22.8.2006 | 23:18
Ein með öllu

Þeir eru fáir Íslendingarnir sem unna ekki pylsu, sem er að flestra mati besti skyndibitinn og passar ávallt vel við. Flestir Íslendingar eiga sér sína útgáfu af því hvernig pylsan skal vera. Ég vil alltaf pylsu með öllu og nýt þess t.d. að fá mér þennan skyndibita, sem er klassískur. Ég held að það sé ekki á neinn stað hallað þó að ég fullyrði að bestu pylsurnar hérlendis séu í pylsuvagninum Bæjarins bestu í Tryggvagötu í Reykjavík. Oftast þegar að ég fer suður held ég þangað til að fá mér pylsu, enda eru þær alveg sérlega góðar þar. Oftar en ekki er þar löng biðröð, enda vinsæll "matsölustaður".
Nú hefur frægð þessa litla pylsuvagns borist víða. Frægt var fyrir nákvæmlega tveim árum þegar að Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, fékk sér eina með sinnepi, svonefnda pjúristapylsu. Fjölmiðlar gerðu heimsókninni skil og SS pylsur auglýstu lengi vel á eftir þessa frægu heimsókn, og Mæja pylsuafgreiðslukona í Bæjarins besta varð landsfræg enda afgreiddi hún forsetann fyrrverandi. Reyndar vildi svo kaldhæðnislega til að Clinton greyið fékk kransæðakast nokkrum vikum síðar en okkur sem dýrkum SS pylsur dettum ekki í hug að samhengi sé þar á milli.
Nú berast þær fréttir að pylsuvagninn hafi orðið í öðru sæti í úttekt breska dagblaðsins The Guardian yfir bestu matsöluturna í Evrópu, hvorki meira né minna. Í ferðablaði sem fylgdi The Guardian á laugardaginn var enda listi yfir fimm bestu matsöluturnana og mæla dómararnir með einni með öllu og eru hrifnastir af remúlaðinu. Í fyrsta sæti var skoskur hafragrautsstandur sem ferðast um markaði og viðburði í Skotlandi og selur hafragraut með margskonar meðlæti. Þriðja sætið hreppti lúga á bakaríi í Aþenu sem selur brauðsnúða (Koulouri) með sesamfræjum.
Í fjórða sætinu var pönnukökusala á blómamarkaði í miðbæ Nice í Suður-Frakklandi þar sem hægt er að fá þunnar og dásamlegar pönnukökur. Í fimmta sætinu varð svo Ortakoy söluturnarnir í Istanbúl í Tyrklandi sem bjóða upp á samlokur með steiktum skelfiski og þá er að finna víða um borg. Skemmtilega ólík matarsala þarna á ferð. En hitt veit ég að þegar að ég fer suður til Reykjavíkur í næstu viku lít ég til Mæju pylsusala og fæ mér eina með öllu. Ég veit ekki hvað er gert við pylsuna eða sósurnar í pylsunum þarna en hitt veit ég að þær eru betri þarna en á flestum stöðum.
Ætla ekki að reyna að komast að því hvað er öðruvísi þarna en annarsstaðar en svo sannarlega á Bæjarins bestu athyglina skilið og það er svo sannarlega öllum ljóst að þeir sem þarna fara til að borða fara sælir þaðan.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2006 | 20:16
Uppstokkun framundan á Morgunblaðinu

Samkvæmt fréttum nú undir kvöld verður veruleg uppstokkun á útliti og efnistökum Morgunblaðsins frá og með næsta föstudegi, 25. ágúst nk. Stefnt er að því að hætta tímaritaútgáfu blaðsins að efni tímaritanna verði að öllu leyti fellt inn í blaðið sem verði með því efnismeira og viðameira. Búast má því við útlitsbreytingum og að önnur efnistök verði meira ráðandi, með þessu ætti Morgunblaðið að færast inn í aðra tíma og jafnvel taka á sig annan brag. Jafnframt þessu verður Einar Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Flugleiða, ráðinn framkvæmdastjóri Árvakurs í stað Hallgríms Geirssonar, sem verið hefur framkvæmdastjóri þar um árabil, en hann óskaði eftir starfslokum fyrir nokkrum mánuðum.
Segja má að þær breytingar sem framundan eru séu þær viðamestu í 93 ára sögu þessa merka dagblaðs. Þáttaskil urðu á Morgunblaðinu í upphafi ársins 2003 þegar að blaðið hóf mánudagsútgáfu eftir 84 ára hlé. Þáttaskil urðu í íslenskum fjölmiðlaheimi með þessari útgáfu enda kom þá blaðið út alla daga vikunnar, sem var nýmæli fram að því. Morgunblaðið hefur í þá tæpu öld sem það hefur komið út verið táknmynd íhaldseminnar. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Nokkrum vikum fyrir upphaf mánudagsútgáfunnar var sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum.
Í rúmlega þrjá áratugi voru einungis erlendar fréttir á forsíðu Morgunblaðsins og því orðið tímabært að stokka þetta upp, enda var þessu áður breytt í öðrum fjölmiðlaheimi en við blasti í upphafi 21. aldarinnar. Mikið hafði breyst. Breytingar á fjölmiðlum halda sífellt áfram. Morgunblaðið er útbreiddasti prentmiðill landsins sem stendur undir sér með áskrift og hefur alla tíð notið mikilla vinsælda og virðingar almennings.
Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er, að mínu mati. Í mínum huga er fréttamennska Morgunblaðsins fyrsta flokks og traust í alla staði, eins og kannanir hafa sýnt. Morgunblaðið er allavega blað sem ég get ekki án verið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)