21.5.2006 | 18:31
Málverkasýning Helga Vilberg

Um helgina lauk málverkasýningu félaga míns, Helga Vilberg, í Galleríi Jónasar Viðars í Listagilinu. Hún hefur staðið í hálfan mánuð og hófst laugardaginn 6. maí. Þar sýndi hann tíu ný málverk sín. Helgi hefur ekki um nokkuð skeið haldið málverkasýningu á eigin vegum. Hann hefur í þrjá áratugi verið áberandi sem skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri og mjög sýnilegur í listalífinu hér í bæ. Þessi málverkasýning hans er lifandi og fersk - þar eru falleg málverk sem vekja athygli fyrir fallegt listbragð.
Helgi og ég höfum þekkst um nokkurt skeið og unnið saman í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hér í bæ. Var mjög ánægjulegt að fara til hans á sýninguna og sjá þessi nýju verk hans. Helgi fékk mjög góðan dóm á verk sín í listagagnrýni í Morgunblaðinu á föstudag og var ánægjulegt að sjá þar jákvæð og góð ummæli um sýninguna. Ég óska Helga innilega til hamingju með velheppnaða sýningu - vonandi verður stutt í að við fáum aftur glæsilega málverkasýningu hjá honum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2006 | 15:48
Rebel Without a Cause

Í gær keypti ég mér hálfrar aldar afmælisútgáfu kvikmyndarinnar Rebel Without a Cause. Hún er í vönduðum DVD-pakka. Tveir diskar - annar með kvikmyndinni og hinn með vönduðu aukaefni um leikarana og gerð myndarinnar. Ég horfði á þennan disk í morgun og naut þessa góða efnis. Að mínu mati er Rebel Without a Cause besta kvikmynd leikarans James Dean. Hún varð sú mynd sem mest er kennd við hann og ber hæst merki hans. Eins og flestir vita lést Dean örfáum mánuðum eftir að hann lék í myndinni. Hann lést 30. september 1955 í bílslysi, aðeins 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: auk þessarar í East of Eden og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða.
Í Rebel Without a Cause lék Dean uppreisnarsinnann - sú táknmynd festi hann í sessi um ókomin ár og enn í dag hugsa flestir til Dean sem hinnar sönnu ímyndar hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns - unglingsins sem leggur til atlögu gegn eldri kynslóðunum sem honum finnst traðka á sér. Í þessari mynd lék Dean á móti Natalie Wood, einni þokkafyllstu leikkonu þessa tíma. Margar sögur gengu um samband þeirra við gerð myndarinnar. Sambandið á milli þeirra í gegnum myndina er rauði þráðurinn í sögunni. Ég hafði ekki séð þessa mynd um nokkurt skeið er ég keypti hana. Tók ég hana upp er Stöð 2 var með Dean-þema árið 1995 á þeim tíma er fjörutíu ár voru liðin frá dauða hans - en ekki horft á hana um nokkurt skeið. Þá voru allar þrjár myndirnar sýndar og veglegur heimildarþáttur um ævi hans.
Það var áhugavert að sjá þessa mynd - merkilegast finnst mér hversu vel hún hefur elst. Það má reyndar segja um allar þrjár myndir James Dean að þær eru miklar stórmyndir og algjörlega ógleymanlegar. Giant og East of Eden eru sannkallaðar eðalmyndir og ekki er þessi síðri. Merkilegast finnst mér að sjá hversu öll umgjörðin í Rebel without a Cause hefur staðist tímans tönn. Að mörgu leyti gæti hún alveg gerst í dag. Það er því svo sannarlega tilefni til að hvetja kvikmyndaunnendur til að rifja upp kvikmyndir James Dean. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara - þær höfða allavega allar til mín. Að mörgu leyti hitti hann í mark bæði sem kvikmyndakarakter í þessum þrem myndum og sem persóna. Sorglegur dauði hans spilar vissulega stóran þátt inn í arfleifð hans sem leikara.
Rebel Without a Cause er ein af stórmyndunum sem vert er að hvetja allar kynslóðir nútímans til að sjá. Hún ætti að höfða til flestra. Allavega féll ég aftur fyrir henni er ég sá hana um helgina og sérstaklega var ánægjulegt að sjá allt vandaða aukaefnið sem með fylgir. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá hafi endilega samband bara og ég læt ykkur fá hana. Þetta er mynd sem passar alltaf vel við.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2006 | 12:27
Glæsilegur sigur Finna í Eurovision

Finnar komu, sáu og sigruðu í Eurovision 2006. Sigur Finnanna í Lordi var verðskuldaður og var vel fagnað á Grænugötunni í gærkvöldi í góðu Eurovision-partýi sem ég var í hjá Hönnu systur. Þar vorum við öll og horfðum á keppnina saman. Ég hélt með Finnum alla keppnina og vildi sigur þeirra - lagið þeirra var einfaldlega langbest og flottast. Einfalt mál. Hanna hélt með Carolu rétt eins og fyrir 15 árum þegar að hún vann með laginu Fangad av en Stormvind. Mér finnst lítið breytt síðan þá - hún var enn með vindinn í fangið og sömu danstaktana og árið 1991 þegar að hún sigraði Nínu okkar. En Carola er alltaf flott og lagið hennar er fínt - en ekki sigurlag þetta árið þó. Stelpurnar héldu svo allar með Rússunum og honum Diman Bilan sem var með fjári gott lag og söng sig inn í annað sætið með glæsibrag og liðugum töktum. Pabbi hélt með ballöðuíranum - hversvegna veit ég ekki. Held að hann hafi ekki þorað að viðurkenna að Finnarnir væru flottastir. :)
Sigur Finna er sögulegur - svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eftir 45 ára dapurlega göngu í keppninni og rýran hlut var komið að sigurstund Finnlands. Landið hafði aldrei áður komist efst í keppninni í stigatalningu og auðvitað aldrei komist inn á topp fimm í keppninni. Það er svo auðvitað mikil tíðindi að harðkjarnarokk sigri Eurovision. Allir sem hlusta á Lordi og lagið Hard Rock Hallelujah finna taktinn og stuðið - þetta er ekta þungarokk og afturhvarf til gullaldaráranna í harða rokkinu. Fyrir keppnina töldu Finnar Lordi vera þeim til skammar og talað var um að hann yrði að stöðva í því að fara til Aþenu. Nú hefur Lordi fært Finnum gullinn sigur í Eurovision og verður án efa hylltur sem sigurhetja þegar að hann kemur heim. Sigur Finna var ótrúlega glæsilegur. Þeir hlutu 292 stig og leiddu mest alla talninguna. Fjörutíu stigum á eftir komu Rússar, neðar voru Bosnía-Herzegóvína, Rúmenía og Svíþjóð.
Það var auðvitað alveg kostulegt að Litháenarnir í LT United skyldu verða í sjötta sæti með lagið We are the Winners. Lagið var skemmtilega kómískt og gaman af því og árangur þeirra mjög óvæntur. Lordi fékk 100 stigum meira en Carola. Það kemur mjög óvænt. Ég taldi fyrirfram að Carola myndi aldrei enda neðar en í þriðja. Það er spurning hvort að Carola hafi haldið of sigurviss til Grikklands. Annars var útsendingin í gærkvöldi mjög skemmtileg og Grikkirnir stóðu sig vel varðandi alla tæknihlið. Sigmar Guðmundsson stóð sig vel sem kynnir keppninnar og fetaði í fótspor Gísla Marteins Baldurssonar. Það getur enginn gert þetta eins vel og Gísli - sem kynnti keppnina með glans í mörg ár og hafði markað sér sess sem slíkur. Sigmar var með netta og flotta brandara og hafði greinilega búið sig vel upp af gamanmáli áður en haldið var af stað í útsendingu.
Eftir er þá sagan af Silvíu Nótt. Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna hroka og yfirlætis sem engin innistæða var fyrir. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri. Það er einsdæmi að púað sé á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt. Það er engin furða að þetta fór svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu. Ég varð hissa í fyrra þegar að Selma komst óverðskuldað ekki áfram en nú var ég ekki til hissa. Silvía Nótt eyðilagði fyrir sér þá daga sem hún dvaldi í Aþenu fyrir keppnina með framkomu sinni.
En Finnar tóku þetta með glans og þeir áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Það verður fjör í Helsinki að ári þegar að keppnin verður haldin þar í fyrsta skipti.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)