Góð kosningaumfjöllun NFS

NFS

Í kvöld fylgdist ég með borgarafundi NFS á Ísafirði. Þar voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar á fylgi framboðanna þriggja fyrir kosningarnar eftir 25 daga. Þar eru í boði Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Í-listinn, sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, Frjálslynda flokksins og VG. Í stuttu máli sagt boðar könnunin þar mikil pólitísk tíðindi. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mælist þar fallinn og Í-listinn mælist með hreinan meirihluta, 5 bæjarfulltrúa af níu. Missa báðir meirihlutaflokkarnir þar mann. Það er vissulega mjög merkileg mæling á Ísafirði sem við blasir þarna. Sjálfstæðismenn hafa enda ráðið þarna för allt frá sameiningunni árið 1996 og áður á Ísafirði frá 1994 og sumpart lengur. Lengi vel var Ísafjörður rautt vígi kratanna en þær línur riðluðust með frægu sérframboði Hannibals Valdimarssonar árið 1971. Stefnir í spennandi kosningar fyrir vestan.

Mér finnst NFS eiga hrós skilið fyrir góða umfjöllun sína um þessar kosningar. Þeir hafa haldið líflega borgarafundi í stærstu sveitarfélögum landsins og kynnt landsmönnum pólitísku stöðuna. Með þessum þáttum hefur fólk getað metið betur stöðu mála víðar en bara í Reykjavík. Vissulega eru þessir þættir þeirra ekki gallalausir en þeir eru þó snörp og málefnaleg umfjöllun um hitamál kosninganna á landsbyggðinni og nauðsynleg kynning á pólitík í stórum sveitarfélögum. Þar kemur fram ekki bara pólitíkin heldur staða sveitarfélagsins svo að kjósandinn hefur stöðuna algjörlega á tæru í miðjum átökum um hitamálin. Svo mega þeir eiga það þeir Sigmundur Ernir og Egill að þeir hika ekki við að spyrja hvasst og það er tekið eftir þeirra spurningastíl. Það sem mér finnst helst að þáttunum er hversu knappir þeir eru en tala mætti mun ítarlegar um pólitíkina en raun ber þar vitni.

Það hefur lengi verið sagt að hlutverk Ríkisútvarpsins sé að tryggja eðlilega umræðu, t.d. um stjórnmál og vera til staðar fyrir landsmenn. Ekki er hægt að segja að RÚV fari vel af stað í umfjöllun um þessar kosningar eftir tæpar þrjár vikur og má frekar fullyrða að þar sé doði í umfjölluninni. Á meðan að RÚV sefur er NFS á fullu og sinnir því hlutverki RÚV að halda uppi góðri þjóðmálaumræðu. Umfjöllun RÚV um sveitarstjórnarkosningar er með daprara móti núna. Því getur enginn neitað. Undrunarefni er að RÚV sé ekki ferskara í umfjöllun og meira áberandi, enda mjög stutt í kjördag.


Tony Blair reynir að snúa vörn í sókn

Tony Blair

Níu ár eru í dag liðin frá því að Tony Blair tók við embætti forsætisráðherra Bretlands eftir sögulegan kosningasigur Verkamannaflokksins sem batt enda á 18 ára valdaferil Íhaldsflokksins. Óhætt er að fullyrða að valdaferill Blairs hafi verið stormasamur og hann hafi sannað mjög vel á þessum tíma að hann hefur haft níu líf kattarins í pólitík. Lítið er um hátíðarhöld á níu ára valdaafmælinu. Forsætisráðherrann hóf snemma í morgun kosningaferðalag um byggðir landsins vegna sveitarstjórnarkosninganna á fimmtudag. Þar stefnir allt í afhroð flokksins og reynir Blair nú allt sem hann getur til að halda fylgi flokksins stöðugu í miðjum önnum hneykslismála og vaxandi óvinsælda sem skekja stöðu flokksins sem leiðandi afls í breskum stjórnmálum. Fari sem horfir í skoðanakönnunum núna mun Verkamannaflokkurinn verða fyrir sínum mesta skelli í sveitarstjórnarkosningum í fjóra áratugi á fimmtudag.

Tony Blair má vart við skelli í kosningunum á fimmtudag. Staða hans sem þjóðarleiðtoga og ríkisstjórnar hans versnar sífellt. Óvinsældir Blairs og stjórnarinnar eru orðnar það miklar að botninum er náð. 2/3 landsmanna vilja að Blair segi af sér sem fyrst og 3/4 landsmanna telja stjórn Verkamannaflokksins spillta. Skilaboð forsætisráðherrans á kosningaferðalagi á níu ára valdaafmæli sínu er að landsmenn horfi til verka flokksins seinustu níu árin en einblíni ekki á hneykslismál seinustu daga. Engum blandast hugur um að bæði John Prescott aðstoðarforsætisráðherra, og Charles Clarke, innanríkisráðherra, eiga undir högg að sækja í kjölfar hneykslismála, sem ég fjallaði um í ítarlegum pistli á föstudag. Búist er við uppstokkun í ríkisstjórn Verkamannaflokksins á föstudag að kosningunum loknum. Úrslit þeirra munu eflaust ráða því hversu mörgum verður hent þar út. Verði skellurinn stór megi búast við að bæði Prescott og Clarke hrökklist frá.

Tony Blair virkaði mjög þreytulegur þegar að hann ávarpaði stuðningsmenn Verkamannaflokksins í Blackpool í morgun. Það blasti við á svipbrigðum hans að hann telur sig eiga mikið verk fyrir höndum. Ef marka má skoðanakannanir er fylgi flokksins víða í sveitarstjórnum að hruni komið og blasir við afhroð. Blair reynir að snúa vörn í sókn. Hvort að honum tekst það er stóra spurningin þessa stundina. Hinsvegar hefur hann ekki langan tíma. Innan við 48 klukkustundir eru til kosninganna og tíminn orðinn naumur svo vægt sé til orða tekið.


Bloggfærslur 2. maí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband