21.8.2006 | 22:54
Ný söguleg hlið á farsælu samstarfi

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lauk stjórnmálaferli sínum á föstudag með því að minnast sérstaklega á það að myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995 hefði verið merkasta verk sitt í stjórnmálum. Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, enda blasir við öllum að um er að ræða mjög farsælt og gott stjórnarsamstarf. Flestir þekkja sögu þess. Það hefur nú staðið samfellt í 11 ár og er það öðru fremur til marks um hversu farsællega flokkarnir hafa starfað saman að þjóðarheill og leitt farsæl mál til lykta með samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins næsta vor muni hún slá met viðreisnar.
Lengi vel hefur það verið mat sagnfræðinga og stjórnmálaáhugamanna að stjórnin hafi verið mynduð sem fyrsti kostur eftir að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat við völd á árunum 1991-1995, eftir kosningarnar 1995 og því aldrei reynt á möguleika á vinstristjórnarmynstri. Í kveðjuræðu Halldórs á föstudag kom það fram í fyrsta skipti, með afgerandi hætti, að Framsóknarflokkurinn hefði eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir, en ríkisstjórnin hélt velli, boðist til að mynda vinstristjórn undir sínu forsæti með Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Það hefði Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, ekki ljáð máls á og valið Sjálfstæðisflokkinn sem sinn fyrsta kost rétt eins og eftir kosningarnar 1991. Með öðrum orðum: rætt var um vinstristjórn og Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðræðum um þann möguleika.
Allir vita hvað tók við: Jón Baldvin fór í viðræður við Davíð Oddsson, þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins, um að halda samstarfinu áfram. Davíð mat það svo ekki starfhæft samstarf enda höfðu flokkarnir naumasta mögulega meirihluta, 32 þingsæti. Eins og hlutirnir höfðu spilast innan Alþýðuflokksins kjörtímabilið á undan var það rétt mat, en flokkurinn logaði eins og Róm stafnanna milli á þeim tíma. Við tóku viðræður sjálfstæðismanna við framsókn og náðust samningar fljótt og vel. Aldrei eftir það reyndi á vinstristjórnarsamstarf en þegar þarna var komið sögu var auðvitað Jón Baldvin flúinn á vit Halldórs sem vildi ekki við hann tala frekar en Ólaf Ragnar, síðar forseta lýðveldisins. Niðurstaðan varð þessi. Lengi vel var hin einfalda söguskýring að þessi tvö mynstur (D+A og D+B) hefðu verið á borðinu en nú vita menn að rætt var um vinstrisamstarf.
Það hefði verið fróðlegt hvernig íslensk stjórnmálasaga undir lok 20. aldarinnar og byrjun þeirrar 21. hefði orðið ef mynduð hefði verið vinstristjórn. Aldrei hefði Kárahnjúkavirkjun verið sett á teikniborðið, aldrei hefði verið einkavætt og frjálsræðið víða orðið mun minna. Flest af okkur sem viljum frjálsræði og farsælt þjóðfélag hefðum ekki viljað slíka pólitíska sögu og það er því í senn gleðiefni og farsælt að svona hafi farið og þessi stjórn hafi verið mynduð. Hún hefur verið farsæl. 11 ár samstarfs flokkanna hefur verið mjög öflugt tímabil. Það er t.d. enginn vafi á því í mínum huga að þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála.
Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum.
Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar. Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar, sem telst ekkert annað en mikið gleðiefni. Nú þegar stendur fyrir dyrum uppbygging iðnaðar á Austurlandi, sem mun styrkja austfirskar byggðir til muna.
Þetta samstarf byggðist mjög lengi upp á farsælu samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í forystusveit. Nú hafa þeir báðir hætt þátttöku í stjórnmálum. Í stað þeirra leiða nú Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, samstarfið. Ég tel að kjör Jóns hafi styrkt þetta stjórnarsamstarf og tel mjög vænlegt að hugsa til þess að það muni halda áfram að loknum næstu kosningum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að samstarf flokkanna muni halda áfram muni stjórnarsamstarf flokkanna halda velli í þingkosningum næsta vor, en það er ekki útilokað sé miðað við skoðanakannanir sem sýna að staða stjórnarinnar hafi styrkst seinustu mánuði að nýju.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2006 | 21:53
Átök um forystu Samfylkingarinnar í NA
Það er greinilegt að það er komið líf í framboðsmál Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þegar virðist nokkuð ljóst að þingmenn flokksins í kjördæminu, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, hefðu áhuga á að halda sínum sess á framboðslistanum fyrir komandi kosningar og liggur t.d. algjörlega fyrir að Kristján vill halda leiðtogastól sínum. Fyrirfram þótti mér líklegt að einhverjir hefðu áhuga á að leggja í hann, en hann vann stólinn nokkuð auðveldlega í prófkjöri flokksins í október 2002 eftir að Svanfríður Jónasdóttir, þáv. alþingismaður og síðar bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, ákvað að hætta þingmennsku og sinna öðrum verkefnum. Einar Már keppti reyndar við Kristján um að leiða listann en Kristján naut yfirburðarstuðnings og þurfti lítið fyrir sigrinum að hafa í raun.
Síðustu mánuði hefur mikið verið rætt hvað Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður flokksins í kjördæminu, hyggðist fyrir. Lengi vel taldi ég að hún myndi jafnvel vilja fara alla leið og mynda leggja í Möllerinn af fullum þunga, berjast fyrir því að Akureyringur leiddi lista Samfylkingarinnar. Lára þykir hafa margt til brunns að bera og kom t.d. inn með nokkrum krafti (og óvænt) í prófkjörinu fyrrnefnda og náði fjórða sætinu og varð á eftir Örlygi Hnefli Jónssyni. Svo þegar að því kom að leggja listann fram á kjördæmisþingi var ákveðið af uppstillingarnefnd að hækka Láru upp á kostnað Þingeyingsins Örlygs Hnefils við litla gleði stuðningsmanna hans. Svo fór því að Lára varð þriðja og munaði litlu er á hólminn kom að hún næði kjöri á þing. Lengi vel kosninganætur í maí 2003 var Lára inni en undir lokin felldi Birkir Jón hana út.
Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Lára um þá ákvörðun sína að gefa kost á sér í annað sæti framboðslista flokksins í komandi kosningum, en ekki leggja í leiðtogaframboð. Það stefnir því flest í að hún og Norðfirðingurinn Einar Már berjist um annað sætið. Reyndar má fullyrða að austfirskir samfylkingarmenn séu vart sáttir við að láta eftir þingsæti sitt, enda verður að teljast óraunhæft að Samfylkingin fái þrjá þingmenn hér næst ef marka má sorgarsögu þeirra í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður flokksins fyrir rúmu ári. Þar hefur lítið sem ekkert gengið um verulega langt skeið og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi verið meira rætt um sorgarsögu Ingibjargar Sólrúnar en mikið mætti analísa sjálfsagt um mikið fall pólitísks ferils hennar. Pressan á flokksforystuna eykst væntanlega núna þegar að Framsókn hefur klárað sín mál.
Mikið er rætt um Smára Geirsson, sem til fjölda ára var aðalmaðurinn í sveitarstjórnarpólitíkinni í Norðfirði og Fjarðabyggð, en hann er nú ekki lengur leiðtogi Fjarðalistans. Reyndar hefur Fjarðalistinn reynt að fjarlægja sig eins mikið Samfylkingunni og þeir geta. Margoft í kosningabaráttunni í Fjarðabyggð í vor strikaði leiðtogi (og ekki síður frambjóðendurnir allir) Fjarðalistans yfir tengsl við flokka og reyndi með því að tryggja Smára kosningu, en hann var í fjórða sæti og hafðist með herkjum inn. Spurning er hvort Smári sjálfur vilji fara á þing og fari í prófkjör Samfylkingarinnar. Þegar stefnir allavega í slag milli Láru og Einars Más um annað sætið að öllu óbreyttu. Væntanlega mun Lára benda á ágæta stöðu flokksins á Akureyri og benda á mikilvægi þess að Samfylkingin á Akureyri eigi sér fulltrúa í forystusveit.
En það horfa fleiri Akureyringar til framboðs fyrir Samfylkinguna. Það vakti athygli mína að heyra af því í gær að Benedikt Sigurðarson, fyrrum stjórnarformaður KEA og skólastjóri í Brekkuskóla, sem var mikið í fréttum á síðasta ári vegna starfsloka Andra Teitssonar, þáv. kaupfélagsstjóra, vegna deilna um fæðingarorlof, hafi áhuga á fyrsta sæti flokksins í kjördæminu. Sagði hann í fréttum RÚVAK að skorað hefði verið á sig og hann að hugleiða málin. Benedikt fer væntanlega því í þingframboð fyrst svona yfirlýsingar eru gefnar. Benedikt er mágur Sigríðar Stefánsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa á Akureyri og formannsframbjóðanda í Alþýðubandalaginu árið 1987 sem tapaði nokkuð stórt fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni, síðar forseta Íslands, en Sigríður er nú deildarstjóri hjá Akureyrarbæ. Telur Benedikt þingframboð vænlegt nú, enda ekki lengur stjórnarformaður KEA.
Það má búast við hörðum slag hjá Samfylkingunni og væntanlega hafi fleiri en þessi hug á að fara fram í prófkjöri Samfylkingarinnar sem verður væntanlega fyrir jól, sennilega á svipuðum tíma og prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri var haldið í fyrra, en mig minnir að það hafi verið í nóvemberbyrjun. Væntanlega er Samfylkingin bara að spila um tvö þingsæti, sé staða mála flokksins á landsvísu metin sem heild, svo að væntanlega verður baráttan hörð og sýnt að sótt verður að þingmönnunum tveim úr nokkuð mörgum áttum og þegar t.d. ljóst að tekist verður á um leiðtogasætið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)