25.5.2006 | 23:22
Jónas Örn sigrar í Meistaranum
Frændi minn, Jónas Örn Helgason, vann í kvöld spurningakeppnina Meistarann á Stöð 2. Hann náði glæsilegum sigri gegn Ingu Þóru Ingvarsdóttur í þættinum en hann tók mikla áhættu undir lokin og missti stig en náði samt sem áður að vinna keppnina. Hann tók keppnina með miklu trompi og vakti athygli fyrir að vera snöggur að svara og hafa mikla kunnáttu í spurningafimninni. Jónas Örn er eins og fyrr segir náfrændi minn, en afi hans er Árni Helgason frá Stykkishólmi. Árni og mamma eru systkinabörn. Þátturinn Meistarinn var mjög spennandi og það er gott að heyra að framhald verði á þættinum næsta vetur. En þetta var flottur sigur hjá Jónasi og ég óska honum til hamingju með milljónirnar fimm og vona að strákurinn ávaxti þær vel. :)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 22:31
Sleifarlag Ríkisútvarpsins í kosningaumfjöllun

Í upphafi vikunnar tókust leiðtogar framboðslistanna sex í kosningunum hér á Akureyri á um málefni kosningabaráttunnar í Kastljósi Sjónvarpsins. Mikla athygli vakti að leiðtogarnir þurftu í miðjum klíðum seinustu viku kosningabaráttunnar að gera sér ferð suður á land til að takast á um kosningamálin. Fundurinn var enda tekinn upp í myndveri Sjónvarpsins í Efstaleiti en ekki hér á Akureyri eins og í kosningunum 1998 og 2002 þegar að fréttamenn Sjónvarpsins hér nyrðra ræddu kosningamálin hér fyrir norðan á heimavelli. Nú var Eyrún Magnúsdóttir spyrill í þættinum - manneskja sem enga sérstaka þekkingu hefur á bæjarmálum hér eða hefur sett sig af alvöru inn í málin. Það verður að segjast alveg eins og er að Eyrún stóð sig ekki vel og þátturinn var í raun hvorki fugl né fiskur. Þar var rætt um málin með nokkuð undarlegum hætti og Eyrún hafði enga alvöru yfirsýn yfir umræðuna og var þátturinn frekar slappur fannst mér.
Það er mjög undarlegt að ekki sé hægt að taka þennan þátt upp hér fyrir norðan og láta þá fréttamenn sem fjalla dags daglega um bæjarmálin í fréttum stjórna þætti af þessu tagi eins og ávallt hefur verið gert. Það vekur mikla athygli í aðdraganda þessara kosninga hvernig að NFS hefur gjörsamlega valtað yfir Ríkisútvarpið í öllu umfangi og heldur mun betur um pakkann. Það er tákn nýrra tíma að NFS fari út á land og ræði sveitarstjórnarpólitík við leiðtoga framboðslistanna á heimavelli. Ríkisútvarpið hefur gjörsamlega brugðist í þessu nú og fer ekki út á land til að ræða pólitíkina á stöðunum. Það er óneitanlega tekið eftir þessu verklagi RÚV.
Á hátíðarstundum er oft talað um menningarhlutverk RÚV og að það sé svo mikilvægt til að standa vörð um landsbyggðina. Það er því skondið að sjá að RÚV leggur sig ekki eftir því að ræða sveitarstjórnarpólitíkina á heimavelli með þeim hætti sem best hentar. Það er frekar slæmt fyrir RÚV að geta ekki staðið sig betur og auðvitað vekur þetta þá spurningu hvort að svæðisfréttamönnunum sé ekki treyst fyrir því að stjórna svona umræðu í Kastljósi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 20:12
Baráttukveðjur sendar austur

Ég er eins og flestir vita með taugar austur á land. Ég fylgist því auðvitað spenntur með því hvernig félögum mínum í Fjarðabyggð muni ganga í kosningunum á laugardag. Þar er öflugur og góður framboðslisti og mikið líf og fjör í baráttunni. Ég hef fylgst með baráttunni þeirra úr fjarska og litist vel á. Þar eru flokksmenn að berjast fyrir því að þriðji maður á lista, Jens Garðar, nái inn. Skv. könnunum er það góður möguleiki og sumar kannanir sýnt reyndar jafna stöðu Sjálfstæðisflokksins og Fjarðalistans. Aðalkosningamálið er án nokkurs vafa mikilvægi betri samgangna milli Eskifjarðar og Norðfjarðar - íbúar vilja ný göng - og öll framboð vilja þau sem fyrst. Það er auðvitað mikilvægt að tryggja að þau komi til sögunnar þegar að göng um Héðinsfjörð hafa orðið að veruleika.
Halldór Blöndal leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ritar góða grein um málið í Moggann í gær og fer yfir það frá sinni hlið. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir síðustu kosningar lýsti ég því yfir, að ég mundi berjast fyrir því af alefli að í Norðfjarðargöng yrði ráðist. Niðurstaða er ekki komin í þau mál, en ég tel þau brýnust þeirra ganga, sem nú eru í
undirbúningi. Til skýringar hef ég stundum tekið dæmi af Súgandafirði og þær breytingar sem urðu vestra við jarðgangagerðina þangað. Ætli Súgfirðingar gætu hugsað sér í dag, að 630 metra fjallvegur skildi á milli þeirra og Ísafjarðar? Ætli það."
Ég tek undir þessi orð Halldórs og vona að þessi göng verði að veruleika sem fyrst til hagsbóta fyrir íbúana í hinni nýju Fjarðabyggð, enda eru gömlu Oddskarðsgöngin löngu orðin barn síns tíma. Þegar að foreldrar mínir bjuggu á Eskifirði voru deilur um legu ganganna og margir töldu þá að lega þeirra myndi verða átakamál síðar. Faðir minn vann við framkvæmdina og alltaf er gaman að ræða við hann um málið. Hann hefur reyndar sagt, sem er auðvitað rétt, að göngin hafi orðið úreld um leið og þau urðu til, enda voru þau aldrei viðunandi. Ég endurtek baráttukveðjur austur og vona að þau vinni góðan sigur á laugardag.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2006 | 11:54
Spennandi kosningabarátta á seinustu metrunum

Nóg hefur verið um að vera í kosningabaráttunni hér á Akureyri í dag og seinustu daga og baráttan komin á endasprett, enda aðeins tveir sólarhringar í að kjörstaðir opni. Margir fundir eru í gangi og svo er alltaf líf og fjör í kosningamiðstöðinni okkar í Kaupangi. Eftir hádegi í gær fórum við sem erum í kosningabaráttu flokksins á Glerártorg til að ræða við kjósendur og kynna stefnu okkar og verk flokksins á seinustu árum fyrir fólki. Voru þarna fulltrúar allavega þriggja framboða að labba um og spjalla við fólk. Við vorum fjölmenn á Glerártorgi og höfðum með okkur nægar birgðir af góðum D-mintutöflum og fersku blávatni sem mæltist vel fyrir hjá þyrstu afgreiðslufólki sem og viðskiptavinum sem gjarnan tóku með sér birgðir heim.
Það var virkilega gaman að vera þarna og spjalla við fólk, hitta marga sem maður þekkir og hefur ekki séð lengi - fara svo yfir pólitísku stöðuna við þá sem áhuga hafa á pólitík. Vatnið rann út algjörlega - fólk vildi ræða margt og var virkilega gaman að sjá hversu vel okkur var tekið. Nú er kosningabaráttan á sínum síðustu metrum og mikilvægt að ná til sem flestra kjósenda með boðskap okkar. Það urðu allir hressir við að drekka vatnið enda er blávatnið okkar fyrsta flokks. Nú eru framundan seinustu 48 klukkutímarnir og mikil vinna framundan á endasprettinum við að ræða við fólk og kynna því bæði verk okkar í átta ár við forystu og þau verk sem við ætlum að koma í framkvæmd næstu fjögur árin.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)