30.6.2006 | 14:05
Haldið austur á bóginn

Er farinn í gott sumarleyfi - fyrst í stað austur á firði. Verður lítið uppfært hér á meðan - þeir sem vilja hafa samband á meðan geta bæði hringt og sent póst (fartölvan er með í för). mbk. SFS
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2006 | 13:15
Þrír bæjarstjórar á fjórum árum?



Fyrir nokkrum misserum spurði einn góður félagi minn sem býr á höfuðborgarsvæðinu hvort að við værum að horfa fram á það að við værum með þrjá bæjarstjóra á Akureyri á kjörtímabilinu. Ég hugsaði mig um smástund og svaraði því til að aldrei yrðu þeir færri en tveir eins og staðan liti út þessa stundina - þegar væri ljóst að leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í kosningunum í vor fengju embætti bæjarstjóra. Hann spurði á móti af hverju að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefði afhent flokki sem hefði lokað á nær alla samningsmöguleika sína í stöðunni embætti bæjarstjóra og það aðeins í eitt ár. Við hefðum haft fleiri samningsmöguleika en þeir í stöðunni. Ég varð enn vandræðalegri við að tala fyrir þessu dæmi og sagði eitthvað á þá leiðina að þetta hefði verið sameiginlegur samningur flokkanna til verka.
Hann var engu nær og hélt áfram að spyrja um þennan undarlega samning. Næsta spurningin var hvort að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samið frá sér bæjarstjóraembættið til að losa um mál innan sinna veggja. Hann fann enga aðra skýringu á málinu. Ég sagði sem var að ég vissi ekkert um þá stöðu mála. Væri það niðurstaðan væri það eitthvað sem ég hefði ekkert heyrt um. Töluðum við lengi vel um þessa stöðu mála og varð spjallið lengri en ég hafði gert áður ráð fyrir. Þessi maður er einn þeirra sem kann að spila alla klæki viðskipta og lifir og hrærist alla daga í miður geðslegum fyrirtækjasamningum í bankakerfinu. Þeir sem lifa og hrærast þar í svo mikið sem einhver ár eru klókari en aðrir að lesa í undarlega samninga.
Sjálfur hef ég um nokkuð skeið undrast þennan bæjarstjórakapal hér og verið hugsi yfir honum. Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það ekki stöðugleikatákn ef það á að vera þannig að þrír bæjarstjórar verði hér í sveitarfélaginu á fjórum árum. Ég gagnrýndi það í Reykjavík og kallaði það óstöðugleika og á ekki auðvelt með að verja slíkt hér. Það er ágætt ef maður þarf bankasamningamenn til að fá mann til að hugsa svosem. Ég skal viðurkenna þrátt fyrir allt það góða fólk sem við höfum í forystu að ég er lítt hrifinn af því að hér verði þrír bæjarstjórar á fjögurra ára kjörtímabili. Með því erum við að færa andstæðingum okkar of ódýr skotfæri að mínu mati.
En það er sjálfsagt að hugleiða þessi mál og í raun velta því fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það skilar mjög góðum pælingum sem eru í senn áhugaverðar og nauðsynlegar - fyrir okkur öll hér.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2006 | 12:27
Fylgi Samfylkingarinnar hrynur

Ný skoðanakönnun birtist í Fréttablaðinu í morgun á fylgi stjórnmálaflokkanna. Það er skemmst frá því að segja að könnunin boðar þau tíðindi helst að fylgi Samfylkingarinnar hefur hrunið á milli kannana. Það mælist nú aðeins rúm 24% - það er langt undir kjörfylgi vorið 2003 og hið allra minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu í skoðanakönnunum. Virðist flokkurinn vera á sömu leið og hann var í könnunum árin 2001 og 2002 þegar að hann mældist rétt yfir eða undir 20% fylgi. Neðst fór Samfylkingin þá í 13%. Merkilegast er að flokkurinn er nú aðeins með rétt rúmlega 10% meira en þá. Hlýtur þessi könnun að vera mikið reiðarslag fyrir Samfylkinguna. Flokknum hefur enda hvorki gengið lönd né strönd síðan að formannsskipti urðu innan flokksins á landsfundi vorið 2005.
Aðrir flokkar eru á góðri siglingu að því er virðist vera. Sjálfstæðisflokkurinn bætir talsvert við sig frá kosningunum og mælist með rúm 42%. Hefur flokkurinn styrkst greinilega í formannstíð Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og blasir við að hann muni eflast mjög í kosningunum að ári. Forysta Geirs hefur verið traust og ábyrg og virðast landsmenn að kunna verklag hans. Framsóknarflokkurinn bætir við sig nokkru fylgi og fer yfir 10% aftur. Flokkurinn er þó nokkru frá því að endurheimta kjörfylgið frá árinu 2003. Verður fróðlegt að sjá hvort að yfirvofandi formannsskipti í flokknum hafi meiri áhrif en þetta. Greinilegt er að innkoma Jóns Sigurðssonar í stjórnmálin hefur styrkt Framsóknarflokkinn. VG fer vel yfir kjörfylgið 2003 og mælist nú með tæp 15% og Frjálslyndir eru aftur að rétta úr kútnum og mælast með tæp 6%.
Um þessar mundir eru rúmir 13 mánuðir liðnir síðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar. Sigraði hún þar svila sinn, Össur Skarphéðinsson, með nokkuð afgerandi hætti. Össur hafði leitt Samfylkinguna fyrstu fimm árin - sá tími hafði einkennst af sveiflum, bæði hafði flokkurinn farið upp og niður. Er hann lét af formennsku mældist flokkurinn þó með um 35% fylgi. Samt sem áður skoraði Ingibjörg Sólrún hann á hólm. Stefnt var að glæstum sigrum undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og glæsilegri uppsveiflu í kjölfar formannsskiptanna. Tók Ingibjörg Sólrún sæti Bryndísar Hlöðversdóttur á þingi þann 1. ágúst 2005 og síðan verið meira áberandi en ella. Við blasir hinsvegar nú að fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað sex mánuði í röð og stefnir í óefni - svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Fylgið er nú komið niður fyrir 25% og hefur fylgið minnkað um meira en 10% frá formannsskiptunum. Þetta er mikið afrek hjá Ingibjörgu Sólrúnu og sennilega mun glæsilegri árangur en andstæðingum Samfylkingarinnar óraði fyrir við formannskjör hennar. Um er að ræða lægsta fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum frá því í ágúst 2002. Þá náði flokkurinn botni eftir örlitla uppsveiflu. Leiddi talið þá til þess að talað var um mikilvægi þess að ISG færi í þingframboð. Svo fór að hún útilokaði þingframboð í september 2002, eins og hún hafði gert í kosningabaráttu til borgarstjórnar vorið 2002 og á kosninganótt eftir að ljóst varð að R-listanum hafði verið falin stjórn borgarinnar á kjörtímabilinu. Svo fór, eins og allir vita, að Ingibjörg Sólrún gekk á bak orða sinna og yfirlýsingarinnar frægu í september 2002 og fór í þingframboð.
Niðurstaðan varð sú að Samfylkingin sem hafði þá um haustið rétt úr kútnum undir forystu Össurar missti fylgi eftir innkomu hennar. Eins og allir vita varð Ingibjörg Sólrún að biðjast lausnar sem borgarstjóri vegna svika sinna við samherjanna innan R-listans. ISG var stimpluð sem forsætisráðherraefni í kosningunum. Flokkurinn bætti örlitlu við sig ? en stjórnin hélt velli og Ingibjörg Sólrún stóð utangarðs eftir allt tilstandið. Allir þekkja söguna af framhaldinu. ISG var varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi og undi sínum hlut mjög illa. Hún varð varaformaður Samfylkingarinnar síðla á árinu 2003 og tilkynni þá þegar formannsframboð á árinu 2005. Svo fór og eftirmálann þekkja allir enn betur en millisöguna. Flokkurinn hefur dalað um þessi rúmlega tíu prósentustig undir hennar stjórn. Forysta hennar hefur engri uppsveiflu skilað.
Það er skiljanlegt að vandræðagangur sé innan Samfylkingarinnar. Hann blasir við öllum sem fylgjast með stjórnmálum. Gott dæmi er að enginn þingmanna flokksins sem hefur heimasíður hefur ritað um fallandi gengi flokksins og "vonarstjörnunnar". Sennilega hlakkar í Össuri Skarphéðinssyni yfir stöðu mála, þó hann hafi auðvitað ekki tjáð það opinberlega. Það átti að koma honum frá og koma flokknum til einhverra áður óþekktra hæða en þess í stað fellur hann um mörg prósentustig við formannsskipti. Það sjá allir áhugamenn um stjórnmál að allt tal stuðningsmanna Össurar um stöðuna ef ISG yrði formaður hefur ræst.
Vissulega eru skoðanakannanir bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum í formannstíð Ingibjargar Sólrúnar. Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún heldur á forystukeflinu hjá þessum flokki. Henni virðast vera mislagðar hendur og hún er væntanlega nú á einhverjum krísufundum við að reyna að finna taktinn sinn í þessum efnum. Klúðrið hefur falist í stefnuflakki og vandræðalegu hjali um hitamál, tel ég.
Það er nefnilega oft þannig að fólk verður hlægilegt þegar að það reynir að elta allar vinsældakannanir. Þarna er væntanlega vandi Samfylkingarinnar. Nú virðist það vera svo að ISG verður að hætta að dekra við miðjuna og reyna að velja hvort fara eigi til vinstri eða hægri. En þetta er kostulegt klúður hjá ISG - sem skrifast á hana sjálfa, engan annan. Það er vandræðalegast fyrir hana sjálfa að reyna að skrifa vandræðin á aðra en sjálfa sig.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)