17.8.2006 | 22:47
Rökþrot atvinnumótmælandanna

Sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega virkjun og álveri á Austurlandi. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Við höfum orðið vitni að slíkum aðferðum á Austurlandi í þessari viku, þegar að hópur erlendra atvinnumótmælenda sem hefur rekið hingað og reynt að þröngva lágkúrulegum aðferðum upp á fólkið fyrir austan réðist inn á skrifstofur Hönnunar á Reyðarfirði og klifraði upp í tughæða byggingakrana á Alcoa-vinnusvæðinu við Reyðarfjörð. Þessar aðgerðir dæma sig sjálfar - svo og rökþrot þessa fólks.
Af hverju mótmælir þetta fólk ekki sé það ósátt við álverið með friðsamlegum hætti utan girðingar byggingarsvæðisins en fer fram með þessum hætti í stað þess? Það var hið eina rétta af Alcoa að kæra mótmælendur og fara þá leið með málið. Þessar aðgerðir sanna fyrir fólki að þessi mótmæli útlendinganna eru komin út í drastískar aðgerðir sem varla teljast eðlilegar. Hvernig geta íslenskir umhverfissinnar t.d. varið verklag þeirra sem brutu sér leið inn í Hönnun og komu fram með afskaplega lágkúrulegum hætti við starfsfólk þar? Mér dettur ekki í hug annað en að skrifa gegn svona vinnubrögðum og ófriðlegum mótmælum fólks sem hefur sýnt það og sannað að það getur ekki mótmælt nema með því að grípa til svona ráða, en hafa sagst á einum tímapunkti vera með friðsamleg mótmæli.
Er það rétt leið séu menn ósáttir við verk af svona tagi og telja framkvæmdir ólöglegar að brjóta sér leið inn á byggingarsvæði og klifra upp í tugmetra háa byggingakrana? Hvað halda andstæðingar álversins að myndi gerast t.d. ef að fólk sem byggi við hliðina á blokkarbyggingu sem það væri ósátt við og hefði mótmælt á opinberum vettvangi og væri í augnablikinu að rísa reyndi að stöðva framkvæmdirnar t.d. með því að klifra upp í byggingakranann með mótmæli og hlekkjaði sig fast þar? Ég er ansi hræddur um að slíku fólki yrði lítið jákvætt ágengt. Það að fara fram með þeim hætti og var í gær er eitthvað sem telst ekki eðlilegt í mínum bókum. Finnst einhverjum svona aðgerðir réttlætanlegar og eðlilegar? Stórt er spurt en ég efast um að almenningur sé innst inni hlynntur skoðanaflóði atvinnumótmælenda af þessu tagi.
Það hefur vel sést síðustu daga að Austfirðingar vilja ekki svona vinnubrögð og hafa látið skoðanir sínar á því vel í ljósi. Það er mjög ankanalegt að sjá þessa erlendu atvinnumótmælendur, sem eru að reyna að pikka sér fæting og traðka á austfirsku samfélagi með framferði sínu, reyna að þröngva sér inn á vinnustaði og láta ófriðlega undir yfirskini friðsamlegra mótmæla sem við öllum blasir að eru fjarri sanni. En það má segja að mælirinn hafi orðið endanlega fullur meðal Austfirðinga, sem langflestir styðja þá jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað fyrir austan og ekki síður meðal þeirra landsmanna sem stutt hafa þessar framkvæmdir fyrir austan, nú hina síðustu daga. Öllu sómakæru fólki sem virðir skoðanir fólks með friðsamlegum hætti varð nóg boðið af vinnubrögðum þessa fólks.
Það er mjög hvimleitt að fylgjast með þessum mótmælum þessara erlendu atvinnumótmælenda. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita fyrir austan. Nú hefur lögreglan tekið á málinu og lagðar hafa verið fram ákærur á hendum atvinnumótmælendunum. Það er alveg ljóst í mínum huga að þegar að atvinnumótmælendur eða öfgasinnar í umhverfismálum eru farnir út í skemmdarverk og ofbeldisaðgerðir eru engin rök eftir í málinu af þeirra hálfu. Það hefur sannast svo ekki verður um villst með vinnubrögðum þeirra seinustu vikurnar. Rökþrot þeirra er algjört. Eða hvað segja annars vinnubrögð þessa fólks okkur? Ég bara spyr lesandi góður.
Fyrir nákvæmlega ári kom sama staða upp austur á fjörðum. Þá minnti ég á skoðanir mínar í þessum pistli sem á vel við nú í ljósi nýjustu atburða austan úr Fjarðabyggð.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 22:09
Geir tekur boði um austfirska skoðunarferð

Fyrir nokkrum dögum ritaði Ómar Ragnarsson grein í Morgunblaðið og bauð þar formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, þrem ráðherrum Framsóknarflokks og nokkrum fjölmiðlamönnum formlega skoðunarferð um Kárahnjúkasvæðið undir sinni leiðsögn. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hringdi í gærkvöldi í Ómar og þáði boð hans til sín og Þorgerðar Katrínar en ennfremur fyrir hönd allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Er það að mínu mati rétt ákvörðun hjá Geir að þiggja þetta boð og rétt skilaboð sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins senda með því að fara á svæðið og skoða náttúruna þar. Boð Ómars var rausnarlegt og vart um annað að ræða en að því yrði tekið og rétt ákvörðun af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að fara austur.
Varla mun þessi ferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar þó breyta miklu um stöðu mála. Framkvæmdir við virkjun við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði eru langt á veg komnar og sér fyrir endann á þeim. Þær hafa farið rétta leið og hlotið lögformlega staðfestingu sem við öllum blasir. En það er auðvitað mjög mikilvægt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þiggi þetta boð og skoði náttúruna undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar. Það verður þeim aðeins fræðandi og jákvæð upplifun hvernig staða mála er og hvernig svæðið er. Ferðin breytir þó auðvitað engu um þær ákvarðanir sem fyrir liggja um framkvæmdir og eðlilegt að allt hafi sinn gang í því. Alþingi hefur samþykkt tilteknar framkvæmdir og mikið um þær rætt í samfélaginu, enda eitt af mestu hitamálum seinustu ára.
Ómar Ragnarsson og sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega þessum framkvæmdum. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Það eru atvinnumótmælendurnir sem við höfum séð til austan heiða í fréttum síðustu daga í fréttum af fáu góðu. En meira um það síðar í kvöld hér á blogginu mínu....
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 21:08
Svartur dagur í umferðinni

Gærdagurinn var í senn svartur og sorglegur í umferðinni. Þrír einstaklingar í blóma lífsins létust í alvarlegum umferðarslysum. Ég verð að viðurkenna að það er alveg gríðarlega erfitt að heyra svona fréttir, hafandi upplifað sjálfur sorgina sem fylgir alvarlegu umferðarslysi og láti náins vinar og ættingja. Ég þekkti ekkert til þeirra sem létust í slysunum en það nístir alltaf hjartað mitt að heyra svona fréttir. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 15 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Þetta er sorglega há tala og það er skelfilegt að verða vitni að því að nú stefnir í enn eitt stórslysaárið í umferðinni.
Þegar að ég skrifaði síðast um þessi mál var það í kjölfar sorglegra umferðarslysa í júlíbyrjun þar sem að tveir Akureyringar létu lífið. Þá voru 9 látnir í umferðinni, síðan hafa sex bæst við á rétt rúmum mánuði. Það er mjög dapurlegt að heyra fréttir af þessu tagi, enda vita allir að þessum fréttum fylgir sorg og depurð ættingja og vina sem horfa á bak fólki sem hefur verið miðpunktur ævi þeirra. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna sorglegra umferðarslysa seinustu vikurnar. Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.
Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.
Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 12:28
Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS

Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hlaut flest frelsisstig að þessu sinni í Frelsisdeild sus.is og stendur því uppi sem sigurvegari Frelsisdeildarinnar. Mikil spenna var á lokakaflanum en Pétur hafði forystuna meginhlutann, allt frá annarri umferð. Jafnir í öðru sæti urðu þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson og skammt undan voru Birgir Ármannsson og Bjarni Benediktsson. Segja má að Pétur, Guðlaugur Þór, Sigurður Kári og Birgir hafi verið í sérflokki í deildinni á þessu þingi og í raun allir átt möguleika á sigrinum og barist um hann allt til enda. Það er því ljóst að ungu þingmennirnir hafa verið að standa sig vel á þessu þingi en að Pétur, sem setið hefur á þingi í rúman áratug, leiði hópinn, enda baráttujaxl fyrir frelsinu og hlýtur því verðugan sess að launum frá okkur ungliðunum nú.
Frelsisdeildin hóf aftur göngu sína á vef SUS í desember 2005. Deildin hafði áður verið á vefnum og tók ný ritstjórn strax í upphafi í upphafi síðasta vetrar þá ákvörðun að minni tillögu að henni skyldi haldið áfram með svipuðum hætti og verið hafði. Tekin var sú ákvörðun að ég myndi stýra deildinni og ákvað ég að velja Kára Allansson, fyrrum stjórnarmann í Heimdalli, með mér til verksins. Að mati okkar sem sitjum í ritstjórn vefs SUS er mikilvægt að hafa Frelsisdeildina. Með því förum við yfir málefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, leggjum mat okkar á málefni þingsins og dæmum hvort og þá hvernig þingmenn séu að standa sig. Það er nauðsynlegt að við leggjum okkar mat á það hvort þingmenn séu að vinna að framgangi frelsismála eða vinni að því að halda á lofti baráttumálum Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Frelsisdeildin er án nokkurs vafa öflugasta merkið af okkar hálfu til að færa þingmönnum þá kveðju að við fylgjumst með verkum þeirra og dæmum þau í þessari góðu deild. Deildinni hefur tekist að vekja athygli og þingmenn hafa unnið af krafti við að vinna að þeim málum sem mestu skipti af enn meiri krafti eftir tilkomu hennar.
Pistill SFS um Frelsisdeildina
Pétur H. Blöndal sigrar í Frelsisdeild SUS - umfjöllun
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)