstrivæng íslenskra stjórnmála sem vonandi hættir fljótlega sem forseti Íslands. Upp úr stendur auðvitað gleði Austfirðinga með uppbygginguna þar. Það er mikil samstaða og ánægja ríkjandi fyrir austan með niðurstöðu mála. Ég vil óska þeim til hamingju með þennan áfanga, nú þegar að styttist óðum í að álver við Reyðarfjörð verði að veruleika.


Tónleikar til minningar um afa

Friðrik Árnason

Þann 7. maí sl. voru 110 ár liðin frá fæðingu afa míns, Friðriks Árnasonar á Eskifirði. Það er óhætt að segja að afi hafi átt merka ævi og gert margt um dagana. Er erfitt að lýsa því öllu í stuttu máli. Bendi ég á vandaða minningargrein frænda míns, Árna Helgasonar í Stykkishólmi, um afa sem birtist í Morgunblaðinu þann 1. ágúst 1990, daginn sem hann var jarðsunginn frá Eskifjarðarkirkju. Afmælis hans er minnst um helgina með tónleikum í Eskifjarðarkirkju. Fyrir þeim stendur frændi minn, Friðrik Kristinsson stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur. Því miður get ég ekki farið austur að tónleikunum vegna anna í kosningabaráttu hér norðan heiða. En ég vona að þessir tónleikar verði flottir og góðir - veit að Friðrik hefur lagt mikla vinnu í undirbúning. Vona að ættingjar mínir austan heiða og aðrir tónleikagestir hafi gaman af þessum tónleikum.


Útitafl sjálfstæðismanna á Ráðhústorgi

Mælirinn sýndi tvær gráður á Ráðhústorginu - norðanvindurinn næddi um áhorfendur þegar að sjálfstæðismenn héldu útitafl sitt í gær. Þar var létt og notaleg stemmning - allir hressir og létu kuldann ekkert á sig fá. Taflmennirnir voru sprelllifandi og sjá mátti frambjóðendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ýmist í hvítum eða svörtum treyjum á taflborðinu. Þeir létu sig ekki muna um að skipta um hlutverk í augnablik og gerast taflmenn í rúman hálftíma.

Í skákinni kepptu þeir Friðrik Ólafsson stórmeistari og fyrrum skrifstofustjóri Alþingis, sem tefldi fyrir D-listann og Gylfi Þórhallsson, skákmeistari Akureyrar sem tefldi fyrir Skákfélag Akureyrar. Unnsteinn Jónsson frambjóðandi, hafði veg og vanda af skipulagningu og Halldór Blöndal leiðtogi flokksins í kjördæminu, var skákmönnum til halds og trausts á meðan að Kristján Þór stýrði leikmönnum af snilld á sjálfu taflborðinu - sérgerðu á Torginu.

Til hliðar stóðu stuðningsmenn framboðsins í kuldanum og fylgdust með. Skemmtu allir sér konunglega og höfðu gaman af. Að loknu taflinu skelltu kaldir skákáhugamenn og stuðningsmenn D-listans sér á kosningaskrifstofuna þar sem Oktavía, Sigrún Óla og Gulla Sig biðu með heitar vöfflur og ekta kakó. Frábær stemmning í gær og fjölmenni á skrifstofunni og var gaman að spjalla yfir kakóbolla og vöfflu. :)


Bloggfærslur 13. maí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband