10.7.2006 | 23:05
Jónína hreyfir við forystukapli Framsóknar

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, lýsti yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum í beinni útsendingu í fréttatíma Sjónvarpsins kl. 19:00 í kvöld. Greinilegt var að Jónína hafði boðað fréttamann Sjónvarps einan á vettvang í Alþingisgarðinn og þeir sátu því einir að fréttinni um framboð hennar fyrst í stað. Var hún þar sýnd sólbrún og sælleg í flottum fötum - allt greinilega vel skipulagt og sett upp fyrir Sjónvarpið á prime time sjónvarpstíma fyrir fréttir þeirra. Eftir viðtal við Finn Beck hélt Jónína í viðtal hjá Sigmari Guðmundssyni í Kastljósinu og þau fóru yfir ákvörðun hennar og stöðu mála.
Það er alveg greinilegt að Jónína Bjartmarz heldur í varaformannsslaginn djörf og greinilega viss um mikinn stuðning. Sögur fara af því að hún og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, séu í bandalagi í forystusveitina og stefnt sé að því að Birkir Jón Jónsson verði í framboði til ritara flokksins. Þetta er sögð vera flétta Halldórsarmsins í flokknum af kunnugum sem þekkja til valdablokkanna í flokknum. Sagði Jónína reyndar í Kastljósviðtalinu að hún hefði fengið stuðning víða að og teldi rétt að leggja af stað núna, rúmum mánuði fyrir flokksþing Framsóknarflokksins. Er mjög líklegt að það bandalag sem til sé komið sé nú í raun komið á fullt í það verkefni að sigra kosningar á flokksþingi og búist við kosningum í raun.
Það blasir við öllum sem þekkja til stjórnmála og innviða Framsóknarflokksins að ekki er gert ráð fyrir ráðherrunum Guðna Ágústssyni og Siv Friðleifsdóttur í fléttu Halldórsarmsins margfræga í flokknum. Þar séu Jón, Jónína og Birkir Jón lögð upp í slaginn og átök framundan að öllum líkindum. Í fréttum fjölmiðla frá fyrrnefndri tilkynningu Jónínu Bjartmarz hefur verið reynt mjög að leita viðbragða Sivjar og Guðna við stöðu mála. Ekki næst í Guðna, sem er eflaust verulega þungt hugsi nú, og Siv segist vera að hugsa málin en stutt sé í að hún gefi út fyrirætlanir sínar. Það bendir flest til þess að haldi Guðni og Siv ekki samhent í það sem framundan sé blasi við sigur Jóns og Jónínu í kosningu á flokksþinginu sem verður um miðjan ágústmánuð.
Það er merkilegt svo ekki sé fastar að orði kveðið að Jónína tilkynni um varaformannsframboð áður en fyrir liggur hver hugur Guðna Ágústssonar er til málsins. Það sýnir betur en margt annað að uppi er bandalag sem hugsar ekkert um Guðna og hyggur á að leiða flokkinn án hans atbeina - blasir í raun algjörlega við. Það sást líka kristallast í yfirlýsingu hennar í Kastljósi að skipta þurfi um forystu í flokknum á þessum tímamótum vegna þess að fyrri forysta hafi verið svo ósamstæð í öllum verkum. Þetta er hvasst skot frá Jónínu til Guðna og Sivjar sem gegna embættum varaformanns og ritara nú. Eiginlega ómar Jónína þar áberandi skoðun Valgerðar Sverrisdóttur í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta.
Það er ekki óeðlilegt að fullyrða það að Guðni og Siv séu þau einu sem geti ógnað stöðu Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í flokknum. Reyndar má fullyrða að staða Jóns sé orðin svo vænleg að erfitt verði að stöðva hann. Valkostir Guðna Ágústssonar í þessari erfiðu stöðu eru ekki margir. Í besta falli eru þeir þrír. Það er að hætta í stjórnmálum, gefa kost á sér til formennsku eða fara í varaformannsslag. Ég tel útilokað að Guðni vilji verða áfram varaformaður eftir brotthvarf Halldórs. Annaðhvort mun hann leggja í formannsslag eða víkja úr forystusveitinni og hætta þátttöku í stjórnmálum. Maður með hans bakgrunn sem varaformaður í öll þessi ár á í raun ekki fleiri kosti en þessa tvo.
Ég tel mjög líklegt að Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir pari sig í framboð á móti þeim tveim sem fyrir liggja nú. Guðni hlýtur að leggja til atlögu við Jón og sækjast eftir formennskunni. Hann hefur verið á þingi frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá aldamótaárinu. Það væri mikil uppgjöf að hans hálfu að víkja af braut nú og myndi túlkast sem svo að hann þyrði ekki í viðskiptaráðherrann Jón, fyrsta utanþingsráðherrann til fjölda ára og augljósan kost fráfarandi formanns til forystuembættisins. Á móti kemur að Siv hefur mikinn metnað líka og verið lengi áberandi: var formaður SUF og bæjarfulltrúi á Nesinu áður en hún varð þingmaður árið 1995 og ráðherra nær samfellt frá árinu 1999.
Það má ekki gleyma því að Jónína Bjartmarz og Guðni Ágústsson tókust á í varaformannskjöri Framsóknarflokksins er Guðni var kjörinn varaformaður í stað Finns Ingólfssonar. Þá var Jónína frambjóðandi Halldórsarmsins og tapaði. Þá var reyndar þriðja framboðið í slagnum, en það var Ólafur Örn Haraldsson sem varð leiðtogi flokksins í Reykjavík við brotthvarf Finns Ingólfssonar en hætti svo þingmennsku í kjölfar ákvörðunar Halldórs Ásgrímssonar að fara í framboð í Reykjavík. Þá var Jónína nýkomin á þing (kom inn í stað Finns) og um margt óreynd í stjórnmálum. Enginn vafi er á að staða hennar er mjög sterk nú: hún er orðin ráðherra, er leiðtogi flokksins í öðru borgarkjördæmanna og hefur styrka stoð í slagnum.
Framundan eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Það stefnir að mínu mati í kosningar um öll lykilembætti flokksins og verulega áhugavert að sjá hvað Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir gera í stöðunni. Það er greinilegt að brotthvarf Halldórs hefur leitt til uppstokkunar innan flokksins og greinilegt að armur hans vill algjörlega nýja forystu til móts við nýja tíma. Sú nýja forysta er sett til höfuðs ráðherrunum Guðna og Siv. Það er allavega enginn vafi á því að yfirlýsing Jónínu á prime time sjónvarpstíma í kvöld hreyfir við forystukaplinum í Framsóknarflokknum til mikilla muna á örlagastundu á hásumri.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2006 | 19:23
Kostulegar mótsagnir Samfylkingarinnar

Í dag fjallar Vef-Þjóðviljinn með glans um Samfylkinguna, einn skrautlegasta flokk í Íslandssögunni í frábærum pistli. Einkum er þar vikið að því blaðri að Samfylkingin hafi átt þátt í EES-samningnum. Eins og vel hefur verið bent á gat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ekki stutt EES á þingi og þingflokksformaður Margrét Frímannsdóttir var á móti samningnum eins og allir aðrir kommar á þingi á þeim tíma. Kjaftæðið um stuðning Samfylkingarinnar við EES er því bara kjaftablaður. Einnig er vikið að stóriðjumálunum.
Samfylkingin sem þekktust er allra flokka hérlendis fyrir að skipta um skoðanir í takt við vindáttir stjórnmálanna, brást ekki þeirri grundvallarreglu í því máli frekar en öðrum. Lengst framanaf var flokkurinn algjörlega á móti virkjun og álveri á Austurlandi. Kaflaskil urðu á árinu 2002 þegar skoðanakannanir hófu að sýna að meirihluti landsmanna studdi virkjunina og álversframkvæmdirnar. Í kosningu um virkjunina á þingi í apríl 2002 studdu flestir þingmenn Samfylkingarinnar málið. Skömmu síðar snerist forysta flokksins algjörlega til stuðnings við helstu þætti málsins.
Dyggustu málsvarar þess allan tímann voru þó forystumenn Samfylkingarinnar í gamla Austurlandskjördæmi, og var afstaða þeirra lengi vel algjörlega andsnúin því sem Samfylkingin á landsvísu hafði um málið að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sem borgarstjóri tjáð mikla andstöðu sína og R-listans við virkjun og álver á Austurlandi. Í kjölfar þess að hún varð forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í ársbyrjun 2003 snerist hún til fylgilags við málið, allt að því með óbragð í munni, enda hafði hún sem stuðningskona Kvennalistans verið andsnúin öllum meginhugmyndum um stóriðju.
Í alþingiskosningunum 2003 tjáði Samfylkingin einarðlega stuðning við álverið, einkum í Norðausturkjördæmi, þar sem helstu málsvarar framboðsins voru eitt sinn hluti af óánægjuhópnum sem börðust fyrir málinu frá upphafi, t.d. Einar Már Sigurðarson alþingismaður frá Neskaupstað. Frægt varð þegar Samfylkingarforystan var á kosningaferðalagi á Austurlandi og hélt eins og ekkert væri sjálfsagðara að skilti við væntanlegt framkvæmdasvæði og lét mynda sig við það og notuðu í kosningabaráttunni.
Það var óneitanlega ankanalegt að sjá helsta málsvara gegn stóriðju til fjölda ára, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrum borgarfulltrúa og þingmann Kvennalistans, sem aldrei studdi hugmyndir um stóriðju meðan flokkurinn var til, gera sig að málsvara stóriðju á Austurlandi sem hún neyddist til að lýsa yfir stuðningi við til að friða öfl innan Samfylkingarinnar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að stuðningur Samfylkingarinnar var alla tíð tengdur vinsældapólitík, ekkert annað lá þar að baki. Andstaða við málið lengst framanaf hjá forystunni og snögg umskipti vegna stuðnings landsmanna við málið blasa við öllum þegar fjallað verður um allt málið af sagnfræðingum framtíðarinnar.
Ólíkt Samfylkingunni var Vinstrihreyfingin - grænt framboð heiðarleg í málinu allt frá upphafi og afstaða þeirra öllum ljós frá því fyrst var farið að tala um álver á Austurlandi seinnihluta tíunda áratugarins. Flokkurinn var frá upphafi andsnúinn öllum hugmyndum um álver í Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka og flokkurinn í Norðausturkjördæmi hugsaði frekar um öll umhverfissjónarmið málsins, frekar en hagsmuni almennings, fólksins á Austfjörðum sem barðist fyrir málinu. Það var til marks um alla stjórnmálabaráttu VG sem hugsar frekar um gæsirnar til fjalla en fólkið í byggð.
En já, ég gat ekki annað en rifjað upp sagnfræðina í þessu máli og rétt eins og í EES-málinu er hún ekki forystukólfum Samfylkingarinnar í hag. Reyndar er skondið að heyra Samfylkinguna býsna sér yfir einhverri breyttri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins og ráðast að Jóni Sigurðssyni, væntanlegum formanni Framsóknarflokksins, með offorsi hafandi verið með formann Samfylkingarinnar styðjandi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn. Mótsagnir Samfylkingarinnar eru alltaf skemmtilegar - ekki satt lesandi góður?
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2006 | 13:12
Kvöldverðarsnæðingur í Hvíta húsinu

Í kvöld munu Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff snæða kvöldverð í Hvíta húsinu í Washington og verða þar gestir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og Lauru Bush, eiginkonu hans. Það væri áhugavert að vita um hvað forsetarnir tveir munu ræða yfir kvöldverðnum. Þar sem Ólafur Ragnar er gamall herstöðvaandstæðingur gæti það orðið áhugavert fyrir forseta Bandaríkjanna að heyra skoðanir forseta Íslands á málefnum herstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi fram til þess tíma að hann var kjörinn forseti fyrir áratug, árið 1996.
Staða varnarviðræðanna er eitthvað sem margir hér á landi hafa fylgst með af áhuga. Það ætti að vera forsetunum sannkölluð innlifun í kvöldverðarspjalli. Kannski verða þessi mál rædd þá og vonandi hefur Ólafur Ragnar ennfremur einhverjar fallegar veiðisögur að segja Bush frá veiðitúr föður forsetans til Íslands, fyrr í þessum mánuði, en hann veiddi hérlendis þá einmitt í boði fyrrnefnds Ólafs Ragnars Grímssonar.
Það er ánægjulegt að sjá hversu notaleg bönd eru að myndast milli forseta Bandaríkjanna og forseta Íslands. Ætti að vera mörgum vinstrimönnum sem býsnast höfðu yfir tengslum Davíðs Oddssonar og George W. Bush í langri forsætisráðherratíð Davíðs mikið gleðiefni. Það eitt er víst að ekki mun Ólafur Ragnar ræða við forseta Bandaríkjanna um Þjóðviljagrein hans þann 7. júlí 1983 við lok opinberrar heimsóknar föður hans, George H. W. Bush, sumarið 1983 í varaforsetatíð hans.
Þá andmælti hann komu hans með harkalegum orðum í Þjóðviljanum, blaðinu sem hann ritstýrði. 23 árum síðar kom Bush eldri aftur og þá í boði sama ritstjóra Þjóðviljans. Hann gaf honum meira að segja forláta veiðistöng og flugusett með þeim orðum að hann yrði nú að veiða vel í fríinu. Það verður ekki af forseta Íslands tekið að hann skiptir fljótt um skoðanir.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, birti brot úr greininni á vef sínum fyrir nokkrum dögum. Í henni sagði m.a.: "Nú er hann farinn, CIA-forstjórinn sem fluttist í stól varaforseta. Hann gekk um með lýðræði á vörum, frelsi á tungu og bros á sjónvarpsskermi. En á fundum með íslenskum stjórnarherrum hafði hann aukinn hernað í hendi sér, kröfur um efldan stríðsrekstur, bæði hér á landi og annars staðar í veröldinni."
Ennfremur sagði í greininni: "Gesturinn Bush var nefnilega um áraraðir æðsti prestur alls hins versta í stjórnmálum veraldarinnar. Hann stjórnaði frá degi til dags háþróaðasta kerfi njósna, spillingar, valdaráns og morðsveita sem fundið hefur verið upp í veröldinni." Svo mörg voru þau orð.
Það er vonandi að vinstrimenn séu glaðir yfir kvöldverðinum í Hvíta húsinu. Það hefðu allavega einhverntíma þótt tíðindi að formaður Alþýðubandalagsins til fjölda ára sæti kvöldverðarboð í boði sonar George Bush, forseta Bandaríkjanna, á þeim tíma sem kalda stríðinu lauk. En tímarnir breytast og Ólafur Ragnar með, eins og gárunginn sagði eitt sinn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)