29.5.2006 | 21:09
Meirihlutamyndun á Akureyri

Í gær hófust meirihlutaviðræður fyrrum minnihlutaflokka í bæjarstjórn Akureyrar: Samfylkingar, Vinstri grænna og Lista fólksins. Þá settust bæjarfulltrúar framboðanna þriggja niður og fóru yfir stöðu mála. Það gerðu þeir ennfremur í dag. Í kjölfar þessara viðræðna ákvað Samfylkingin að slíta viðræðunum. Það kom mér vissulega ekkert á óvart í kjölfar falls meirihlutans um helgina að þessi öfl færu að ræða saman, þó að ég hefði alla tíð verið viss um það að þær myndu sigla í strand. Fyrir því er auðvitað ein ástæða. Mér þótti alltaf mjög fjarstæðukennt að þau tvö öfl sem bættu við sig mönnum í kosningunum myndu fara að vinna í meirihluta upp á náð og miskunn Odds Helga Halldórssonar. Framboð hans, Listi fólksins, tapaði umtalsverðu fylgi og einum manni í kosningunum. Hefði þessi meirihluti verið myndaður hefði hann haft líf meirihlutans í höndum sér og blóðmjólkað oddastöðu sína mjög kröftuglega.
Það er því engin tíðindi fyrir mig að Samfylking kasti þessum kosti fyrir borð og horfi aftur í áttina til okkar í Sjálfstæðisflokknum. Í aðdraganda kosninganna og að kvöldi kjördags ræddu leiðtogar flokkanna um möguleikana á samstarfi þeirra. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa mjög sterkt umboð til að ræða meirihlutamyndun og vinna saman á þessu nýja kjörtímabili. Þetta eru stærstu pólitísku öflin í bænum og eru með sjö bæjarfulltrúa af ellefu. Það deilir því enginn um það að yrði slíkur meirihluti myndaður yrði hann verulega sterkur. Það er því vissulega mjög í anda kosningaúrslitanna að þessi kostur sé sá sem líklegastur er til árangurs. Eins og ég hef bent á hefur þriggja flokka meirihluti eða stærri ekki verið myndaður á Akureyri frá árinu 1982 og af mjög augljósum ástæðum. Það er enda alltaf erfiðara að þoka góðum málum áfram í margra framboða meirihluta en tveggja flokka öflugum meirihluta.
Nú er því staðan sú að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ræðast við um meirihlutamyndun. Hvort að þær viðræður skili árangri og góðum sjö manna meirihluta skal ósagt látið. Að mörgu leyti tel ég þetta vænlegasta kostinn og í raun þann sem mest ómar tilfinningu bæjarbúa fyrir því hverjir skuli vera við völd. Það deilir enginn um það að Framsóknarflokkurinn og Listi fólksins töpuðu mjög í þessum kosningum og því afskaplega ósennilegt að þeir verði í meirihluta á kjörtímabilinu. Væntanlega mun krafturinn í Framsóknarflokknum á þessu tímabili fara í innri uppstokkun og endurreisn grunnstykkis flokksins. En nú halda meirihlutaviðræður áfram og við fylgjumst öll hér á Akureyri með þeim af nokkrum áhuga.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 20:04
Nýr meirihluti myndaður í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri í Reykjavík og mun taka við embætti af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þann 15. júní nk. á fyrsti fundi nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Reykjavíkurborgar sem tveggja flokka meirihluti er myndaður í borgarstjórn. Með þessu er endi bundinn á tólf ára valdaferil félagshyggjuflokkanna í borginni í nafni R-listans. Hann bauð vissulega ekki fram í kosningunum og flokkarnir sem að honum stóðu náðu ekki meirihluta saman og því var Sjálfstæðisflokkurinn í oddastöðu. Mun Björn Ingi Hrafnsson leiðtogi Framsóknarflokksins, verða formaður borgarráðs. Er ánægjuefni að meirihluti hafi nú verið myndaður í borginni og sérstaklega hljótum við sjálfstæðismenn að fagna því að leiða borgarmálin að nýju eftir langt hlé.
Vilhjálmur Þ. hefur verið borgarfulltrúi í 24 ár, eða allt frá árinu 1982 og gjörþekkir því borgarmálin. Hann hefur leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2003 er Björn Bjarnason varð dómsmálaráðherra og vann góðan sigur í prófkjöri flokksins í nóvemberbyrjun 2005 - hlaut þar gott umboð. Vilhjálmur stýrði á tólf ára valdaferli flokksins, 1982-1994, mjög öflugum nefndum og verkefnum og hefur alla tíð verið áberandi í borgarmálunum. Það er mjög gleðilegt að hann verði nú borgarstjóri í Reykjavík og er svo sannarlega ástæða til að óska Vilhjálmi Þ. til hamingju með þessa farsælu niðurstöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Það var verkefni hans að stýra meirihlutamyndun, enda vissu allir að ekki yrði R-listadraugurinn endurvakinn að þessu loknu og lítill áhugi á því. Nú er því litið í aðrar áttir og myndaður traustur og öflugur meirihluti sem leggur til atlögu við verkefnin og gerir góða borg enn betri.
Ég vil óska góðum félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík innilega til hamingju með að vera nú loks aftur komin í forystu borgarmálanna og vona að þau vinni af krafti fyrir því að breyta borginni í það forystusveitarfélag sem hún á ávallt að vera - en hefur ekki verið í stjórnartíð vinstriflokkanna. Það er gleðiefni að vinstristjórn í borginni heyrir nú sögunni til. Það verður verkefni Vilhjálms Þ. og Sjálfstæðisflokksins að leiða borgina inn í nýja tíma. Ég mun fylgjast með þeim af miklum áhuga að því að vinna af krafti í þágu borgarbúa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 12:56
Umfjöllun um úrslit kosninganna

Í ítarlegum pistli á vef SUS fjalla ég um úrslit sveitarstjórnarkosninganna 2006 um allt land með ítarlegum hætti. Víða var mikil spenna á kosninganótt með stöðu mála og á nokkrum stöðum þurfti að vaka lengi eftir að línur skýrðust á meðan að á öðrum stöðum urðu línur strax nokkuð ljósar eða afgerandi með fyrstu tölum. Merkileg úrslit komu upp á fjölda staða og víða féllu meirihlutar og tekur nú við vinna við að mynda nýja meirihluta áður en að nýjar sveitarstjórnir taka formlega við þann 11. júní nk. er umboð fráfarandi sveitarstjórna rennur formlega út. Bendi ég lesendum á þennan pistil minn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)