18.7.2006 | 23:04
Skipað í stöður bæjarstjóra

Í dag var gengið frá ráðningu Þóris K. Þórissonar í embætti bæjarstjóra í Fjallabyggð, nýju sameinuðu sveitarfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Frétt um ráðningu hans lak út áður en hún var formlega samþykkt í bæjarstjórn. Þórir er ekki þekktur maður í pólitíkinni hér norðan heiða og verður fróðlegt að fylgjast með verkum hans. Það blasa mörg stór verkefni við Þóri sem nýjum bæjarstjóra í Fjallabyggð. Að auki hefur nú nýlega verið gengið frá ráðningu Sigbjörns Gunnarssonar, fyrrum alþingismanns og sveitarstjóra í Mývatnssveit, sem sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Sigbjörn sat á þingi árin 1991-1995 og var sveitarstjóri í Mývatnssveit 1997-2005. Sigbjörn skipaði eins og flestir vita væntanlega sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Í dag var tilkynnt hverjir hefðu sótt um bæjarstjórastarfið í Norðurþingi, sameinuðu sveitarfélagi í N-Þingeyjarsýslu. Þar sóttu tólf um. Meðal þeirra sem sækja um embættið eru Friðfinnur Hermannsson framkvæmdastjóri, Róbert Trausti Árnason fyrrum sendiherra, og Sigríður Hrönn Elíasdóttir fyrrum sveitarstjóri. Sýnist mér á öllu líklegast að Friðfinnur Hermannsson verði ráðinn bæjarstjóri. Hann er öllum hnútum kunnugur í sveitarfélaginu og var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Húsavík á liðnu kjörtímabili. Það er alveg ljóst á umsækjendum að vart koma nema þrír til fjórir til greina og væntanlega stendur Friðfinnur þar sterkast að vígi. Hann hlýtur altént að teljast langsterkastur af þessum tólf ásamt Róberti Trausta.
Framundan er að ganga frá ráðningu bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Ef marka má lista 20 umsækjenda er Helga Jónsdóttir, borgarritari, væntanlega hæfasti umsækjandinn. Það verður fróðlegt að sjá hver verður ráðinn til starfa. Sögusagnir hafa gengið um að Björn S. Lárusson sé talinn líklegastur, enda greinilega vel tengdur inn í flokkskjarna framsóknarmanna í sveitarfélaginu. Varla koma margir til greina úr þessum hópi umsækjenda. Verður fróðlegast að sjá hvort að Samfylkingin eða Framsóknarflokkurinn fær bæjarstjórann og hvor aðilinn fær nýstofnað embætti sérlegs aðstoðarmanns bæjarstjórans. Þar liggja væntanlega skiptingarnar í bitlingaskiptunum í Fjarðabyggð.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2006 | 15:27
Ályktun stjórnar SUS

Við í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna höfum sent frá okkur ályktun þar sem fagnað er þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælaverðsnefndar forsætisráðherra. Er þetta svo sannarlega öflug og góð ályktun sem ég bendi hérmeð á.
Ályktunin er svohljóðandi:
"Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar þeim sjónarmiðum sem fram koma í nýútkominni skýrslu formanns matvælanefndar forsætisráðherra um að afnám tolla og annarra innflutningshafta sé besta leiðin til að lækka matvælaverð hér á landi. SUS harmar hins vegar að samstaða um þær tillögur hafi ekki náðst í nefndinni vegna andstöðu forræðis- og forsjárhyggjuafla sem þar áttu fulltrúa sína.
Þær tillögur sem fram koma í skýrslu formanns nefndarinnar eru skref í rétta átt en ganga þó alltof skammt að mati ungra sjálfstæðismanna. Frjáls verslun og afnám viðskiptahafta eru þau úrræði sem duga best til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
Sjálfsagt er að jafnræðis sé gætt í skattlagningu matvæla og það er síður en svo hlutverk ríkisins að ástunda neyslustýringu með slíkri skattlagningu líkt og einstakir stjórnmálamenn virðast aðhyllast. SUS tekur undir sjónarmið þess efnis í áðurnefndri skýrslu að allar matvörur verði látnar bera sama virðisaukaskatt. Stefna ber að því að sú skattheimta verði í lágmarki.
Samband ungra sjálfstæðismenn skorar á ríkisstjórnina að fylgja vinnu nefndarinnar eftir með niðurfellingu á tollum og öðrum innflutningshöftum sem enn hvíla á innfluttri matvöru. Samhliða þarf að gera grundvallarbreytingar á íslensku landsbúnaðarkerfi og skapa íslenskum bændum svigrúm til að keppa á frjálsum markaði. Ríkisafskipti hafa aldrei haft jákvæð áhrif á neina atvinnugrein og það á ekki síst við um íslenskan landbúnað.
Tímabært er að forræðishyggju og opinberum afskiptum af íslenskum landbúnaði linni svo að framtakssemi og hugvit íslenskra bænda fái notið sín í frjálsri samkeppni."
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)