Forystukapallinn í Framsókn

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra

Í ítarlegum pistli mínum sem birtist á vef Heimdallar í dag fjalla ég forystukapal Framsóknarflokksins. Eins og allir vita er nú rúmur mánuður í flokksþing Framsóknarflokksins. Þar mun Halldór Ásgrímsson láta af formennsku í flokknum eftir tólf ára formannsferil og eftirmaður hans verður kjörinn. Þegar hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt um framboð sitt. Greinilegt er af atburðarás seinustu vikna að hann er frambjóðandi Halldórsarmsins í flokknum. Hann er fyrsti utanþingsráðherrann í tæpa tvo áratugi og hefur lengi verið virkur í innra starfi hans. Þegar má heyra orðróm þess efnis að Jón verði jafnvel einróma kjörinn til verka og engin átök verði um formannsstólinn. Eins og staðan er nú bendir ansi margt til þess að sú verði raunin.

Verði Jón formaður Framsóknarflokksins eins og mér virðist margt benda til með afgerandi hætti af atburðarás í þessum mánuði blasir nýtt landslag bæði við framsóknarmönnum og eins fulltrúum annarra flokka. Komi hann til forystu mun flokkurinn færast í órafjarlægð frá átakapunktum tengdum hópi fráfarandi formanns og S-hóps og öllu slíku. Framsóknarmenn skynja enda að skil verða að vera til að flokkurinn verði endurreistur til nýrra verka. Það hefur hann þegar hafið með því að færa stóriðjukúrsinn í allt aðra átt og róa hann mjög með mjög athyglisverðum yfirlýsingum sínum.
Eins og allir hafa séð með innkomu Jóns er þar kominn maður sem hefur allt að því ímynd pókerspilarans: er yfirvegaður og ákveðinn í senn. Kannski er það sú týpa sem flokkurinn þarf á að halda núna.

Lúðvík Gizurarson

Reyndar hefur nú heyrst að Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafi í hyggju að gefa kost á sér til formennsku og gaf hann reyndar út yfirlýsingu um þann áhuga sinn á miðvikudag. Mikið er grínast með þau tíðindi. Lúðvík hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum formanni Framsóknarflokksins, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra. Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Hefur málið farið fyrir dómstóla og hefur Lúðvík ekki gefið neitt eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks. Það hlýtur fyrst og fremst að vera grín af hálfu Lúðvíks að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega er Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman. Allir vita að Lúðvík Gizurarson verður ekki formaður Framsóknarflokksins og væntanlega um einn stóran húmor að ræða. Í fyrrnefndum pistli fer ég yfir fræga fléttu Halldórs Ásgrímssonar sem nefnd hefur verið um innkomu Jóns Sigurðssonar. Virðist hún ætla að ganga eftir að öllu óbreyttu. Aðeins Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson eru talin geta velgt honum undir uggum og bíða nú allir eftir ákvörðun þeirra.

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra

Í gærkvöldi var Jón Sigurðsson í löngu og ítarlegu viðtali hjá Helga Seljan, frænda mínum, í Íslandi í dag. Það var mjög merkilegt viðtal, svo ekki sé meira sagt. Helgi spurði hann þar út í stóriðjumálin en Jón hefur nú nær algjörlega vikið af braut stóriðjustefnu þeirri sem Valgerður Sverrisdóttir talaði fyrir sem iðnaðarráðherra - greinilega ætlað til þess að ljá flokknum annan blæ og hann geti með betri hætti en áður sótt það fylgi sem hann hefur misst frá sér. Ennfremur var farið yfir Evrópumál og stjórnmálaáherslur Jóns sjálfs. Er óhætt að segja að viðtalið hafi verið mjög merkilegt og Jóni mislíkað margar spurningar Helga og svarað þeim með gusti. Þetta var allavega kostulegt viðtal og var áhugavert að sjá það.

Bendi ég öllum á að horfa á viðtal Helga við Jón Sigurðsson og lesa fyrrnefndan pistil minn um forystukapalinn í Framsóknarflokknum.


Ræða og útvarpsviðtal

Stefán Fr. Stef.

Félagar og vinir hafa mikið spurt mig að því hvort ræða mín á aðalfundi Varðar, þar sem ég lét af formennsku félagsins, þann 27. júní sl. sé hvergi til á netinu. Hún birtist á Íslendingi, vef flokksins hér í bænum, daginn eftir aðalfundinn og því rétt að benda þeim sem vilja lesa á tengil á ræðuna þar. Í ræðunni fer ég yfir fjölda atriða: t.d. starf félagsins á starfsárinu, prófkjör flokksins í febrúar, útkomu flokksins í kosningunum í maí og mörg fleiri atriði mætti nefna sem að þið getið lesið nánar um.

Ræða á aðalfundi

Í gær höfðu þeir félagar Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson samband við mig fyrir þátt sinn Reykjavík síðdegis, en þeir voru með útsendingu á Café Amour í miðbæ Akureyrar í gær en Bylgjan er með húllumhæ á Akureyri næstu dagana og útiskemmtun um helgina allavega. Vildu þeir fá mig í viðtal um ýmis mál, sérstaklega fræga ályktun stjórnar Varðar árið 1999 um málefni innflytjenda og mikilvægi þess að kenna þeim íslensku, í ljósi umræðu um framboð innflytjenda. Sú ályktun leiddi til afsagnar þáverandi stjórnar Varðar. Það sem hún kynnti þá hefur síðan orðið algild stefna sem flestir tala fyrir.

Þar sem ég er ekki í bænum og verð ekki næstu daga varð úr að um símaspjall yrði að ræða og því styttra spjall en ella, enda var ég á ferð. Hef ég oft rætt í útvarpsviðtölum við þá félaga og haft gaman af. Þeir eru með langbesta síðdegisþáttinn í útvarpi og hlusta ég oft á þá. Fórum við í stuttu símaspjalli yfir þessi mál. Höfðum við gaman af þessu spjalli og létt og góð stemmning þar yfir. Þegar að Kristófer hringdi í mig og vildi ræða við mig í gær hafði ég á orði að það væri gott að skoðun stjórnar Varðar árið 1999, sem varð umdeild þá, sé svo almenn skoðun nú.

Reykjavík síðdegis í gær - set hér tengil á þáttinn í gær. Viðtalið við mig er þegar að 1 klukkutími og 20 mínútur eru liðnar af þættinum.


Sorgleg umferðarslys

Minning

Mikil sorg hefur verið heima á Akureyri seinustu daga vegna andláts Sigrúnar Kristinsdóttur og Heiðars Þ. Jóhannssonar sem létust í sorglegum umferðarslysum fyrir viku. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 9 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum sem tengjast fólki heima á Akureyri. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna láts góðs vinar og ættingja. Ég veit að margir eru í sárum heima núna og það fólk á allt stað í hjarta mér þessa erfiðu daga núna.

Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Sjötta sumarið í röð hefur VÍS hafið átak gegn umferðarslysum undir forystu Ragnheiðar Davíðsdóttur. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að baráttunni við ölvunarakstur, hraðakstur, farsímanotkun undir stýri og annars konar skort á einbeitingu sem oft leiðir til alvarlegra slysa. Ragnheiður og þau hjá VÍS eiga hrós skilið fyrir öflug skilaboð sín í þessum efnum.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.

Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð fyrir nokkrum árum þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Nýjasta auglýsingaherferðin hefur heppnast gríðarlega vel og verið góð áminning þess að fara varlega í umferðinni og ekki síður að muna að nota bílbeltin. Það eru mikilvægustu skilaboðin að mínu mati að minna á þessa sumarmánuði, enda vill oft gleymast að hugað sé að því að beltið sé á.

Í auglýsingunni sem hefur verið í fjölmiðlum í sumar er stuðst við norska auglýsingu sem vegagerðin þar í landi lét gera og fékk Umferðarstofa leyfi hjá þeim til að útfæra hugmyndina fyrir íslenskar aðstæður. Norska herferðin heitir "Heaven can wait" og hefur vakið verðskuldaða athygli. Það er ljóst að líkurnar á því að slasast alvarlega eða láta lífið í umferðinni eru margfalt sinnum meiri meðal þeirra sem ekki nota bílbelti. Í auglýsingunum er því lögð áhersla á notkun bílbelta hvort sem um er að ræða farþega eða ökumann því beltin bjarga. Það eru grunnskilaboð sem margsannað er að skipta miklu máli. Hvet alla til að sjá þessa auglýsingu.

Ég fagna þjóðarátaki Umferðarstofu og VÍS í umferðarmálum. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.


Bloggfærslur 8. júlí 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband