Þorgerður - Hamborg - hátíð hafsins - Brando

Þorgerður Katrín

Ég sá nú síðdegis tilkynningu á fréttavefunum þess efnis að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, yrði starfandi forsætisráðherra í fjarveru Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í leyfi hans í rúman hálfan mánuð frá og með mánudegi. Þetta er svo sannarlega sögulegt enda telst mér til að Þorgerður Katrín sé með þessu fyrsta konan hérlendis sem gegnir embætti forsætisráðherra í sögu landsins. Það hefur aldrei áður gerst að kona leysi forsætisráðherra af og eins og allir vita aldrei gerst að kona hafi tekið við embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi. Það er svo sannarlega ástæða til að óska Þorgerði Katrínu til hamingju með þetta og jafnframt konum almennt. Ég met Þorgerði Katrínu mikils og vona að henni gangi vel í sínum verkefnum þennan tíma.


10-11

Ég varð mjög glaður nýlega þegar að ég komst að því að í hinni gömlu góðu Hamborg, Hafnarstræti 94 í miðbænum, á nú að opna matvöruverslun undir merkjum 10-11. Hamborg er sögufrægt verslunarhús. Þar ríkir góður andi. Við sjálfstæðismenn vorum þar með flokksaðstöðu hluta vetrar og vorum þar í prófkjörsslagnum. Þegar að ég var yngri var þar Sportbúðin og ég þar reglulega fastagestur að versla. Þegar að mér sem formanni flokksfélags flokksins í bænum voru afhent lyklavöld að þessu sögufræga húsi, löngu eftir daga Sporthússins, varð ég því allt að því orðlaus, enda eflaust þótt það skondið er ég var að versla í Sportbúðinni í den að ég ætti eftir að fá lyklavöld þar. En það var mjög notalegur tími sem við áttum í Hamborg og mér líkaði vel við vistina þar og að hafa flokksaðstöðu í miðbænum. Það stóð þó alltof skamma stund.

Það hefur að mínu mati vantað matvöruverslun í miðbæinn. Það er gleðiefni fyrir mann eins og mig sem er mikið í miðbænum dagsdaglega að geta skellt sér skamman spöl í matvöruverslun og keypt eitthvað fljótlegt og gott í matinn. Þetta hús er merkilegt í sögu bæjarins. Það er skemmtilegt afturhvarf til fortíðarinnar að þar sé aftur að koma verslunarhús með matvæli. Sigmundur á heiður skilinn fyrir að hafa fært okkur Hamborg aftur með glæsibrag en húsið var orðið nokkuð hrörlegt fyrir viðgerðina. Framan af sumri var húsið mest í fréttum vegna þess að strætóskýlið rétt hjá því hvarf með allskjótum hætti. Reyndar sakna ég ekki skýlisins og græt það krókódílatárum í reynd, enda hvorki fagurt né eftirminnilegt, þó að vissulega hafi verið átök um það er það hvarf svo snögglega.

Hanna amma og Anton afi bjuggu í miðbænum, Brekkugötu 9, um árabil og þau ráku raftækjaverslun á jarðhæðinni þar til 1984. Kjörbúð var í innan við mínútufjarlægð í Brekkugötu 1. Oft labbaði ég þangað þá til að kaupa hitt og þetta fyrir ömmu á meðan hún bjó í Brekkugötunni til 1989. Man ég því vel eftir hverfisverslun þarna. Hún er löngu horfin og nú seinustu árin hefur miðbærinn drabbast, sem vonandi verður tekið á af krafti. Það er gleðiefni að loksins komi matvöruverslun aftur á svæðið. Ég vona að úr verði góð verslun fyrir alla þá sem vinna í miðbænum og eða eiga þar leið um dag hvern. Verður fróðlegt að sjá hvernig gengur með matvöruverslun þarna - er ég vart í vafa um það að fólki mun lítast vel á þá tilhögun mála.

Fiskidagurinn 2005

Sá á vef Fiskidagsins mikla nú í dag að allt er í góðum undirbúningi núna út á Dalvík fyrir fiskidaginn sem verður haldinn skv. góðri hefð aðra helgina í ágúst. Það verður mikið stuð þá. Ætla ég mér að fara í súpuveislu kvöldið áður og vera hjá góðvinum mínum útfrá alla helgina og njóta lífsins þar með góðu fólki sem ég met mikils. Fiskidagurinn er stærsti dagur ársins á Dalvík og það er yndislegt að geta verið útfrá og notið góðrar dagskrár og góðs matar, grillaðs sjávarfangs. Þetta er yndisleg hátíð hafsins útfrá og þeir sem hafa staðið að þessu öll þessi ár eiga mikið hrós skilið. Þessi hátíð hafsins hefur eflt samfélagið á Dalvík til muna. Það er alltaf jafn gott að koma til Dalvíkur þessa helgi og sjá hversu gott fólk býr þar.


Brando

Ætla annars í kvöld að fá mér popp og kók blandað notalegu andrúmslofti á fallegu sumarkvöldi og horfa á hina yndislegu kvikmynd On the Waterfront með meistara Marlon Brando. Brando var einn snillinganna í Hollywood og eiginlega er hann ásamt Bogart uppáhaldsleikarinn minn. Hann gat túlkað svipbrigði með mikilli snilld. Í mínum huga var hann alltaf bestur sem hinn voldugi fjölskyldufaðir Don Vito í Guðföðurnum og svo sem Terry Malloy í On the Waterfront. Ég á erfitt með að velja milli þessara hlutverka. Það er eitthvað í hjartanu sem fær mig til að geta ekki valið, enda bæði hlutverkin stórgóð og voru margverðlaunuð.

Vito var sá slyngi en Terry sá mildi inn við beinið. Mér fannst reyndar hann ná alveg ótrúlega vel þeim standard á Vito að vera maður valdsins - þar réð úrslitum valdsmannslegt útlit Brando og hversu sterkur karakter hann var. Enn betra var að sjá svo De Niro leika Vito ungan og allt að því leika Brando. Marlon var svo góður leikari að hann gat fetað öll stigin og þeir sem sjá hann í Apocalypse Now undrast að sami leikarinn sé í öllum þrem, nú eða þá Paul í The Last Tango in Paris. Eftir þetta gæti vel verið að ég skellti mér í að horfa á hina ljúfléttu Roman Holiday með Audrey Hepburn. Audrey og Rómarborg voru aldrei sætari en í þeirri mynd.

Skrifa meira um það á morgun jafnvel ásamt pólitískum pælingum af ýmsu tagi.


Tími nornarinnar

Tími nornarinnar

Seinustu daga hef ég fylgst af miklum áhuga með útvarpsleikritinu kl. 13:00 á Rás 1. Þar hefur verið flutt alveg hreint stórfengleg útvarpsuppfærsla af hinni frábæru skáldsögu Árna Þórarinssonar, Tíma nornarinnar. Þessi vel skrifaða bók hitti mig alveg í hjartastað þegar að ég las hana í ársbyrjun. Þar segir Árni sögu Einars blaðamanns sem nú hefur vikið af braut drykkju og óreglu og haldið norður til Akureyrar til að vinna sem blaðamaður Síðdegisblaðsins á staðnum. Ekki hefur liðið langur tími frá komu hans norður þar til að hann lendir í miðpunkti spennandi og áhugaverðrar atburðarásar sem hann fjallar um af áhuga í fréttaskrifum og hugsar um mikið þess fyrir utan. Spennandi saga með litríkum persónum.

Tími nornarinnar er áhugaverð og vel rituð saga hjá Árna. Þetta er skemmtilegur krimmi frá sjónarhóli blaðamannsins. Sögusvið bókarinnar er eins og fyrr segir sjálfur höfuðstaður Norðurlands, Vor Akureyri. Hló mikið og skemmti mér yfir lestrinum þegar að ég fór fyrst yfir bókina. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu vel Árni hafði sett sig inn í "akureysk" málefni. Hann er með alla staðhætti á hreinu og talar málið eins og hann væri á staðnum. Sérstaklega fannst mér alveg hreint frábært að heyra hann tala um vandamálin á staðnum og eiginlega eru brandararnir svo kaldhæðnir og lúmskir að erfitt er annað en að hafa gaman af lestrinum og fylgjast með af miklum áhuga.

Útvarpsuppfærslan er mjög vel gerð. Hjálmar Hjálmarsson leikur blaðamanninn Einar með sannkölluðum glæsibrag og nær að túlka gamansemi hans mjög vel. Hjálmar gerði sjálfur leikgerðina eftir sögunni og leikstýrir ásamt Guðmundi Inga Þorvaldssyni. Ennfremur fer Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, algjörlega á kostum í hlutverki fréttastjórans Trausta, sem er eins og Einar segir svo skondið slitinn gúmmítöffari af skjánum sem misst hefur sjarmann og er orðinn fréttastjóri í skjóli ritstjórans. Þórhallur túlkar fréttastjórann frábærlega og minnir á góða leiktakta sína í gamla daga, áður en að hann varð sjónvarpsmaður. Svo er ekki hægt að segja annað en að Örn Árnason sé frábær sem Ásbjörn, fréttastjórnandinn á Akureyri.

Þetta er góð saga hjá Árna sem ég hvet alla áhugamenn um spennusögur til að hlusta á þessa dagana á Rás 1. Skemmtilegar tengingar og spennandi atburðarás sem fléttist vel saman undir lokin. Hvet alla sem ekki hafa hlustað til að smella sér inn á ruv.is og hlusta á þetta magnaða útvarpsleikrit. Hef hlegið mikið af útvarpsleikgerðinni - svo sannarlega vel gert hjá Hjálmari og hans fólki. Frábær saga í glæsilegum búningi útvarpsleikhússins.


Bloggfærslur 21. júlí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband