Kristinn H. minnir á sig með ritaraframboði

Kristinn H. Gunnarsson

Í dag sendi Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, frá sér fréttatilkynningu um framboð sitt til embættis ritara flokksins. Kristinn H. hefur verið umdeildur innan raða flokksins. Hann gekk í Framsóknarflokkinn árið 1998, en hann hafði fram að því verið alþingismaður Alþýðubandalagsins, en ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999 en varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 og skipaði það sæti á lista flokksins. Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár.

Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn. Hann var tekinn aftur í sátt í febrúar 2005 og hann tók sæti þá í tveim nefndum, en öllum varð ljóst að þær sættir voru aðeins til málamynda í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna í sama mánuði.

Trúnaðarbresturinn milli Kristins og forystunnar hafði óneitanlega skaðað flokkinn, enda auðvitað mjög fátítt, allt að því einsdæmi, að sitjandi þingmaður hafi verið tekinn af sakramentinu og sviptur öllum þingnefndum sínum. Er það enda mjög stór hluti þingmennskunnar að sitja í nefndum og án þess verður þingmaðurinn auðvitað mjög utangarðs í starfinu í þinginu. Lék ekki vafi á því að Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, vildi ná sáttum við Kristin H. til að styrkja stöðu sína fyrir flokksþingið og reyna að lægja öldurnar. Hafði komið upp mikil óánægja innan flokksfélaga í Norðvesturkjördæmi með þessa ákvörðun forystu þingflokksins og ljóst að ólga var uppi. Sást þetta vel á frægu fundaferðalagi formannsins um Vestfirði í janúar 2005 þar sem ákvörðunum þingflokks var andmælt.

Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987. Því fannst alltaf sem að Ólafur Ragnar væri boðflenna í Alþýðubandalaginu (enda gamall framsóknarmaður) og hefði stolið flokknum þeirra. Hann væri ekki sannur kommi, sem er og rétt.

Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. gefi kost á sér til ritarastarfa í flokknum. Í starfslýsingu ritara Framsóknarflokksins er m.a. formennska í flokksstjórn Framsóknarflokksins. Það fer væntanlega um fylgismenn Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins, og formannskandidatsins Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, við þessi tíðindi og varla vekja þau gleði í þeim herbúðum eftir allt sem á milli þeirra hefur farið. Ég ímynda mér allavega að lítið gleðibros sé á Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, yfir framboði Kristins H. til ritarastarfa. Öllu líklegra er að Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson séu sæl með þetta framboð og þau séu öll í framboðsblokk.

Það er alveg ljóst, eins og ég hef margoft tekið fram, að spennandi flokksþing er framundan hjá framsóknarmönnum. Þegar eru tvö framboð komin sitt í hvoru lagi í formanns- og varaformannsembættið og nú það þriðja í ritarann, en fyrir eru í þeim slag Birkir Jón Jónsson, alþingismaður (skýr valkostur Halldórsarmsins svokallaða), og Haukur Logi Karlsson, fyrrum formaður SUF, en hann er systursonur eiginkonu Guðna Ágústssonar. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikinn stuðning Vestfirðingurinn umdeildi í flokksstarfi framsóknarmanna fær í ritarakjörinu.

Það er altént algjörlega ljóst að nái Kristinn H. Gunnarsson kjöri í þetta valdamikla embætti í öllu innra starfi Framsóknarflokksins munu vindar blása um ýmsar grónustu valdastofnanirnar, vegna fyrri árekstra hans við ýmsa af helstu forystumönnum flokksins.


Framsókn á pólitískum krossgötum

Siv FriðleifsdóttirJón Sigurðsson

Sumarið hefur verið tímabil sviptinga innan Framsóknarflokksins. Flokksþing framsóknarmanna hefst á föstudag og þar mun Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og fráfarandi formaður Framsóknarflokksins, kveðja íslensk stjórnmál eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn í pólitíkinni með yfirlitsræðu sinni. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, munu takast á um formennsku flokksins og má búast við spennandi kosningu um það hvort þeirra muni taka við af Halldóri og leiða flokkinn á kosningavetri.

Ég fjalla um Framsóknarflokkinn og stöðu mála þar við forystuskipti og spennandi leiðtogakjör í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag. Þar fer ég yfir væntanlegar kosningar um öll helstu lykilembætti flokksins, en þetta er í fyrsta skipti í sögu flokksins sem alvöru kosningabarátta er um öll embættin þrjú í einu og í fyrsta skipti frá árinu 1944, er Hermann Jónasson felldi Jónas frá Hriflu af formannsstóli, sem tekist er á af alvöru um sjálft formannsembættið í flokknum.


Skemmtileg mynd úr kosningabaráttunni

Fjölskylduskemmtun Sjálfstæðisflokksins í maí 2006

Félagi minn sendi mér um daginn mynd sem var tekin á fjölskylduskemmtun Sjálfstæðisflokksins þann 26. maí sl. - daginn fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þann dag voru miklar annir hjá okkur sem vorum í kosningabaráttunni. Fjölskylduhátíðin var haldin í miðbænum venju samkvæmt þann dag, en á miðbæjarsvæðinu voru nær öll framboðin með skemmtun og skemmtilega viðburði, sem er hefð við lok baráttunnar. Jónsi spilaði og söng fyrir okkur ásamt fleiru tónlistarfólki í blíðunni þennan fallega sólardag og við grilluðum svo fyrir gesti og gangandi.

Á þessari mynd er ég greinilega í miklum önnum ásamt Oktavíu Jóhannesdóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni, en það er sennilega ekki alveg tölu komið á það hversu margar pylsur ég setti á þennan dag. Þetta var notalegur og góður dagur. Nú er rúmur mánuður síðan að ég hætti sem formaður flokksfélags hér í bænum og það hefur verið alveg verulega notalegt að hafa það rólegt og þurfa ekki að spá að neinu leyti í pólitísku verkefnin hér í bænum nema þá bara á þessum bloggvef mínum og vera laus við skyldurnar sem fylgja formennskunni.

Það verður að ráðast nú á næstu vikum hvort að ég hafi áhuga á að vera í stjórn hinna flokksfélaganna tveggja hér í bænum sem ég er félagsmaður í en það styttist nú mjög bráðlega í aðalfundi þeirra. Það er vissulega spennandi kosningavetur framundan og ég mun svo sannarlega dekka hann vel á þessum bloggvef og heimasíðunni minni, pistlavettvangnum, sem er nú komin úr stuttu sumarfríi en þar munu birtast sunnudagspistlar í allan vetur, venju samkvæmt.

Ég er pólitískur áhugamaður og hef áhuga á að vera ekki bara þögull áhugamaður heima í stofu, eins og flestir ættu að vita sem eitthvað þekkja til mín.


Bloggfærslur 14. ágúst 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband