Minnt á afstöðu Akureyringa til þyrlumála

Björgunarþyrla

Eins og flestum er kunnugt óskaði bæjarstjórn Akureyrar eftir því í marsmánuði, eftir að við blöstu þáttaskil í varnarmálum landsins, að fram færu viðræður um að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar skyldi vera staðsett hér á Akureyri. Bæjarráð samþykkti einróma tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, um þetta á fundi sínum þann 23. mars sl. Á sama tíma ákvað ráðherra að skipa nefnd sem skila ætti tillögum um þyrlubjörgunarþjónustu hérlendis. Nýlega lá skýrsla nefndarinnar fyrir. Það er skemmst frá því að segja að bæjarstjórn Akureyrar var ekki virt svo mikið sem svars í vinnslu skýrslunnar. Eru þessi vinnubrögð algjörlega með hreinum ólíkindum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, enda töldum við Akureyringar fyrirfram að allavega yrðu málin rædd við forystumenn sveitarfélagsins.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag lagði Kristján Þór Júlíusson fram svohljóðandi ályktun sem samþykkt var samhljóða og að mestu án umræðu: "Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir undrun á niðurstöðu skýrslu dómsmálaráðherra um "Þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi - tillögur að framtíðarskipulagi" sem kynnt var í júlí sl. og vísar til bókunar bæjarráðs frá 23. mars sl. þar sem óskað var eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs þjóðarinnar. Bæjarstjórn leggur áherslu á að vandað sé til undirbúnings á yfirtöku Íslendinga á þessu mikilvæga verkefni.

Taka þarf tillit til öryggis allra landsmanna og sjófarenda á svæðinu kringum landið sem er skilgreint sem starfssvæði þyrlubjörgunarsveitarinnar. Nauðsynlegt er að skipulag björgunarmála sé þannig að björgunar- og viðbragðstími sé sem stystur. Jafnframt er áríðandi að hafa í huga að siglingar flutningaskipa um norðurskautssvæðið eru að aukast og krefjast frekari viðbúnaðar á þessu viðkvæma svæði. Með vísan til ofangreindra raka telur bæjarstjórn bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að a.m.k. ein björgunarþyrla verði staðsett á Akureyri.


Mér finnst það í senn undarlegt og til skammar fyrir viðkomandi starfshóp að svara ekki einu sinni þeim óskum sem til hennar var beint um að ræða um stöðu mála. Er ekki hægt að segja annað en að skýrslan sé mjög höfuðborgarmiðuð og vekur athygli hversu þröngt sjónarhorn hennar er. Er vægt til orða tekið að kalla skýrslu starfshópsins samstarfsverkefni kerfiskalla um að halda hlutunum í horfinu og horfa á hagsmuni málsins aðeins frá einum miðpunkti, sem er auðvitað Reykjavík. Veldur þessi skýrsla vonbrigðum og fær altént algjöra falleinkunn héðan norðan heiða og þessi ályktun bæjarstjórnar. Það er algjör krafa okkar að staða mála verði stokkuð upp og horft til þess að hér verði björgunarþyrla.

Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun.

Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að efla þarfLandhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun. Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla.

Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Gæslan hefur verið efld, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og með ólíkindum að ábendingar okkar um að ræða málin séu virtar að vettugi og hlýtur að vekja athygli hversu höfuðborgarmiðuð vinna kerfiskallanna fyrir sunnan er.


Nýtt hlutverk landsföðurins umdeilda

Davíð Oddsson

Um þessar mundir er tæpt ár liðið frá því að Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll um þá ákvörðun sína að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu síðar sagði hann af sér ráðherraembætti og þingmennsku og eftirmaður hans á formannsstóli var kjörinn á landsfundi í október. Nokkrum dögum síðar varð Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.

Nú er það hlutverk Davíðs Oddssonar að koma öðru hverju í fjölmiðla og kynna okkur horfur í efnahagslífinu, kynna okkur stöðu mála og spá um hvert stefna beri. Flestir, bæði stjórnarsinnar sem og stjórnarandstæðingar, hafa fylgst með því betur en áður hvað sagt sé við Kalkofnsveg og þegar að Davíð fer í viðtal fangar hann athygli stjórnmálaáhugamanna. Reyndar er það nú svo að það er mun skemmtilegra að fylgjast með efnahagsumræðunni en áður. Enda er það svo að Davíð er snillingur í að koma fyrir sig orði og tjá sig um helstu málin og getur með hnyttnum og öflugum hætti talað um málin og fangað með því bæði athygli almennings og talað máli sem almenningur skilur. Þetta tekst honum meira að segja í Seðlabankanum þegar að hann talar um gengishalla, verðbólgu, stofnfjárvexti, stýrivexti og hvað þau öll heita annars þessi hugtök sem meðaljóninum gengur illa almennt að skilja.

Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn þingmaður flokksins orðaði það svo skemmtilega. Gleymi ég því aldrei er hann hélt ræðu í Valhöll í fyrra skömmu áður en hann hélt í leyfi til Flórída. Var tekið við hann viðtal og var það fréttaefni í marga daga eftir að hann fór út.

Davíð Oddsson

Ég hef mjög gaman af að fylgjast með Davíð tala um verksvið hans í dag. Það er einkum vegna þess að honum tekst með alveg kostulegum hætti að flétta pólitískum álitaefnum inn í tal sitt um efnahagsmálin og koma með skoðanir sínar þar inn í, reyndar svo listilega fléttað að hlusta þarf með næmleika og áhuga á það sem hann segir. Ég var einmitt að horfa á gott viðtal Heimis Más Péturssonar við Davíð sem var á NFS í hádeginu en það var tekið í sumarblíðunni fyrir utan Seðlabankann. Þar fór hann yfir stöðu mála. Það er einhvernveginn svo að ég fylgist meira með tali seðlabankastjóra nú en áður. Kannski er það vegna þess að hinir fyrri voru ekki eins lifandi í tali um málin og fóru ekki eins vítt yfir stöðuna. Með fullri virðingu fyrir Birgi Ísleifi Gunnarssyni verð ég að viðurkenna að ég hafði aldrei sérstaklega gaman af að heyra hann tala um þessi mál.

En Davíð hefur þetta og það er gaman að hlusta á hann.... og mikið innilega er ég sammála honum með Íbúðalánasjóð. Það var flott komment og mjög nauðsynlegt. Sérstaklega fannst mér Davíð komast vel að orði um gengismálin í marsmánuði og orða stöðu mála þá með mjög skemmtilegum hætti. Hann sagði að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni í efnahagsmálunum og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Svona tala ekki nema menn sem hafa mikla yfirsýn og hafa þá listigáfu að geta talað og náð athygli allra með því í leiðinni.

Það er enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson mun vekja athygli þjóðarinnar í störfum sínum, enda einn af umdeildustu stjórnmálamönnum lýðveldissögunnar og þekktur fyrir að kalla fram sterk viðbrögð en ávallt athygli þeirra sem fylgjast með þjóðmálum, og jafnvel glæða enn meira áhuga landsmanna á efnahagsmálum. Það er allavega ljóst að hann orðar stöðu efnahagslífsins með mjög litríkum hætti og landsmenn fylgjast með af enn meiri áhuga en áður.


Bloggfærslur 16. ágúst 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband