Kjördagur

Kristján Þór og Guðbjörg á kjörstað

Ég fór á kjörstað í Oddeyrarskóla á öðrum tímanum í dag til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Það var auðvelt og gott verk. Vissulega er áróður bannaður á kjörstað en ég hélt samt sem áður með broskarlinn minn í barminum inn í kjördeildina. Þær Kolbrún og Arna voru í kjördeildinni minni, sem er sú níunda og síðasta enda bý ég í Þórunnarstræti, og átti ég við þær létt og gott spjall. Það gekk auðveldlega að setja kross við D - bókstafinn okkar. Það var lítið sem engin biðröð í kjördeildinni minni en greinilegt er að mikil kjörsókn hefur verið hér á Akureyri í dag og um hádegið höfðu þegar 20% kjósenda mætt í Oddeyrarskóla til að kjósa. Hér er sól og blíða - veður eins og best verður á kosið. Kristján Þór og Lilla mættu á kjörstað snemma og er meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni er þau mættu til að greiða atkvæði.

Klukkan 14:00 hófst kosningakaffi okkar á Hótel KEA. Þar var mikill mannfjöldi og sannkallað líf og fjör. Konurnar í Vörn, félagi sjálfstæðiskvenna, héldu utan um kaffið með glæsibrag og svignuðu borð undan ómótstæðilegum krásum. Bendi fólki á að líta á myndir frá kosningakaffinu sem segir allt sem segja þarf um stemmninguna og fólksfjöldann.

Við erum bjartsýn á gott gengi og vonum að dagurinn í dag verði sannkallaður sigurdagur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. :D


Sveitarstjórnarkosningar í dag

:D - broskarl

Í dag er komið að sveitarstjórnarkosningum. Nú ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa fulltrúa sína í sveitarstjórnum næstu fjögur árin. Kosningabaráttan hefur verið lífleg um allt land og nú komið að því að ljóst verði hverjir ráða för í sveitarfélögum landsins. Við ungliðar viljum við lok öflugrar kosningabaráttu minna alla ungliða á að vinna af krafti í dag til að tryggja góða útkomu Sjálfstæðisflokksins um allt land.

Sjálfstæðisflokkurinn býður fram framboðslista í 38 sveitarfélögum um land allt. Ekkert annað stjórnmálaafl í sveitarstjórnarpólitík landsins býr yfir öðrum eins krafti og býður fram nándar nærri eins marga framboðslista og hann. Yfirburðir flokksins eru því miklir á sveitarstjórnarstiginu og mun svo vonandi verða á næsta kjörtímabili. Ólíkt vinstriflokkunum er Sjálfstæðisflokkurinn óhræddur um land allt að bjóða fram nær algjörlega undir eigin merkjum enda staða flokksins sterk.

Seinustu vikur kosningabaráttunnar hafa birst hér á vef SUS pistlar um kosningabaráttuna víða um land. Birst hafa pistlar um kosningabaráttuna í Reykjavík, Akureyri, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Árborg, Mosfellsbæ, Fljótsdalshéraði, Akranesi og Vestmannaeyjum. Ég vil þakka þeim sem rituðu þessa pistla kærlega fyrir sitt framlag og áhugavert innlegg á vefinn um kosningabaráttuna á þessum stöðum.

Um land allt er kraftur í Sjálfstæðisflokknum fyrir þessar kosningar. Við finnum sterka stöðu bæði í skoðanakönnunum og umræðunni á stöðunum og getum farið sigurviss inn í þessar kosningar. Eftir 15 ára samfellda forystu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum og sterka forystu á sveitarstjórnarstiginu bendir flest til þess að við getum vel við unað að loknum þessum kosningum.

:D til sigurs í dag.


Bloggfærslur 27. maí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband