2.8.2006 | 23:25
N4 blæs til nýrrar sóknar í fjölmiðlun á Akureyri

Fyrr í kvöld horfði ég á nýjan og vandaðan magasínþátt á nýrri akureyskri sjónvarpsstöð sem ber heitið N4. Hún tekur við af Aksjón, sem hefur allt frá árinu 1997 verið með sjónvarpsefni héðan frá Akureyri, sýnt t.d. frá bæjarstjórnarfundum í Ráðhúsinu að kvöldi fundardags og verið með dagskrárgerð utan fréttaþáttarins Kortér sem var sýndur hvern dag kl. 18:15 og eftir það á klukkustundafresti. Nú heyrir Aksjón semsagt sögunni til og hinn lífseigi og áhugaverði þáttur Kortér ennfremur. Aksjón hefur staðið sig mjög vel en fyrirheit nú gefin um að N4 verði enn öflugri.
Var þetta fínn þáttur sem ég hafði gaman af að sjá nú í kvöld. Gefin eru góð fyrirheit af eigendum N4 um meiri dagskrárgerð en var á Aksjón, sem er mikið gleðiefni fyrir okkur öll hér sem viljum fréttir af því sem er að gerast hér á svæðinu og vandaða dagskrárgerð utan hinu beinu frétta. N4 sér NFS fyrir fréttum af þessu svæði og er Björn Þorláksson sérstaklega í því verkefni að miðla fréttum héðan suður um heiðar fyrir NFS-stöðina sem miðlar fréttum nær allan sólarhringinn með bravúr. Hlutur okkar í fréttum þar er meiri en áður altént.
Í fyrsta fréttaþættinum á N4 nú í dag var mjög áhugavert viðtal við Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra, sem var áður í beinni á NFS í hádeginu í dag. Þar vék hann að mörgu sem í gangi hefur verið og fannst mér sérstaklega ánægjulegt að heyra ummæli hans um björgunarþyrlur, en við hér fyrir norðan viljum fá eina þeirra hingað norður, eins og vel hefur komið fram. Ennfremur fór hann yfir væntanlega fjölskylduhátíð sem verður haldin hér í bænum næstu dagana. Hér ríkir sannkölluð hitabylgja og verður fjölmenni væntanlega í bænum.
Ræddu Björn og Kristján Þór saman í hitanum í Strandgötunni og var þetta hið fróðlegasta viðtal. Sagði Kristján Þór vonir okkar sjálfstæðismanna standa til þess að sjálfstæðismaður yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins að vori. Það er markmið sem við öllum vilja standa vörð um og mikilvægt er að tryggja að framboðslisti flokksins að vori verði vandaður og sigurstranglegur - vel valið á hann, vonandi með prófkjöri, svo að þau markmið sem við öllum viljum að rætist verði að veruleika.
En já, til hamingju N4 með nýtt upphaf í fréttaþjónustu og dagskrárgerð hér á svæðinu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2006 | 17:43
Draumur um menningarhús á Akureyri rætist

Í gær var mikill gleðidagur hjá okkur Akureyringum. Þá tók Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, fyrstu skóflustunguna að menningarhúsi í miðbænum á byggingarreitnum á uppfyllingunni við Torfunesbryggju. Í sjö ár hefur verið rætt um menningarhús á landsbyggðinni, þ.á.m. hér og við höfum fylgst með hugmyndinni allt frá byrjun árið 1999 er hugmyndin var kynnt á teikniborði Björns Bjarnasonar, þáv. menntamálaráðherra, formlegrar undirritunar um framkvæmdina í menntamálaráðherratíð Tómasar Inga Olrich árið 2003 og að lokum til gærdagsins þegar að formleg endalok vinnsluferlisins varð að veruleika. Nú er komið að því að draumurinn rætist formlega og nú mun húsið rísa - það mun verða til árið 2008.
Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira. Jafnframt er gert ráð fyrir að Upplýsingamiðstöð ferðamanna verði í húsinu, sem og veitingasala.
Það var notaleg og góð stemmning við þetta gleðilega tilefni og margir samankomnir þar. Hitti ég marga góða félaga og vini og ræddi lengi við þá. Var sérstaklega ánægjulegt að hitta Tómas Inga Olrich, sendiherra og fyrrum menntamálaráðherra, og eiginkonu hans Nínu Þórðardóttur og ræða við þau, en nokkuð er um liðið síðan að ég hitti Tómas Inga síðast. Svo er auðvitað alltaf virkilega notalegt að hitta Þorgerði Katrínu vinkonu mína og ræða stjórnmálin við hana - í þetta skiptið fylgdu til hennar góðar hamingjuóskir frá mér með þann merka áfanga sem hún náði með því að verða fyrsta konan í forsæti ríkisstjórnar á fundum hennar.
Þarna voru margir góðir gestir altént og gæddum við okkur á dýrindistertum þarna sem var í lagi menningarhússins. Þetta var notaleg og góð stund - mikið gleðiefni fyrir alla sanna menningarunnendur á Norðurlandi. Þetta er altént stór stund fyrir okkur Akureyringa sem fögnum því að menningin blómstri, því það mun hún svo sannarlega gera í þessu húsi sem brátt rís.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2006 | 17:05
Afmæli Hönnu ömmu

Í dag er amma mín, Hanna Stefánsdóttir, 86 ára gömul. Hélt hún upp á afmælið með veislu fyrir nánustu ættingja á heimili sínu í dag. Var þar notaleg og góð stund sem við áttum nokkur saman vegna afmælis hennar. Tvíburabróðir ömmu, Kristján Stefánsson, lést 28. janúar sl. eftir erfið veikindi. Veikindi hans voru mikið áfall fyrir okkur og fráfall hans kom á erfiðum tíma fyrir mig persónulega. Ég fór upp í kirkjugarð í dag og lagði blóm á leiði hans og eiginkonu hans, Kristínar Jensdóttur, í tilefni dagsins. Foreldrar þeirra systkina voru Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður (13. september 1881 - 22. janúar 1982) og Gíslína Friðriksdóttir húsmóðir (29. júlí 1881 - 8. janúar 1980). Systkini ömmu og Kidda voru Hugrún Stefánsdóttir (10. júní 1917 - 7. apríl 2005) og Jónas Stefánsson (3. janúar 1919 - 8. apríl 1937).
Alla mína ævi hefur Hanna amma skipt mig miklu máli. Ástúð, umhyggja, trygglyndi og kærleiki verður aldrei metin til fjár. Fjölskyldubönd skipta alltaf máli að mínu mati. Þeir sem næst manni standa eiga að njóta virðingar og ástúðar fyrir jákvætt framlag þess til ævi manns, bæði í gleði og sorg. Þau bönd eru ómetanleg. Við þessi tímamót vil ég óska ömmu innilega til hamingju með afmælið.
Fyrir ári þegar að amma varð 85 ára skrifaði ég stutta grein um hana hér á vefnum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)