Birkir Jón og Sæunn takast á í ritarakjöri

Sæunn og Birkir Jón

Eftir sex daga mun Sæunn Stefánsdóttir, sem var pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar 2003-2006, taka sæti Halldórs Ásgrímssonar, fráfarandi formanns Framsóknarflokksins, á Alþingi Íslendinga. Það er vissulega mjög merkilegt að kona um þrítugt taki sæti í stað Halldórs og er eiginlega mjög til marks um þá uppstokkun sem er að eiga sér stað innan Framsóknarflokksins við þær miklu breytingar sem fylgja því að Halldór hætti í stjórnmálum. Nú hefur Sæunn komið fram í fjölmiðlum í dag og lýst formlega yfir framboði sínu í embætti ritara flokksins á flokksþinginu um helgina. Er hún sú fjórða sem gefur kost á sér til þess embættis, en fyrir í þeim slag eru alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson og Haukur Logi Karlsson, fyrrum formaður SUS. Stefnir því auðvitað í mjög spennandi slag um það embætti eins og önnur.

Það vekur mikla athygli að Sæunn sem er auðvitað mjög nýleg í pólitík hafi ákveðið framboð af þessu tagi. Sérstaklega er athyglisvert að Sæunn, sem hefur verið mjög áberandi stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í formannskjörinu um helgina fari fram og það gegn Birki Jóni, sem var varaformaður SUF í tíð Sæunnar þar í stjórn. Ennfremur vita allir að Sæunn og Dagný Jónsdóttir, alþingismaður hér í kjördæminu, eru mjög nánar vinkonur og hafa t.d. notað mjög svipaða frasa til að reyna að tala máli Jóns Sigurðssonar í formannskjörinu í spjallþáttum og í skrifum á netinu. Má leiða getum af þessu öllu að Dagný styðji framboð Sæunnar Stefánsdóttur til ritaraembættisins en ekki Birki Jón, sem hefur verið félagi hennar í ungliðastarfinu (hann var varaformaður hennar í SUF á sínum tíma) og í þingstörfunum.

Ég verð að viðurkenna að ég taldi mjög lengi framan af að Birkir Jón Jónsson væri óskoraður fulltrúi Halldórsarmsins, og jafnframt þeirra sem styðja Jón til formennsku, í ritarakjörinu en er farinn að efast nokkuð um það. Það má mun frekar telja Sæunn til náinna samstarfsmanna Jóns innan hans arms í þessu kjöri. Það er allavega ekki samstaða um Birki Jón til verka í þessum armi og reyndar vakti mikla athygli að Birkir Jón, Siv og Guðni héldu sameiginlegan framboðsfund í gærkvöldi með flokksfélögum á Ísafirði. Þau komu saman til fundarins með sömu flugvél og er um fátt meira talað í dag en að Siglfirðingarnir Siv og Birkir Jón séu í samstarfi nú, enda líti Birkir Jón svo á að Sæunn sé ritaraefni Jónsmanna. Það vekur allavega athygli að vinkona Dagnýjar og sem er líka nátengd Jóni Sigurðssyni fari fram gegn Birki til ritarans.

Það virðist erfitt að lesa í fylkingarnar innan Framsóknarflokksins, enda mikill hreyfingur með fólki sem eykst með hverjum frambjóðandanum sem stígur fram á sviðið þessa síðustu daga fyrir flokksþingið. Þó tel ég að það megi fullyrða það að Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson séu í nánu samstarfi um að vinna fyrir flokksþingið. Heyrst hafa enda sögur um það að Guðni sé að smala sínu fólki í Suðurkjördæmi til fylgilags við framboð Sivjar og sú smölun sé víðtækari. Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er líka stuðningsmaður Sivjar og leggur eitthvað á sig fyrir hana að reyna að ná í stuðning, einkum í kraganum og á sínum gömlu slóðum fyrir vestan. Það er allavega skýr fylkingabarátta um formennskuna og greinilegt að þeir sem hafa gagnrýnt Halldór Ásgrímsson opinberlega styðji Siv.

Það stefnir í spennandi helgi hjá framsóknarmönnum og eldfima kosningu þar sem tekist er á af krafti. Það er mjög nýtt fyrir framsóknarmenn að sjá kosningu um öll embætti sín á flokksþingi og hefur aldrei gerst áður. Sérstaklega stefnir í spennandi kosningu um ritarann. Ungliðar flokksins sameinast greinilega ekki um Birki Jón sem ritara og tekist á mjög víða, enda mjög ólíkir kandidatar komnir þar fram. Fyrst og fremst verður þó spennan um formennsku flokksins og má búast við að úrslitin í því kjöri hafi veruleg áhrif á það hvernig raðast í hin forystuembættin tvö. Svo gæti farið að flokkurinn myndi fara í gegnum mikla uppstokkun um helgina og við blasi gjörólík forysta við stjórnmálaáhugamönnum á laugardaginn.


Fer Jakob í þingframboð að vori?

Jakob Björnsson

Um fátt er nú meira rætt hér í bænum í pólitísku umræðunni en það hvort að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri hér á Akureyri, fari í þingframboð fyrir Framsóknarflokkinn að vori. Segja má að orðrómurinn um þetta hafi magnast mjög eftir að Jakob hætti í bæjarstjórn Akureyrar nú í vor. Þegar að hann ákvað að fara ekki í prófkjör flokksins hér í bæ fyrr á árinu varð öllum ljóst að hann væri að stefna að vistaskiptum í sinni pólitík. Jakob var aldursforseti bæjarstjórnar Akureyrar á síðasta kjörtímabili. Hann sat í bæjarstjórn í 16 ár og var leiðtogi Framsóknarflokksins í 12 ár af þeim. Hann var bæjarstjóri á Akureyri á árunum 1994-1998, en í tíð hans vann flokkurinn einn sinn besta kosningasigur, árið 1994, er hann hlaut fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu. Jakob sat vel á sjöunda hundrað bæjarráðsfunda og rúmlega 300 bæjarstjórnarfundi á þessum 16 árum sínum í forystu bæjarmálanna.

Jakob hefur áður reynt að fara í landsmálin en þá gekk það miður vel fyrir hann. Jakob tók þá ákvörðun eftir að hann missti bæjarstjórastólinn í bæjarstjórnarkosningunum 1998 að stefna á þingið. Sóttist hann eftir fyrsta sæti listans í prófkjöri flokksmanna og barðist við Valgerði Sverrisdóttur, nú utanríkisráðherra, um forystuna. Náði hann aðeins fjórða sætinu í prófkjörinu og tapaði því stórt gegn Valgerði. Mikil barátta var þeirra á milli og harkan var nokkuð mikil í slagnum. Valgerður taldi aðför forystumanns flokksins á Akureyri gegn sér mjög harkalega og fyrirgaf hana í raun aldrei. Jakob tók fjórða sætið á framboðslistanum. Flokkurinn hlaut afhroð í þessum síðustu þingkosningum í NE og aðeins einn mann kjörinn, forystukonuna Valgerði Sverrisdóttur. Árangur listans olli framsóknarmönnum mjög víða miklum vonbrigðum.

Það hefur aldrei farið leynt að framsóknarmenn á Akureyri hafa viljað fá þingmann og barist mjög ákveðið fyrir því. Í aðdraganda síðustu þingkosninga var Þórarinn E. Sveinsson, fyrrum bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, þeirra valkostur í þingframboð en hann hlaut aðeins fimmta sætið á framboðslista flokksins og varð fyrir vonbrigðum í forkosningu á kjördæmisþingi flokksins í janúar 2003. Nú er Þórarinn E. fluttur til Kópavogs og ólíklegt að hann fari fram hér og eða að flokksmenn hér vilji tefla honum fram, þó að hann sé fyrsti varamaður flokksins í kjördæminu. Hljóta margir að horfa þá til Jakobs, enda hann hættur í bæjarmálunum hér og hefur væntanlega á sér annað yfirbragð en var í prófkjörinu margfræga árið 1999 þegar að hann hjólaði í Valgerði, en stuðningsmönnum hennar líkaði mjög illa hvernig hann kom fram við hana.

Það er mikið talað um það hér hvort að Valgerður og Jakob gætu t.d. slíðrað sverðin og grafið gömlu stríðsöxina fari Jakob fram í forkosningu flokksmanna fyrir næstu þingkosningar. Jakob græðir vissulega á því nú að vera ættaður frá Vopnafirði og hafa tengingar bæði norðan og austan heiða í þessu víðfeðma kjördæmi. Fari svo að Dagný Jónsdóttir láti af þingmennsku, eins og mjög víða er orðað, hlýtur að þurfa einstakling sem getur sótt sér stuðning austur fyrir. Reyndar hefur ekkert heyrst öruggt um það hvort að Dagný hætti með Jóni Kristjánssyni að vori en mikið er pískrað um þann orðróm. Dagný var aðalatkvæðabeita framsóknarmanna hér í síðustu þingkosningum en hún hefur hinsvegar valdið mörgum vonbrigðum og engan veginn verið sú öfluga forystukona sem margir framsóknarmenn hér bjuggust við að hún yrði.

En það blasir við öllum að Jakob er byrjaður að þreifa fyrir sér og minna á sig. Hann er allavega mjög áberandi þrátt fyrir að hafa vikið úr bæjarmálunum og var t.d. á fullu að tala við fólk við menningarhúsgleðina um daginn. Mikla athygli vakti viðtal akureysku fréttastöðvarinnar N4 við Jakob þar sem farið var yfir forystukapal flokksins í ljósi brotthvarfs Halldórs Ásgrímssonar. Sýnist manni af tali hans að hann sé frekar stuðningsmaður Sivjar Friðleifsdóttur en Jóns Sigurðssonar. Reyndar eru margir framsóknarmenn hér á Akureyri ósáttir við hvernig flokksforystan vann seinustu árin og telur afhroð flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor tengjast beint óvinsældum fráfarandi formanns og verka hans.

Staða Framsóknarflokksins hér á Akureyri hefur aldrei verið verri en einmitt nú. Jakob getur sjálfur algjörlega fríað sig ábyrgð á slæmu gengi flokksins hér í vor, enda kom hann lítið sem ekkert nálægt framboði flokksins í vor. Hann gæti því væntanlega farið fram án þess að vera með það á bakinu. Allavega dylst engum það að Jakob sýnir á sér framboðssnið og má telja líklegra en ekki að hann stefni á að reyna að komast á þing, enda tækifærin til staðar sé það rétt að Dagný Jónsdóttir fari ekki í þingframboð að vori.


Ólga innan forystu Samfylkingarinnar

Ágúst Ólafur og Ingibjörg Sólrún

Ég, eins og sennilega svo miklu fleiri, hef nokkuð gaman af að fylgjast með hinum kostulega bloggvef Orðinu á bloggkerfi Moggans. Þar birtast hinar kostulegustu analísur á mönnum og málefnum daginn út og inn. Mikið er þar pælt í stjórnmálum, sem er varla undrunarefni í upphafi kosningavetrar, sem stefnir í að verða mjög spennandi og skemmtilegur. Helst virðast hinir nafnlausu álitsgjafar vera að spá í pólitískum málefnum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en stöku sinnum er þar spáð í málefnum vinstri grænna. Það vekur verulega athygli að aldrei birtast þar analísur um Samfylkinguna, sem ætti þó aldeilis að vera ástæða til í því pólitíska andrúmslofti sem við blasir þessa dagana þar sem Samfylkingin minnkar stöðugt í skoðanakönnunum og mikil valdabarátta stendur innan jafnvel forystusveitar flokksins sjálfs.

Miklar sögur ganga um það hverjir halda úti þessum vef. Lífseigasta sagan er sú að Andrés Jónsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, pólitískrar ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, sé potturinn og pannan á vefnum ásamt fleiri ungliðum úr Samfylkingunni og Framsóknarflokki. Ekki ætla ég að fella endanlegan dóm yfir því hverjir hinir nafnlausu álitsgjafar séu en það hlýtur óneitanlega að teljast trúanleg saga að Samfylkingarungliðar séu ráðandi á vefnum þegar litið er á það að ekkert er analísað um ólguna innan forystusveitar Samfylkingarinnar. Þær sögur hafa gengið nú í nokkrar vikur að lítið sem ekkert samstarf sé á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, og þau varla orðið tali við hvort annað. Sögur af því virðast þó ekki ná að rata á "Orðið".

Um fátt hefur verið rætt meira seinustu vikurnar hvernig sambandið innan forystu Samfylkingarinnar sé. Frægar eru sögurnar af stirðu samstarfi formannsins og þingflokksformannsins Margrétar Frímannsdóttur. Enn verri virðist samkomulagið milli Ingibjargar og Ágústs. Þær sögur eru lífseigar að hún vilji losna við varaformanninn og hefur heyrst að hún vilji aðra og þekkta frambjóðendur, sem ekki hafa verið í pólitík áður, til framboðs í prófkjöri Samfylkingarinnar í borginni til að reyna að slá hann út. Hafa nöfn Andra Snæs Magnasonar, rithöfundar, og Sigríðar Arnardóttur, morgunsjónvarpskonu, verið lífseig í því skyni. Reyndar hefur margoft verið sagt, sem rétt er, að Ingibjörg Sólrún hafi ekki stutt Ágúst Ólaf til varaformennsku heldur stutt andstæðing hans í kjörinu, Lúðvík Bergvinsson, alþingismann flokksins í Suðurkjördæmi.

Á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 brostu Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur sínu breiðasta og reyndu að sýna samstöðu með því að koma fram saman við lok fundarins. Ef marka má það sem heyrist nú er kalt á milli æðstu forystumanna Samfylkingarinnar og barist þar af krafti. Framundan eru þingkosningar og orðrómurinn um að formaðurinn vilji losna við varaformann sinn fer sífellt vaxandi. Virðist heiftin þar á milli vera litlu minni en á milli Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar innan Framsóknarflokksins. Ágúst Ólafur er ungur maður, jafngamall mér reyndar, og hefur náð miklum frama innan Samfylkingarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að honum tekst að verjast áhlaupi formanns flokksins og stuðningsmanna hennar sem bráðlega munu reyna allt með sýnilegum hætti að henda honum út úr pólitík.

Það verður allavega sífellt skiljanlegra, hafandi heyrt fréttirnar af þessari ólgu, að Samfylkingin sé í þessum miklu vandræðum og sífellt að minnka í skoðanakönnunum og standi nú nær á pari við VG. Fall Samfylkingarinnar og stjórnmálaferils ISG er analísa útaf fyrir sig fyrir alla sem fylgjast með stjórnmálum. Enn fróðlegra verður að sjá hvort að þeir á Orðinu sjá frétt í þessum óeirðum innan forystusveitar Samfylkingarinnar á næstu vikum, en það hefur ekki fram að þessu talist frétt í þeirra augum þrátt fyrir að þar logi allt eins og Róm forðum.

Það þarf reyndar að bíða mjög lengi eftir þessum pælingum ef satt reynist að eftirmaður Ágústs Ólafs Ágústssonar á formannsstóli Ungra jafnaðarmanna og náinn pólitískur trúnaðarmaður hans sé að stjórna analísingunum á vefnum. Reyndar má spyrja sig að því hversu trúverðugt það sé að formaður ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks bloggi nafnlaust á netinu.


Árni horfir til forystuhlutverks í Suðrinu

Árni M. Mathiesen

Ein lífseigasta pólitíska sagan í sumar er hvort að Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, muni færa sig til og sækjast eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Með því að sækjast eftir því væri hann að gefa leiðtogastólinn í kraganum í raun eftir til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hlýtur að teljast líkleg til að vilja leiða framboðslistann í sínu kjördæmi og vera vænleg til að hljóta það sæti í prófkjöri. Árni, sem hefur setið á Alþingi í 15 ár og leitt framboðslista af hálfu flokksins í landsmálum allt frá alþingiskosningunum 1999, hlýtur að teljast öruggt ráðherraefni áfram nái hann að tryggja áhrif sín með leiðtogasetu í öðru kjördæmi. Hann hefur mikinn styrkleika og stuðning æðstu forystumanna flokksins til að vera í ríkisstjórn.

Það er ekki undarlegt að Árni sækist eftir því að fara í Suðurkjördæmið. Þar er enginn áberandi leiðtogi og ekki virðist heldur leiðtogi sem hefði styrkleika til ráðherrasetu í sjónmáli. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ætti að vera það mikið í kosningunum að vori að leiðtogi listans ætti að hafa styrkleika og stuðning til að verða ráðherra. Svo hefur ekki verið frá árinu 1999, er Þorsteinn Pálsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hætti í stjórnmálum. Árni Ragnar Árnason leiddi framboðslista flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003. Árni Ragnar hafði verið veikur af krabbameini nokkurn tíma áður en hann var valinn leiðtogi og virtist hafa náð sér að fullu. Hann veiktist aftur í kosningabaráttunni og varð frá að hverfa. Hann lést fyrir nákvæmlega tveim árum, í ágúst 2004, eftir hetjulega baráttu sína.

Frá andláti Árna Ragnars hefur Drífa Hjartardóttir leitt flokkinn í Suðurkjördæmi en þá öðru sinni tókst hún á hendur það verkefni að leiða flokkinn á erfiðum tímamótum. Hún varð leiðtogi flokksins í gamla Suðurlandskjördæmi er Árni Johnsen varð að segja af sér þingmennsku sumarið 2001 vegna hneykslismála sinna. Drífa hefur staðið sig vel að mínu mati og leitt flokkinn í gegnum erfiða tíma á þessum slóðum. Fylgi flokksins í Suðurkjördæmi er mikið og það sást vel í sveitarstjórnarkosningunum í vor en flokkurinn er í forystu nær allra sveitarfélaga í kjördæminu. Það er því auðvitað með ólíkindum að flokkurinn í Suðurkjördæmi hafi ekki ráðherrastól og hlýtur það að vera markmið þeirra sem velja framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir næstu kosningar að tryggja að sá sem leiði listann sé í þeirri stöðu að teljast öruggt ráðherraefni.

Árni M. Mathiesen virðist hafa áhuga á að færa sig til og hefur sá áhugi ekki farið leynt meðal flokksmanna í Suðurkjördæmi seinustu mánuðina. Hann hefur verið ráðherra í sjö ár og leitt sjávarútvegsmálin og fjármálin af hálfu flokksins. Það er hægt að fullyrða með nokkurri vissu að hann sé öruggt ráðherraefni að vori. Það verður að ráðast hvort flokksmenn vilja fá Árna til forystu í kjördæminu. Væntanlega verður þar prófkjör, enda virðist mér á flestum sem ég þekki úr kjördæminu að þeir vilji fá uppstokkun á þingmannahópi kjördæmisins og mæla styrkleika frambjóðenda. Er það enda eðlilegast að prófkjör sé í öllum kjördæmum hjá flokknum nú, eins og ég hef áður bent á. Er mikið rætt um hvort að Árni Johnsen fari fram í Suðurkjördæmi. Tel ég eins og margir eðlilegra að hann beindi kröftum sínum að öðru á þessum tímapunkti.

Það stefnir í spennandi tíma hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hverja flokksmenn þar velja til forystu hjá sér. Að mörgu leyti hlýtur að verða spurt hvort sjálfstæðismenn hafi sterkt og vænlegt ráðherraefni í forystu framboðslista síns. Það hlýtur að teljast sterkt fyrir þá að hafa Árna M. Mathiesen í forystu framboðslista síns, enda fer þar ráðherra í sjö ár og leiðtogi kjördæmis allan þann tíma. En nú verður svo auðvitað að ráðast hvort Árni sæki sér stuðning flokksmanna til forystu og nái kjöri í það verkefni. Það verður fróðlegt að sjá.


Bloggfærslur 15. ágúst 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband