Tilfinningarík kveðjustund Halldórs

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, sagði skilið við íslensk stjórnmál og kvaddi flokksfélaga sína formlega með ítarlegri yfirlitsræðu við setningu flokksþings Framsóknarflokksins síðdegis í dag. Það sást á orðum og fasi Halldórs að komið var að kveðjustund, endalokum hans í forystu Framsóknarflokksins, flokks sem hann hefur helgað starfskrafta sína í þrjá áratugi. Þetta var í senn ræða tilfinninga og styrkleika, en ekki uppgjörs, merkilegt nokk. Halldór fór yfir sviðið allt á þeirri stund að hann yfirgefur stjórnmálaforystu þess flokks sem hann hefur verið í fylkingarbrjósti í aldarfjórðung. Hann fór yfir langan stjórnmálaferil sinn og gerði upp við þau mál sem hann taldi rétt að fara yfir. Mikla athygli vakti að hann notaði ekki kveðjustundina til að gera upp við innanflokkserjurnar innan Framsóknarflokksins undir lok tólf ára formannsferils hans, sem svo mjög settu svip á stormasaman forsætisráðherraferil hans.

Mér fannst Halldóri mælast mjög vel á þessari kveðjustund, sem í senn markar þáttaskil bæði fyrir Framsóknarflokkinn og íslensk stjórnmál, enda hefur Halldór verið áhrifamaður í pólitíkinni hér í nokkra áratugi og sett svip á alla þjóðmálaumræðu, alla mína ævi og gott betur en það. Það er alveg ljóst að bestu ræður ferils síns hefur Halldór Ásgrímsson flutt einmitt við tækifæri sem þetta, í hópi félaga sinna, þeirra sem hafa stutt hann til þeirrar stjórnmálaforystu sem hann helgaði sér í árafjöld. Halldór hefur leitt Framsóknarflokkinn með nokkrum krafti og haft mjög sterkt umboð til þess verkefnis, þrátt fyrir vissa augljósa erfiðleika undir lokin. Halldór talaði til flokksmanna og landsmanna allra á kveðjustund með heilsteyptum hætti. Hann talaði af næmleika og tilfinningu, einkum undir lokin er hann þakkaði flokksmönnum fyrir samstarf og trúnað í gegnum árin.

Ein mestu vatnaskilin á pólitískum ferli Halldórs Ásgrímssonar voru alþingiskosningarnar 1995, fyrstu kosningarnar sem Halldór leiddi Framsóknarflokkinn. Í þeim kosningum vann flokkurinn nokkurn sigur, hlaut 15 þingsæti og var með mjög vænlega stöðu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hélt velli og ákveðið var að láta reyna á þann valkost. Í fyrsta skipti kom það fram nú, ellefu árum síðar, í kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar að Framsóknarflokkurinn hefði að þeim kosningum loknum boðið A-flokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags samstarf, sem hefði vænlega orðið undir forsæti Halldórs. Alþýðuflokkurinn afþakkaði það og hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Eins og allir vita ákvað Sjálfstæðisflokkurinn hinsvegar síðar að slíta samstarfinu og ganga til samninga við Framsóknarflokkinn. Úr varð sögulegt samstarf í íslenskri stjórnmálasögu sem enn er við völd.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að í sögubókum framtíðarinnar verður stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks metið farsælt og það hafi skipt íslenskt þjóðarbú miklu. Farsæl forysta flokkanna hafði mikil áhrif til hins góða. Stjórnmálaforysta Davíðs Oddssonar og Halldórs í því samstarfi var öflug og setti mark á íslensk stjórnmál, og verður lengi í minnum höfð. Það eru mikil þáttaskil nú þegar að þeir báðir hafa sagt skilið við stjórnmálin en ég tel að verk þeirra muni standa lengi enn og verða áberandi. Það hafði ekki komið fram áður að Framsóknarflokkurinn hefði leitast eftir vinstristjórn fyrir ellefu árum. En flokkarnir náðu svo saman og mynduðu grunninn að þessu öfluga samstarfi, sem stefnir nú óðfluga í að verða langlífasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar. Það hefur skipt sköpum fyrir heill og hag landsins. Þar skipti framlag Halldórs mjög miklu máli.

Halldór Ásgrímsson

Það var gleðilegt að heyra Halldór lýsa því yfir að hann teldi það hafa skipt mjög miklu máli að hafa myndað stjórn flokkanna tveggja fyrir ellefu árum. Það eru vissulega þáttaskil þegar að Halldór hverfur úr pólitík, enda hefur hann verið ein helsta burðarás þessarar ríkisstjórnar sem annar flokksleiðtoginn sem myndaði fyrsta ráðuneyti flokkanna á sínum tíma. Samstarf flokkanna hefur verið mjög traust og leikur enginn vafi á því að sterk pólitísk tengsl Halldórs og Davíðs mörkuðu undirstöðu vel heppnaðs samstarfs og þeirra áhrifa gætir enn þó aðrir hafi tekið við forystu í samstarfinu. Mér fannst alla tíð þeir vera mjög ólíkir leiðtogar en þeir sameinuðust mjög vel í verkefnum og náðu alltaf að sætta ólík sjónarmið tveggja stjórnmálaflokka, með ólík sjónarmið á jafnvel lykilmálum stjórnmálanna. Sáttin milli þeirra og flokkanna fólst í því að gera alltaf hið besta fyrir Ísland. Heildarhagsmunir landsins sameinuðu flokkana.

Ræða Halldórs var eins og fyrr segir virkilega góð. Það var athyglisvert að fylgjast með henni. Að mörgu leyti kom hún mér á óvart, sumu leyti ekki. Það kom mér nokkuð undarlega fyrir sjónir að Halldór skyldi ekki gera að fullu upp innri átök innan flokksins og skilja við flokkinn með öll mál uppi á borðinu og allar flækjur leystar. Það ákvað hann að gera ekki en skírskota þess þá frekar til pólitískra álitamála dagsins í dag, sem sum hver ráku flein á æðstu staði flokksins. Eitt þessara mála er óneitanlega Íraksstríðið sem varð Halldóri þungbært á árinu 2005. Hann nefndi það ekki beint en með skírskotun í eina átt, áralöngu varnarsamstarfi við Bandaríkin, vék hann að því. Lýsti hann vonbrigðum sínum með einhliða ákvarðanir Bandaríkjanna í þeim efnum. Sagðist hann ekki hægt að treysta Bandaríkjunum lengur í einu og öllu og sagði oftrú á þau hafa verið mistök. Með því má skilja að hann telji að ákvörðun um að treysta þeim í Íraksstríðinu hafi verið mistök.

Halldór fór yfir í ítarlegu máli stöðu landsins á þessum tímamótum að hann kveður stjórnmálin og benti á að á 90 ára afmæli sínu væri Framsóknarflokkurinn elsti flokkur landsins, sá sem lengst hefði komið fram undir eigin merkjum. Lengi vel hefur Framsóknarflokkurinn verið flokkur landbúnaðarins og að mörgu leyti hefur mér þótt verst að hann hafi lengi staðið vörð um úrelt landbúnaðarkerfi. Í ræðunni vék Halldór að nýlegri skýrslu Hallgríms Snorrasonar, hagstofustjóra, um matvælaverð. Það gladdi mig mjög að heyra formann Framsóknarflokksins taka undir hvað þurfi að gera og hann horfist í augu við framtíðina. Halldór er maður að meiri að mínu mati að hafa sagt að það verði að fella niður vörugjöld og breyta innflutningsvernd landbúnaðarvöru. Framsóknarflokkurinn hefur lengi viljað halda í kerfi, kerfisins vegna. Það er tímamótayfirlýsing að heyra þetta frá flokksþingi framsóknarmanna og Halldór á hrós skilið fyrir sín orð.

En já það er komið að pólitískum leiðarlokum hjá Halldóri Ásgrímssyni. Hann fór víða í þessari löngu ræðu og fór yfir mörg mál sem hafa verið áberandi en hann vék ekki að innri málum Framsóknarflokksins sem settu svip á forsætisráðherraferil hans og að mörgu leyti gerðu út af við hann. Ég hef oft sagt að þar hafi fleiri en Halldór brugðist innan flokksins, ég tel að allir í forystu hans hafi brugðist vegna innri ólgu, sú ólga skaðaði stjórnarforsæti flokksins svo mjög að hún rann þeim úr greipum. En þessi ræða Halldórs var full af þeim stíl sem einkenndi hann sem ræðumann á löngum stjórnmálaferli. Hann hefur verið þjóðernissinnaður stjórnmálamaður og notað kraftmikinn kveðskap Einars Benediktssonar mjög í ræðum sínum. Þessi var engin undantekning og fannst mér honum takast vel upp í vali á kveðskap, sem með táknrænum hætti sögðu meira en hann gaf í skyn á vissum stöðum.

Halldór Ásgrímsson

Framsóknarflokkurinn stendur á pólitískum krossgötum nú þegar að Halldór Ásgrímsson hefur stigið niður af hinu pólitíska sviði, sem hefur verið vinnustaður hans og vettvangur í rúmlega þrjá áratugi. Hvað svo sem segja má um Halldór Ásgrímsson og forystuhæfileika hans er aldrei hægt að deila um að hans stjórnmálaferill er bæði viðburðaríkur og glæsilegur. Enginn deilir enda um það að Halldór hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum á löngum stjórnmálaferli sínum og var lykilþátttakandi í farsælum verkum öflugrar ríkisstjórnar á breytingatímum í íslensku þáttaskil við lok aldar og upphaf annarrar aldar.

Nú felur Halldór flokk sinn í hendur öðrum leiðtoga og yfirgefur stjórnmálaforystuna að loknu löngu dagsverki. Það verður fróðlegt að sjá hver pólitísk arfleifð Halldórs Ásgrímssonar verði í sögubókum framtíðarinnar. Að mörgu leyti mun hún ráðast af verkum annarra, hvernig eftirmanni hans tekst að höndla flokksformennsku við brotthvarf Halldórs. Að vissu leyti er tómarúm eftir innan Framsóknarflokksins að þessari kveðjustund lokinni. Altént má fullyrða að kveðjustundin hafi verið tilfinningarík og hafi að mörgu leyti lýst vel þeim manni sem var að kveðja. Halldór hefur verið maður tilfinninga og kvaddi sem slíkur.

Við blasa breytingar í lífi þess manns sem nú kveður og mun á mánudag, er hann segir af sér þingmennsku eftir þrjá áratugi á Alþingi Íslendinga, yfirgefa starfsvettvang sinn allt frá unglingsaldri. Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Halldóri Ásgrímssyni, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir í heilan aldarfjórðung.


Halldór Ásgrímsson kveður íslensk stjórnmál

Halldór Ásgrímsson

29. flokksþing Framsóknarflokksins verður sett á Hótel Loftleiðum kl. 17:00 í dag. Í upphafi flokksþingsins mun Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, flytja yfirlitsræðu sína. Ræðan markar endalok þriggja áratuga stjórnmálaferils Halldórs, sem verið hefur formaður Framsóknarflokksins allt frá árinu 1994, var varaformaður flokksins 1980-1994, ráðherra nær samfellt í tvo áratugi og alþingismaður nær samfellt allt frá árinu 1974. Framundan eru mjög mikil þáttaskil innan Framsóknarflokksins og í íslenskum stjórnmálum enda hefur Halldór verið aðalleikari í pólitíkinni til fjölda ára og verið mjög áberandi sem forystumaður flokks síns og verið í miðpunkti pólitískrar umræðu til fjölda ára. Á kveðjustund í dag meðal flokksmanna má búast við að hann fari yfir sinn umdeilda og litríka feril til fjölda ára í ítarlegu máli.

Það má vissulega margt segja um pólitískan feril Halldórs Ásgrímssonar nú þegar að hann líður undir lok. Halldór hefur helgað flokk sínum og innra starfi hans krafta sína í mjög langan tíma. Ævistarf Halldórs liggur í stjórnmálum og þó að skiptar skoðanir séu um hann má fullyrða að hann hafi unnið íslenskum stjórnmálum nokkuð gagn og verið ötull í stjórnmálabaráttu. Allan þann tíma sem ég hef fylgst með stjórnmálum hef ég talið Halldór Ásgrímsson mann orða sinna, gegnheilan og vandaðan mann sem ávallt hefur viljað gera sitt besta fyrir íslenska þjóð og reynt með góðmennsku sinni að leggja góðum málum lið og unnið þeim fylgilags og stuðnings með ýmsum hætti. Hann hefur verið duglegur forystumaður að mínu mati, fyrst og fremst tel ég að sagan muni meta hann sem grandvaran og heiðarlegan mann sem tryggði ásamt Davíð Oddssyni styrka stjórn landsins til fjölda ára.

Halldór hefur verið einn af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins á þessum langa ferli sínum, en við öllum blasir að hann hefur haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag með forystu sinni. Ungum voru honum falin forystustörf innan flokks síns, hann varð þingmaður 26 ára gamall og var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins 33 ára að aldri. Hann varð með því sjálfsagt ráðherraefni og aldrei lék vafi á því að hann væri framtíðarforingi flokks síns og var hann metinn krónprins Steingríms Hermannssonar nær alla formannstíð hans. Hann varð svo sjálfkrafa formaður flokksins við brotthvarf Steingríms úr stjórnmálum, er hann varð seðlabankastjóri árið 1994, og hlaut eftir það alltaf yfir 80% atkvæða á flokksþingi framsóknarmanna. Alla formannstíð sína var hann öflugur forystumaður flokksins og naut mikils stuðnings til forystu.

Það er fjarri lagi hinsvegar að ég hafi alltaf verið sáttur við Halldór Ásgrímsson. Það komu tímar þar sem ég var svo sannarlega ósammála honum og afstöðu flokks hans, enda er stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað fjarri því alveg eins í öllum grunnatriðum. Framsóknarmenn voru stundir mjög óbilgjarnir í samningum og kröfðust mikils. Ég fer ekkert leynt með það að ég tel t.d. að Framsóknarflokkurinn með Halldór í forsæti hafi gengið of langt með því að krefjast forsætis í ríkisstjórninni að loknum kosningunum 2003. Ég tel að Halldór hafi aldrei náð tökum á forsætinu, þar réðu mörg mál og einna mest innanflokkserjur innan flokks hans undir lok formannsferilsins. Innri átök á heimaslóðum gerðu það að verkum að Framsóknarflokkurinn höndlaði ekki forsætið. Ég tel þó að fleiri þættir en Halldór einn hafi ráðið úrslitum um hvernig fór fyrir stjórnarforsæti flokksins.

Ég er einn þeirra sem bíð eftir þessari kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar í íslenskum stjórnmálum með mikilli eftirvæntingu. Fjölmiðlamenn jafnt og stjórnmálaáhugamenn munu fylgjast með hverju einasta orði hans í þessari ræðu sem verður kveðja hans til þess flokks sem hann hefur starfað fyrir allt frá unglingsárum og studdi hann til forystusess í íslenskum stjórnmálum í aldarfjórðung. Sérstaklega tel ég merkilegast að sjá hvernig að Halldór skilur við flokkinn í þeim sárum sem hann er í við lok formannsferilsins. Það blandast engum hugur um að Halldór yfirgaf stjórnmálin sár og vonsvikinn með hvernig til tókst á tæplega tveggja ára forsætisráðherraferli sínum. Endalokin voru engan veginn eins gleðileg og hann stefndi að. Halldór mun eiga erfitt með að stíga af hinu pólitíska sviði í dag nema að gera að fullu upp vonbrigði sín við lok stjórnmálaferilsins og afgreiða þau mál, þó sár séu.

Það má því búast við súrsætri kveðjuræðu Halldórs Ásgrímssonar á Hótel Loftleiðum síðdegis í dag. Þrátt fyrir öll vonbrigðin undir lokin getur Halldór þó yfirgefið stjórnmálin hnarreistur að mínu mati. Hann var í forystusveit lengi og leiddi mörg umdeild mál til lykta og lagði meginhluta ævistarfs síns í íslensk stjórnmál. Fróðlegt verður að sjá í hvaða átt flokkurinn þróast í pólitík næstu mánaða og hver muni leiða hann nú þegar að Halldór yfirgefur hið pólitíska svið. Ég vil óska Halldóri og fjölskyldu hans heilla á þessum þáttaskilum á ævi hans og vona að honum muni vegna vel á þeim vettvangi sem hann velur sér nú við lok stjórnmálaferilsins. Hann er einn af litríkustu stjórnmálamönnum landsins seinustu áratugina.


Krissi bróðir fertugur í dag

40 ára

Stóri bróðir, Kristmundur Sævar Stefánsson, er fertugur í dag. Ég vil nota tækifærið hér og óska Krissa innilega til hamingju með daginn. Hafðu það gott í dag Krissi minn!


Bloggfærslur 18. ágúst 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband