Kvikmyndaþrenningin um Guðfaðirinn

The Godfather

Ein besta kvikmyndaþrenning í sögu kvikmyndanna er The Godfather, magnþrungin ættarsaga Corleone-mafíufjölskyldunnar í New York. Er hún byggð á heimsþekktri sögu Mario Puzo. Alla mína ævi hafa þessar þrjár kvikmyndir heillað mig og alla sanna kvikmyndaunnendur og verið innlifun og yndisauki í kvikmyndaheiminum. Hafa þær alltaf verið meðal minna uppáhaldsmynda og maður sér þær aldrei nógu oft. Í dag kom ég því loksins í verk að kaupa mér allt safnið á DVD. Átti ég þær bara á VHS-safnútgáfunni sem var gefin út fyrir um átta árum og ákvað að stokka upp. Í nýja safninu er endurbætt útgáfa myndarinnar, aukaefni og margt annað spennandi sem ekki hefur verið áður að sjá í myndunum.

Fyrsta myndin markaði straumhvörf í kvikmyndaheiminum er hún varð frumsýnd árið 1972 og kom leikstjóranum Francis Ford Coppola svo sannarlega á kortið í Hollywood. Um var enda að ræða glæsilega mynd í uppbyggingu og útliti og þótti óaðfinnanleg úttekt á mafíulífinu í nýja heiminum, gerð með sannkölluðum stórmyndastíl í meistaralegri kvikmyndatöku. Hún hlaut fjögur óskarsverðlaun árið 1972, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir handrit og magnþrunginn leik leiksnillingsins Marlon Brando í hlutverki guðföðurins Don Vito Corleone, sem öllu stjórnar á bakvið tjöldin. Auk hans fóru Al Pacino, James Caan, Talia Shire, Robert Duvall og Diane Keaton á kostum. Í bakgrunni var svo hin magnþrungna tónlist snillingsins Nino Rota.

Tveimur árum síðar, árið 1974, gerði Coppola framhaldsmynd um Corleone fjölskylduna. Var þar um að ræða samanfléttaða sögu af því annars vegar hvernig Don Vito Corleone varð valdamikill ættarhöfðingi í mafíuheiminum í upphafi 20. aldarinnar, og hins vegar hvernig Michael sonur hans, stýrir veldi föður síns eftir dauða hans. Vakti önnur myndin ekki síðri athygli en fyrirrennarinn. The Godfather, Part II, var lofuð, jafnt af gagnrýnendum og kvikmyndaunnendum. Hún var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna og hlaut 6; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Coppola, leik Robert DeNiro og handrit Puzo og Coppola. Þriðja og síðasta myndin var gerð árið 1990 og segir frá magnþrungum endalokum mafíuveldis Corleone-ættarinnar.

Það er svo sannarlega áhugavert að sjá þetta flotta safn í þessum vandaða pakka. Framundan er svo það verkefni að losna við VHS-útgáfuna af myndunum. Vilji einhver fá pakkann fyrir mjög lítinn pening getur viðkomandi haft samband við mig


Áhugaverð mynd um Willy Brandt

Willy Brandt

Sl. sunnudagskvöld sýndi Ríkissjónvarpið fyrri hluta þýsku sjónvarpsmyndarinnar Í skugga valdsins eða "Im Schatten der Macht". Þar er seinustu mánuðum kanslaraferils Willy Brandt lýst í smáatriðum og farið yfir alla atburðarásina. Willy Brandt er í senn einn eftirminnilegasti og svipmesti stjórnmálamaður Þýskalands á 20. öld. Hann var lykilmaður í stjórnmálum V-Þýskalands í um 30 ár og valdamesti forystumaður landsins um nokkurra ára skeið. Stjórnmálaforysta hans varð bæði umdeild og áhrifarík í huga Þjóðverja. Hann var litríkur leiðtogi síns flokks og var umdeildur, bæði innan eigin raða sem og utan þeirra. Eflaust má deila um það hvort Willy Brandt var sterkur stjórnmálamaður, en menn deila varla um arfleifð hans í þýskum stjórnmálum.

Willy Brandt leiddi flokk sinn, SPD, með járnkrafti í 23 ár, árin 1964-1987 og var kanslari V-Þýskalands árin 1969-1974. Mitt í stjórnmáladeilum vegna stefnu sinnar, Ostpolitik, sem fól í sér bætt tengsl V-Þýskalands við A-Þýskaland, Pólland og Sovétríkin hlaut hann friðarverðlaun Nóbels fyrir hana árið 1971. Það varð mörgum undrunarefni að nóbelsakademían skyldi heiðra Brandt og fyrrnefnda stefnu hans og sló mjög á gagnrýni á hann. Margir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 1972, sem varð að boða til vegna falls þingmeirihlutans, en hann stóð það af sér. Brandt var heiðursformaður SPD frá lokum leiðtogaferils síns árið 1987 til dauðadags árið 1992. Willy Brandt lést úr krabbameini 8. október 1992.

Willy Brandt neyddist til að segja af sér embætti kanslara Þýskalands í apríl 1974 eftir að ljóst varð að Günter Guillaume, einn af hans nánustu pólitísku samstarfsmönnum hafði verið njósnari A-Þjóðverja og unnið fyrir leyniþjónustu A-Þýskalands, hina alræmdu Stasi, á meðan að hann vann fyrir kanslarann. Það var Brandt mjög á móti skapi að víkja vegna þess máls en sú varð þó raunin. Atburðarásin á bakvið seinustu daga hans í kanslaraembættinu var merkileg og er í senn merkilegasti tími stjórnmálaferils Willys Brandt og botninn á löngum ferli þessa stjórnmálamanns. Helmut Schmidt tók við kanslaraembættinu af Brandt. Schmidt var hægrisinnaðri en Brandt innan SPD. Stjórnin hélt þó velli óbreytt átta ár til viðbótar en hún féll svo með dramatískum hætti árið 1982.

Þrátt fyrir smánarleg endalok kanslaraferilsins leiddi Brandt SPD í þrettán ár eftir afsögnina. Honum mistókst þó að verða aftur kanslari Þýskalands en varð virtur um allan heim sem þekktur fyrirlesari og kom t.d. til Íslands í heimsókn árið 1991, skömmu fyrir andlát sitt, til að halda fyrirlestur. Lengi hefur verið deilt um það hvort njósnahneykslið árið 1974 hafi verið það alvarlegt að Brandt hefði þurft að segja af sér. Sögur hafa lengi gengið um það að umfram allt hafi farið fram uppreisn innan SPD og tekist hafði verið á um meginþætti Brandts sem stjórnmálamanns. Brandt hélt því alla tíð fram að nánir samstarfsmenn sínir innan flokksins hefðu snúið við honum baki og það umfram allt hafi leitt til þess að honum var ekki sætt áfram, ekki njósnamálið sem slíkt.

Það er alveg greinilegt að sagan í þessari fyrrnefndu sjónvarpsmynd er sett upp með þeim hætti að pólitískir hagsmunir annarra félaga hans í forystusveit SPD hafi orðið til þess að binda endi á kanslaraferil hans. Reyndar er skemmtilegt frá því að segja að Matthias, sonur Willy Brandt, leikur Günter Guillaume í þessari sjónvarpsmynd. Það olli bæði undrun og deilum. Ég hafði gaman af fyrri hluta þessarar áhugaverðu myndar og hvet alla til að horfa á þann seinni á sunnudagskvöld.


Bloggfærslur 12. júlí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband