20.8.2006 | 23:43
Er Hillary farin að horfa til ársins 2008?

Um fátt er meira rætt í Bandaríkjunum þessa dagana en að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ætli í forsetaframboð á árinu 2008. Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi þessi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Þó svo að enn séu rúm tvö ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Við blasir þó að Hillary er talin svo sterk fyrirfram að fari hún fram fái hún útnefninguna nærri á silfurfati.
Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri, og vald forsetans með því þegar tekið að þverra.
Völd og áhrif Bush forseta ráðast reyndar nú umfram allt á því hvernig þingkosningarnar fara í nóvember. Missi repúblikanar völdin í annarri eða báðum deildum Bandaríkjaþings mun hann verða nær vængstýfður heima fyrir það sem eftir lifir forsetaferilsins. Þó að repúblikanar haldi völdum má búast við að hann lendi í vandræðum, enda er það almennt svo með forseta sem er að ljúka seinna tímabilinu að þeir eru veikir, enda ljóst að hvorki þurfa þeir að fara aftur í kosningar né heldur þurfa þingmennirnir á forsetanum að halda og hópast að baki þeim sem fara fram í næsta forsetakjöri. Nákvæmlega þetta gerðist með Bill Clinton, sem reyndar hafði þingið á móti sér meginhluta síns forsetaferils. Bush forseti mun altént leggja allt í sölurnar að halda þinginu sín megin og koma í veg fyrir að Íraksstríðið skaði flokkinn.
Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð innan Repúblikanaflokksins. Nægir þar að nefna George Pataki, ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist og John McCain. Margir fleiri eru nefndir. Enginn skortur verður á repúblikönum í kosningaslaginn þegar að Bush og Cheney hætta. Búast má við að allsherjar uppstokkun verði á Repúblikanaflokknum í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Eins og fyrr segir getur Bush ekki farið fram aftur og því líklegt að frambjóðandi með aðrar áherslur en forsetinn leiði flokkinn og í raun muni flokkurinn stokka sig og því verði í reynd ekki kosið um valdatíma forsetans. Það er reyndar greinilegt að repúblikanar reyna að fjarlægja sig forsetanum nokkuð en passa sig þó á að styggja hann ekki og nota því mikla reynslu hans.
En aftur að Hillary og demókrötum. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Aðeins eru fimm og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Meðan að hneykslismálin geisuðu vegna Monicu Lewinsky sat hún á sér, vitandi það að færi hún frá forsetanum myndi það skaða hana ekki síður en hann. Hillary var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Það þótti mikil pólitísk dirfska fyrir hana að leggja í framboð árið 2000 og hún leggja mikið undir. En hún tefldi rétt og henni tókst að byggja upp eigin feril er ferli makans lauk.
Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði. Það hlýtur að kitla hana að verða fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Greinilegt er að maður hennar vill að hún fari fram og leggji í slaginn.
Skorað var á Hillary að gefa kost á sér þegar árið 2004. Þá fór hún ekki fram, vitandi að framboð þá hefði að öllum líkindum skaðað hana verulega. Hún lofaði enda New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan á sínum tíma. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár er hún náði kjöri. Ein skemmtilegasta pólitíska auglýsing seinni tíma var reyndar í kosningunum 2000 í NY, af hálfu Rick Lazio, keppinautar hennar. Þar var mynd af Hillary skælbrosandi og svo barni í vöggu. Fyrir neðan kom hinn kaldhæðnislegi texti: "This baby has lived longer in New York than Hillary Clinton". Alveg mergjuð auglýsing en kom þó engan veginn í veg fyrir öruggan sigur Hillary í NY.
Enginn vafi leikur á því að Hillary verður endurkjörinn öldungadeildarþingmaður í New York. Hennar bíður lítil keppni í kosningunum og hún hlýtur þegar að vera farin að hugsa handan janúarmánaðar þegar að næsta kjörtímabil öldungadeildarinnar hefst formlega. Reyndar má búast við því að bráðlega eftir svokallaðar MidTerm election í nóvember hefjist keppnin um Hvíta húsið. Það er ekki svo rosalega langt til forsetakosninga og venjulega hefst undirbúningur og keppni bakvið tjöldin þegar að þingdeildirnar koma saman í janúar eftir miðtímabilskosningarnar. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton.
Þegar litið er til mögulegra andstæðinga Hillary, fari hún fram, er oftast litið á þá sem eru augljósastir í stöðunni, þeirra sem hafa reynslu af því harki sem fylgir forsetaframboði í Bandaríkjunum. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore, fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir George W. Bush í hinum æsispennandi og jafnframt sögulegu forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards, sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Enn heyrast kjaftasögur um að John Kerry hefði jafnvel áhuga á framboði aftur, en víst má telja að margir telji ólíklegt að Kerry takist að vinna árið 2008 fyrst honum mistókst það árið 2004 þó að hann reyndi að hamra á Íraksstríðinu og stöðu mála þar. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða varla bógar í það.
Það vita reyndar allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur Demókrataflokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í júlí 2004, þar sem Kerry var útnefndur til verka sem frambjóðandi flokksins gegn Bush í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Kannanir sýna enda að hún gæti neglt útnefninguna nokkuð auðveldlega leggi hún í slaginn. En það eru áhættur á veginum, sérstaklega fyrir fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem gæti skaðast tapi Hillary fyrir repúblikana. Þó er enginn vafi að framboð kitlar Hillary. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.
Og stjörnuljóminn einn gæti alveg borið þessa miðaldra konu í borg háhýsanna alla leið í Pennsylvaniu-götu í Washington eftir nokkur ár - hver veit annars. Ljóst er allavega að æsispennandi tímar eru framundan í bandarískri pólitík.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2006 | 15:13
Hver er Jón Sigurðsson?

Það er greinilegt eftir flokksþing framsóknarmanna að rykið hefur sest í öllum stympingunum í flokksforystunni þar seinustu árin, ólgan milli forystu flokksins og grasrótarinnar er ekki eins hörð og áður. Það hefur verið kosið milli manna og eftir stendur flokkur sem getur skartað forystu þar sem eru ólíkar áherslur og fylkingar með sinn fulltrúa. Allir geta farið tiltölulega sáttir heim, þó sumir hafi orðið að skúffa eigin framavonum um sinn. Reyndar verður væntanlega staldrað við það að tveir karlmenn eru í æðstu sveit embætta, en eftir stendur að þessi blanda getur sætt ólík sjónarmið. Þó að Siv Friðleifsdóttir, öflug forystukona innan Framsóknarflokksins, hafi lotið í gras í formannskjöri leikur enginn vafi á því að hún stendur sterkar eftir en fyrir. Hún tók rétta áhættu, góð útkoma hennar í formannskjörinu tryggir henni auðvelda leið í æðstu sveit flokksins að vori.
Stóra spurningin eftir flokksþingið snýst um þann mann sem aðeins á tíu vikum hefur tekist að leggja flokkinn að fótum sér, komast þar til forystu, bjóða sjálfan sig fram sem kost sáttar og samstöðu og stendur eftir sem flokksleiðtogi í elsta stjórnmálaflokki landsins. Hver er Jón Sigurðsson? Þetta er spurning sem flestir stjórnmálaáhugamenn spá mikið í núna og satt best að segja vita ekki til fulls hvernig skal svara. Eftir stendur sextugur flokkshollur maður, sem ávallt hefur fórnað sér fyrir flokkinn í verkefni og ábyrgðarfullt innra starf á bakvið tjöldin, í fylkingarbrjósti og er orðinn flokksformaður eftir Halldór Ásgrímsson, sem hafði á sér ímynd klettsins í hafinu lengst af en var undir lokin orðinn akkilesarhæll flokks sem virðist fara sífellt minnkandi í pólitísku litrófi. Stóra spurningin er hvert mun Jón Sigurðsson fara með þennan flokk og hvernig mun hann installera sína forystu.
Ég verð að viðurkenna að ég varð að hugsa mig um allnokkra stund í júníbyrjun þegar að ég heyrði skoðanir manns sem ég þekki vel og met mikils í minni fjölskyldu, sem hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn hér á Akureyri, er hann sagði að Jón Sigurðsson væri sennilega kandidatinn sem Halldór horfði til að redda málunum, þegar að allt var farið fjandans til í flokkskjarnanum, svo maður tali hreina og beina íslensku. Skyndilega mundi ég eftir Jóni Sigurðssyni, seðlabankastjóra, sem hafði í formannstíð Steingríms og Halldórs verið kallaður til, ævinlega til skítverka sem þurfti að leggja í að laga - hann var alltaf í að redda málunum. Ég mundi þá aðeins eftir Jóni sem grandvörum en athugulum bankastjóra en fór í það verkefni að tína upp brot um manninn. Ég sá að þarna var kominn maður flokkshollustu, maður sem hugsaði sem svo, hvað get ég gert fyrir flokkinn minn? Hann væri æðri sér.
Þegar að ég fór að hugsa til Jóns Sigurðssonar í sumarbyrjun hugsaði ég nokkur ár aftur í tímann. Það var til þáttaraðar Viðars Víkingssonar um Samband íslenskra samvinnufélaga, helstu valda- og kjarnastofnun Framsóknarflokksins í áratugi. Í þessum þætti, sem bar á sér allt bragð minningargreinar um stórveldið sem féll og endaði sem hver annar munaðarleysingi sem allir vildu þvo sig af, birtist Jón Sigurðsson, samvinnumaðurinn sem þekkti sögu SÍS. Í morgun tók ég mig til og spólaði mig inn í þáttinn, enda á ég þá eins og margt annað gott sjónvarpsefni. Þar sem ég horfði á þættina birtist mér maður sem var miðpunkturinn á gullaldartíma þessa kerfis, var partur af því og samherji allra þeirra sem héldu um málin innan SÍS. Hann var vinur Vals Arnþórssonar (manns sem var samviska SÍS alla sína starfsævi, reddaði málum) og félaga hans. Jón virkaði þarna á mig sem samviska þessa tíma.
Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón er hluti þessarar gömlu fortíðar. Síðar bjargaði hann peningahítinni í kringum tímaritaútgáfu Tímans (sem var að draga flokkinn til glötunar fjármálalega) og bjargaði Byggðastofnun úr skítahaugnum sem stóð eftir formannstíð Kristins H. Gunnarssonar þar inni. Þar kom hann vinkonu sinni og Halldórs, henni Völlu frá Lómatjörn, til bjargar. Þar var hann reddarinn. Það er því svosem varla stórt undrunarefni þó að margir eldri flokksmenn sem voru staddir á Hótel Loftleiðum hafi hugsað sem svo: "Æi hann Jón á nú þetta inni hjá okkur - hann hefur alltaf reddað okkur og býður okkur að rífa okkur nú enn eina ferðina upp úr skítnum". Ég held að margir flokksmenn gömlu hugsunar og samvisku flokksins hafi einmitt hugsað svona. Svo við tölum mannamál að þá er meginþorri þeirra sem mæta á fundi svona flokksmaskínu Framsóknar einmitt partur af þessari fortíð líka.
En nú er Jón orðinn formaður flokksins, hann er ekki aðeins flokksformaður smáflokks sem sumir vilja kalla sem svo til að niðurlægja þá, hann er skyndilega orðinn einn valdamesti stjórnmálamaður landsins. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er Jón orðinn lykilmaður í íslenskri pólitík. Hann á risavaxið verkefni fyrir höndum. Annaðhvort verður hann bjargvættur flokksins (enn eina ferðina) eða mun verða maðurinn sem verður brennimerktur sem afgangsmistök fyrrum flokksformanns sem hugsaði til Jóns á þeirri stundu er draga þurfti flokkinn upp úr þeim skít sem hann sjálfur skildi eftir en hann gat hvorki né treysti sér í að moka til fulls. Hann var með mann til verksins - mann sem treysti sér í að redda málunum.
En hver er pólitík Jóns Sigurðssonar, þessa nýja og valdamikla leiðtoga? Fæst þekkjum við hann sem stjórnmálamann - nú verður hann vessgú að mæta á hið pólitíska svið og standa sig sem slíkur. Ég held t.d. að hann og Geir Haarde, forsætisráðherra, geti náð vel saman og tel kjör hans boða gott fyrir þetta farsæla stjórnarsamstarf. Ég verð að viðurkenna að auki því sem fyrr er sagt að ég mundi eftir Jóni Sigurðssyni sem einum nánasta samherja Halldórs í stefnumótun innan flokksins. Það var hann sem mótaði stefnutal Halldórs um ESB, hann var helsti ráðgjafi Halldórs í efnahagsmálum og svo miklu meira. Skyndilega áttaði ég mig á því að Jón Sigurðsson var maðurinn á bakvið tjöldin í allri stefnumótun Halldórs. Er því nokkuð óeðlilegt að meta stöðuna sem svo að Jón haldi áfram þar sem Halldór skildi við er hann kvaddi flokkinn á föstudag?
Það eru margar spurningar í hausnum á mér er ég horfi á sextugan mann taka kjöri sem flokksformaður, mann sem hefur aldrei verið miðpunktur stjórnmálabaráttu og stígur fram á sviðið sem sáttasveinn flokksins, reynir að redda því sem aflaga hefur farið. Fyrst og fremst vil ég sjá hvernig pólitíkus Jón verði. Ég hef óljósar hugmyndir um það en grunar margt. Það er um að gera að gefa þessum sáttasemjara flokksins tækifæri á að sanna sig. Hann allavega hefur athygli okkar allra.
Það segir mér svo hugur að hann muni ekki rugga bátnum en haldi nú í það verkefni að sameina það sundraða og skaddaða fley sem Framsóknarflokkurinn er orðið í íslenskum stjórnmálum. Það verður svo sannarlega áhugavert að vera pólitískur áhorfandi á þessum kosningavetri. En já nú verður Jón Sigurðsson að sanna sig. Það er ekki öfundsvert að vera hann, enda hefur hann risavaxið verkefni og erfitt í höndunum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)