26.6.2006 | 23:53
Kvikmyndir leikstjórans Woody Allen

Í fjóra áratugi hefur verið deilt um það í heimi kvikmyndanna hvort að Allan Konigsberg, betur þekktur undir listamannsnafninu Woody Allen, sé góður kvikmyndagerðarmaður og leikari. Fáir deila þó um áhrif hans í kvikmyndamenningu 20. aldarinnar. Fáum tókst betur á öldinni að vekja athygli, jafnt vegna verka sína í geiranum og einkalífs síns. Þegar að ég tala við félaga mína á fræðilegum og mátulega háalvarlegum nótum um kvikmyndir kemur ansi fljótt að spurningunni: fílarðu Woody Allen? Þetta er klassaspurning, enda eru sérfræðingar og að ég tala ekki um sófaspekúlantar um kvikmyndir mjög á öndverðri skoðun um hversu góður Allen hefur verið á litríkum og stormasömum ferli sínum. Ég svara alltaf með þeim hætti að ég telji Allen með bestu kvikmyndagerðarmönnum seinustu áratuga. Hann hefur markað mikil áhrif og hefur allavega heillað mig með stíl sínum.
Seinustu vikur hafa kvikmyndir Woody Allen ein af annarri prýtt dagskrá Skjás eins á sunnudagskvöldum. Nú er yfirferðin komin að miðjum níunda áratugnum. Woody Allen er að segja má náttúrutalent í kvikmyndagerð. Hann hóf ungur að selja brandara sína í slúðurmáladálkana. Eftir að hafa í mörg ár samið brandara fyrir aðra uppistandara ákvað hann árið 1961 að hefja sinn eigin feril sem uppistandari í New York. Hann notaði feimni sína til að auka á húmorinn og markaði sinn eigin stíl. Hann kom fram með einnar línu brandara sína sem hittu beint í mark og hefur jafnan síðan orðið þekktur fyrir hnyttna brandara og skemmtileg tilsvör sín. Skópu þeir höfuðþættir þá frægð sem honum hlotnaðist í kjölfarið. Hann skrifaði sitt fyrsta kvikmyndahandrit árið 1965, What´s New Pussycat og lék sjálfur í myndinni. Það hlutverk gerði hann að stjörnu á einni nóttu. Eftirleikinn þekkja allir spekúlantar um kvikmyndir.
Allen hefur verið jafnvígur á gamanleik og tilfinningu í kvikmyndum. Þó að hann sé leiftrandi af húmor og léttleika (skemmtilega pirrandi léttleika) hefur hann snert í streng kvikmyndaunnenda. Til dæmis er ein af uppáhaldsmyndunum mínum ein af hans eðalmyndum. Kvikmyndin Annie Hall er ein af þeim allra bestu. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Bæði hlutu þau óskarinn fyrir hana, Allen fyrir leikstjórn sína og Keaton fyrir að leika hina svipmiklu Annie Hall. Myndin var forsmekkur þess sem hefur verið meginpunktur höfundaeinkenna Allens í kvikmyndum: full af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir.
Aðrar flottar myndir hans eru Manhattan (eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón og undir hljómar tónlist Gershwin bræðra), Zelig (þessi mynd er gott dæmi um snilli Allens sem leikara en túlkun hans á Leonard Zelig varð hans besta á ferlinum), Broadway Danny Rose, The Purple Rose of Cairo (báðar myndir þar sem Mia Farrow sýnir einn besta leik ferils síns), Hannah and Her Sisters (þroskuð og notalega góð sem besta rauðvín), Crimes and Misdemeanors (flott blanda af glæpasögu og kómíker sem fléttast óaðfinnanlega og óvænt í blálokin), Husbands and Wives (gerð rétt fyrir fræg sambandsslit hans og Miu Farrow og sýnir í raun söguna af endalokum sambands þeirra með þeim sjálfum í aðalhlutverkunum - ógleymanlegt meistaraverk), Manhattan Murder Mystery (undurlétt glæpakómedía þar sem Allen og Keaton léku saman loksins aftur) og Bullets Over Broadway (undurljúf og heillandi - skemmtilega gamaldags).
Ég get talið upp endalaust þær myndir sem hafa heillað mig og Allen á heiðurinn af. Toppnum að mörgu leyti fannst mér hann ná árið 1996 þegar að hann setti upp söngleik í formi myndarinnar Everyone Says I Love You og fékk meira að segja leikara á borð við Alan Alda, Edward Norton og Goldie Hawn til að syngja og það bara ansi flott. Hápunkturinn var þegar að meira að segja leikstjórinn sjálfur tók lagið með snilldarbrag við undrun allra kvikmyndaunnenda en fram að því höfðu enda flestir talið hann með öllu laglausan. Allen er kómískur en undir yfirborðinu er hann talinn mjög fjarlægur og sjálfsgagnrýninn. Að margra mati er hann einmitt að leika sjálfan sig að svo mörgu leyti oft. Oft setur hann sig og aðstæður sínar í meginpuntk kvikmyndar. Bestu dæmin um þetta eru Annie Hall og Husbands and Wives. Hann hefur oftar en ekki sótt einmitt efni mynda sinna í eigið einkalíf og prívatkrísur tilverunnar sinnar, oftast nær með snilldarhætti.
Skilnaður Allens við leikkonuna Miu Farrow í upphafi tíunda áratugarins varð stormasamur. Þau voru eitt af lykilpörum kvikmyndaheimsins á níunda áratugnum og léku saman í um tíu kvikmyndum. Sambandinu lauk með hvelli árið 1992, skömmu áður en Husbands and Wives, sem með kostulegum hætti lýsti aðstæðum þeirra með þeim í aðalhlutverkum, var frumsýnd. Fjallaði hann ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Er þessi bók alveg mögnuð og gaman að lesa að hana, þar segir hann frá málaferlunum, skilnaðinum, fjölmiðlafárinu, persónu sinni og skoðunum á lífinu og tilverunni almennt.
Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Hann hefur gert heimaborg sína, New York, að umgjörð bestu kvikmynda sinna og sýnir henni mikla tryggð - svo fallega og undurljúft að athygli hefur vakið. Allen stendur framarlega í flokki helstu snillinga kvikmyndaheimsins á seinustu áratugum. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikarar í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar. Hann er sannkallaður meistari kvikmyndaheimsins í byrjun nýrrar aldar.
Umfjöllun SFS um feril Woody Allen (2003)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2006 | 18:04
George H. W. Bush kemur til Íslands

Ef marka má fréttir nú síðdegis er George Herbert Walker Bush, 41. forseti Bandaríkjanna, að koma til Íslands í heimsókn dagana 4. - 7. júlí nk. í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. George H. W. Bush er 82 ára að aldri - hann var forseti Bandaríkjanna árin 1989-1993 og var eftirmaður Ronald Reagan á forsetastóli. Bush var varaforseti í forsetatíð Reagans árin 1981-1989. Hann varð fyrsti sitjandi varaforseti Bandaríkjanna í rúm 150 ár sem var kjörinn forseti og sá eini síðan reyndar. Hann kom í opinbera heimsókn til Íslands vorið 1983, þá sem varaforseti.
George H. W. Bush kom aldrei til Íslands í forsetatíð sinni. Frá því að Ronald Reagan kom hingað til lands á leiðtogafund stórveldanna haustið 1986 hefur aðeins einn kjörinn forseti Bandaríkjanna komið til landsins en það var Bill Clinton, sem kom hingað í eftirminnilega heimsókn í ágústmánuði 2004. Sú ferð var mjög merkileg fyrir margra hluta sakir, einkum vegna þess að Clinton lét allar ráðleggingar um mikla öryggisvernd sem vind um eyrun þjóta og labbaði um miðbæinn, fékk sér pylsu, fór í bókabúðir og handverksverslun svo fátt eitt sé nefnt. Sérstaklega kynnti hann sér sögu Þingvalla með ferð þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áherslu Bush eldri leggur í ferð sinni.
Ef marka má fréttatilkynningu um komu hans mun hann ætla að sitja kvöldverðarborð forseta Íslands á Bessastöðum að kvöldi þjóðhátíðardags Bandaríkjanna þann 4. júlí og fara víða til að kynna sér land og þjóð. Með honum í för verða nokkrir vinir hans, þar á meðal Sig Rogich sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í forsetatíð hans. Bush hyggst sérstaklega ætla að halda til laxveiða í boði Orra Vigfússonar formanns Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF). Bush hefur lengi verið eindreginn stuðningsmaður stuðningsmaður slíkrar verndar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2006 | 17:40
Skemmtilegur dagur í Reykjanesbæ

Á laugardag hittist stjórn og trúnaðarfólk Sambands ungra sjálfstæðismanna um allt land í Reykjanesbæ og átti saman góða stund. Stjórn Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, hafði skipulagt góða dagskrá fyrir gesti sína og var þetta mjög eftirminnilegur dagur fyrir þá sem voru í ferðinni. Dagurinn hófst með því að Árni Sigfússon, bæjarstjóri, tók á móti hópnum í Íþróttaakademíunni laust fyrir hádegi og kynnti fyrir honum stöðu sveitarfélagsins og styrka forystu flokksins þar, en Sjálfstæðisflokkurinn hlaut tæplega 60% atkvæða í kosningunum 27. maí sl.
Að því loknu var haldið með rútu um bæinn og að því loknu upp að varnarsvæðinu. Þar tók Pétur Guðmundsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, á móti hópnum og fór yfir það sem þar hefur farið fram seinustu áratugina. Var snæddur hádegisverður í höfuðstöðvum Íslenskra aðalverktaka á varnarsvæðinu og fór þá Pétur betur yfir meginþætti starfseminnar með góðri og ítarlegri kynningu. Nú eru aðeins örfáir mánuðir þar til að öll starfsemi Varnarliðsins hefur verið aflögð og því miklar breytingar framundan á svæðinu og velja þarf því bráðlega annað hlutverk.
Var athyglisvert að fara um svæðið, enda minnir það að mestu orðið á draugabæ, enda eru mjög fáir eftir þar. Fyrir þau okkar sem aldrei höfðu þarna komið var vissulega merkilegt að sjá loksins allan aðbúnað og starfsemi sem þarna er um að ræða. Svæðið er mjög umfangsmikið og hefði verið mjög áhugavert að sjá stöðu mála þarna þegar að mestu umsvifin voru þarna og einkum áður en flugstöð Leifs Eiríkssonar kom til sögunnar um miðjan níunda áratuginn. Nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um svæðið er Bandaríkjamenn halda á brott fyrir lok septembermánaðar.
Að lokinni heimsókninni fór hópurinn í skoðunarferð í nýbyggingarhverfi í sveitarfélaginu. Ný og spennandi hverfi eru í byggingu og þar eru miklar framkvæmdir sem var áhugavert að kynna sér. Haldið var í höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja við Bláa Lónið að því loknu. Þar tók Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, á móti hópnum og kynnti honum starfsemina og hlutverk fyrirtækisins með mjög ítarlegum og áhugaverðum hætti. Var Bláa Lónið skoðað vel og var fundað í fundarsal í húsakynnum Bláa Lónsins.
Þar flutti Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi og varaþingmaður, okkur ræðu um kosningabaráttu flokksins í Reykjanesbæ. Enginn vafi leikur á þvi að kosningabaráttan í Reykjanesbæ var gríðarlega vel heppnuð og vel utan um allt haldið eins og við sáum á þeim gögnum sem heimamenn kynntu okkur. Þar var spilað á jákvæðni og ferskleika í allri kynningu og öllum ljóst að vel var unnið þar. Böðvar, sem sat í stjórn SUS í fjögur ár, fór ennfremur yfir stjórnmálaástandið almennt og urðu líflegar og góðar umræður að því loknu meðal viðstaddra. Þar bar auðvitað hæst brotthvarf Varnarliðsins, breytingar á ríkisstjórn og nýlegar kosningar.
Kl. 17:00 hófst móttaka í Listasafni Reykjanesbæjar og þar sýndu Heimismenn okkur skemmtilegar auglýsingar flokksins fyrir kosningarnar og þar var lífleg umræða um málin að því loknu yfir góðum veigum. Snæddum við kvöldverð að því loknu og að því loknu horfðum við fótboltaáhugamennirnir í hópnum á skemmtilegan leik Argentínu og Mexíkó í 16 liða úrslitum Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu í Þýskalandi. Var mikið skemmt sér yfir leiknum og mikið líf og fjör. Eins og flestir vita lauk þessum góða leik með sigri Argentínumanna. Að því loknu skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi.
Þetta var virkilega áhugaverður dagur sem við áttum saman í góðra vina hópi. Vil ég þakka stjórn Heimis, f.u.s. í Reykjanesbæ, fyrir góða og vel skipulagða dagskrá og höfðinglegar móttökur. Það var svo sannarlega gaman að hittast í Reykjanesbæ og njóta þeirrar dagskrár sem boðið var upp á.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)