11.7.2006 | 23:59
Guðni og Siv hugleiða forystuframboð

Forystukapallinn í Framsókn er óðum að skýrast þessa dagana. Greinilegt er að Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hefur komið miklu lífi í hann með því að gefa kost á sér til varaformennsku. Allir bíða nú eftir yfirlýsingu Guðna Ágústssonar, varaformanns flokksins. Hennar mun vera að vænta fljótlega. Það blasir við að pressan á Guðna jókst eftir að Jónína gaf kost á sér. Blasir við eins og ég sagði í gær að valkostir hans séu að hætta í stjórnmálum eða fara í formannsframboð gegn Jóni Sigurðssyni, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sýnist mér allt stefna í það að Guðni taki slaginn og fari fram. Hann getur varla annað í stöðunni, eftir að hafa verið forystumaður innan flokksins í tæplega tvo áratugi.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins, var gestur beggja dægurmálaþáttanna í kvöld. Var þar að mestu rætt um málefni Landspítala - háskólasjúkrahúss en vissulega var aðalspurning fjölmiðlamanna til Sivjar hvort hún ætli í forystuframboð. Sagði hún ekki tíma til að gefa út yfirlýsingar en sagði hana myndu koma þegar að rétti tíminn myndi renna upp. Rétt eins og Guðni er vart við öðru að búast en að Siv fari í framboð til annaðhvort formennsku eða varaformennsku. Hún hefur verið lengi áberandi í forystu flokksins og hlýtur að sækja fram til forystustarfa. Eins og ég hef bent á finnst mér blasa við að hún muni mynda bandalag með Guðna Ágústssyni og þau myndi nýtt forystuteymi saman.
Í dag var Kristinn H. Gunnarsson í fjölmiðlum, eins og svo oft áður. Nú lýsti hann yfir stuðningi við Guðna til formennsku, ef hann færi fram. Er greinilegt að hann hefur hug á einhverskonar framboði. Er ekki ólíklegt að hann gæti verið ritaraefni þeirra tveggja. Kristinn hefur lengi deilt á innra starf flokksins undir forystu fráfarandi formanns og verk flokksformannsins almennt um langt skeið. Færi hann fram til ritara með stuðningi Guðna og Sivjar væri framboð þeirra sem vilja veg Halldórsarmsins sem minnstan fullkomnaður. Eins og allir muna var Guðni lítt hrifinn sumarið 2004 með þá ákvörðun að Siv færi úr stjórn og þau hafa lengi unnið vel saman. Er mjög líklegt að þau hyggi nú á myndun eigin valdabandalags í flokknum.
Þessa stundina er Guðni Ágústsson skv. fréttum heima á Selfossi að íhuga sína stöðu. Ef marka má fréttir fjölmiðla er ákvörðun handan við hornið. 40 dagar eru til flokksþings Framsóknarflokksins. Það stefnir í spennandi tíma næstu sex vikurnar í flokknum. Það blasir við öllum að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz eru komin á fullt í forystuframboð. Það kristallaðist í orðum Sivjar Friðleifsdóttur í fjölmiðlum í kvöld að hún telur fjarri lagi að þau verði kjörin rússneskri kosningu til forystu. Þessi orð hennar afhjúpa það vel að nær öruggt er að hún hyggi á framboð til æðra embættis. Fari Guðni og Siv fram til formennsku og varaformennsku verða átök tveggja áberandi arma innan flokksins beinskeyttari og afhjúpast meira en áður hefur verið.
Þessi frábæra mynd sem hér er efst í umfjölluninni var tekin af félaga mínum og náfrænda, Birki Erni Haukssyni á Eskifirði, af Guðna Ágústssyni og Margréti Hauksdóttur, eiginkonu hans, á hestamannamótinu í Skagafirði fyrir skemmstu. Guðni mun þar hafa skemmt sér mjög með öllum viðstöddum fram á rauðanótt. Birkir er duglegur við að taka myndir og birtir þær bæði á sínum eigin myndavef og svo á pose.is. Duglegur að mynda og skemmtilegar myndir hjá Birki. Þessi hér fyrir ofan af Guðna og Birki er sérstaklega fín, hehe :)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2006 | 21:43
Minning

110706 - KRS
Sól á himninum skín,
aldrei skugga minn sér
bjó hann samt til, hann fylgir mér
já eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.
Kyssast skuggar um kvöld
renna saman í eitt
leysast svo upp, í nær ekki neitt
já eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.
Leika sér skuggi og ljós
jörð, tungl og sól,
leika sér himninum á
og eiga þar skjól
Svo er stjarna á himni
sem lýsir upp eilifa nótt.
Jörðina, himnana og mig
í sandinum spor
sólina, hafið og þig
tvo skugga um vor
Eins er ástin sem ég til þín ber
- óendanleg.
Ég veit að til er svo margt
sem í fjarlægð er smátt
milljónir stjarna sem aldrei sjást
já eins er ástin sem ég til þín ber
- nær ólýsanleg.
Svo er stjarna á himni sem lýsir upp eilífa nótt
jörðina, himnana og mig - í sandinum spor.
Sólina, hafið og þig - tvo skugga um vor
eins er ástin sem ég til þín ber
- óendanleg.
Já, eins er ástin sem ég til þín ber
- ólýsanleg.
Magnús Þór Sigmundsson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)