Áhugavert rit af Þjóðmálum

Nýlega kom út annað rit Þjóðmála á þessu ári. Þjóðmál hefur vakið athygli fyrir fróðlegar og góðar greinar sem fjalla um ýmislegt merkilegt, jafnt í stjórnmálum sem þjóðmálum. Las ég ritið um helgina af miklum áhuga og leist vel á - er óhætt að segja að vel hafi til tekist eins og ávallt áður. Á Jakob F. mikið hrós skilið fyrir að hafa hafið útgáfu þessa rits, en það er okkur hægrimönnum, sem og öðrum áhugamönnum um stjórnmál, mjög mikilvægt. Í þessu riti Þjóðmála standa upp úr vandaðar greinar um nýskipan öryggis- og varnarmála. Best af þeim er án nokkurs vafa grein Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, þar sem hann fer yfir sögu varnarsamningsins og lykilpunkta hans. Björn er vel að sér í utanríkis- og varnarmálum og mjög áhugavert einkum að kynna sér skoðun hans á því hvað taka eigi nú við í stöðunni í hinu breytta umhverfi.

Magnea Marinósdóttir skrifar eins og Björn magnaða samantekt um varnarmálin og fannst mér merkilegt að lesa hennar grein. Þar koma fram margar spennandi staðreyndir og punktar sem vert er að benda á og áhugavert að lesa. Guðbjörg H. Kolbeins skrifar í Þjóðmál mjög áhugaverða og fróðlega grein um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Hún fer þar yfir sviðið allt og stöðu fjölmiðla á þessum tímapunkti. Ég las greinina með miklum áhuga og komst þar bæði að nýjum og áhugaverðum punktum og varð betur meðvitaðri um það sem ég vissi fyrir. Þessi grein Guðbjargar ætti að vera sérstaklega spennandi fyrir alla þá sem áhuga hafa á fjölmiðlum og málefnum þeirra, einkum og sér í lagi á okkar tímum þar sem við öllum blasir að samþjöppun verður sífellt meiri og augljósari.

Útrásin er og verður spennandi umfjöllunarefni á okkar tímum. Í Þjóðmálum að þessu sinni fjallar Stefán Sigurðsson um útrásina og ásýnd íslensks efnahagslífsins erlendis. Ennfremur er fróðleg úttekt Gunnars Haraldssonar um skýrslur hinna erlendu greiningarfyrirtækja og viðbrögð íslenskra fjölmiðla við þeim nú seinustu vikurnar. Sérstaklega er svo áhugavert að lesa grein Atla Harðarsonar sem ber heitið Verðmæti, náttúruspjöll og flótti frá veruleikanum. Gunnar Þór Bjarnason er svo með athyglisvert innlegg og góða grein um Ísland og Ísrael. Ekki má svo gleyma áhugaverðri grein Ragnhildar Kolku um þjóðnýtingu barnauppeldis.

Síðast en ekki síst má benda á góðan ritstjórnarpistil Jakobs F. Ásgeirssonar og skemmtilegar bókmenntapælingar undir lok ritsins. Mér finnst það jafnan veisla þegar að Þjóðmál berst inn um lúguna hjá mér og les blaðið algjörlega upp til agna fljótlega eftir komuna. Ég vil óska höfundum efnis og útgefanda til hamingju með gott rit af Þjóðmálum og hlakka til að lesa það næsta og kynna mér bæði áhugaverðar og íhugular skoðanir þeirra sem rita.


Um Chaplin og þögla meistaraverkið

Sir Charlie Chaplin og Jackie Coogan í The Kid

Sir Charlie Chaplin var eitt af stórmennum kvikmyndasögunnar á 20. öld. Látlaus en tilþrifamikill látbragðsleikur hans gerði hann að stórstjörnu og hann skipaði sér í sess með stærstu kvikmyndastjörnum þöglu myndanna. Síðar varð hann áhrifamikil stjarna í talmyndunum og markaði sér sess á nýjum forsendum. Ég á allar kvikmyndir Chaplins og hef unnað þeim öllum allt frá því að ég mat kvikmyndir sem þá miklu og ómetanlegu listgrein sem hún er. Að mínu mati er Chaplin sá leikari þöglu myndanna sem best náði að gera talmyndirnar að sínu listformi. Það var ekki öllum leikurum þögla tímans gefið að ná inn í nýtt form og gera það að því listformi sem við ætti fyrir þá. Það gat Chaplin og hann gat framlengt vinsældir sínar og áhrif innan kvikmyndaheimsins með því. Af því leiðir auðvitað að kvikmyndaverk hans fyrir og eftir lok þögla tímans eru ómetanleg stórvirki kvikmyndasögunnar.

Chaplin kom til sögunnar í kvikmyndum sem hinn þögli flækingur sem lenti í röð tilvika sem hann réði ekki við en tókst á hendur. Bestu kvikmyndir ferilsins eru þær fyrstu að mínu mati. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig þessi frábæri leikari talar til áhorfandans án orða og með látbragði. Best kemur þetta fram í kvikmyndunum City Lights, Gold Rush og The Kid. Allar eru þessar myndir gulls ígildi í kvikmyndasögunni og mörkuðu stöðu Charlie Chaplin sem leikara og frægð hans. Best þessara hefur mér jafnan þótt The Kid. Það er eitthvað við látleysi hennar sem heillar mig alltaf. Fyrir nokkrum árum keypti ég The Kid á DVD - með fylgdi ómetanlegt aukaefni og tónlistin sem Chaplin samdi árið 1971 og er ómetanleg viðbót við myndina. Chaplin var mjög liðtækur í að semja tónlist við myndir sínar síðar meir og hafa mörg kvikmyndatónverk hans hlotið mikla frægð.

Lagið Smile er sennilega hans besta tónsmíð. Það er lag sem algjörlega heillar alla sem heyrir. Það heyrðist fyrst í kvikmyndinni Modern Times árið 1936. Af kvikmyndatónunum er auðvitað tónlistin í The Kid algjörlega í sérflokki. Það er reyndar með ólíkindum að myndin hafi án tónlistarinnar verið í allan þennan tíma. Það er öllum ljóst að The Kid færði Chaplin frægðina. Hún er fyrsta stórmyndin hans. Í stuttu máli sagt segir myndin söguna af flækingnum sem fyrir tilviljun finnur kornabarn á víðavangi en það hefur orðið viðskila við móður sína. Hann fóstrar barnið sem sitt eigið væri en að því kemur að leiðir hans og móðurinnar liggja saman. Það er erfitt að lýsa þessari sögu með einfaldleika þó ekki eitt einasta orð sé sagt í myndinni. Það er einn sterkasti hlekkur myndarinnar að sjá samleik Chaplin og Jackie Coogan, sem fara á kostum. Coogan átti leik ferilsins sem strákurinn en andstæðurnar á hans ferli voru miklar og lék hann undir lok ferilsins Fester frænda í Addams-fjölskyldunni.

Það var notalegt seint að kvöldi 17. júní að rifja upp kynnin af þessum Chaplin-kvikmyndagullmola. Þessi mynd er og verður ein þeirra bestu í kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Í senn markaði hún upphaf frægðarferils Charlie Chaplin og sýnir okkur að flóknar sögur þarf ekki að segja með orðum. Þær geta lýst sig sjálfar algjörlega með látbragðsleiknum einum saman. Ég hef lengi stúderað feril og ævi Chaplins, sem lést þrem dögum eftir fæðingu mína, á jóladag 1977. Það er öllum ljóst sem kynna sér hann að ævi hans var vafin undarlegum blæ og persónan var mörgum hulin til fulls. Það þarf að mínu mati að lesa ævisögu hans og kynna sér líf leikarans á bakvið tjöldin til að skilja persónuna til fulls. Hann var enn flóknari karakter en flækingurinn sem hann lék svo oft með glans.

En ekki verður af honum tekið að hann var snillingur í kvikmyndageiranum og án vafa er The Kid ein af þeim kvikmyndum sem stendur helst vörð um arfleifð hans í bransanum. Í raun snertir hún hjartað mitt alltaf þegar að ég sé hana - þannig að það er öllum gott að sjá hana reglulega. Hvet alla til að sjá hana hafi þeir kost á því.


Bloggfærslur 18. júní 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband