14.5.2006 | 20:24
Daufleg kosningabarátta í höfuðborginni

Mesti fókusinn í kosningabaráttunni beinist venju samkvæmt að Reykjavík. Leiðtogar framboðanna fimm, þau Vilhjálmur Þ, Björn Ingi, Dagur B, Svandís og Ólafur F, hafa verið mjög áberandi seinustu vikur við að kynna sig og málefni síns framboðs. Að mati flestra er þó kosningabaráttan í borginni frekar daufleg að þessu sinni. Minni átök og málefnaágreiningur er sýnilegur núna en var í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2002. Reyndar var sú kosningabarátta með því harðara sem sést hafði og jafnaðist á við baráttuna árið 1994 þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Sigfússon börðust á hæl og hnakka fyrir atkvæðum borgarbúa í jafnri baráttu. Síðast áttust Björn Bjarnason og Ingibjörg Sólrún við í sönnum leiðtogaslag sem jaðraði við að vera hreint einvígi enda voru litlir kærleikar þeirra á milli og mikil heift í slagnum.
Kosningabaráttan er því gjörólík því sem var fyrir fjórum árum. Það helgast eflaust líka af því að meirihlutaaflið býður ekki lengur fram og heyrir sögunni til og þrjú framboð eru komin í stað R-listans. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa því aðra stöðu en í þrem seinustu kosningum. Það er ekki óeðlilegt að mörgum þyki baráttan í borginni dauf enda eru fá sem engin kosningamál í gangi sem hiti er um. Kosningarnar eru lítið til umræðu og lítil átök - ótrúlega lítið um að vera sé mið tekið af því að það eru aðeins 13 dagar til kosninga. Tekist hefur verið á um flugvöll á Lönguskerjum vissulega og málefni aldraða hefur verið í umræðunni. En bitmikil mál sem brenna á eru varla til staða að neinu ráði. Seinustu daga hefur aðalmálið í umræðunni verið það að Framsókn keyrði bíl sínum, sem er risavaxinn Hummer að gerð, í stæði fatlaðra og mynd náðist af því sem fór eins og eldur í sinu um netið.
Um fátt hefur verið rætt meira og ber þetta auðvitað vitni slappri málefnabaráttu í þessum kosningum. Deilt hefur verið um það skiljanlega að Steinunn Valdís fari í fundaferð sem borgarstjóri um borgina rétt fyrir kosningar, þegar að allir vita að borgarstjóraferli hennar er að ljúka. Það er ekki furða að margir séu hissa þegar að aðalumræðuefnin eru flugvöllur úti á skerjum sem virkar framtíðarsinfónía, jeppatröll Framsóknar í fatlaðrastæði og fundabrölt fráfarandi borgarstjóra. Nú þegar haldið er inn í næstsíðustu viku kosningabaráttunnar má búast við harðari línum og meira fjöri - auglýsingar í sjónvarpi fara væntanlega að verða meira áberandi og svo má búast við að tekist verði af að alvöru seinustu dagana.
Nú þegar lokaspretturinn blasir við stefnir flest í endalok vinstristjórnarinnar og valdatöku Sjálfstæðisflokksins á þessum tímapunkti en væntanlega verður harkan meiri eftir því sem fleiri kannanir koma en ískyggilega langt er orðið frá þeirri síðustu. Nú þegar að kosningabaráttan er að verða búin mun könnunum fjölga og krafturinn aukast væntanlega - enda eftir miklu að slægjast í kosningunum í Reykjavík.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 17:13
Sterk staða Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallup í Hafnarfirði er Samfylkingin undir forystu Lúðvíks Geirssonar þar á sigurbraut. Skv. tölunum bætir Samfylkingin við sig manni á kostnað Sjálfstæðisflokksins. VG er mjög nærri því að ná inn manni. Eins og allir vita vann Samfylkingin stórsigur í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði og hlaut hreinan meirihluta og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Magnúsar Gunnarssonar sem leiddi sjálfstæðismenn frá árinu 1994. Lúðvík, sem leiddi Samfylkinguna, varð bæjarstjóri og hefur leitt meirihlutann af krafti á þessu tímabili. Hafnarfjörður hefur alltaf verið traust vígi jafnaðarmanna og t.d. leiddi Alþýðuflokkurinn þar meirihluta undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar 1986-1994. Niðursveifla kom í veldið árin á eftir vegna hneykslismála tengdum Guðmundi Árna en landið reis síðast.
Það er auðvitað með hreinum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði dali frá því sem síðast var. Eins og allir vita er Hafnarfjörður heimabær Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins og Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra - verður merkilegt fyrir þau að halda inn í næstu þingkosningar verði niðurstaða kosninganna í takt við þetta. Að mínu mati er ein lykilástæða á bakvið þessa niðursveiflu flokksins. Það er slöpp forysta og undarleg stefna. Það var auðvitað með hreinum ólíkindum að flokksmenn skyldu hafna Valgerði Sigurðardóttur, farsælum bæjarfulltrúa og forystukonu í nefndum bæjarins, í prófkjörinu undir lok síðasta árs. Valgerður hafði unnið af krafti og miklum heilindum fyrir flokkinn. Hún ákvað að taka ekki sæti á listanum - réði þar mestu ófrægingarherferð andstæðings hennar gegn henni persónulega í prófkjörsslagnum.
Svo er það ekki að styrkja Sjálfstæðisflokkinn í bænum að Haraldur Þór Ólason leiðtogi listans, hefur sagt skýrt að hann ætli sér ekki að axla þá ábyrgð að verða bæjarstjóri að loknum kosningum myndi flokkurinn fá til þess kraft. Hefur mér þótt lengi að það yrði sterkt hjá flokknum að bjóða Rósu Guðbjartsdóttur - kraftmikla kjarnakonu í öðru sæti listans - sem bæjarstjóraefni hans. Það virðist ekki hafa notið hljómgrunns hjá Haraldi og hans fólki. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði megi þakka fyrir að halda sér yfir þeim 40% sem þeir fengu í síðustu kosningum miðað við stöðuna. Mér hefur þótt um nokkurt skeið sem að stefndi í öruggan sigur Samfylkingarinnar og Lúðvíks. Það staðfestist í þessari könnun svo ekki verður um villst. Spennan virðist snúast um hvort að Samfylkingin fái sjö menn eða VG nái inn á kostnað þeirra. Líkur eru því miður á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái aðeins fjóra.
Auðvitað vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn nái sterkari stöðu en sést í þessari könnun en ég tel þó flest benda til öruggs sigurs Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sá kosningasigur leiði til þess að Lúðvík Geirsson fari í leiðtogaframboð í Kraganum að ári.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 16:41
Stefnir í afhroð Framsóknarflokksins í Kópavogi

Eitt af því sem vekur mesta athygli við komandi sveitarstjórnarkosningar er erfið staða Framsóknarflokksins um allt land. Á nær öllum stöðum þar sem birst hafa skoðanakannanir blasir við að flokkurinn er í gríðarlegri vörn og hefur misst gríðarlega mikið fylgi. Á sumum stöðum er hann að missa ráðandi stöðu sína. Það leikur enginn vafi á því að það sveitarfélag sem verið hefur í öndvegi sveitarstjórnarstjórnmála Framsóknarflokksins er Kópavogur. Skv. nýrri skoðanakönnun blasir fylgishrun við þar og í stað þriggja manna inni er flokkurinn naumlega með einn inni. Einn helsti þáttur þess er auðvitað árferðið almennt hjá flokknum eins og fyrr er nefnt. En ég tel að stóri þátturinn í fylgishruni flokksins í bænum sé auðvitað fráfall Sigurðar Geirdal sem var bæjarstjóri í Kópavogi í einn og hálfan áratug, allt til andláts síns árið 2004. Hann var meginstoð flokksins í bænum í 15 ár.
Það fór ekki fram hjá neinum að það var Sigurður sem byggði upp stórveldi flokksins þar. Flokkurinn stækkaði úr smáflokki í ráðandi afl á hans tíma og hann naut gríðarlegra vinsælda. Flokknum tókst að komast í þrjá menn í kosningunum fyrir fjórum árum. Persónulegar vinsældir Sigurðar sem bæjarstjóra og einstaklings í forystu, manns sem fólk treysti, voru auvðitað meginþáttur þess að flokkurinn dafnaði í sveitarfélagi þar sem staða hans var alltaf léleg fram að því. Nú er Sigurður horfinn á braut og svo virðist að fráfall hans þýði að flokkurinn fari aftur í sama stand og var áður en Sigurður varð leiðtogi. Verði þessi könnun að veruleika blasir við að Framsóknarflokkurinn geti þurrkast út í Kópavogi, sem yrðu vissulega stórtíðindi miðað við núverandi völd og áhrif flokksins í bænum. Ég hef reyndar alltaf talið að flokkurinn myndi eiga erfitt núna.
Fráfall Sigurðar Geirdal var Framsóknarflokknum í Kópavogi gríðarlegt áfall - áfall sem þau enn eru að jafna sig á. Sigurði tókst ekki að skilja við flokkinn með þeim hætti sem hann vildi, innri ólga og erfiðleikar tóku sig upp án hans. Flokkurinn er að mörgu leyti í miklum erfiðleikum vegna þess hversu snögglega Sigurður hvarf af pólitísku sjónarsviði. Ég lít á þessa könnun sem skiljanlega miðað við þá erfiðleika - erfiðleika sem við öllum blasa sem fylgst hafa með pólitík í Kópavogi. Nú heyrast raddir þess að Framsókn sé að tapa vegna samstarfsins við Gunnar I. Birgisson bæjarstjóra. Á það ber að minna að Framsóknarflokkurinn leiddi þennan meirihluta í 15 ár af þeim 16 sem hann hefur setið. Sigurður Geirdal og Hansína Ásta Björgvinsdóttir, leiðtogar flokksins, voru enda bæjarstjórar í einn og hálfan áratug - Sigurður í 14 af þeim (Hansína kláraði áður ákveðinn tíma Sigurðar en fyrirfram var ákveðið að hann myndi hætta í júní 2005).
Ef marka könnunina í Kópavogi í gær vill fólk að Gunnar Ingi Birgisson verði áfram bæjarstjóri. Eftir fráfall Sigurðar Geirdal er hann sterki maðurinn í bæjarmálunum og sá sem nýtur mests trausts. Það sannast er spurt er um hver eigi að verða bæjarstjóri og hvaða framboð fólk ætlar að kjósa að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þess hversu öflug forysta Gunnars hefur verið á kjörtímabilinu þegar að bæjarfélagið þarfnaðist styrkrar forystu eftir snögglegt fráfall bæjarstjórans þar í einn og hálfan áratug. Ennfremur blasir við að Framsóknarflokknum í Kópavogi hefur mistekist að höfða til kjósenda og á mikið verk framundan við að vinna úr innri erfiðleikum og sundrungu sem varð eftir andlát Sigurðar Geirdal. Flokkurinn virðist í sárum og er aðallega í vandræðum nú vegna innri vandamála. Það ber því varla að skrifa algjörlega ástandið í Kópavogi á landsmálastöðu flokksins.
En þetta er auðvitað vísbending. Ef marka má þessa könnun heldur meirihlutinn en naumlega þó. Það verður fróðlegt að sjá hvort að miklar pólitískar sviptingar séu framundan í Kópavogi og haldið verði áfram á þeirri farsælu braut sem Gunnar I. Birgisson og Sigurður Geirdal leiddu á farsælu valdaskeiði sínu í Kópavogi. Sú uppbygging sem þeir leiddu saman sést hvar sem farið er um bæinn. Kópavogur er kraftmikið og öflugt sveitarfélag. Það verk vannst undir styrkri stjórn þessara tveggja flokka og engum blandast hugur um að framlag Gunnars í því skipti miklu máli.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2006 | 16:04
Stefnir í sögulegan sigur D-listans í Reykjanesbæ

Það stefnir allt í sögulegan stórsigur Sjálfstæðisflokksins undir forystu Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ. Ef marka má tvær kannanir undanfarna daga, á NFS og RÚV, mælist flokkurinn með um eða yfir 70% fylgi og 8-9 bæjarfulltrúa. Yfirburðir af þessum kalíber eru vægast sagt fáheyrðir. Það þótti mjög djarft árið 2002 þegar að sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ báðu Árna Sigfússon að leiða framboðslista sinn í kosningunum um vorið og verða bæjarstjóraefni flokksins. Vinsæll bæjarstjóri, Ellert Eiríksson, hafði ákveðið að hætta eftir tólf ára starf í Reykjanesbæ og Keflavík áður í samstarfi flokksins við Framsókn. Leiðtogastaðan var laus og Árni var sóttur til verkefnisins og hann flutti til Keflavíkur til að taka við þessu verkefni sem flestir töldu að yrði erfitt enda væri Árni lítið þekktur í bænum og hefði mjög litlar tengingar inn í samfélagið. Reyndin varð aldeilis önnur.
Sjálfstæðisflokkurinn vann sannfærandi sigur í kosningunum og hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Árni varð bæjarstjóri og tók við forystu flokksins af miklum krafti. Eins og allir vita markaði sá sigur ekki upphaf stjórnmálaferils Árna Sigfússonar. Hann hóf ungur stjórnmálaþátttöku sína innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sat í stjórn Heimdallar 1976-1979 og var formaður félagsins á árunum 1981-1983. Hann var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1987-1989 - forveri Davíðs Stefánssonar á þeim stóli. Árni náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1986 og leiddi allt frá upphafi kraftmiklar nefndir og var lengi í forsvari skólamálanna. Flestir töldu að Árni yrði borgarstjóri við brotthvarf Davíðs Oddssonar vorið 1991 í landsmálin. Svo fór þó ekki og Markús Örn Antonsson, sem verið hafði borgarfulltrúi árin 1970-1985, varð borgarstjóri í stað Davíðs.
Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1994 sameinuðust félagshyggjuflokkarnir í sameiginlegt framboð undir merkjum R-lista. Skoðanakannanir sýndu að framboðið myndi vinna stórsigur og mældist um tíma með um 70% fylgi. Í ljósi þeirrar stöðu ákvað Markús Örn Antonsson að segja af sér embætti borgarstjóra þann 14. mars 1994. 70 dögum fyrir borgarstjórnarkosningar, þann 17. mars 1994, tók Árni Sigfússon við embætti borgarstjóra, en hann hafði orðið annar í prófkjöri flokksins (á eftir Markúsi Erni) nokkrum vikum áður. Árni fór í slaginn og mætti þar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þingkonu Kvennalistans, sem varð borgarstjóraefni R-listans. Árna tókst að höggva nærri R-listanum en mistókst að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í kosningunum. Sigur R-listans varð mjög naumur. Árna mistókst ennfremur að leiða flokkinn til sigurs árið 1998 og tapaði þá með aðeins meiri mun en 1994.
Árni ákvað í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 1998 að láta af leiðtogastöðunni í borgarstjórnarflokknum og tók Inga Jóna Þórðardóttir við. Hann sagði sig úr borgarstjórn síðar sama ár og Kjartan Magnússon tók sæti hans. Flestir töldu að stjórnmálaferli hans væri lokið og hann varð áberandi á vettvangi stórfyrirtækja sem forstjóri. Það voru því margir hissa þegar að kallið kom frá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ um að hann leiddi flokkinn í stað Ellerts Eiríkssonar. Það er ekki hægt að segja annað en að það val hafi margborgað sig fyrir þá. Svo virðist vera nú að sameiginlegt framboð minnihlutans fái harkalega brotlendingu og nái engu flugi. Það stefnir allt í sögulegan sigur sjálfstæðismanna undir öflugri forystu Árna.
Ég sendi góðar baráttukveðjur til félaga minna í Reykjanesbæ og hvet þá til dáða og vinna að því að 27. maí verði sögulegur sigurdagur Sjálfstæðisflokksins í bænum. Frændi minn, Georg Brynjarsson, er þar kosningastjóri og heyrast góðar sögur af baráttunni þeirra sem er háð af krafti og með líflegum brag. Ég er sammála Geir H. Haarde formanni Sjálfstæðisflokksins, að kosningabaráttan í Reykjanesbæ sé góð fyrirmynd allra annarra sem flokkurinn vinnur að um allt land. Það verður ánægjulegt að sjá hversu öflugur sigur flokksins verði í sveitarfélaginu. Verði niðurstaðan eitthvað í takt við kannanir stefnir í sögulegan sigur.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)