Afmæli Akureyrarbæjar

Akureyri

Í dag eru 144 ár frá því að Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarnafnbót, reyndar öðru sinni, en árið 1836 missti bærinn kaupstaðarnafnbótina en endurheimti hana að nýju á árinu 1862. Saga Akureyrar er stórbrotin - á þessum 144 árum hefur Akureyri breyst úr dönskuskotnum smábæ í stærsta kaupstað landsbyggðarinnar sem má ennfremur teljast til helstu útgerðarstaða landsins þar sem eru höfuðstöðvar tveggja af stærstu útgerðarfyrirtækjum Íslendinga. Eins og Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar dregur Akureyrarbær nafn sitt af kornakri sem talið var að hafi verið í einu af giljum bæjarins. Ekki er það óeðlilegt, enda hefur Akureyri löngum verið þekkt áhuga bæjarbúa á garðyrkju og segja má að bærinn sé annálaður fyrir gróðursæld.

Það voru danskir verslunarmenn sem innleiddu þennan mikla áhuga á garðrækt og er það til marks um hin miklu dönsku áhrif í öllu bæjarlífinu fyrr og nú. Á seinustu árum hefur mikið átak verið unnið í að fegra bæinn og hefur það verk tekist með eindæmum vel. Öll umgjörð bæjarins er með því sem best verður á kosið. Gott dæmi í þeim efnum er Strandgatan sem hefur verið færð í glæsilegan búning, ástand miðbæjarins hefur tekið miklum framförum þótt betur megi ef duga skal, ennfremur hefur mikið verk verið unnið við að hreinsa og fegra umhverfið. Mér hefur alla tíð þótt virkilega vænt um Strandgötuna, þar byggði langafi sér hús í árdaga 20. aldarinnar og settist að með fjölskyldu sinni. Það er svo með föðurfólkið mitt að við erum nær öll hér, hér viljum við enda vera.

Akureyrarbær hefur í þessi tæplega 150 ár verið þekktur fyrir verslun, iðnað, sjávarútveg og síðast en ekki síst veðursæld. Bærinn er barna- og fjölskylduvænn og þar er nálægðin mikil við náttúruna og þar er góð íþrótta- og útivistaraðstaða. Á Akureyri er gott menningarlíf, þar eru afburðargóðir skólar og það er stutt frá heimili til vinnu og skóla. Þar eru öll lífsins gæði í boði. Ég sem Akureyringur frá fornu fari hef alltaf haft sterkar taugar til staðarins. Það er alltaf eitthvað sem togar mann aftur þangað, bærinn er í mínum huga einstakur í sinni röð. Ég sem Akureyringur fagna þeim merka áfanga sem felast í deginum í dag. Megi Akureyri vaxa og dafna um ókomin ár.


Björn heldur áfram í stjórnmálum

Björn Bjarnason

Það hefur aldrei farið leynt, held ég, meðal þeirra sem þekkja mig og mína pólitík, að ég hef dáðst mjög af Birni Bjarnasyni sem stjórnmálamanni. Það er mér því mikið gleðiefni að sjá í nýjasta pistli á vef hans skýr skilaboð í þá átt að hann ætli að gefa kost á sér í alþingiskosningunum eftir rúma átta mánuði. Það hafa margar sögur gengið seinustu vikur um það hvert hugur Björns stefnir og ég get ekki betur séð af skrifum hans en að hann sé ákveðinn í að fara fram í næstu kosningar og sækjast eftir umboði flokksmanna í Reykjavík til áframhaldandi verka. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir yfirgripsmikilli þekkingu Björns á utanríkis- og varnarmálum og segja má með sanni að hann sé sá þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem mest þekkir þann málaflokk.

Björn hefur verið fyrirmynd fyrir mig og fleiri í vefmálum. Hann byrjaði með heimasíðu fyrstur íslenskra stjórnmálamanna og hefur haldið henni úti með mikilli elju og vinnusemi allan þann tíma. Hann hefur þar tjáð af miklum krafti skoðanir sínar og skrifað um pólitík og fleiri þætti þjóðmálaumræðunnar, birt þar dagbók og ennfremur allar ræður og greinar sínar. Var Björn brautryðjandi í vefskrifum stjórnmálamanna á netinu og er fyrirmynd margra í netvinnslu og í því að skrifa á vefnum. Á vef hans er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan feril hans sem ráðherra, þingmanns og borgarfulltrúa. Í kjölfar vefs hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að feta í fótspor Björns og nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Það hefur alla tíð verið hvetjandi að fylgjast með störfum hans í gegnum vefinn og lesa skrif hans. Eins og hann hefur oft bent á er mikið verkefni að halda úti vef með reglulegum skrifum og krefst aga og því að verkefninu sé sinnt af alúð. Þessu hef ég kynnst eftir að ég opnaði þennan vef. Sú vinna er mjög ánægjuleg og gagnleg þeim sem leggja á þá braut að tjá sig um málin. Það veitir mörg tækifæri að fara á slíkan opinn vettvang og leyfa öðrum að fylgjast með því sem maður er að pæla í dagsins önn, um stjórnmál og margt fleira. Það hefur sést vel að vefur Björns er víðlesinn og hann hefur orð á sér fyrir að svara hratt pósti sínum og nota sér tæknina vel til að hafa samband við landsmenn. Hann hefur verið einn vinnusamasti stjórnmálamaður landsins.

Framlag Björns í stjórnmálum og þá einkum forysta hans í netmálum hefur skipt mjög miklu máli. Ég lýsi yfir ánægju minni með þá ákvörðun hans að halda áfram í stjórnmálum. Ég hef aldrei farið leynt með stuðning minn við hann og ég t.d. er honum eilíflega þakklátur fyrir að hafa á vef sínum tengil á heimasíðu mína. Það mun ég alla tíð meta mjög mikils, svo og persónuleg tengsl okkar.


Smárinn floginn

Gunnar Smári

Þær fréttir bárust í dag að Gunnar Smári hefði verið settur af sem forstjóri Dagsbrúnar og forstjóri Og Vodafone settur einnig yfir Dagsbrún. Já, þetta gat varla úr því sem komið var endað öðruvísi. Gunnar Smári fékk mikinn séns á sínum tíma þegar að Sigurði G. Guðjónssyni var hent út fyrir hann eftir að Norðurljósum var slátrað og eignirnar færðar annað og undir merki 365. Hallinn var orðinn mjög mikill og fyrirtækið gat varla staðið undir óbreyttri forystu lengur. En já nú fer Gunnar Smári til Danmerkur, sem verður varla flokkað öðruvísi en sem stöðulækkun. Það sjá allavega allir hvernig í pottinn er búið.

Þetta hljóta að teljast nokkur þáttaskil að Gunnar Smári sé settur af forstjórastóli, enda hefur hann verið áberandi innan þessarar fjölmiðlasamsteypu hérlendis alveg síðan að hann ritstýrði Fréttablaðinu. Alla tíð voru honum færð meiri völd og áhrif innan fjölmiðlasamsteypu Baugs en margir botnuðu í, með tilliti til sögu hans á íslenskum fjölmiðlamarkaði áður en hann tók við Fréttablaðinu. Hann var mjög hvass og ákveðinn meðan að hann stýrði Fréttablaðinu og beitti því miskunnarlaust til undarlegra verka.

Virtist hann vera keyrður áfram (með tryggðu fjármagni) til að reyna að höggva í einn flokk og einn stjórnmálamann. Hann varð svo eldsneytislaus á íslenskum blaðamarkaði þegar að viðkomandi stjórnmálamaður fór úr Stjórnarráðinu. Það er svosem varla orðum á þetta komandi en það er ekki fjarri því að margir fagni því að hann sé farinn úr rekstri hér á Íslandi. Væntanlega eru eigendur Dagsbrúnar þar ánægðastir, enda var fjölmiðlaveldi Baugs hérlendis allt að riða til falls vegna stjórnunar hans og hallinn orðinn yfirgengilegur og virtist risi fjölmiðlunar hér farinn að tafsa undir hans leiðsögn.

Gangi honum sem best að berjast í Danmörku, enda sýnist honum varla veita af góðum óskum í erfiðu stríði þar.


Bloggfærslur 29. ágúst 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband